Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Af hverju eru Sádi-Arabar svona ríkir og hvaða þátt eiga Bandaríkjamenn í því?

Árni Freyr Magnússon

Ibn Saud (1875-1953) var höfuð Sádi-fjölskyldunnar. Hann stofnaði konungsríkið Sádi-Arabíu 23. september 1932. Þá var endir bundinn á mikla styrjöld sem geisaði hafði milli Ibn Saud og andstæðinga hans í Arabíu. Styrjöldina vann Ibn Saud með með stuðningi frá breska heimsveldinu.

Árið 1938 fundust miklar olíulindir á landsvæði sem laut stjórn Ibn Saud sem þá var orðinn konungur Sádi-Arabíu. Bandaríska fyrirtækið Standard Oil of California fann lindirnar. Það hafði fengið sérstakt leyfi frá Ibn Saud til olíuleitar. Innanlands hafði konungurinn verið harðlega gagnrýndur fyrir að leyfa mönnum sem ekki voru múslímar að leita eftir olíu. Ári áður en leitin að olíunni hófst voru íbúar í Sádi-Arabíu sem ekki játuðu íslamstrú innan við fimmtíu talsins. Eftir að olíuleitin hófst voru þeir orðnir 134.

Kort af Sádi-Arabíu.

Skömmu eftir stofnun hins nýstofnaða ríkis Sádi-Arabíu tók að bera á fjárhagserfiðleikum. Helstu tekjur ríkisins voru skattlagning á ferðir pílagríma sem áttu leið til Mekka. Staðreyndin var hins vegar sú að dregið hafði mjög úr ferðum þeirra svo skatttekjurnar minnkuðu stöðugt. Ibn Saud var stórskuldugur. Olíufundurinn varð hinsvegar til þess að auðvelt reyndist að greiða þær skuldir.

Það kom Bretum mjög í opna skjöldu að Ibn Saud skyldi hafa gengið til samninga við Bandaríkjamenn um olíuleit. Fyrir því voru hins vegar nokkrar ástæður. Bretar voru óvinsælir víða í Mið-Austurlöndum, einnig í Sádi-Arabíu. Ibn Saud hefur því ekki viljað auka á óvinsældir þess gjörnings að leyfa útlendingum að leita eftir olíu. Heillavænlegra var að fá stórveldi líkt og Bandaríkin sem ekki hafði staðið í styrjöldum í Mið-Austurlöndum til olíuleitar, heldur en Breta. Bandaríkjamenn voru í raun frekar vinsælir í Mið-Austurlöndum á þessum tíma.

Bretar reyndu að auka vinsældir sínar hjá Ibn Saud og árið 1945 sendi Winston Churchill forláta Rolls-Royce sem gjöf til konungsins. En allt kom fyrir ekki. Ibn Saud vildi ekki semja við Breta og Bandaríkjamenn fengu olíuna.

Ibn Saud ásamt Franklin D. Roosevelt. Myndin er tekin 14. febrúar 1945 um borð í bandaríska tundurspillinum Quincy.

Snemma árs 1945 hittust Roosevelt Bandaríkjaforseti og Ibn Saud um borð í bandaríska tundurspillinum Quincy sem staðsettur var í Suez-skurðinum í Egyptalandi. Á þessum fundi bar ýmislegt kurteisishjal á góma en þarna var einnig komist að leynilegu samkomulagi sem sagði til um að Bandaríkin skuldbindu sig til þess að veita Sádi-Aröbum hernaðarlega aðstoð og byggja herstöð fyrir bandaríska herinn í borginni Dhahran í austurhluta Sádi-Arabíu. Í staðinn fengu Bandaríkjamenn tryggan aðgang að olíu. Í kjölfarið var fyrirtæki stofnað sem var í sameiginlegri eigu Sádi-Araba og Bandaríkjamanna. Fyrirtækið var nefnt Arabian American Oil Company en í daglegu tali jafnan kallað Aramco.

Í dag kallast fyrirtækið Saudi Aramco. Höfuðstöðvar þess eru í Dhahran og fyrirtækið er talið vera eitt verðmætasta fyrirtæki veraldar.

Heimildir:
  • Burns, James MacGregor, Roosevelt. The Soldier of Freedom 1940-1945 (New York 1970).
  • Cordesman, Anthony H., Saudi Arabia. Guarding the Desert Kingdom (Oxford 1997).
  • Hogarth, D.G., „Wahabism and British Interests“, Journal of the British Institute of International Affairs (1925), bls. 70-81.
  • Hourani, Albert, The Emergence of the Modern Middle East (London 1981).
  • Lust, Ellen, The Middle East (Washington 2011).
  • Yapp, M.E., The Near East since the First World War (New York 1991).

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu TRÚ203G Mið-Austurlönd: Trúarbrögð, stjórnmál, og saga vorið 2016 í umsjón Magnúsar Þorkels Bernharðssonar.

Upprunaleg spurning Davíðs tók til fleiri þátta og er hér svarað að hluta.

Höfundur

Árni Freyr Magnússon

B.A.-nemi í sagnfræði

Útgáfudagur

3.5.2016

Spyrjandi

Davíð Bragason

Tilvísun

Árni Freyr Magnússon. „Af hverju eru Sádi-Arabar svona ríkir og hvaða þátt eiga Bandaríkjamenn í því?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2016. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=72169.

