Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hver er munurinn á nýlendu og hjálendu?

Guðmundur Hálfdanarson

Útilokað er að gefa einhlítt svar við þessari spurningu, því að merking beggja hugtakanna er óljós og hefur breyst í tímans rás. Bókstafleg merking orðsins nýlenda er einfaldlega nýtt land, og vísaði það gjarnan til lands sem brotið er undir nýja byggð eða ræktun. Þessi merking kemur meðal annars fram í bæjarnafninu Nýlenda, sem var allalgengt á Íslandi. Á síðari tímum hefur orðið einkum verið notað sem íslensk þýðing á erlendum hugtökum sem dregin eru af latneska orðinu colonia (e. colony, da. koloni). Þetta má til að mynda lesa út úr frétt sem birtist í tímaritinu Minnisverð tíðindi árið 1803, en þar segir: „Nýlendur (Coloniæ) nefnast þau lönd eður staðir, sem tilheyra og bygð eru af evropæiskum þjóðum í hinum heimsins álfum“ (Minnisverð tíðindi, III (1803), bls. 11). Hér skilur höfundur hugtakið sem land byggt af og undir stjórn Evrópubúa utan álfunnar, en sá skilningur á nýlenduhugtakinu var algengur allt fram á 19. öld. Þannig voru Bandaríki Norður-Ameríku mynduð af 13 fyrrverandi nýlendum Breta (e. the thirteen colonies) – og með sama hætti má kalla Ísland norska eða norræna nýlendu við upphaf byggðar landsins.

Bresku nýlendurnar þrettán sem mynduðu Bandaríkin.

Í kjölfar iðnbyltingar í vesturhluta Evrópu á fyrri hluta 19. aldar breyttist inntak nýlenduhugtaksins í alþjóðlegri umræðu, þannig að merkingin færðist frá svæðum í öðrum heimsálfum sem byggð voru Evrópubúum yfir í lönd sem Evrópumenn lögðu undir sig í krafti meintra yfirburða sinna, ekki með það í huga að setjast þar að í stórum stíl heldur til að nýta sér hráefni þeirra og vinnuafl nýlendubúanna. Þetta tengist því sem kölluð hefur verið„hin nýja heimsvaldastefna“ (e. New Imperialism), en hún var rekin áfram af kynþáttahyggju og trú á yfirburði þeirra sem flokkuðust undir ímyndaðan „hvítan“ og evrópskan „kynstofn“. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði töldust nýlendubúar óæðri Evrópubúum – þeir voru „ósiðmenntaðir“, barnalegir, frumstæðir, og svo framvegis – og því hefðu þeir ekki sama rétt til frelsis og þeir sem töldust „siðmenntaðir“.

Íslenska orðið hjálenda er aftur á móti þýðing á danska orðinu biland, en það var meðal annars notað til að lýsa eyjunum í Norður-Atlantshafi sem lutu danskri stjórn. Ekki er alveg ljóst hvenær hugtakið komst fyrst í almenna notkun og enn síður hvað það merkti nákvæmlega. Í danskri orðabók frá árinu 1920 er þessi skýring gefin á orðinu „biland“: það er „hluti af ríki sem stendur aðeins í lauslegu sambandi við móðurlandið (og að nokkru leyti utanvið þingleg eða réttarleg stjórnskipunarlög þess); í Danmörku oft [notað] um Færeyjar, Ísland og Grænland“ (Ordbog over det danske Sprog, 1920). Af heimildum má þó ráða að menn gerðu alls ekki skýran greinarmun á hugtökunum hjálenda og nýlenda (eða koloni og biland). Jón Sigurðsson nefndi þetta oft í sínum skrifum, en honum var mjög í mun að sýna fram á að Ísland væri hvorki nýlenda né hjálenda Dana, heldur frjálst sambandsland Danmerkur. Á einum stað bendir hann til dæmis á að þótt dönsk stjórnvöld hafi talið hjálendur og nýlendur ólík fyrirbæri, þá hafi þau kallað Ísland hjálendu og nýlendu á víxl, og iðulega flokkað nýlenduna Grænland með hjálendunum Íslandi og Færeyjum (sjá Jón Sigurðsson, „Um landsréttindi Íslands“, Ný félagsrit 16 (1856), bls. 82).

