Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hversu margar flugvélar fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni?

Nanna Kristjánsdóttir

Upprunalega spurningin var:

Hve margar flugvélar bandamanna fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni?

Vegna hernáms Íslands í maí 1940 urðu Íslendingar töluvert meira varir við stríðsbrölt í seinni heimsstyrjöldinni en þeirri fyrri. Bretar og síðar Bandaríkjamenn settu upp herstöðvar víða um land og meðan á styrjöldinni stóð höfðu tæplega 70.000 hermenn aðsetur hér. Til samanburðar voru Íslendingar á þessum tíma ekki nema um 120.000. Herstöðvunum fylgdi töluverð flugumferð, enda lék flughernaður stórt hlutverk í átökum seinni heimsstyrjaldarinnar og staðsetning Íslands var mikilvæg í þeim efnum. Flugslys voru því nokkuð algeng hér á landi á þessum tíma, en þar var mestmegnis um að ræða herflugvélar bandamanna (Breta og Bandaríkjamanna), ásamt einstaka vélum þýska flugflotans.

Flugvél af gerðinni Northrop N-3PB á flugi.

Skráð hafa verið vel á þriðja hundrað flugslysa og -óhappa á og í kringum Ísland á árunum 1940-1945, allt frá smávægilegum óhöppum yfir í mannskæð flugslys. Þar af er skráð tjón eða slys á 215 flugvélum bandamanna og mannfall úr þeirra hópi um 386 einstaklingar. Um 50 þýskir herflugmenn týndu lífi sínu á Íslandi á sama tímabili. Í einhverjum tilvikum er um að ræða flugvélar sem hurfu á leið sinni til og frá Íslandi sem líklega hafa hrapað í sjóinn. Algengustu orsakir alvarlegra flugslysa virðast hafa verið veðuraðstæður og bilun í búnaði.

Eitt afdrifaríkasta flugslysið sem hér varð átti sér stað 3. maí 1943, en þá fórst sprengjuflugvélin B-24D Liberator 41-23728, kölluð Hot Stuff. Hún hafnaði í hlíðum Fagradalsfjalls eftir að hafa reynt lendingu á Keflavíkurflugvelli. Af þeim 15 sem voru um borð lifði aðeins einn slysið af. Meðal farþega var hershöfðinginn Frank Maxwell Andrews, sem þá var yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu (e. Commanding General, United States Forces, European Theatre of Operations). Fram að andláti Andrews hafði enginn jafn hátt settur embættismaður úr búðum Bandamanna fallið í stríðinu. Ef Andrews hefði ekki látist á Fagradalsfjalli hefði hann að öllum líkindum stýrt liði Bandaríkjamanna í árásinni á Normandí í stað Dwight D. Eisenhower, sem átti síðar eftir að verða forseti Bandaríkjanna.

Bandarískir hermenn bera lík úr flaki Hot Stuff í hlíðum Fagradalsfjalls í maí 1943.

Mikil flugumferð var um Reykjavíkurflugvöll, og því var töluvert um flugslys nálægt borginni. Í Fossvogi undan Kársnesi liggur á hafsbotni heillegt flak af flugvél af gerðinni Northrop N-3PB sem fannst fyrir tilviljun árið 2002. Sett var á köfunarbann í 20 metra radíus við flakið, þar sem farmur vélarinnar var óþekktur. Vélar af þessari gerð hafa getu til að flytja allt að 900 kg af sprengjum og því ekki víst hvort óhætt væri að hreyfa við henni. Auk þess lá ekki fyrir hvort áhöfn vélarinnar hefði komist úr henni áður en hún sökk, og þannig möguleiki á að um vota gröf væri að ræða.

Staðsetning flaks Northrop N-3PB-vélarinnar.

Flest bendir þó til þess að um sé að ræða vél sem sökk eftir lendingu 22. október 1942, en allir þrír áhafnarmeðlimir vélarinnar komust lífs af. Vonir eru bundnar við að hægt verði að ná vélinni af hafsbotni, en aðeins voru framleiddar 24 vélar af þessari tegund. Af þeim hefur aðeins ein varðveist.

Á vefnum stridsminjar.is er hægt að sjá yfirlit um flugslys á Íslandi á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Heimildir:

Myndir:
  • Air Force Historical Research Agency. FMA Crash. Myndin er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 29. júní 2021.)
  • Landmælingar Íslands. Kortasjá. (Sótt 7. júlí 2021.)
  • Woodbine. Northrop N-3PB in Flight. Myndin er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 29. júní 2021.)

Höfundur þakkar Flosa Þorgeirssyni sagnfræðingi og Ásgrími L. Ásgrímssyni, framkvæmdarstjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslu Íslands, fyrir ábendingar.

Höfundur

Útgáfudagur

20.9.2021

Spyrjandi

Kjartan Bragi Ágústsson

Tilvísun

Nanna Kristjánsdóttir. „Hversu margar flugvélar fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 20. september 2021. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=54906.

Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 20. september). Hversu margar flugvélar fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=54906

Nanna Kristjánsdóttir. „Hversu margar flugvélar fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2021. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=54906>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu margar flugvélar fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni?
Upprunalega spurningin var:

Hve margar flugvélar bandamanna fórust hér á landi í seinni heimstyrjöldinni?

Vegna hernáms Íslands í maí 1940 urðu Íslendingar töluvert meira varir við stríðsbrölt í seinni heimsstyrjöldinni en þeirri fyrri. Bretar og síðar Bandaríkjamenn settu upp herstöðvar víða um land og meðan á styrjöldinni stóð höfðu tæplega 70.000 hermenn aðsetur hér. Til samanburðar voru Íslendingar á þessum tíma ekki nema um 120.000. Herstöðvunum fylgdi töluverð flugumferð, enda lék flughernaður stórt hlutverk í átökum seinni heimsstyrjaldarinnar og staðsetning Íslands var mikilvæg í þeim efnum. Flugslys voru því nokkuð algeng hér á landi á þessum tíma, en þar var mestmegnis um að ræða herflugvélar bandamanna (Breta og Bandaríkjamanna), ásamt einstaka vélum þýska flugflotans.

Flugvél af gerðinni Northrop N-3PB á flugi.

Skráð hafa verið vel á þriðja hundrað flugslysa og -óhappa á og í kringum Ísland á árunum 1940-1945, allt frá smávægilegum óhöppum yfir í mannskæð flugslys. Þar af er skráð tjón eða slys á 215 flugvélum bandamanna og mannfall úr þeirra hópi um 386 einstaklingar. Um 50 þýskir herflugmenn týndu lífi sínu á Íslandi á sama tímabili. Í einhverjum tilvikum er um að ræða flugvélar sem hurfu á leið sinni til og frá Íslandi sem líklega hafa hrapað í sjóinn. Algengustu orsakir alvarlegra flugslysa virðast hafa verið veðuraðstæður og bilun í búnaði.

Eitt afdrifaríkasta flugslysið sem hér varð átti sér stað 3. maí 1943, en þá fórst sprengjuflugvélin B-24D Liberator 41-23728, kölluð Hot Stuff. Hún hafnaði í hlíðum Fagradalsfjalls eftir að hafa reynt lendingu á Keflavíkurflugvelli. Af þeim 15 sem voru um borð lifði aðeins einn slysið af. Meðal farþega var hershöfðinginn Frank Maxwell Andrews, sem þá var yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu (e. Commanding General, United States Forces, European Theatre of Operations). Fram að andláti Andrews hafði enginn jafn hátt settur embættismaður úr búðum Bandamanna fallið í stríðinu. Ef Andrews hefði ekki látist á Fagradalsfjalli hefði hann að öllum líkindum stýrt liði Bandaríkjamanna í árásinni á Normandí í stað Dwight D. Eisenhower, sem átti síðar eftir að verða forseti Bandaríkjanna.

Bandarískir hermenn bera lík úr flaki Hot Stuff í hlíðum Fagradalsfjalls í maí 1943.

Mikil flugumferð var um Reykjavíkurflugvöll, og því var töluvert um flugslys nálægt borginni. Í Fossvogi undan Kársnesi liggur á hafsbotni heillegt flak af flugvél af gerðinni Northrop N-3PB sem fannst fyrir tilviljun árið 2002. Sett var á köfunarbann í 20 metra radíus við flakið, þar sem farmur vélarinnar var óþekktur. Vélar af þessari gerð hafa getu til að flytja allt að 900 kg af sprengjum og því ekki víst hvort óhætt væri að hreyfa við henni. Auk þess lá ekki fyrir hvort áhöfn vélarinnar hefði komist úr henni áður en hún sökk, og þannig möguleiki á að um vota gröf væri að ræða.

Staðsetning flaks Northrop N-3PB-vélarinnar.

Flest bendir þó til þess að um sé að ræða vél sem sökk eftir lendingu 22. október 1942, en allir þrír áhafnarmeðlimir vélarinnar komust lífs af. Vonir eru bundnar við að hægt verði að ná vélinni af hafsbotni, en aðeins voru framleiddar 24 vélar af þessari tegund. Af þeim hefur aðeins ein varðveist.

Á vefnum stridsminjar.is er hægt að sjá yfirlit um flugslys á Íslandi á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Heimildir:

Myndir:
  • Air Force Historical Research Agency. FMA Crash. Myndin er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 29. júní 2021.)
  • Landmælingar Íslands. Kortasjá. (Sótt 7. júlí 2021.)
  • Woodbine. Northrop N-3PB in Flight. Myndin er fengin af Wikimedia Commons. (Sótt 29. júní 2021.)

Höfundur þakkar Flosa Þorgeirssyni sagnfræðingi og Ásgrími L. Ásgrímssyni, framkvæmdarstjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslu Íslands, fyrir ábendingar. ...