Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hver er munurinn á Prússlandi og Þýskalandi?

Guðmundur Hálfdanarson

Bæði þessi hugtök eiga sér langa sögu, en í grófum dráttum er munurinn sá að Prússland var eitt þeirra ríkja sem myndaði þýska keisaradæmið í byrjun árs 1871, en það er rótin að því sem við köllum nú Þýskaland.

Prússland var reyndar upphaflega pólskt hertogadæmi, með Königsberg (sem nú heitir Kaliningrad og tilheyrir Rússlandi) sem höfuðborg. Það komst undir stjórn þýska hertogans af Brandenburg (héraðið í kringum Berlín) á 16. öld, og var hann yfirleitt kenndur við bæði Brandenburg og Prússland eftir það. Prússland var viðurkennt sem konungdæmi árið 1701 og færðist nafn Prússlands þá yfir allar lendur hertogans af Brandenburg-Prússlandi, og þar með varð Prússland fyrst eiginlega þýskt ríki. Prússland óx mjög á 18. og 19. öld, en konungar á borð við Friðrik II., sem oftast gengur undir nafninu Friðrik mikli (1740-86) efldu mjög prússneska herinn sem varð smám saman einn hinn öflugasti í Evrópu. Prússland efldist einnig verulega eftir að Napóleonsstríðum lauk árið 1815, því að þá fékk ríkið yfirráð yfir ýmsum landssvæðum í vesturhluta núverandi Þýskalands, í og með til að skapa mótvægi við Frakkland. Það gjörbreytti efnahag prússneska ríkisins, því að vesturhluti Þýskalands var mun þróaðri en austurhlutinn.

Prússland óx mjög á 18. og 19. öld og var leiðandi við stofnun þýska keisaradæmisins árið 1871.

Hugmyndir um stofnun sameinaðs þýsks ríkis koma fyrst fram á fyrri hluta 19. aldar, en fram að því hafði svæðið sem við köllum nú Þýskaland greinst í fjöldamörg ríki – mörg örsmá, en önnur nokkru stærri (þar á meðal konungdæmin Prússland, Saxland, Bæjaraland og Hannover). Þessi smáríki höfðu lengi myndað lauslegt ríkjasamband, Hið heilaga rómverska keisaradæmi, sem náði reyndar alla tíð langt út fyrir núverandi Þýskaland þótt keisarinn væri stundum kallaður þýskur. Keisaradæmið var formlega lagt niður árið 1806, en Þýska ríkjasambandið (þ. Deutscher Bund) var stofnað á rústum þess árið 1815.

Enn var langt í land með að Þýskaland teldist eitt ríki, en hugmyndir um sameiningu þess komu þó fram snemma á 19. öld. Var hún rekin áfram af tveimur hvötum; í fyrsta lagi stóðu smáríkin í Þýskalandi mjög höllum fæti gagnvart Frökkum, sem berlega kom í ljós á fyrstu árum 19. aldar þegar Napóleon lagði þau flest undir sig (þar á meðal Prússland). Í öðru lagi ýttu nýjar hugmyndir um þjóðerni undir þessa þróun, en þær gengu annars vegar út á að fólk sem talaði sama tungumál myndaði eina þjóð og hins vegar að þjóðir og ríki skyldu falla saman – það er það skyldi búa saman í þjóðríki.

Þýskir heimspekingar og menntamenn höfðu háar hugmyndir um þýskt þjóðerni, og fóru þeir að tala fyrir stofnun þýsks þjóðríkis er leið á öldina. Vandinn var aftur á móti sá að helstu valdamenn í þýska sambandinu höfðu lítinn áhuga á þessum hugmyndum og útilokað reyndist að koma sér saman um hvar draga ætti landamæri hugsanlegs þjóðríkis. Bæheimur hafði til að mynda tilheyrt keisaradæminu frá fornu fari, og töldu því margir þýskir þjóðernissinnar að hann hlyti að verða hluti þýsks þjóðríkis – hugmynd sem fékk lítinn hljómgrunn meðal tékkneskra þjóðernissinna. Eins voru íbúar Austurríkis augljóslega „þýskir“, en Austurríkiskeisari hafði þegar á reyndi lítinn áhuga á að taka þátt í stofnun þjóðríkis vegna þess að stærstur hluti yfirráðasvæðis hans hefði lent utan þess.

Það var því Prússland sem tók forystuna um stofnun Þýskalands og hið þýska keisaradæmi bar ávallt mikinn keim af prússneskum hefðum – keisarinn var prússneskur, prússneski herinn myndaði kjarna þýska hersins, og stjórnsýsluhefðir í þýska keisaradæminu tóku mið af prússneskum hefðum. Þess vegna er hugtökunum „Prússland“ og „Þýskaland“ stundum slegið saman þótt hér sé alls ekki um sömu fyrirbæri að ræða.

Mynd:

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarson

prófessor í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

29.8.2012

Spyrjandi

Jóhannes Kári Sólmundarson, f. 1997

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Hver er munurinn á Prússlandi og Þýskalandi? “ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2012. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61098.