Jóni Sigurðssyni var mjög í mun að sýna fram á að Ísland væri hvorki nýlenda né hjálenda Dana, heldur frjálst sambandsland Danmerkur. Reykjavík eftir miðja 19. öld.

Þetta breytir því ekki að skýr greinarmunur var gerður á Færeyjum og Íslandi annars vegar og Grænlandi hins vegar í stjórnkerfi danska konungsríkisins. Á meðan konungur ríkti sem einvaldur í ríki sínu (frá 1660–1848) voru fyrri löndin tvö færð smátt og smátt inn í almennt skipulag ríkisins – Ísland varð eitt stiftamt og biskupsdæmi, sem síðan skiptist í þrjú svokölluð ömt, en Færeyjar eitt amt sem var sett undir Sjálandsbiskup og sjálenska stiftamtið.

Eftir að einveldið var lagt af árið 1848 og stjórnarskrá samþykkt fyrir konungsríkið var ætlunin að fella bæði Ísland og Færeyjar undir hina þingbundnu dönsku konungsstjórn, þannig að danska stjórnarskráin gilti þar og löndin sendu bæði fulltrúa á danska þingið. Þetta tókst með Færeyjar en Íslendingar neituðu algerlega að fallast á þá skipan og tókst smátt og smátt að ná öllum völdum í sínum málum eins og kunnugt er. Grænlandi var aftur á móti lengst af stjórnað á allt annan hátt og algerlega án þess að íbúarnir væru spurðir álits um sín mál. Til að byrja með var eyjunni að mestu stjórnað af dönskum kaupmönnum sem voru búsettir í svokölluðum verslunarnýlendum (da. handelskolonier), það er litlum verslunarþorpum við ströndina. Vald kaupmannanna náði almennt ekki út fyrir verslunarnýlendurnar og Grænlendingar voru því almennt ekki seldir undir dönsk lög eða danska stjórnsýslu. Í umræðum um danska stjórnarskrá á árunum 1848 til 1849 var aldrei nefnt að stjórnarskráin myndi ná til Grænlands eða að Grænlendingar fengju nokkur borgararéttindi í ríkinu. Þetta endurspeglaði fordóma Dana gagnvart Grænlendingum, sem voru kallaðir „náttúrufólk“ (da. naturfolk), en það taldist ófært um að taka þátt í stjórn eigin mála (það skal tekið fram að Íslendingar höfðu lengst af alveg sama álit á Grænlendingum, sem iðulega voru nefndir skrælingjar í íslenskum heimildum). Það var ekki fyrr en í kjölfar síðari heimsstyrjaldar, undir þrýstingi frá Sameinuðu þjóðunum, að Danir veittu Grænlendingum sama rétt í danska ríkinu og Færeyingar fengu árið 1850, það er Grænland varð eitt amt, íbúarnir urðu danskir ríkisborgarar og tveir grænlenskir þingmenn fengu sæti á danska þinginu.

Í síðari tíma fræðiumræðu hefur þessi munur á Færeyjum og Íslandi annars vegar og Grænlandi hins vegar verið skýrður með því að fyrri löndin tvö hafi verið hjálendur (bilande) en hið síðasta nýlenda (koloni). Hér er þó frekar um síðari tíma tilbúning að ræða en gamla venju og þessi aðgreining á sér takmarkaða stoð í sögulegum heimildum.

Myndir:

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarson

prófessor í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

21.12.2018

Spyrjandi

Ragnhildur Þrastardóttir

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Hver er munurinn á nýlendu og hjálendu?“ Vísindavefurinn, 21. desember 2018. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=76671.

