Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Er skynsamlegt fyrir börn að sniðganga kjöt og dýraafurðir?

Ingibjörg Gunnarsdóttir og Berglind Lilja Guðlaugsdóttir

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Hversu ungir mega krakkar vera til að gerast grænmetisætur eða anti-kjötætur? Það hljóta líka að vera einhver skynsemismörk á því að vera vegan eða í einhverjum af þessum flokkum meðan krakkar eru að taka út mestan vöxt og þroska.

Eitt af því sem gerir manninn einstakan er hæfileiki hans til að nýta sér fjölbreyttar leiðir til fæðuöflunar og að geta lifað á fæði bæði úr jurta- og dýraríkinu. Þekking í næringarfræði hefur aukist mikið undanfarna áratugi, þar með talið þekking á næringargildi ýmissa fæðutegunda. Í opinberum ráðleggingum um fæðuval eru gefnar leiðbeiningar um það hversu mikils magns sé æskilegt að neyta af fæðu úr tilteknum fæðuflokkum til þess að mæta þörfinni fyrir hin ýmsu vítamín og steinefni. Hver fæðuflokkur er einstakur og veita þeir mismunandi næringarefni í mismiklu magni. Ráðleggingar um fæðuval byggja meðal annars á því hvaða fæðuflokkar hafa í gegnum tíðina verið mikilvægar uppsprettur mismunandi næringarefna á Íslandi, en einnig á rannsóknum um tengsl fæðuvals og heilsu. Ákveði einstaklingur af einhverjum ástæðum að sneiða hjá fæðu úr einstaka fæðuflokkum er mikilvægt að hafa þekkingu á því hvaða næringarefni viðkomandi flokkur veitir, hvort og þá hvernig nálgast megi sömu næringarefni úr annarri fæðu eða hvort þörf sé á fæðubótarefnum.

Mikilvægt er fyrir einstaklinga sem aðhyllast veganisma, eins og aðra, að neyta fjölbreyttrar fæðu sem inniheldur öll nauðsynleg næringarefni.

Grænmetisfæði eða grænmetishyggju má skipta upp í nokkra flokka:

  • Mjólkur- og eggja-grænmetishyggja (ovo-lacto-vegeterian): Borðar engar kjötvörur en neytir eggja og mjólkurvara og í sumum tilfellum fisks.
  • Mjólkur-grænmetishyggja (lacto-vegeterian): Borðar mjólkurvörur en engar kjötvörur, egg, fisk eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum.
  • Eggja-grænmetishyggja (ovo-vegeterian): Borðar egg en engar kjötvörur, fisk, mjólkurvörur eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum.
  • Veganismi (veganism):Borðar engar dýraafurðir (kjöt, fisk, mjólk, egg eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum).
  • Ávaxtahyggja (fruitarian): Fæðið samanstendur að langstærstum hluta af ferskum ávöxtum og grænmeti ásamt hóflegum skammti af fituríkum matvælum á borð við hnetur, fræ og avókadó.

Eftir því sem fleiri fæðutegundir eru útilokaðar úr fæðunni því mun meiri þarf þekking fólks að vera í næringarfræði. Alla jafna ætti að vera auðvelt fyrir þá einstaklinga sem aðhyllast mjólkur- og eggjagrænmetishyggju að uppfylla næringarþörf sína. Það er hins vegar mun flóknara fyrir þá sem aðhyllast veganisma, þar sem notkun vítamín- og steinefnabættra afurða og/eða fæðubótarefna gæti reynst nauðsynleg til að fullnægja þörf fyrir næringarefni á borð við járn, sink, kalk, joð, B12-vítamín, D-vítamín og jafnvel prótín og ákveðnar fitusýrur. Lesa má nánar um næringarefnin sem grænmetisætur þurfa að huga vel að í svari Jóhönnu Eyrúnar Torfadóttur við spurningunni Fá grænmetisætur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast?

Svarið við því hvort ungir krakkar megi verða grænmetisætur eða and-kjötætur veltur á því hvort umhverfi þeirra bjóði upp á það, meðal annars á því hvort foreldrar og aðrir aðstandendur séu tilbúnir til að styðja barnið. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að börn yngri en 18 ára hafi nægan þroska til að afla sér upp á eigin spýtur þekkingar í næringarfræði sem þarf til að geta orðið vandaðar grænmetisætur.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að börn yngri en 18 ára hafi nægan þroska til að afla sér upp á eigin spýtur þekkingar í næringarfræði sem þarf til að geta orðið vandaðar grænmetisætur. Því er mikilvægt að foreldrar og aðrir aðstandendur styðji barnið í því og hjálpi því.

