Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver er áhrifamesta ljósmynd sögunnar?

Æsa Sigurjónsdóttir

Upprunalega spurningin var:
Hver er áhrifamesta ljósmynd sem tekin hefur verið? Er einhver leið til að meta það?

Í raun er engri vísindalegri aðferð beitt til að meta áhrif ljósmynda á einstaklinga, almenningsálitið, stjórnmálamenn eða aðra sem völd hafa í samfélaginu, en nokkrar myndir hafa náð það mikilli festu í sjónmenningarsögu samtímans að þær hafa orðið áhrifamikil tákn og menningarsöguleg íkon sem setja mark sitt á skilning áhorfenda og hugmyndir þeirra um ákveðna atburði.

Á fyrri hluta 20. aldar trúðu valdhafar á áhrifamátt ljósmynda og ljósmyndum var beitt sem áróðursmiðli í flestum löndum heims. Bandamenn tóku áhrifamiklar ljósmyndir í útrýmingarbúðum nasista sem voru settar fram sem sönnunargögn í Nürnberg-réttarhöldunum. Sumar þeirra mynda voru birtar í tímaritinu Life til að sýna heimsbyggðinni hryllinginn í fangabúðunum, auk þess sem þær hafa birst í ótal ritum um helförina og notaðar sem heimildarefni í síðari tíma kvikmyndum. Áhrif þeirra hafa verið mikil og langvarandi jafnvel þótt sumir fræðimenn telji að það sé einfaldlega ekki hægt að sýna á sannfærandi hátt ofbeldið, niðurlæginguna og grimmdina sem átti sér stað í fangabúðum nasista, því reynslan sé utan hins sýnilega.[1]

Bandamenn tóku áhrifamiklar ljósmyndir í útrýmingarbúðum nasista sem voru settar fram sem sönnunargögn í Nürnberg-réttarhöldunum. Myndin sýnir sveltandi fanga Mauthausen-útrýmingarbúðanna sem frelsaðir voru 5. maí 1945.

Fréttaljósmyndir teknar í Víetnamstríðinu (1959 – 1975) höfðu mikil áhrif á almenningsálitið, því þeim var dreift hratt um heiminn af bandarískum, frönskum og breskum fréttaveitum. Þetta voru tímar sjónvarpsins og myndablaðanna og í fyrsta sinn sem stríðsmyndir birtust nær samstundis í sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum. Myndin Napalm-stúlkan er af mörgum talin ein áhrifamesta ljósmynd 20. aldarinnar. Hún var tekin af víetnamska fréttaljósmyndaranum Nick Ut (Huynh Cong Ut, f. 1951) þann 8. júní árið 1972 og dreift af Associated Press. Myndin var valin besta fréttamynd ársins af World Press Photo og ári síðar hlaut Nick Ut hin virtu Pulitzer-verðlaun, þá rúmlega tvítugur að aldri.

Myndin sýnir níu ára stúlkubarnið Kim Phuc nakta, skaðbrennda af völdum napalm-sprengju, hlaupandi eftir þjóðvegi númer 1 í nágrenni við heimili sitt, þorpið Trang Bang. Lengst til vinstri á myndinni eru bræður hennar Phan Thanh Tam og Phan Thanh Phouc og fyrir aftan hana til hægri sjást frændsystkini hennar Ho Van Bon og Ho Thi Ting. Þá má greina suður-víetnamska hermenn í baksýn. Þetta var annar dagur árásanna og fjöldi fréttamanna fylgdist með og myndaði flótta íbúanna í átt að borginni Saigon. Napalm-sprengjan féll rétt eftir hádegi og fréttamyndir af atburðinum voru sýndar nær samdægurs á bandarísku sjónvarpsstöðvunum ABC og NBC. Næstu daga birtist mynd Nick Ut í helstu stórblöðum heimsins svo sem New York Times, Washington Post, London Times og nokkrum dögum síðar í vikuritunum Newsweek og Life.

Myndin Naplam-stúlkan sýnir níu ára stúlkubarnið Kim Phuc nakta, skaðbrennda af napalm-sprengju, hlaupandi eftir þjóðvegi númer 1 í nágrenni við heimili sitt, þorpið Trang Bang. Lengst til vinstri á myndinni eru bræður hennar Phan Thanh Tam og Phan Thanh Phouc og fyrir aftan hana til hægri sjást frændsystkini hennar Ho Van Bon og Ho Thi Ting. Þá má greina suður-víetnamska hermenn í baksýn.

