Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Hafís í blöðunum 1918. V. Harðindi

Þór Jakobsson

Þessi pistill er sá fimmti í röðinni af sex þar sem birt er efni um hafís úr blöðum og tímaritum árið 1918 án útskýringa. Hér á eftir er grein eftir Steingrím Matthíasson (1876-1948) lækni á Akureyri þar sem hann vitnar m.a. í nýútkomið rit Þorvalds Thoroddsen (1855-1921) jarðfræðings, „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ sem birtist í blaðinu Íslendingi 11. janúar 1918. Greinin er fengið af gagnavefsíðu Landsbókasafns-Háskólabókasafns, timarit.is, og er hér með þakkað fyrir aðgang að henni.


HARÐINDI.

Óvíða í heiminum mun eins oft talað um veðrið og hjer á landi. Og það er von. Erfið reynsla um veðráttufarið frá fornu fari hefir brent sig inn í meðvitund okkar allra. Allir hafa ugg af hinni óstöðugu og óútreiknanlegu veðráttu, sem hvað eftir annað hefir valdið svo mörgum hörmungum á þessu landi. En er nú veðráttan óútreiknanleg?

Sumir gamlir menn eru nærfærnir um veðurspár. Þeir verða einsog loftvogir með aldrinum og þeir hafa smámsaman lært að lesa úr ýmsum teiknum loftsins. En það eru bara sumir. Flestir kallarnir eru mjög óábyggilegir þó við yngri mennirnir gerum okkur það að skyldu þegar við hittum þá á förnum vegi að spyrja þá um veðrið. Þeir ygla brúnina, horfa upp í skýin, skima í áttirnar, tala um bliku á loftinu og bakka í suðri og segja síðan — að annaðhvort muni hann birta upp eða „ryðja úr sjer“. Og erum við svo ekki jafn nær. Að vísu stendur oft heima að annaðhvort „ryður hann úr sjer“ eða birtir, en eiginlega var spursmálið hvort af þessu tvennu „hann“ mundi gera heldur. Og ef einhver ætlar sjer þá dul að fara að sjá langt fram í tímann þá er venjulega ekki á því að byggja öðruvísi en máltækið segir: „Að oft ratast kjöftugum satt á munn.“

Reynsla einnar mannsæfi er alt of lítil til að geta myndað rökstuddar forspár um jafnbreytilegt fyrirbrigði og veðrið. Kallarnir verða ekki nógu gamlir, þó þeir verði tíræðir og minnið er þá farið að bila.

Það er einn þulur íslenskur sem veit lengra nefi sínu framar flestum öðrum. Hann er reyndar ekki nema rúmlega sextugur og væri óskandi að hann mætti enn lengi lifa og halda enn lengi áfram að starfa þjóð sinni til gagns. Jeg á við prófessor Þorvald Thoroddsen. Hann er „höfði hærri en fólkið“ hvað fróðleik snertir í íslenskri sögu og náttúrufræði. Þar er sem við hefðum fyrir okkur 1000 ára gamlan en minnugan öldung og það kall, sem ekki liggur á liði sínu með að miðla öðrum af því sem hann veit.

Þorvaldur Thoroddsen (1855–1921).

Við skulum spyrja Þorvald um veðrið fyr á öldum ef ske kynni að það gæti leiðbeint okkur um framtíðina. Lítum þá fyrst í rit hans „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ sem hið Ísl. fræðafjelag gaf út í fyrra. Þar hefir Þorv. safnað saman í eina heild öllu því markverðasta sem ritað hefir verið um veðráttu á landinu og lífskjör landsmanna frá landnámstíð fram til vorra daga. Ritið er alt 432 bls. í stóru 8 blaða broti.

Það hefir kostað höfundinn margra ára starf að safna öllum þeim mikla fróðleik. Höf. segist hafa haft ritið í smíðum í hjáverkum í 30 ár. Heimildirnar eru margar, dreifðar og sumar vandhittar nema fyrir þann sem eins og Þorv. þekkir allra manna best allar ísl. bókmentir frá fyrstu tímum. Það er t. d. út af fyrir sig ekkert áhlaupaverk að fara gegnum flest dagblöðin okkar frá því þau fyrst fóru að koma út og tína úr þeim það sem snertir árferði og veðráttufar. í sambandi við það er rjett að halda því á lofti sem höf. segir um »Norðanfara«. Honum finst svo mikið til um þann margháttaða fróðleik um landa og landsmál sem það blað hefir að geyma að hann hikar ekki við að telja hann »sanna gullnámu fyrir menningarsögu Íslands á 19. öld«. Óskandi að ætíð mætti út koma jafngott blað á Akureyri! — Víða hefir höf. orðið að bera saman mjög margar mismunandi frásagnir um sömu atburði og vinsa úr það sem sennilegast var. En alt hefst með iðni og áhuga, og nú leggur Þorv. þetta ritverk á borðið fyrir íslenska lesendur og nefnir það »safndyngju, sem aðrir geta leitað til og af tilvitnunum svo aftur fengið upplýsingar um heimildarrit ef þeir vilja athuga eitthvað nánar«.