Árni Freyr Magnússon. (2016, 3. maí). Af hverju eru Sádi-Arabar svona ríkir og hvaða þátt eiga Bandaríkjamenn í því? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72169

Árni Freyr Magnússon. „Af hverju eru Sádi-Arabar svona ríkir og hvaða þátt eiga Bandaríkjamenn í því?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2016. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72169>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru Sádi-Arabar svona ríkir og hvaða þátt eiga Bandaríkjamenn í því?
Ibn Saud (1875-1953) var höfuð Sádi-fjölskyldunnar. Hann stofnaði konungsríkið Sádi-Arabíu 23. september 1932. Þá var endir bundinn á mikla styrjöld sem geisaði hafði milli Ibn Saud og andstæðinga hans í Arabíu. Styrjöldina vann Ibn Saud með með stuðningi frá breska heimsveldinu.

Árið 1938 fundust miklar olíulindir á landsvæði sem laut stjórn Ibn Saud sem þá var orðinn konungur Sádi-Arabíu. Bandaríska fyrirtækið Standard Oil of California fann lindirnar. Það hafði fengið sérstakt leyfi frá Ibn Saud til olíuleitar. Innanlands hafði konungurinn verið harðlega gagnrýndur fyrir að leyfa mönnum sem ekki voru múslímar að leita eftir olíu. Ári áður en leitin að olíunni hófst voru íbúar í Sádi-Arabíu sem ekki játuðu íslamstrú innan við fimmtíu talsins. Eftir að olíuleitin hófst voru þeir orðnir 134.

Kort af Sádi-Arabíu.

Skömmu eftir stofnun hins nýstofnaða ríkis Sádi-Arabíu tók að bera á fjárhagserfiðleikum. Helstu tekjur ríkisins voru skattlagning á ferðir pílagríma sem áttu leið til Mekka. Staðreyndin var hins vegar sú að dregið hafði mjög úr ferðum þeirra svo skatttekjurnar minnkuðu stöðugt. Ibn Saud var stórskuldugur. Olíufundurinn varð hinsvegar til þess að auðvelt reyndist að greiða þær skuldir.

Það kom Bretum mjög í opna skjöldu að Ibn Saud skyldi hafa gengið til samninga við Bandaríkjamenn um olíuleit. Fyrir því voru hins vegar nokkrar ástæður. Bretar voru óvinsælir víða í Mið-Austurlöndum, einnig í Sádi-Arabíu. Ibn Saud hefur því ekki viljað auka á óvinsældir þess gjörnings að leyfa útlendingum að leita eftir olíu. Heillavænlegra var að fá stórveldi líkt og Bandaríkin sem ekki hafði staðið í styrjöldum í Mið-Austurlöndum til olíuleitar, heldur en Breta. Bandaríkjamenn voru í raun frekar vinsælir í Mið-Austurlöndum á þessum tíma.

Bretar reyndu að auka vinsældir sínar hjá Ibn Saud og árið 1945 sendi Winston Churchill forláta Rolls-Royce sem gjöf til konungsins. En allt kom fyrir ekki. Ibn Saud vildi ekki semja við Breta og Bandaríkjamenn fengu olíuna.

Ibn Saud ásamt Franklin D. Roosevelt. Myndin er tekin 14. febrúar 1945 um borð í bandaríska tundurspillinum Quincy.

Snemma árs 1945 hittust Roosevelt Bandaríkjaforseti og Ibn Saud um borð í bandaríska tundurspillinum Quincy sem staðsettur var í Suez-skurðinum í Egyptalandi. Á þessum fundi bar ýmislegt kurteisishjal á góma en þarna var einnig komist að leynilegu samkomulagi sem sagði til um að Bandaríkin skuldbindu sig til þess að veita Sádi-Aröbum hernaðarlega aðstoð og byggja herstöð fyrir bandaríska herinn í borginni Dhahran í austurhluta Sádi-Arabíu. Í staðinn fengu Bandaríkjamenn tryggan aðgang að olíu. Í kjölfarið var fyrirtæki stofnað sem var í sameiginlegri eigu Sádi-Araba og Bandaríkjamanna. Fyrirtækið var nefnt Arabian American Oil Company en í daglegu tali jafnan kallað Aramco.

Í dag kallast fyrirtækið Saudi Aramco. Höfuðstöðvar þess eru í Dhahran og fyrirtækið er talið vera eitt verðmætasta fyrirtæki veraldar.

Heimildir:
  • Burns, James MacGregor, Roosevelt. The Soldier of Freedom 1940-1945 (New York 1970).
  • Cordesman, Anthony H., Saudi Arabia. Guarding the Desert Kingdom (Oxford 1997).
  • Hogarth, D.G., „Wahabism and British Interests“, Journal of the British Institute of International Affairs (1925), bls. 70-81.
  • Hourani, Albert, The Emergence of the Modern Middle East (London 1981).
  • Lust, Ellen, The Middle East (Washington 2011).
  • Yapp, M.E., The Near East since the First World War (New York 1991).

Myndir:


Þetta svar var unnið í námskeiðinu TRÚ203G Mið-Austurlönd: Trúarbrögð, stjórnmál, og saga vorið 2016 í umsjón Magnúsar Þorkels Bernharðssonar.

Upprunaleg spurning Davíðs tók til fleiri þátta og er hér svarað að hluta....