Guðmundur Hálfdanarson. (2012, 29. ágúst). Hver er munurinn á Prússlandi og Þýskalandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61098

Guðmundur Hálfdanarson. „Hver er munurinn á Prússlandi og Þýskalandi? “ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2012. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61098>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á Prússlandi og Þýskalandi?
Bæði þessi hugtök eiga sér langa sögu, en í grófum dráttum er munurinn sá að Prússland var eitt þeirra ríkja sem myndaði þýska keisaradæmið í byrjun árs 1871, en það er rótin að því sem við köllum nú Þýskaland.

Prússland var reyndar upphaflega pólskt hertogadæmi, með Königsberg (sem nú heitir Kaliningrad og tilheyrir Rússlandi) sem höfuðborg. Það komst undir stjórn þýska hertogans af Brandenburg (héraðið í kringum Berlín) á 16. öld, og var hann yfirleitt kenndur við bæði Brandenburg og Prússland eftir það. Prússland var viðurkennt sem konungdæmi árið 1701 og færðist nafn Prússlands þá yfir allar lendur hertogans af Brandenburg-Prússlandi, og þar með varð Prússland fyrst eiginlega þýskt ríki. Prússland óx mjög á 18. og 19. öld, en konungar á borð við Friðrik II., sem oftast gengur undir nafninu Friðrik mikli (1740-86) efldu mjög prússneska herinn sem varð smám saman einn hinn öflugasti í Evrópu. Prússland efldist einnig verulega eftir að Napóleonsstríðum lauk árið 1815, því að þá fékk ríkið yfirráð yfir ýmsum landssvæðum í vesturhluta núverandi Þýskalands, í og með til að skapa mótvægi við Frakkland. Það gjörbreytti efnahag prússneska ríkisins, því að vesturhluti Þýskalands var mun þróaðri en austurhlutinn.

Prússland óx mjög á 18. og 19. öld og var leiðandi við stofnun þýska keisaradæmisins árið 1871.

Hugmyndir um stofnun sameinaðs þýsks ríkis koma fyrst fram á fyrri hluta 19. aldar, en fram að því hafði svæðið sem við köllum nú Þýskaland greinst í fjöldamörg ríki – mörg örsmá, en önnur nokkru stærri (þar á meðal konungdæmin Prússland, Saxland, Bæjaraland og Hannover). Þessi smáríki höfðu lengi myndað lauslegt ríkjasamband, Hið heilaga rómverska keisaradæmi, sem náði reyndar alla tíð langt út fyrir núverandi Þýskaland þótt keisarinn væri stundum kallaður þýskur. Keisaradæmið var formlega lagt niður árið 1806, en Þýska ríkjasambandið (þ. Deutscher Bund) var stofnað á rústum þess árið 1815.

Enn var langt í land með að Þýskaland teldist eitt ríki, en hugmyndir um sameiningu þess komu þó fram snemma á 19. öld. Var hún rekin áfram af tveimur hvötum; í fyrsta lagi stóðu smáríkin í Þýskalandi mjög höllum fæti gagnvart Frökkum, sem berlega kom í ljós á fyrstu árum 19. aldar þegar Napóleon lagði þau flest undir sig (þar á meðal Prússland). Í öðru lagi ýttu nýjar hugmyndir um þjóðerni undir þessa þróun, en þær gengu annars vegar út á að fólk sem talaði sama tungumál myndaði eina þjóð og hins vegar að þjóðir og ríki skyldu falla saman – það er það skyldi búa saman í þjóðríki.

Þýskir heimspekingar og menntamenn höfðu háar hugmyndir um þýskt þjóðerni, og fóru þeir að tala fyrir stofnun þýsks þjóðríkis er leið á öldina. Vandinn var aftur á móti sá að helstu valdamenn í þýska sambandinu höfðu lítinn áhuga á þessum hugmyndum og útilokað reyndist að koma sér saman um hvar draga ætti landamæri hugsanlegs þjóðríkis. Bæheimur hafði til að mynda tilheyrt keisaradæminu frá fornu fari, og töldu því margir þýskir þjóðernissinnar að hann hlyti að verða hluti þýsks þjóðríkis – hugmynd sem fékk lítinn hljómgrunn meðal tékkneskra þjóðernissinna. Eins voru íbúar Austurríkis augljóslega „þýskir“, en Austurríkiskeisari hafði þegar á reyndi lítinn áhuga á að taka þátt í stofnun þjóðríkis vegna þess að stærstur hluti yfirráðasvæðis hans hefði lent utan þess.

Það var því Prússland sem tók forystuna um stofnun Þýskalands og hið þýska keisaradæmi bar ávallt mikinn keim af prússneskum hefðum – keisarinn var prússneskur, prússneski herinn myndaði kjarna þýska hersins, og stjórnsýsluhefðir í þýska keisaradæminu tóku mið af prússneskum hefðum. Þess vegna er hugtökunum „Prússland“ og „Þýskaland“ stundum slegið saman þótt hér sé alls ekki um sömu fyrirbæri að ræða.

Mynd:...