Framan af öldum eru skýrslur um árferði fremur stopular, en þegar fram í sækir, fram á 13. og 14. öld, verða frásagnirnar fyllri og eyðurnar færri, uns hvert ár fær sinn eftirmála. En seinast í ritinu er sjerstakur annáll yfir hafísa.

Á eftir Árferðisannálunum gefur höf. stutt heildaryfirlit yfir árferðið á öllum öldunum sem um er að ræða. Telst honum svo til að 17 hörð ár hafi verið að meðaltali á hverri öld, en flest harðindaár komu fyrir á 17. öld, nefnilega 33 hörð ár. Á öllum þessum hörðu árum var skepnufellir meiri eða minni; en á mörgum þeirra mannfellir þar á ofan. T. d. er talið að á 17. öld hafi verið fjórtán mannfellisár, en fimtán á 18. öld. Stöku sinnum kemur það fyrir að sjórinn bregst algerlega eins og t. d. 975; þá tók af nálega allan sjávarafla og reka, og stundum í hafísárum og frostavetrum varð ekki róið fyrir ísum. En hin sagan endurtekur sig oftar og hvað eftir annað: harðindi, heyleysi, fellir, hungur og manndauði. Ekki er þó fellirinn og hungrið eingöngu náttúrunni að kenna:

»Vond stjórn, verslunareinokun, fyrirhyggjuleysi og andlegt volæði almennings hefir oft valdið því að ver fór en skyldi. «

Og eftirtektavert er að »þegar mannfellir varð, var það oftast flökkulýður, tómthúsmenn og kotungar sem króknuðu útaf í harðindunum ; sjaldnar kom það fyrir að hinn eiginlegi bændalýður flosnaði upp og kæmist á vergang. « (Bls. 352.)

Vetur.

Mikla raunasögu má lesa út úr árferðisskýrslunum. Næstum á hverri blaðsíðu er frá einhverju illu að segja. Reyndar eru mörg góðu árin innan um og eftir verstu harðindaköstin koma oft betri áratímabil. T. d. er getið um einn afbragðsvetur sem eiga mun fáa líka. Það var árið 1624.

»Vetur var afbragðsgóður frá jólum og gerði svo mikinn og fljótan grasvöxt að sóleyjar voru vaxnar í Skagafirði í síðustu viku vetrar (snemma í apríl) og þá höfðu fuglar orpið og fundust nóg egg.«

Þó 17. öldin væri mesta eymdaröld og harðindin oft með afbrigðum þá telst þó svo til að á engri öld hafi verið jafnmörg góð ár — 32 góð ár eru þá talin, en þarnæst 31 á 19. öld. Á einum stað segir höfundurinn: »Það eru sorgleg sannindi að allur þorri almennings virðist þrátt fyrir margra alda tyftanir aldrei hafa getað lært fyrirhyggju og forsjálni; menn láta sjer sjaldan dæmi forfeðranna að varnaði verða.«

Þetta held jeg sje ofmikið sagt. Tvímælalaust hafa íslendingar látið sjer lærast margt og mikið af óförum forfeðra sinna og fyrir það kunna þeir nú að mæta mörgum þeim harðindum sjer að skaðlausu, sem áður fyr mundu hafa felt skepnur og menn unnvörpum. Það var eðlilegt að fje og hross fjellu meðan engin hús voru til að hýsa þau; en svo var víða fram á 19. öld. En það er satt, þjóðin hefir verið sein að læra; í rauninni hefir alþýða manna ekkert lært fyr en á síðustu öld.

Af því flestir búast við vondum vetri núna, mun þeim þykja fróðlegt að heyra um nokkra verstu veturna í sögu lands vors.

Við skulum þá fletta upp í riti Thoroddsens. Tökum t. d. veturinn Lurk árið 1601.