Hvort sem einstaklingar aðhyllast grænmetisfæði eða ekki þá er lykilatriði að neyta fjölbreyttrar fæðu. Sé næringarrík fæðutegund á borð við kjöt tekin út úr fæðinu er mikilvægt að inn komi önnur næringarrík fæðutegund í staðinn, til dæmis baunaréttir, fiskur eða egg. Fyrir þá sem aðhyllast veganisma er gríðarlega mikilvægt að neyta daglega prótínríkra afurða úr jurtaríkinu á borð við baunir, linsur eða hnetur ásamt heilkornaafurðum. Sé barnið ekki hrifið af slíkum mat er óæskilegt að leyfa því að gerast ströng grænmetisæta eða vegan, því án þessara fæðutegunda eru miklar líkur á að fæðið uppfylli ekki þörf barnsins fyrir prótín og önnur mikilvæg næringarefni. Þar sem fæða úr jurtaríkinu er jafnan orkurýrari heldur en fæða úr dýraríkinu er einnig mikilvægt að huga vel að orkuþörf barna og unglinga á grænmetisfæði meðan þau eru að taka út vöxt og þroska. Sé fæðuval vandað og fjölbreytt er þó ekkert sem bendir til þess að grænmetisfæði, þar með talinn veganismi geti ekki uppfyllt næringarþörf barna allt frá unga aldri.

Myndir:

Höfundar

Ingibjörg Gunnarsdóttir

prófessor í næringarfræði við HÍ

Berglind Lilja Guðlaugsdóttir

BSc í næringarfræði og MSc-nemi í klínískri næringarfræði

Útgáfudagur

25.9.2018

Spyrjandi

Guðrún Harðardóttir

Tilvísun

Ingibjörg Gunnarsdóttir og Berglind Lilja Guðlaugsdóttir. „Er skynsamlegt fyrir börn að sniðganga kjöt og dýraafurðir?“ Vísindavefurinn, 25. september 2018. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76023.

Ingibjörg Gunnarsdóttir og Berglind Lilja Guðlaugsdóttir. (2018, 25. september). Er skynsamlegt fyrir börn að sniðganga kjöt og dýraafurðir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76023

Ingibjörg Gunnarsdóttir og Berglind Lilja Guðlaugsdóttir. „Er skynsamlegt fyrir börn að sniðganga kjöt og dýraafurðir?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2018. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76023>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er skynsamlegt fyrir börn að sniðganga kjöt og dýraafurðir?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Hversu ungir mega krakkar vera til að gerast grænmetisætur eða anti-kjötætur? Það hljóta líka að vera einhver skynsemismörk á því að vera vegan eða í einhverjum af þessum flokkum meðan krakkar eru að taka út mestan vöxt og þroska.

Eitt af því sem gerir manninn einstakan er hæfileiki hans til að nýta sér fjölbreyttar leiðir til fæðuöflunar og að geta lifað á fæði bæði úr jurta- og dýraríkinu. Þekking í næringarfræði hefur aukist mikið undanfarna áratugi, þar með talið þekking á næringargildi ýmissa fæðutegunda. Í opinberum ráðleggingum um fæðuval eru gefnar leiðbeiningar um það hversu mikils magns sé æskilegt að neyta af fæðu úr tilteknum fæðuflokkum til þess að mæta þörfinni fyrir hin ýmsu vítamín og steinefni. Hver fæðuflokkur er einstakur og veita þeir mismunandi næringarefni í mismiklu magni. Ráðleggingar um fæðuval byggja meðal annars á því hvaða fæðuflokkar hafa í gegnum tíðina verið mikilvægar uppsprettur mismunandi næringarefna á Íslandi, en einnig á rannsóknum um tengsl fæðuvals og heilsu. Ákveði einstaklingur af einhverjum ástæðum að sneiða hjá fæðu úr einstaka fæðuflokkum er mikilvægt að hafa þekkingu á því hvaða næringarefni viðkomandi flokkur veitir, hvort og þá hvernig nálgast megi sömu næringarefni úr annarri fæðu eða hvort þörf sé á fæðubótarefnum.

