Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvenær var hætt að skipta á milli sumar- og vetrartíma á Íslandi?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Árið 1907 voru sett lög um samræmdan tíma á Íslandi þannig að alls staðar á landinu skyldu klukkur fylgja tíma sem var einni klukkustund á eftir Greenwich-tíma. Áður hafði þetta verið nokkuð breytilegt þannig að klukkan á Akureyri var til dæmis ekki nákvæmlega það sama og klukkan í Reykjavík.

Árið 1917 voru sett lög sem heimiluðu að klukkunni væri flýtt um allt að einn og hálfan tíma frá því sem ákveðið var árið 1907. Þessari heimild var beitt á árunum 1917-1921 þegar klukkunni var flýtt um eina klukkustund yfir sumarið og var tíminn á Íslandi þá sami og Greenwich-tími. Á árunum 1922-1938 var klukkunni hins vegar ekki breytt heldur gilti sami tími á Íslandi allt árið um kring.

Sá siður að flýta klukkunni um eina klukkustund yfir sumarið var aftur tekinn upp árið 1939 og var það gert á hverju ári í tæpa þrjá áratugi. Íslendingar skiptu síðast á milli vetrar- og sumartíma árið 1968 en það ár tóku gildi lög sem kváðu á um að sumartíminn, það er Greenwich-tíminn, skyldi vera staðaltími á Íslandi. Síðan þá hefur sami tími gilt allt árið um kring hér á landi.

Þess má geta að Ísland er langt því frá eina landið í heiminum sem fylgir sama tíma allt árið eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan. Raunar er það minnihluti mannkyns sem breytir klukkunni hjá sér tvisvar á ári, því margar af fjölmennustu þjóðum heims eins og Kína, Indland, Indónesía, Pakistan, Bangladess, Nígería og Japan eru ekki með sérstakan sumartíma. Mörg þessara fjölmennu ríkja hafa þó einhvern tíma skipt á milli sumar- og vetrartíma en gera það ekki lengur.



Á kortinu sést líka að innan nokkurra landa sem breyta klukkunni eru svæði þar sem sami tími er í gildi allt árið. Í Kanada er til dæmis sumartími allt árið í fylkinu Saskatchewan og á litlum svæðum í Bresku Kólumbíu, Ontario, Quebec og Nunavut, á meðan langstærsti hluti landsins skiptir á milli sumar- og vetrartíma. Í Bandaríkjunum gildir sumartími allt árið um kring í stærstum hluta Arizonafylkis en í öðrum fylkjum er klukkunni breytt tvisvar á ári.

Í heimildunum hér fyrir neðan eru greinar eftir Þorstein Sæmundsson í Almanaki Háskólans. Þar er ítarlegri umfjöllun um sumartíma sem lesendur eru hvattir til að kynna sér.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og kort:


Margir hafa spurt um hvenær Íslendingar hættu að breyta klukkunni á vorin og haustin. Aðrir spyrjendur eru:
Jón Gunnar Sæmundsson, Kristbjörg Helgadóttir, Ingileif Bjarnadóttir, Þóra Guðnadóttir, Guðrún Halldórsdóttir og Guðmundur Ólafsson

Hér er einnig svarað spurningu Ólafs Magnússonar:
Hvaða lönd önnur er Ísland hafa ekki sumartíma?

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

23.4.2008

Spyrjandi

Freyja Júlía Þorgeirsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær var hætt að skipta á milli sumar- og vetrartíma á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2008. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7367.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2008, 23. apríl). Hvenær var hætt að skipta á milli sumar- og vetrartíma á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7367

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær var hætt að skipta á milli sumar- og vetrartíma á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2008. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7367>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var hætt að skipta á milli sumar- og vetrartíma á Íslandi?
Árið 1907 voru sett lög um samræmdan tíma á Íslandi þannig að alls staðar á landinu skyldu klukkur fylgja tíma sem var einni klukkustund á eftir Greenwich-tíma. Áður hafði þetta verið nokkuð breytilegt þannig að klukkan á Akureyri var til dæmis ekki nákvæmlega það sama og klukkan í Reykjavík.

Árið 1917 voru sett lög sem heimiluðu að klukkunni væri flýtt um allt að einn og hálfan tíma frá því sem ákveðið var árið 1907. Þessari heimild var beitt á árunum 1917-1921 þegar klukkunni var flýtt um eina klukkustund yfir sumarið og var tíminn á Íslandi þá sami og Greenwich-tími. Á árunum 1922-1938 var klukkunni hins vegar ekki breytt heldur gilti sami tími á Íslandi allt árið um kring.

Sá siður að flýta klukkunni um eina klukkustund yfir sumarið var aftur tekinn upp árið 1939 og var það gert á hverju ári í tæpa þrjá áratugi. Íslendingar skiptu síðast á milli vetrar- og sumartíma árið 1968 en það ár tóku gildi lög sem kváðu á um að sumartíminn, það er Greenwich-tíminn, skyldi vera staðaltími á Íslandi. Síðan þá hefur sami tími gilt allt árið um kring hér á landi.

Þess má geta að Ísland er langt því frá eina landið í heiminum sem fylgir sama tíma allt árið eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan. Raunar er það minnihluti mannkyns sem breytir klukkunni hjá sér tvisvar á ári, því margar af fjölmennustu þjóðum heims eins og Kína, Indland, Indónesía, Pakistan, Bangladess, Nígería og Japan eru ekki með sérstakan sumartíma. Mörg þessara fjölmennu ríkja hafa þó einhvern tíma skipt á milli sumar- og vetrartíma en gera það ekki lengur.



Á kortinu sést líka að innan nokkurra landa sem breyta klukkunni eru svæði þar sem sami tími er í gildi allt árið. Í Kanada er til dæmis sumartími allt árið í fylkinu Saskatchewan og á litlum svæðum í Bresku Kólumbíu, Ontario, Quebec og Nunavut, á meðan langstærsti hluti landsins skiptir á milli sumar- og vetrartíma. Í Bandaríkjunum gildir sumartími allt árið um kring í stærstum hluta Arizonafylkis en í öðrum fylkjum er klukkunni breytt tvisvar á ári.

Í heimildunum hér fyrir neðan eru greinar eftir Þorstein Sæmundsson í Almanaki Háskólans. Þar er ítarlegri umfjöllun um sumartíma sem lesendur eru hvattir til að kynna sér.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og kort:


Margir hafa spurt um hvenær Íslendingar hættu að breyta klukkunni á vorin og haustin. Aðrir spyrjendur eru:
Jón Gunnar Sæmundsson, Kristbjörg Helgadóttir, Ingileif Bjarnadóttir, Þóra Guðnadóttir, Guðrún Halldórsdóttir og Guðmundur Ólafsson

Hér er einnig svarað spurningu Ólafs Magnússonar:
Hvaða lönd önnur er Ísland hafa ekki sumartíma?

...