»1601 á Magnúsarmessu (13. des.) dró myrkva á alla sólina og skifti með þeim degi til harðinda. Var sá vetur aftaka harður frá jólum um alt Ísland og var kallaður Lurkur, en sumir kölluðu Þjóf. Sauðgróður varð fyrst á Jónsmessu.«

4 næstu árin (Píningsvetur og Eymdarár) voru mestu harðindi og mannfellir, svo að menn reikna að 9000 manna hafi fallið.

Um hvíta vetur 1633 segja annálar:

»Vetur aftaka harður, og hrundi niður peningur. Hross dóu þegar á jólum. — Ekkert fólk komst að sjónum fyrir ófærð - og ei varð komist til kirkju — og ekki varð vatnað peningum nema eitt sinn í viku á sumum bæjum. Menn komust varla milli bæjanna og fjárhúsanna; fjárhúsin fenti og fundust eigi. Ís kom á Þorra og lá til Jónsmessu. Enginn afli á ísnum. Í annari viku Þorra kom svo mikill snjór að hesta kaffenti á sljettum velli. Bæ fenti vestur á Ströndum svo að ekki fanst fyr en um vorið og var þar alt fólkið inni andvana.«

1669. Frostavetur, kallaður hestbani, og stórviðrasamur. Var þá lengi riðið á ís af Fellsströnd í Helgafellssveit og um sumarmál lá víðast ís á Hvammsfirði. Mælt er að þúsund hestar hefðu fallið milli Þingeyra og Hóla í Hjaltadal.

1692 komu grimdarfrost á Góu. Þá lagði víkur og fjörðu við Hvalfjörð allan. Var riðið til Drangeyjar og farið með klyfjahest af Siglunesi á sjó alt til Möðruvalla. Óvíða varð róið vegna ísa.

1696 var fellivetur mikill og kallaður hrossavetur. Þá harðnaði alvarlega með Marteinsmessu en batnaði á Maríumessu. Á mörgum bæjum stóð hvorki eftir hross nje sauður. Þá var og fiskleysi. Útigangshestar átu stalla og stoðir, sem þeir náðu til, hrís og staura, hár og tögl hver af öðrum, líka hár og eyru af þeim sem dauðir voru.

Ísland í vetrarbúningi. Mynd tekin úr gervitungli 28. janúar 2004.

Veturinn 1700 var kallaður mannskaðavetur — ekki mjög frostharður en snjóþungur og rosasamur. — Margt fólk dó niður sem fjenaður eða hross í haga og var þá etið margt óætið, hrafnar og hrossakjöt, sem þá þótti ódæði að eta, grútur, þang, förugrös, þönglar, hey. — — — Í Múlasýslum átu menn þang úr fjörunni og prestur einn var fluttur á vergang. Í Ísafjarðarsýslum dó margt fólk úr hungri og verfólk á Fjallaskaga át soðna hákarlsskrápa og blautan háf.

Árið 1702 er sagt:

Í þessum og undangengnum harðindum dóu 9000 manns á Íslandi öllu. Rán og þjófnaðir um allar sveitir úr hófi og voru margir markaðir og hýddir; einn var hengdur i Borgarfirði, þrír í Gullbringusýslu o.s.frv.

Alt tímabilið 1752—58 voru mestu harðindi.

»1752 voru mikil frost, svo frostsprungur fundust í grasdölum sumarið eftir 40 faðma langar.

1754 var hinn harðasti vetur, nefndur Hreggviður. Mælt er að þá hafi fallið 4500 hross og 50000 fjár aðeins á Norðurlandi. Þá var og kúpeningur skorinn meira en dæmi eru til.

1755 voru hafísar miklir og rak þá ekki burt fyr en í september. — Á Hólum var enginn skóli haldinn eftir jól fyrir harðinda sakir.

Á öllum árunum 1752—59 komu hafísar á hverju ári. Er mælt að þá hafi dáið úr harðrjetti, hungursóttum og landfarsóttum 9700 manns.«

Ár 1791 var aftaka harður vetur. Var sumstaðar fje horfallið fyrir marsmánuð. Þá dóu álftir og einkum rjúpur í hrönnum, eins snjótitlingar og voru þó almenn munnmæli um þá að þeir gengi vetur á við gamlan sauð. Hafís var þá kringum alt land frá Látrabjargi að Reykjanesi og hafþök fyrir Norðurlandi, jakar hröktust inn á Faxafloa.

Þetta verður að nægja til að gefa þeim sem ekki ná í bókina dálitla hugmynd um suma hörðu veturna, en best er að lesa ritið sjálft.