Myndbirtingin gerði Nick Ut að frægum ljósmyndara, en víetnamskur uppruni hans og sú staðreynd að hann missti fjölskyldu og vini í stríðinu skýrir að einhverju leyti hrátt sjónarhornið. Það er ekkert menningarbil á milli ljósmyndarans og barnanna, hann myndar einfaldlega sinn eigin raunveruleika og færir áhorfandann beint inn á svið atburðanna. Síðar lýsti Ut myndatökunni í tæknilegum smáatriðum. Hann var með tvær Nikon-vélar og tvær Leica, auk þess fjórar mismunandi linsur. Í töskunni voru um 50 rúllur af Tri-X filmu, nokkrar litfilmur og „slædsfilmur“. Myndina tók hann á Leica M2 á 35-mm/f2 linsu. „Ég skaut heilli filmu á stúlkuna, en svo tók ég eftir því að húðinn á henni var að flagna af og hún æpti af sársauka. Ég lagði myndavélina frá mér og ákvað að reyna að hjálpa henni.”[2]

Í bók sinni Um sársauka annarra, skrifaði bandaríski rithöfundurinn og gagnrýnandinn Susan Sontag: „Svo virðist sem áhuginn á myndum sem sýna líkama sem kveljast sé næstum eins brennandi og þráin eftir þeim sem sýna mannslíkama í nekt sinni.”[3] Þessi orð Sontag koma upp í hugann þegar svara á spurningunni um áhrif myndarinnar Napalm-stúlkan. Það var ekki atburðurinn sem slíkur sem olli áhrifum myndarinnar, heldur var það myndmálið sem Ut náði að fanga sem gerði myndina svo áhrifaríka. Börnin hlaupa nánast í fangið á áhorfandanum. Nekt stúlkunnar, frosin krossfestingarstelling hennar í miðju myndarinnar, og svart, þögult, óp bróður hennar í forgrunni nær heljartaki á áhorfandanum og skýrir sjónrænan mátt myndarinnar. Með því að kroppa utan af hægri jaðri myndarinnar og miðjusetja telpuna, er allri athygli áhorfandans beint að sársauka og nekt hennar. Við það varð sjónrænn styrkleiki myndarinnar svo áhrifamikill að samhengið skipti áhorfandann í raun ekki lengur máli.

Myndin varð íkon sem flestir bera kennsl á, óháð samhenginu, á svipaðan hátt og allir þekkja bros Mónu Lísu. Líkami stúlkunnar rímar við þjáningu Krists á krossinum og kolsvart óp drengsins við ópið fræga í málverki Edvards Munchs (frá 1893). Myndmálið vísar þannig til dýpri myndskilnings Vesturlandabúans, hún er ekki lengur mynd af atburði, heldur umbreytist hún í tákn um brot á samfélagssáttmála og svik alþjóðasamfélagsins gagnvart sakleysi barna í viðbjóðslegri styrjöld.

Að lokum er það saga myndarinnar, baksviðið, það sem gerðist utan rammans, áður, á meðan, og á eftir, að myndin var tekin, sem styrkt hefur stöðu hennar sem ein áhrifamesta ljósmynd alla tíma. Í raun átti myndin aldrei að birtast vegna þess að AP-fréttaveitan leyfði ekki dreifingu á myndum af nöktum börnum. En það var yfirmaður Nick Ut, þýski stríðsljósmyndarinn Horst Faas (1933 – 2012), sem kom strax auga á áhrifamátt myndarinnar, dreifði henni og braut þar með ritskoðun fréttastofunnar.

Margir hafa gagnrýnt gangvirki fréttaljósmynda. Viðfangið, hér Kim Phuc, var sett óspurð í aðalhlutverk og þjáning hennar gerð að söluvöru. Hins vegar, hefur einnig verið bent á að aðgerð ljósmyndarans, að leggja frá sér myndavélina og koma börnunum til hjálpar, sé göfugt dæmi um ábyrga fréttamennsku sem í þessu tilviki bjargaði lífi hennar og barnanna. Myndin afhjúpar því einnig starf fjölmiðla á átakasvæðum, siðferðilega togstreitu fréttaljósmyndara gagnvart viðfangi sínu, en sýnir um leið fram á mikilvægt hlutverk þeirra og möguleika til að hafa áhrif. Þá breytti myndin lífi ljósmyndarans og stúlkunnar Kim Phuc. Nick Ut flutti til Bandaríkjanna og starfaði í Los Angeles. Kim Phuc lifði af og fékk síðar ríkisfang í Kanada.