Guðmundur Hálfdanarson. (2018, 21. desember). Hver er munurinn á nýlendu og hjálendu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=76671

Guðmundur Hálfdanarson. „Hver er munurinn á nýlendu og hjálendu?“ Vísindavefurinn. 21. des. 2018. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=76671>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á nýlendu og hjálendu?
Útilokað er að gefa einhlítt svar við þessari spurningu, því að merking beggja hugtakanna er óljós og hefur breyst í tímans rás. Bókstafleg merking orðsins nýlenda er einfaldlega nýtt land, og vísaði það gjarnan til lands sem brotið er undir nýja byggð eða ræktun. Þessi merking kemur meðal annars fram í bæjarnafninu Nýlenda, sem var allalgengt á Íslandi. Á síðari tímum hefur orðið einkum verið notað sem íslensk þýðing á erlendum hugtökum sem dregin eru af latneska orðinu colonia (e. colony, da. koloni). Þetta má til að mynda lesa út úr frétt sem birtist í tímaritinu Minnisverð tíðindi árið 1803, en þar segir: „Nýlendur (Coloniæ) nefnast þau lönd eður staðir, sem tilheyra og bygð eru af evropæiskum þjóðum í hinum heimsins álfum“ (Minnisverð tíðindi, III (1803), bls. 11). Hér skilur höfundur hugtakið sem land byggt af og undir stjórn Evrópubúa utan álfunnar, en sá skilningur á nýlenduhugtakinu var algengur allt fram á 19. öld. Þannig voru Bandaríki Norður-Ameríku mynduð af 13 fyrrverandi nýlendum Breta (e. the thirteen colonies) – og með sama hætti má kalla Ísland norska eða norræna nýlendu við upphaf byggðar landsins.

Bresku nýlendurnar þrettán sem mynduðu Bandaríkin.

Í kjölfar iðnbyltingar í vesturhluta Evrópu á fyrri hluta 19. aldar breyttist inntak nýlenduhugtaksins í alþjóðlegri umræðu, þannig að merkingin færðist frá svæðum í öðrum heimsálfum sem byggð voru Evrópubúum yfir í lönd sem Evrópumenn lögðu undir sig í krafti meintra yfirburða sinna, ekki með það í huga að setjast þar að í stórum stíl heldur til að nýta sér hráefni þeirra og vinnuafl nýlendubúanna. Þetta tengist því sem kölluð hefur verið„hin nýja heimsvaldastefna“ (e. New Imperialism), en hún var rekin áfram af kynþáttahyggju og trú á yfirburði þeirra sem flokkuðust undir ímyndaðan „hvítan“ og evrópskan „kynstofn“. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði töldust nýlendubúar óæðri Evrópubúum – þeir voru „ósiðmenntaðir“, barnalegir, frumstæðir, og svo framvegis – og því hefðu þeir ekki sama rétt til frelsis og þeir sem töldust „siðmenntaðir“.

Íslenska orðið hjálenda er aftur á móti þýðing á danska orðinu biland, en það var meðal annars notað til að lýsa eyjunum í Norður-Atlantshafi sem lutu danskri stjórn. Ekki er alveg ljóst hvenær hugtakið komst fyrst í almenna notkun og enn síður hvað það merkti nákvæmlega. Í danskri orðabók frá árinu 1920 er þessi skýring gefin á orðinu „biland“: það er „hluti af ríki sem stendur aðeins í lauslegu sambandi við móðurlandið (og að nokkru leyti utanvið þingleg eða réttarleg stjórnskipunarlög þess); í Danmörku oft [notað] um Færeyjar, Ísland og Grænland“ (Ordbog over det danske Sprog, 1920). Af heimildum má þó ráða að menn gerðu alls ekki skýran greinarmun á hugtökunum hjálenda og nýlenda (eða koloni og biland). Jón Sigurðsson nefndi þetta oft í sínum skrifum, en honum var mjög í mun að sýna fram á að Ísland væri hvorki nýlenda né hjálenda Dana, heldur frjálst sambandsland Danmerkur. Á einum stað bendir hann til dæmis á að þótt dönsk stjórnvöld hafi talið hjálendur og nýlendur ólík fyrirbæri, þá hafi þau kallað Ísland hjálendu og nýlendu á víxl, og iðulega flokkað nýlenduna Grænland með hjálendunum Íslandi og Færeyjum (sjá Jón Sigurðsson, „Um landsréttindi Íslands“, Ný félagsrit 16 (1856), bls. 82).