Verða nú út úr árferðisannáulnum fundin nokkur ábyggileg lög og reglur fyrir veðráttufarinu hjer á landi? Þessari spurning þorir höf. ekki að svara að svo stöddu, en neitar því ekki að það muni mega við nákvæma yfirvegun. Aðgætandi er að frásagnirnar eru margar ónákvæmar, sitt frá hverjum, og sitt úr hverju landshorni sumar. Hefðum við samskonar athuganir fyrir hvert ár, — eða hefðu hjer verið gerðar vísindalegar veðurathuganir allan tímann frá landnámstíð, þá er sennilegt að við hefðum nóg plögg í höndum til að segja fyrir um veður. Veðurfræðin er því miður enn of ung vísindagrein til að koma að praktískum notum. Á öðrum stað (Lýsing Íslands, bl.s 390-394) sýnir höf. fram á hve erfitt sje að segja fyrir um veðuráttu á Íslandi, þar eð svo margt kemur þar til greina — hiti lofts og lagar — straumar, vindar, hafísar í heimskautahafinu, loftþyngd í Atlantshafi og Norðurhöfum o. s. frv. En af öllu hefir þó hafísinn langmest áhrif á árferði Íslands. Alt svæðið norðan við Ísland er svo lítið rannsakað enn og engar athugunarstofnanir eru í þeim eyðihjeruðum sem geti gefið verðmætar upplýsingar. »Ísinn er því óviðráðanlegur náttúrukraftur, sem kemur eins og þjófur á nóttu nærri alveg reglulaust. Því verða Íslendingar jafnan að vera við honum búnir. Ill árferði geta dunið yfir hvenær, sem vera skal.«

Þýskur vísindamaður Meinhardus hefir fundið að mikil ísaár standi í sambandi við hástig sólbletta, og annar þýskur fræðimaður Brückner hefir sýnt fram á 35 ára árferðiskafla heita og þurra sem skiftist á við álíka marga kalda og raka kafla. Og enn má geta um lærðan mann austurrískan Júlíus Hann sem hefir fundið reglur um loftþrýstinginn í Atlantshafi og sýnt fram á að þegar mismunur á loftþyngdum við Ísland og Azoreyjar sje lítill, þá gefi það vísa bendingu um að norðlægir og vestlægir vindar fái yfirhönd yfir hinum hlýju suðrænu loftbreytingum norðan til í Atlantshafi.

Árferðisskýrslurnar sýna (við fljótan yfirlestur) svo mikla veðuróreglu ár frá ári að erfitt er að sjá nokkuð fast lögmál. Stundum eru langir harðindakaflar, svo koma góð ár hvert eftir annað, en stundum skiftast á góð og slæm ár reglulaust að því er virðist. Það er sagt að reglusemi Nílarfljótsins og þar af leiðandi reglusemi árferðisins hafi gert Egypta að menningarþjóð, viturri og reglusamri. Eftir samskonar rökfærslu ættu Íslendingar að vera heimsk þjóð og óreglusöm. Hið fyrra mun enginn skrifa undir, en hvað hitt snertir þá er það víst að við höfum verið óreglusamir, en óreglan er smámsaman að hverfa; en er það ekki einmitt óreglusama veðráttan sem neyðir okkur til reglusemi og meiri forsjár? Veðráttan ein nægir þó ekki. Menn eins og Þorv. Thoroddsen, Torfi Bjarnason, Sæmundur Eyjólfsson og Guðm. Björnson hafa átt mikinn þátt í að vekja þjóðina til meðvitundar um háska þann sem af harðindunum stafar.

Verður þessi vetur mjög harður? Margt bendir á að svo muni verða. Hann hefir til þessa hagað sjer líkt því sem sumir hörðustu veturnir í sögu lands vors. En áreiðanlega vissu hefir enginn — vísindamennirnir eru ekki klókari þar en margir kallarnir. Við getum því öll borið von í brjósti um betri tima — gott vor og gott sumar. En best er ætíð að búast við því versta. Rómverjar sögðu: „Inter pacem para bellum“, þ. e. meðan friður er skaltu búa þig undir ófrið. Svipaða reglu þurfa allir Íslendingar að hafa.

Steingrímur Matthíasson

Myndir:

Höfundur

Þór Jakobsson

veðurfræðingur, fyrrv. verkefnisstjóri hafísrannsókna á Veðurstofu Íslands

Útgáfudagur

6.6.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þór Jakobsson. „Hafís í blöðunum 1918. V. Harðindi.“ Vísindavefurinn, 6. júní 2018. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75771.

