Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um PCB?

Matvælastofnun

PCB er skammstöfun fyrir polychlorinated biphenyl. Um er að ræða efnaflokk um 209 efna sem eru lífræn hringsambönd tengd klór í mismunandi magni og á mismunandi vegu. Efnið var notað í stórum stíl í iðnaði til dæmis í spennaolíu, sem mýkingarefni í plast og í glussa ýmis konar. Efnið hefur síðan borist út í lífríkið með frárennsli frá verksmiðjum, vegna leka úr spennum og frá sorphaugum svo nokkuð sé nefnt. Áætlað er að um 550 þúsund tonn hafi verið framleidd í Bandaríkjunum frá lokum þriðja áratugarins þar til framleiðslu var hætt um 1978. Fyrstu merki um alvarlega eitrun vegna PCB-efna komu fram í Japan árið 1968.

PCB telst til svokallaðra þrávirkra efna, en þau brotna mjög hægt niður í náttúrunni og safnast því upp í fæðukeðjunni. Efnið er fituleysanlegt og safnast í fitu land- og sjávardýra. PCB finnst einnig í sjávarseti og í menguðum jarðvegi. Magn efnanna eykst eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni og eftir aldri dýranna.

PCB er aðallega að finna í dýraafurðum ýmiskonar, svo sem kjöti, eggjum, mjólk og eldisfiski. Efnið hefur þá venjulega borist með fóðri vegna mengunar jarðvegs frá til dæmis sorphaugum. PCB finnst einnig í ýmsum feitum fiskafurðum en mesta magnið er að finna í sjávarspendýrum og stórum ránfiskum svo sem túnfiski og sverðfiski.



PCB finnst í stórum ránfiskum eins og túnfiski.

PCB-efnum er skipt í tvo flokka eftir gerð. Annars vegar eru efni sem líkjast díoxíni og hins vegar önnur PCB-efni. Þau fyrrnefndu eru 12 talsins og eru venjulega flokkuð með díoxíni. Hin hafa ekki eituráhrif í líkingu við díoxín en hafa áhrif engu að síður. Díoxínlík PCB hafa ýmis konar eituráhrif og áhrif á efnaskipti líkamans. Sum eru þekktir krabbameinsvaldar en auk þess eru þekkt áhrif á móðurlíf, áhrif á þroska, áhrif á æxlunarfæri (skert sæðismyndun og vansköpun) og mótstöðuafl gegn sjúkdómum.

Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvikni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (e. Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildareitrunaráhrif er síðan summa TEQ-gildanna. Samkvæmt áhættumati vísindanefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um matvæli hefur verið ákveðið að ásættanleg dagleg neysla (e. Tolerable daily intake, TDI) díoxína og díoxínlíkra PCB-efna sé 2 píkógrömm á hvert kg líkamsþunga.

Niðurstöður rannsókna á umhverfismengun bendir til að magn PCB fari minnkandi í náttúrunni og að sama skapi hefur magnið í fæðu minnkað. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá neytendum sem borða mikið af fiski frá menguðum hafsvæðum eins og til dæmis Eystrasalti. Umhverfisstofnun hefur einnig talið ástæðu til að benda barnshafandi konum og konum með börn á brjósti á að borða ekki sjávarspendýr (hval, sel) eða stóra ránfiska (túnfisk, sverðfisk).

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Encyclopædia Britannica's Advocacy for Animals. Sótt 19. 8. 2008.


Þetta svar er fengið af vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Útgáfudagur

16.9.2008

Spyrjandi

Thelma Guðmundsdóttir

Tilvísun

Matvælastofnun. „Hvað getið þið sagt mér um PCB?“ Vísindavefurinn, 16. september 2008. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7939.

Matvælastofnun. (2008, 16. september). Hvað getið þið sagt mér um PCB? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7939

Matvælastofnun. „Hvað getið þið sagt mér um PCB?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2008. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7939>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um PCB?
PCB er skammstöfun fyrir polychlorinated biphenyl. Um er að ræða efnaflokk um 209 efna sem eru lífræn hringsambönd tengd klór í mismunandi magni og á mismunandi vegu. Efnið var notað í stórum stíl í iðnaði til dæmis í spennaolíu, sem mýkingarefni í plast og í glussa ýmis konar. Efnið hefur síðan borist út í lífríkið með frárennsli frá verksmiðjum, vegna leka úr spennum og frá sorphaugum svo nokkuð sé nefnt. Áætlað er að um 550 þúsund tonn hafi verið framleidd í Bandaríkjunum frá lokum þriðja áratugarins þar til framleiðslu var hætt um 1978. Fyrstu merki um alvarlega eitrun vegna PCB-efna komu fram í Japan árið 1968.

PCB telst til svokallaðra þrávirkra efna, en þau brotna mjög hægt niður í náttúrunni og safnast því upp í fæðukeðjunni. Efnið er fituleysanlegt og safnast í fitu land- og sjávardýra. PCB finnst einnig í sjávarseti og í menguðum jarðvegi. Magn efnanna eykst eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni og eftir aldri dýranna.

PCB er aðallega að finna í dýraafurðum ýmiskonar, svo sem kjöti, eggjum, mjólk og eldisfiski. Efnið hefur þá venjulega borist með fóðri vegna mengunar jarðvegs frá til dæmis sorphaugum. PCB finnst einnig í ýmsum feitum fiskafurðum en mesta magnið er að finna í sjávarspendýrum og stórum ránfiskum svo sem túnfiski og sverðfiski.



PCB finnst í stórum ránfiskum eins og túnfiski.

PCB-efnum er skipt í tvo flokka eftir gerð. Annars vegar eru efni sem líkjast díoxíni og hins vegar önnur PCB-efni. Þau fyrrnefndu eru 12 talsins og eru venjulega flokkuð með díoxíni. Hin hafa ekki eituráhrif í líkingu við díoxín en hafa áhrif engu að síður. Díoxínlík PCB hafa ýmis konar eituráhrif og áhrif á efnaskipti líkamans. Sum eru þekktir krabbameinsvaldar en auk þess eru þekkt áhrif á móðurlíf, áhrif á þroska, áhrif á æxlunarfæri (skert sæðismyndun og vansköpun) og mótstöðuafl gegn sjúkdómum.

Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvikni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (e. Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildareitrunaráhrif er síðan summa TEQ-gildanna. Samkvæmt áhættumati vísindanefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um matvæli hefur verið ákveðið að ásættanleg dagleg neysla (e. Tolerable daily intake, TDI) díoxína og díoxínlíkra PCB-efna sé 2 píkógrömm á hvert kg líkamsþunga.

Niðurstöður rannsókna á umhverfismengun bendir til að magn PCB fari minnkandi í náttúrunni og að sama skapi hefur magnið í fæðu minnkað. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá neytendum sem borða mikið af fiski frá menguðum hafsvæðum eins og til dæmis Eystrasalti. Umhverfisstofnun hefur einnig talið ástæðu til að benda barnshafandi konum og konum með börn á brjósti á að borða ekki sjávarspendýr (hval, sel) eða stóra ránfiska (túnfisk, sverðfisk).

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Encyclopædia Britannica's Advocacy for Animals. Sótt 19. 8. 2008.


Þetta svar er fengið af vef Matvælastofnunar og birt með góðfúslegu leyfi....