Jóni Sigurðssyni var mjög í mun að sýna fram á að Ísland væri hvorki nýlenda né hjálenda Dana, heldur frjálst sambandsland Danmerkur. Reykjavík eftir miðja 19. öld.

Þetta breytir því ekki að skýr greinarmunur var gerður á Færeyjum og Íslandi annars vegar og Grænlandi hins vegar í stjórnkerfi danska konungsríkisins. Á meðan konungur ríkti sem einvaldur í ríki sínu (frá 1660–1848) voru fyrri löndin tvö færð smátt og smátt inn í almennt skipulag ríkisins – Ísland varð eitt stiftamt og biskupsdæmi, sem síðan skiptist í þrjú svokölluð ömt, en Færeyjar eitt amt sem var sett undir Sjálandsbiskup og sjálenska stiftamtið.

Eftir að einveldið var lagt af árið 1848 og stjórnarskrá samþykkt fyrir konungsríkið var ætlunin að fella bæði Ísland og Færeyjar undir hina þingbundnu dönsku konungsstjórn, þannig að danska stjórnarskráin gilti þar og löndin sendu bæði fulltrúa á danska þingið. Þetta tókst með Færeyjar en Íslendingar neituðu algerlega að fallast á þá skipan og tókst smátt og smátt að ná öllum völdum í sínum málum eins og kunnugt er. Grænlandi var aftur á móti lengst af stjórnað á allt annan hátt og algerlega án þess að íbúarnir væru spurðir álits um sín mál. Til að byrja með var eyjunni að mestu stjórnað af dönskum kaupmönnum sem voru búsettir í svokölluðum verslunarnýlendum (da. handelskolonier), það er litlum verslunarþorpum við ströndina. Vald kaupmannanna náði almennt ekki út fyrir verslunarnýlendurnar og Grænlendingar voru því almennt ekki seldir undir dönsk lög eða danska stjórnsýslu. Í umræðum um danska stjórnarskrá á árunum 1848 til 1849 var aldrei nefnt að stjórnarskráin myndi ná til Grænlands eða að Grænlendingar fengju nokkur borgararéttindi í ríkinu. Þetta endurspeglaði fordóma Dana gagnvart Grænlendingum, sem voru kallaðir „náttúrufólk“ (da. naturfolk), en það taldist ófært um að taka þátt í stjórn eigin mála (það skal tekið fram að Íslendingar höfðu lengst af alveg sama álit á Grænlendingum, sem iðulega voru nefndir skrælingjar í íslenskum heimildum). Það var ekki fyrr en í kjölfar síðari heimsstyrjaldar, undir þrýstingi frá Sameinuðu þjóðunum, að Danir veittu Grænlendingum sama rétt í danska ríkinu og Færeyingar fengu árið 1850, það er Grænland varð eitt amt, íbúarnir urðu danskir ríkisborgarar og tveir grænlenskir þingmenn fengu sæti á danska þinginu.

Í síðari tíma fræðiumræðu hefur þessi munur á Færeyjum og Íslandi annars vegar og Grænlandi hins vegar verið skýrður með því að fyrri löndin tvö hafi verið hjálendur (bilande) en hið síðasta nýlenda (koloni). Hér er þó frekar um síðari tíma tilbúning að ræða en gamla venju og þessi aðgreining á sér takmarkaða stoð í sögulegum heimildum.

Myndir:

...