Þór Jakobsson. (2018, 6. júní). Hafís í blöðunum 1918. V. Harðindi. Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75771

Þór Jakobsson. „Hafís í blöðunum 1918. V. Harðindi.“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2018. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75771>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hafís í blöðunum 1918. V. Harðindi
Þessi pistill er sá fimmti í röðinni af sex þar sem birt er efni um hafís úr blöðum og tímaritum árið 1918 án útskýringa. Hér á eftir er grein eftir Steingrím Matthíasson (1876-1948) lækni á Akureyri þar sem hann vitnar m.a. í nýútkomið rit Þorvalds Thoroddsen (1855-1921) jarðfræðings, „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ sem birtist í blaðinu Íslendingi 11. janúar 1918. Greinin er fengið af gagnavefsíðu Landsbókasafns-Háskólabókasafns, timarit.is, og er hér með þakkað fyrir aðgang að henni.


HARÐINDI.

Óvíða í heiminum mun eins oft talað um veðrið og hjer á landi. Og það er von. Erfið reynsla um veðráttufarið frá fornu fari hefir brent sig inn í meðvitund okkar allra. Allir hafa ugg af hinni óstöðugu og óútreiknanlegu veðráttu, sem hvað eftir annað hefir valdið svo mörgum hörmungum á þessu landi. En er nú veðráttan óútreiknanleg?

Sumir gamlir menn eru nærfærnir um veðurspár. Þeir verða einsog loftvogir með aldrinum og þeir hafa smámsaman lært að lesa úr ýmsum teiknum loftsins. En það eru bara sumir. Flestir kallarnir eru mjög óábyggilegir þó við yngri mennirnir gerum okkur það að skyldu þegar við hittum þá á förnum vegi að spyrja þá um veðrið. Þeir ygla brúnina, horfa upp í skýin, skima í áttirnar, tala um bliku á loftinu og bakka í suðri og segja síðan — að annaðhvort muni hann birta upp eða „ryðja úr sjer“. Og erum við svo ekki jafn nær. Að vísu stendur oft heima að annaðhvort „ryður hann úr sjer“ eða birtir, en eiginlega var spursmálið hvort af þessu tvennu „hann“ mundi gera heldur. Og ef einhver ætlar sjer þá dul að fara að sjá langt fram í tímann þá er venjulega ekki á því að byggja öðruvísi en máltækið segir: „Að oft ratast kjöftugum satt á munn.“

Reynsla einnar mannsæfi er alt of lítil til að geta myndað rökstuddar forspár um jafnbreytilegt fyrirbrigði og veðrið. Kallarnir verða ekki nógu gamlir, þó þeir verði tíræðir og minnið er þá farið að bila.

Það er einn þulur íslenskur sem veit lengra nefi sínu framar flestum öðrum. Hann er reyndar ekki nema rúmlega sextugur og væri óskandi að hann mætti enn lengi lifa og halda enn lengi áfram að starfa þjóð sinni til gagns. Jeg á við prófessor Þorvald Thoroddsen. Hann er „höfði hærri en fólkið“ hvað fróðleik snertir í íslenskri sögu og náttúrufræði. Þar er sem við hefðum fyrir okkur 1000 ára gamlan en minnugan öldung og það kall, sem ekki liggur á liði sínu með að miðla öðrum af því sem hann veit.

Þorvaldur Thoroddsen (1855–1921).

Við skulum spyrja Þorvald um veðrið fyr á öldum ef ske kynni að það gæti leiðbeint okkur um framtíðina. Lítum þá fyrst í rit hans „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ sem hið Ísl. fræðafjelag gaf út í fyrra. Þar hefir Þorv. safnað saman í eina heild öllu því markverðasta sem ritað hefir verið um veðráttu á landinu og lífskjör landsmanna frá landnámstíð fram til vorra daga. Ritið er alt 432 bls. í stóru 8 blaða broti.