Tilvísanir:
  1. ^ George Didi-Huberman, Images in Spite of All. Four Photographs from Auschwitz, translated by Shane B. Lillis (Chicago: The University of Chicago Press, 2008).
  2. ^ Mark Edward Harris, „PHOTOGRAPHER WHO TOOK ICONIC VIETNAM PHOTO LOOKS BACK, 40 YEARS AFTER THE WAR ENDED. Nick Ut’s photo of Kim Phuc was a transformative moment in a horrible conflict,” Vanity Fair, 3. Apríl 2015. Sótt af https://www.vanityfair.com/news/2015/04/vietnam-war-napalm-girl-photo-today.
  3. ^ Susan Sontag, Um sársauka annarra, bls. 62 – 63.

Heimildir:

  • George Didi-Huberman, Images in Spite of All. Four Photographs from Auschwitz, translated by Shane B. Lillis (Chicago: The University of Chicago Press, 2008).
  • Julianne Newton, The Burden of Visual Truth: The Role of Photojournalism in Mediating Reality (New York/London: Routledge, 2001).
  • Mark Edward Harris, „PHOTOGRAPHER WHO TOOK ICONIC VIETNAM PHOTO LOOKS BACK, 40 YEARS AFTER THE WAR ENDED. Nick Ut’s photo of Kim Phuc was a transformative moment in a horrible conflict,” Vanity Fair, 3. apríl 2015.
  • Susan Sontag, Um sársauka annarra (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006). Þýðing Uggi Jónsson.
  • Denise Chong, The Girl in the Picture: The Story of Kim Phuc: the Photograph, and the Vietnam War (London: Penguin, 2001).
  • Robert Hariman og John Louis Lucaites,„Public Identity and Collective Memory in U.S. Iconic Photography: The Image of ‘Accidental Napalm’”, Critical Studies in Media Communication 20.1 (March 2003): 35-66. DOI : 10.1080/0739318032000067074

Myndir:

Höfundur

Æsa Sigurjónsdóttir

dósent í listfræði við HÍ

Útgáfudagur

8.6.2018

Spyrjandi

Bjarki Sigurðsson

Tilvísun

Æsa Sigurjónsdóttir. „Hver er áhrifamesta ljósmynd sögunnar?“ Vísindavefurinn, 8. júní 2018. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=30028.

Æsa Sigurjónsdóttir. (2018, 8. júní). Hver er áhrifamesta ljósmynd sögunnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30028

Æsa Sigurjónsdóttir. „Hver er áhrifamesta ljósmynd sögunnar?“ Vísindavefurinn. 8. jún. 2018. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30028>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er áhrifamesta ljósmynd sögunnar?
Upprunalega spurningin var:

Hver er áhrifamesta ljósmynd sem tekin hefur verið? Er einhver leið til að meta það?

Í raun er engri vísindalegri aðferð beitt til að meta áhrif ljósmynda á einstaklinga, almenningsálitið, stjórnmálamenn eða aðra sem völd hafa í samfélaginu, en nokkrar myndir hafa náð það mikilli festu í sjónmenningarsögu samtímans að þær hafa orðið áhrifamikil tákn og menningarsöguleg íkon sem setja mark sitt á skilning áhorfenda og hugmyndir þeirra um ákveðna atburði.

Á fyrri hluta 20. aldar trúðu valdhafar á áhrifamátt ljósmynda og ljósmyndum var beitt sem áróðursmiðli í flestum löndum heims. Bandamenn tóku áhrifamiklar ljósmyndir í útrýmingarbúðum nasista sem voru settar fram sem sönnunargögn í Nürnberg-réttarhöldunum. Sumar þeirra mynda voru birtar í tímaritinu Life til að sýna heimsbyggðinni hryllinginn í fangabúðunum, auk þess sem þær hafa birst í ótal ritum um helförina og notaðar sem heimildarefni í síðari tíma kvikmyndum. Áhrif þeirra hafa verið mikil og langvarandi jafnvel þótt sumir fræðimenn telji að það sé einfaldlega ekki hægt að sýna á sannfærandi hátt ofbeldið, niðurlæginguna og grimmdina sem átti sér stað í fangabúðum nasista, því reynslan sé utan hins sýnilega.[1]

Bandamenn tóku áhrifamiklar ljósmyndir í útrýmingarbúðum nasista sem voru settar fram sem sönnunargögn í Nürnberg-réttarhöldunum. Myndin sýnir sveltandi fanga Mauthausen-útrýmingarbúðanna sem frelsaðir voru 5. maí 1945.