Mikilvægt er fyrir einstaklinga sem aðhyllast veganisma, eins og aðra, að neyta fjölbreyttrar fæðu sem inniheldur öll nauðsynleg næringarefni.

Grænmetisfæði eða grænmetishyggju má skipta upp í nokkra flokka:

  • Mjólkur- og eggja-grænmetishyggja (ovo-lacto-vegeterian): Borðar engar kjötvörur en neytir eggja og mjólkurvara og í sumum tilfellum fisks.
  • Mjólkur-grænmetishyggja (lacto-vegeterian): Borðar mjólkurvörur en engar kjötvörur, egg, fisk eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum.
  • Eggja-grænmetishyggja (ovo-vegeterian): Borðar egg en engar kjötvörur, fisk, mjólkurvörur eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum.
  • Veganismi (veganism):Borðar engar dýraafurðir (kjöt, fisk, mjólk, egg eða önnur matvæli unnin úr dýraafurðum).
  • Ávaxtahyggja (fruitarian): Fæðið samanstendur að langstærstum hluta af ferskum ávöxtum og grænmeti ásamt hóflegum skammti af fituríkum matvælum á borð við hnetur, fræ og avókadó.

Eftir því sem fleiri fæðutegundir eru útilokaðar úr fæðunni því mun meiri þarf þekking fólks að vera í næringarfræði. Alla jafna ætti að vera auðvelt fyrir þá einstaklinga sem aðhyllast mjólkur- og eggjagrænmetishyggju að uppfylla næringarþörf sína. Það er hins vegar mun flóknara fyrir þá sem aðhyllast veganisma, þar sem notkun vítamín- og steinefnabættra afurða og/eða fæðubótarefna gæti reynst nauðsynleg til að fullnægja þörf fyrir næringarefni á borð við járn, sink, kalk, joð, B12-vítamín, D-vítamín og jafnvel prótín og ákveðnar fitusýrur. Lesa má nánar um næringarefnin sem grænmetisætur þurfa að huga vel að í svari Jóhönnu Eyrúnar Torfadóttur við spurningunni Fá grænmetisætur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast?

Svarið við því hvort ungir krakkar megi verða grænmetisætur eða and-kjötætur veltur á því hvort umhverfi þeirra bjóði upp á það, meðal annars á því hvort foreldrar og aðrir aðstandendur séu tilbúnir til að styðja barnið. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að börn yngri en 18 ára hafi nægan þroska til að afla sér upp á eigin spýtur þekkingar í næringarfræði sem þarf til að geta orðið vandaðar grænmetisætur.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að börn yngri en 18 ára hafi nægan þroska til að afla sér upp á eigin spýtur þekkingar í næringarfræði sem þarf til að geta orðið vandaðar grænmetisætur. Því er mikilvægt að foreldrar og aðrir aðstandendur styðji barnið í því og hjálpi því.

Hvort sem einstaklingar aðhyllast grænmetisfæði eða ekki þá er lykilatriði að neyta fjölbreyttrar fæðu. Sé næringarrík fæðutegund á borð við kjöt tekin út úr fæðinu er mikilvægt að inn komi önnur næringarrík fæðutegund í staðinn, til dæmis baunaréttir, fiskur eða egg. Fyrir þá sem aðhyllast veganisma er gríðarlega mikilvægt að neyta daglega prótínríkra afurða úr jurtaríkinu á borð við baunir, linsur eða hnetur ásamt heilkornaafurðum. Sé barnið ekki hrifið af slíkum mat er óæskilegt að leyfa því að gerast ströng grænmetisæta eða vegan, því án þessara fæðutegunda eru miklar líkur á að fæðið uppfylli ekki þörf barnsins fyrir prótín og önnur mikilvæg næringarefni. Þar sem fæða úr jurtaríkinu er jafnan orkurýrari heldur en fæða úr dýraríkinu er einnig mikilvægt að huga vel að orkuþörf barna og unglinga á grænmetisfæði meðan þau eru að taka út vöxt og þroska. Sé fæðuval vandað og fjölbreytt er þó ekkert sem bendir til þess að grænmetisfæði, þar með talinn veganismi geti ekki uppfyllt næringarþörf barna allt frá unga aldri.

Myndir:

...