Það hefir kostað höfundinn margra ára starf að safna öllum þeim mikla fróðleik. Höf. segist hafa haft ritið í smíðum í hjáverkum í 30 ár. Heimildirnar eru margar, dreifðar og sumar vandhittar nema fyrir þann sem eins og Þorv. þekkir allra manna best allar ísl. bókmentir frá fyrstu tímum. Það er t. d. út af fyrir sig ekkert áhlaupaverk að fara gegnum flest dagblöðin okkar frá því þau fyrst fóru að koma út og tína úr þeim það sem snertir árferði og veðráttufar. í sambandi við það er rjett að halda því á lofti sem höf. segir um »Norðanfara«. Honum finst svo mikið til um þann margháttaða fróðleik um landa og landsmál sem það blað hefir að geyma að hann hikar ekki við að telja hann »sanna gullnámu fyrir menningarsögu Íslands á 19. öld«. Óskandi að ætíð mætti út koma jafngott blað á Akureyri! — Víða hefir höf. orðið að bera saman mjög margar mismunandi frásagnir um sömu atburði og vinsa úr það sem sennilegast var. En alt hefst með iðni og áhuga, og nú leggur Þorv. þetta ritverk á borðið fyrir íslenska lesendur og nefnir það »safndyngju, sem aðrir geta leitað til og af tilvitnunum svo aftur fengið upplýsingar um heimildarrit ef þeir vilja athuga eitthvað nánar«.

Framan af öldum eru skýrslur um árferði fremur stopular, en þegar fram í sækir, fram á 13. og 14. öld, verða frásagnirnar fyllri og eyðurnar færri, uns hvert ár fær sinn eftirmála. En seinast í ritinu er sjerstakur annáll yfir hafísa.

Á eftir Árferðisannálunum gefur höf. stutt heildaryfirlit yfir árferðið á öllum öldunum sem um er að ræða. Telst honum svo til að 17 hörð ár hafi verið að meðaltali á hverri öld, en flest harðindaár komu fyrir á 17. öld, nefnilega 33 hörð ár. Á öllum þessum hörðu árum var skepnufellir meiri eða minni; en á mörgum þeirra mannfellir þar á ofan. T. d. er talið að á 17. öld hafi verið fjórtán mannfellisár, en fimtán á 18. öld. Stöku sinnum kemur það fyrir að sjórinn bregst algerlega eins og t. d. 975; þá tók af nálega allan sjávarafla og reka, og stundum í hafísárum og frostavetrum varð ekki róið fyrir ísum. En hin sagan endurtekur sig oftar og hvað eftir annað: harðindi, heyleysi, fellir, hungur og manndauði. Ekki er þó fellirinn og hungrið eingöngu náttúrunni að kenna:

»Vond stjórn, verslunareinokun, fyrirhyggjuleysi og andlegt volæði almennings hefir oft valdið því að ver fór en skyldi. «

Og eftirtektavert er að »þegar mannfellir varð, var það oftast flökkulýður, tómthúsmenn og kotungar sem króknuðu útaf í harðindunum ; sjaldnar kom það fyrir að hinn eiginlegi bændalýður flosnaði upp og kæmist á vergang. « (Bls. 352.)

Vetur.

Mikla raunasögu má lesa út úr árferðisskýrslunum. Næstum á hverri blaðsíðu er frá einhverju illu að segja. Reyndar eru mörg góðu árin innan um og eftir verstu harðindaköstin koma oft betri áratímabil. T. d. er getið um einn afbragðsvetur sem eiga mun fáa líka. Það var árið 1624.

»Vetur var afbragðsgóður frá jólum og gerði svo mikinn og fljótan grasvöxt að sóleyjar voru vaxnar í Skagafirði í síðustu viku vetrar (snemma í apríl) og þá höfðu fuglar orpið og fundust nóg egg.«

Þó 17. öldin væri mesta eymdaröld og harðindin oft með afbrigðum þá telst þó svo til að á engri öld hafi verið jafnmörg góð ár — 32 góð ár eru þá talin, en þarnæst 31 á 19. öld. Á einum stað segir höfundurinn: »Það eru sorgleg sannindi að allur þorri almennings virðist þrátt fyrir margra alda tyftanir aldrei hafa getað lært fyrirhyggju og forsjálni; menn láta sjer sjaldan dæmi forfeðranna að varnaði verða.«

Þetta held jeg sje ofmikið sagt. Tvímælalaust hafa íslendingar látið sjer lærast margt og mikið af óförum forfeðra sinna og fyrir það kunna þeir nú að mæta mörgum þeim harðindum sjer að skaðlausu, sem áður fyr mundu hafa felt skepnur og menn unnvörpum. Það var eðlilegt að fje og hross fjellu meðan engin hús voru til að hýsa þau; en svo var víða fram á 19. öld. En það er satt, þjóðin hefir verið sein að læra; í rauninni hefir alþýða manna ekkert lært fyr en á síðustu öld.

Af því flestir búast við vondum vetri núna, mun þeim þykja fróðlegt að heyra um nokkra verstu veturna í sögu lands vors.