Fréttaljósmyndir teknar í Víetnamstríðinu (1959 – 1975) höfðu mikil áhrif á almenningsálitið, því þeim var dreift hratt um heiminn af bandarískum, frönskum og breskum fréttaveitum. Þetta voru tímar sjónvarpsins og myndablaðanna og í fyrsta sinn sem stríðsmyndir birtust nær samstundis í sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum. Myndin Napalm-stúlkan er af mörgum talin ein áhrifamesta ljósmynd 20. aldarinnar. Hún var tekin af víetnamska fréttaljósmyndaranum Nick Ut (Huynh Cong Ut, f. 1951) þann 8. júní árið 1972 og dreift af Associated Press. Myndin var valin besta fréttamynd ársins af World Press Photo og ári síðar hlaut Nick Ut hin virtu Pulitzer-verðlaun, þá rúmlega tvítugur að aldri.

Myndin sýnir níu ára stúlkubarnið Kim Phuc nakta, skaðbrennda af völdum napalm-sprengju, hlaupandi eftir þjóðvegi númer 1 í nágrenni við heimili sitt, þorpið Trang Bang. Lengst til vinstri á myndinni eru bræður hennar Phan Thanh Tam og Phan Thanh Phouc og fyrir aftan hana til hægri sjást frændsystkini hennar Ho Van Bon og Ho Thi Ting. Þá má greina suður-víetnamska hermenn í baksýn. Þetta var annar dagur árásanna og fjöldi fréttamanna fylgdist með og myndaði flótta íbúanna í átt að borginni Saigon. Napalm-sprengjan féll rétt eftir hádegi og fréttamyndir af atburðinum voru sýndar nær samdægurs á bandarísku sjónvarpsstöðvunum ABC og NBC. Næstu daga birtist mynd Nick Ut í helstu stórblöðum heimsins svo sem New York Times, Washington Post, London Times og nokkrum dögum síðar í vikuritunum Newsweek og Life.

Myndin Naplam-stúlkan sýnir níu ára stúlkubarnið Kim Phuc nakta, skaðbrennda af napalm-sprengju, hlaupandi eftir þjóðvegi númer 1 í nágrenni við heimili sitt, þorpið Trang Bang. Lengst til vinstri á myndinni eru bræður hennar Phan Thanh Tam og Phan Thanh Phouc og fyrir aftan hana til hægri sjást frændsystkini hennar Ho Van Bon og Ho Thi Ting. Þá má greina suður-víetnamska hermenn í baksýn.

Myndbirtingin gerði Nick Ut að frægum ljósmyndara, en víetnamskur uppruni hans og sú staðreynd að hann missti fjölskyldu og vini í stríðinu skýrir að einhverju leyti hrátt sjónarhornið. Það er ekkert menningarbil á milli ljósmyndarans og barnanna, hann myndar einfaldlega sinn eigin raunveruleika og færir áhorfandann beint inn á svið atburðanna. Síðar lýsti Ut myndatökunni í tæknilegum smáatriðum. Hann var með tvær Nikon-vélar og tvær Leica, auk þess fjórar mismunandi linsur. Í töskunni voru um 50 rúllur af Tri-X filmu, nokkrar litfilmur og „slædsfilmur“. Myndina tók hann á Leica M2 á 35-mm/f2 linsu. „Ég skaut heilli filmu á stúlkuna, en svo tók ég eftir því að húðinn á henni var að flagna af og hún æpti af sársauka. Ég lagði myndavélina frá mér og ákvað að reyna að hjálpa henni.”[2]

Í bók sinni Um sársauka annarra, skrifaði bandaríski rithöfundurinn og gagnrýnandinn Susan Sontag: „Svo virðist sem áhuginn á myndum sem sýna líkama sem kveljast sé næstum eins brennandi og þráin eftir þeim sem sýna mannslíkama í nekt sinni.”[3] Þessi orð Sontag koma upp í hugann þegar svara á spurningunni um áhrif myndarinnar Napalm-stúlkan. Það var ekki atburðurinn sem slíkur sem olli áhrifum myndarinnar, heldur var það myndmálið sem Ut náði að fanga sem gerði myndina svo áhrifaríka. Börnin hlaupa nánast í fangið á áhorfandanum. Nekt stúlkunnar, frosin krossfestingarstelling hennar í miðju myndarinnar, og svart, þögult, óp bróður hennar í forgrunni nær heljartaki á áhorfandanum og skýrir sjónrænan mátt myndarinnar. Með því að kroppa utan af hægri jaðri myndarinnar og miðjusetja telpuna, er allri athygli áhorfandans beint að sársauka og nekt hennar. Við það varð sjónrænn styrkleiki myndarinnar svo áhrifamikill að samhengið skipti áhorfandann í raun ekki lengur máli.