Við skulum þá fletta upp í riti Thoroddsens. Tökum t. d. veturinn Lurk árið 1601.

»1601 á Magnúsarmessu (13. des.) dró myrkva á alla sólina og skifti með þeim degi til harðinda. Var sá vetur aftaka harður frá jólum um alt Ísland og var kallaður Lurkur, en sumir kölluðu Þjóf. Sauðgróður varð fyrst á Jónsmessu.«

4 næstu árin (Píningsvetur og Eymdarár) voru mestu harðindi og mannfellir, svo að menn reikna að 9000 manna hafi fallið.

Um hvíta vetur 1633 segja annálar:

»Vetur aftaka harður, og hrundi niður peningur. Hross dóu þegar á jólum. — Ekkert fólk komst að sjónum fyrir ófærð - og ei varð komist til kirkju — og ekki varð vatnað peningum nema eitt sinn í viku á sumum bæjum. Menn komust varla milli bæjanna og fjárhúsanna; fjárhúsin fenti og fundust eigi. Ís kom á Þorra og lá til Jónsmessu. Enginn afli á ísnum. Í annari viku Þorra kom svo mikill snjór að hesta kaffenti á sljettum velli. Bæ fenti vestur á Ströndum svo að ekki fanst fyr en um vorið og var þar alt fólkið inni andvana.«

1669. Frostavetur, kallaður hestbani, og stórviðrasamur. Var þá lengi riðið á ís af Fellsströnd í Helgafellssveit og um sumarmál lá víðast ís á Hvammsfirði. Mælt er að þúsund hestar hefðu fallið milli Þingeyra og Hóla í Hjaltadal.

1692 komu grimdarfrost á Góu. Þá lagði víkur og fjörðu við Hvalfjörð allan. Var riðið til Drangeyjar og farið með klyfjahest af Siglunesi á sjó alt til Möðruvalla. Óvíða varð róið vegna ísa.

1696 var fellivetur mikill og kallaður hrossavetur. Þá harðnaði alvarlega með Marteinsmessu en batnaði á Maríumessu. Á mörgum bæjum stóð hvorki eftir hross nje sauður. Þá var og fiskleysi. Útigangshestar átu stalla og stoðir, sem þeir náðu til, hrís og staura, hár og tögl hver af öðrum, líka hár og eyru af þeim sem dauðir voru.

Ísland í vetrarbúningi. Mynd tekin úr gervitungli 28. janúar 2004.

Veturinn 1700 var kallaður mannskaðavetur — ekki mjög frostharður en snjóþungur og rosasamur. — Margt fólk dó niður sem fjenaður eða hross í haga og var þá etið margt óætið, hrafnar og hrossakjöt, sem þá þótti ódæði að eta, grútur, þang, förugrös, þönglar, hey. — — — Í Múlasýslum átu menn þang úr fjörunni og prestur einn var fluttur á vergang. Í Ísafjarðarsýslum dó margt fólk úr hungri og verfólk á Fjallaskaga át soðna hákarlsskrápa og blautan háf.

Árið 1702 er sagt:

Í þessum og undangengnum harðindum dóu 9000 manns á Íslandi öllu. Rán og þjófnaðir um allar sveitir úr hófi og voru margir markaðir og hýddir; einn var hengdur i Borgarfirði, þrír í Gullbringusýslu o.s.frv.

Alt tímabilið 1752—58 voru mestu harðindi.

»1752 voru mikil frost, svo frostsprungur fundust í grasdölum sumarið eftir 40 faðma langar.

1754 var hinn harðasti vetur, nefndur Hreggviður. Mælt er að þá hafi fallið 4500 hross og 50000 fjár aðeins á Norðurlandi. Þá var og kúpeningur skorinn meira en dæmi eru til.

1755 voru hafísar miklir og rak þá ekki burt fyr en í september. — Á Hólum var enginn skóli haldinn eftir jól fyrir harðinda sakir.

Á öllum árunum 1752—59 komu hafísar á hverju ári. Er mælt að þá hafi dáið úr harðrjetti, hungursóttum og landfarsóttum 9700 manns.«

Ár 1791 var aftaka harður vetur. Var sumstaðar fje horfallið fyrir marsmánuð. Þá dóu álftir og einkum rjúpur í hrönnum, eins snjótitlingar og voru þó almenn munnmæli um þá að þeir gengi vetur á við gamlan sauð. Hafís var þá kringum alt land frá Látrabjargi að Reykjanesi og hafþök fyrir Norðurlandi, jakar hröktust inn á Faxafloa.

Þetta verður að nægja til að gefa þeim sem ekki ná í bókina dálitla hugmynd um suma hörðu veturna, en best er að lesa ritið sjálft.

Verða nú út úr árferðisannáulnum fundin nokkur ábyggileg lög og reglur fyrir veðráttufarinu hjer á landi? Þessari spurning þorir höf. ekki að svara að svo stöddu, en neitar því ekki að það muni mega við nákvæma yfirvegun. Aðgætandi er að frásagnirnar eru margar ónákvæmar, sitt frá hverjum, og sitt úr hverju landshorni sumar. Hefðum við samskonar athuganir fyrir hvert ár, — eða hefðu hjer verið gerðar vísindalegar veðurathuganir allan tímann frá landnámstíð, þá er sennilegt að við hefðum nóg plögg í höndum til að segja fyrir um veður. Veðurfræðin er því miður enn of ung vísindagrein til að koma að praktískum notum. Á öðrum stað (Lýsing Íslands, bl.s 390-394) sýnir höf. fram á hve erfitt sje að segja fyrir um veðuráttu á Íslandi, þar eð svo margt kemur þar til greina — hiti lofts og lagar — straumar, vindar, hafísar í heimskautahafinu, loftþyngd í Atlantshafi og Norðurhöfum o. s. frv. En af öllu hefir þó hafísinn langmest áhrif á árferði Íslands. Alt svæðið norðan við Ísland er svo lítið rannsakað enn og engar athugunarstofnanir eru í þeim eyðihjeruðum sem geti gefið verðmætar upplýsingar. »Ísinn er því óviðráðanlegur náttúrukraftur, sem kemur eins og þjófur á nóttu nærri alveg reglulaust. Því verða Íslendingar jafnan að vera við honum búnir. Ill árferði geta dunið yfir hvenær, sem vera skal.«

Þýskur vísindamaður Meinhardus hefir fundið að mikil ísaár standi í sambandi við hástig sólbletta, og annar þýskur fræðimaður Brückner hefir sýnt fram á 35 ára árferðiskafla heita og þurra sem skiftist á við álíka marga kalda og raka kafla. Og enn má geta um lærðan mann austurrískan Júlíus Hann sem hefir fundið reglur um loftþrýstinginn í Atlantshafi og sýnt fram á að þegar mismunur á loftþyngdum við Ísland og Azoreyjar sje lítill, þá gefi það vísa bendingu um að norðlægir og vestlægir vindar fái yfirhönd yfir hinum hlýju suðrænu loftbreytingum norðan til í Atlantshafi.

Árferðisskýrslurnar sýna (við fljótan yfirlestur) svo mikla veðuróreglu ár frá ári að erfitt er að sjá nokkuð fast lögmál. Stundum eru langir harðindakaflar, svo koma góð ár hvert eftir annað, en stundum skiftast á góð og slæm ár reglulaust að því er virðist. Það er sagt að reglusemi Nílarfljótsins og þar af leiðandi reglusemi árferðisins hafi gert Egypta að menningarþjóð, viturri og reglusamri. Eftir samskonar rökfærslu ættu Íslendingar að vera heimsk þjóð og óreglusöm. Hið fyrra mun enginn skrifa undir, en hvað hitt snertir þá er það víst að við höfum verið óreglusamir, en óreglan er smámsaman að hverfa; en er það ekki einmitt óreglusama veðráttan sem neyðir okkur til reglusemi og meiri forsjár? Veðráttan ein nægir þó ekki. Menn eins og Þorv. Thoroddsen, Torfi Bjarnason, Sæmundur Eyjólfsson og Guðm. Björnson hafa átt mikinn þátt í að vekja þjóðina til meðvitundar um háska þann sem af harðindunum stafar.

Verður þessi vetur mjög harður? Margt bendir á að svo muni verða. Hann hefir til þessa hagað sjer líkt því sem sumir hörðustu veturnir í sögu lands vors. En áreiðanlega vissu hefir enginn — vísindamennirnir eru ekki klókari þar en margir kallarnir. Við getum því öll borið von í brjósti um betri tima — gott vor og gott sumar. En best er ætíð að búast við því versta. Rómverjar sögðu: „Inter pacem para bellum“, þ. e. meðan friður er skaltu búa þig undir ófrið. Svipaða reglu þurfa allir Íslendingar að hafa.

Steingrímur Matthíasson

Myndir:

...