Myndin varð íkon sem flestir bera kennsl á, óháð samhenginu, á svipaðan hátt og allir þekkja bros Mónu Lísu. Líkami stúlkunnar rímar við þjáningu Krists á krossinum og kolsvart óp drengsins við ópið fræga í málverki Edvards Munchs (frá 1893). Myndmálið vísar þannig til dýpri myndskilnings Vesturlandabúans, hún er ekki lengur mynd af atburði, heldur umbreytist hún í tákn um brot á samfélagssáttmála og svik alþjóðasamfélagsins gagnvart sakleysi barna í viðbjóðslegri styrjöld.

Að lokum er það saga myndarinnar, baksviðið, það sem gerðist utan rammans, áður, á meðan, og á eftir, að myndin var tekin, sem styrkt hefur stöðu hennar sem ein áhrifamesta ljósmynd alla tíma. Í raun átti myndin aldrei að birtast vegna þess að AP-fréttaveitan leyfði ekki dreifingu á myndum af nöktum börnum. En það var yfirmaður Nick Ut, þýski stríðsljósmyndarinn Horst Faas (1933 – 2012), sem kom strax auga á áhrifamátt myndarinnar, dreifði henni og braut þar með ritskoðun fréttastofunnar.

Margir hafa gagnrýnt gangvirki fréttaljósmynda. Viðfangið, hér Kim Phuc, var sett óspurð í aðalhlutverk og þjáning hennar gerð að söluvöru. Hins vegar, hefur einnig verið bent á að aðgerð ljósmyndarans, að leggja frá sér myndavélina og koma börnunum til hjálpar, sé göfugt dæmi um ábyrga fréttamennsku sem í þessu tilviki bjargaði lífi hennar og barnanna. Myndin afhjúpar því einnig starf fjölmiðla á átakasvæðum, siðferðilega togstreitu fréttaljósmyndara gagnvart viðfangi sínu, en sýnir um leið fram á mikilvægt hlutverk þeirra og möguleika til að hafa áhrif. Þá breytti myndin lífi ljósmyndarans og stúlkunnar Kim Phuc. Nick Ut flutti til Bandaríkjanna og starfaði í Los Angeles. Kim Phuc lifði af og fékk síðar ríkisfang í Kanada.

Tilvísanir:
  1. ^ George Didi-Huberman, Images in Spite of All. Four Photographs from Auschwitz, translated by Shane B. Lillis (Chicago: The University of Chicago Press, 2008).
  2. ^ Mark Edward Harris, „PHOTOGRAPHER WHO TOOK ICONIC VIETNAM PHOTO LOOKS BACK, 40 YEARS AFTER THE WAR ENDED. Nick Ut’s photo of Kim Phuc was a transformative moment in a horrible conflict,” Vanity Fair, 3. Apríl 2015. Sótt af https://www.vanityfair.com/news/2015/04/vietnam-war-napalm-girl-photo-today.
  3. ^ Susan Sontag, Um sársauka annarra, bls. 62 – 63.

Heimildir:

  • George Didi-Huberman, Images in Spite of All. Four Photographs from Auschwitz, translated by Shane B. Lillis (Chicago: The University of Chicago Press, 2008).
  • Julianne Newton, The Burden of Visual Truth: The Role of Photojournalism in Mediating Reality (New York/London: Routledge, 2001).
  • Mark Edward Harris, „PHOTOGRAPHER WHO TOOK ICONIC VIETNAM PHOTO LOOKS BACK, 40 YEARS AFTER THE WAR ENDED. Nick Ut’s photo of Kim Phuc was a transformative moment in a horrible conflict,” Vanity Fair, 3. apríl 2015.
  • Susan Sontag, Um sársauka annarra (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006). Þýðing Uggi Jónsson.
  • Denise Chong, The Girl in the Picture: The Story of Kim Phuc: the Photograph, and the Vietnam War (London: Penguin, 2001).
  • Robert Hariman og John Louis Lucaites,„Public Identity and Collective Memory in U.S. Iconic Photography: The Image of ‘Accidental Napalm’”, Critical Studies in Media Communication 20.1 (March 2003): 35-66. DOI : 10.1080/0739318032000067074

Myndir:

...