Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Af hverju er talað um græna herbergið í Evróvisjón?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Löng hefð er fyrir því á Englandi og í sumum öðrum enskumælandi löndum að kalla rýmið sem leikarar sitja stundum í og spjalla saman áður en þeir fara inn á svið græna herbergið (e. green room). Á meginlandi Evrópu ganga sams konar herbergi yfirleitt undir öðrum nöfnum. Í Frakklandi kallast þau foyer des artistes, í Þýskalandi Konversationszimmer, á Ítalíu sala degli artisti, á Spáni salón de artistas og í Hollandi artistenfoyer.

Í Iðnó, þar sem Leikfélag Reykjavíkur starfaði frá 1897 þangað til Borgarleikhúsið opnaði 1989, kallaðist sambærilegt rými almenningur.[1] Í Þjóðleikhúsinu er hins vegar talað um græna herbergið[2], væntanlega hefur sú venja orðið til með leikurum sem lærðu leiklist á Englandi. Á fimmtíu ára afmæli Þjóðleikhússins lýsti leikkonan Guðrún Þ. Stephensen því þegar hún lék Soffíu frænku í Kardimommubænum:

Eins og margir vita háttar þannig til baksviðs í Þjóðleikhúsinu að leikarar sitja oftast í svonefndri hornstofu eða “græna herberginu”, sem er rétt aftan við sviðsinngangana tvo og spjalla saman áður en að þeim kemur að fara inn á svið.[3]

Uppruna græna herbergisins er hægt að rekja aftur til enskra leikhúsa endurreisnartímans. Þar nefndist aðstaða leikara til að skipta um búninga tiring house.[4] Orðið tires var á þeim tíma haft um búninga og höfuðbúnað, samanber orðið attire. Rýmið sem notað var til búningaskipta var í mörgum tilvikum eins konar hús og áhorfendasalurinn byggður umhverfis það. Á búningahúsinu voru einar eða tvennar dyr að leiksviðiðinu og í húsinu klæddust eða skiptu leikarar um búninga áður en þeir fóru inn á sviðið. Á búningahúsunum gátu einnig verið svalir fyrir áhorfendur. Seinna meir varð orðið 'tiring room' eða búningaherbergi algengara, enda þá ekki alltaf um eiginlegt hús að ræða.

Eina varðveitta teikning samtímamanns af ensku endurreisnarleikhúsi. „Húsið“ sem sést fyrir miðri mynd er hið eiginlega 'tiring house'.

Ekki eru til heimildir sem staðfesta að tjöld hafi verið hengd upp í búningahúsum endurreisnartímans. Afar lítið er til dæmis vitað um elsta almenningsleikhúsið sem byggt var 1567 og nefndist Red Lion. Líklegt er þó talið að einhvern tíma hafi verið tekið upp á því að hengja tjöld á búningahúsin, annað hvort fyrir framan eða aftan dyrnar sem opnuðust inn á leiksviðið. Með tjöldum hefði verið hægt að koma í veg fyrir að áhorfendur sæju inn í búningahúsið, þegar gengið var inn og út af sviðinu, og eins gætu leikarar sem fyrir aftan voru gægst fram undan tjaldinu til að fylgjast með framvindu á sviðinu. Þessi tjöld gætu í einhverjum tilvikum hafa verið græn.[5]

Á tímabilinu sem nefnt er Restoration í Englandi og nær yfir árin 1660 til 1688 finnast elstu staðfestu heimildirnar um grænan lit á búningaherbergjum. Þann 10. desember 1662 var búningameistara í enska leikhúsinu Cockpit falið að þekja veggi efri búningaherbergis með grænu ullarefni með flókaáferð, ekki ósvipuðu því sem er á biljarðborðum. Ullardúkar af þessu tagi voru algengir í Englandi á 16. og 17. öld og bárust til Englands með flæmskum handverskmönnum. Þeir voru upprunalega kastaníubrúnir en síðan litaðir svartir, gráir, rauðir eða grænir og nýttir á ýmsa vegu í leikhúsum.

Teikning C. Walter Hodges (1909-2004) af 'tiring house' í ensku endurreisnarleihúsi með tjaldi fyrir.

Smám saman varð græna ullarefnið eitt af einkennum enskra leikhúsa. Þegar harmleikir voru settir á svið var grænn dúkur lagður á sviðið, til að vernda búninga leikaranna. Farið var að nota sama græna dúkinn í sviðstjöld og þegar áhorfendasæti komu til sögunnar voru þau grænbólstruð. Á átjándu öldinni var þessi litur orðinn svo ríkjandi að allt sviðið og önnur rými leikhúsanna voru einnig lögð græna ullardúknum. Sviðsmenn sem komu inn á sviðið þegar skipt var á milli atriði voru einnig grænklæddir.

Baksviðsherbergi leikara í enskum leikhúsum hafa kallast græn herbergi allt frá síðari hluta 17. aldar og ef til vill fyrr. Hugsanlega er skýringin sú að grænir ullardúkar hafi verið hengdir fyrir elstu búningahúsin eða þá að búningaherbergi sem seinna komu til sögunnar og voru þakin grænu efni hafi eðlilega verið kölluð græn herbergi.

Tilvísanir:
  1. ^ Munnleg heimild: Valgerður Dan Jónsdóttir.
  2. ^ Heimild: Ari Matthíasson.
  3. ^ Guðrún Þ. Stephensen leikkona látin - Færsla - Þjóðleikhúsið. (Sótt 12.02.2019).
  4. ^ Stundum einnig nefnt 'tiring room' á þessum tíma og enn frekar seinna í sögunni.
  5. ^ Frá árinu 1572 giltu lög í Englandi sem kváðu á um að hvert leikfélag hefði tiltekinn aðalsmann sem verndara eða styrktarmann. Leikarar gegndu því þjónustuhlutverki aðalsmanna og eitt af ytri táknum þess hlutverks var búningur í ákveðnum lit. Grænn var einn af þeim litum.

Heimildir og frekara lesefni:

Myndir:

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

1.3.2019

Spyrjandi

Þráinn Ásbjarnarson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju er talað um græna herbergið í Evróvisjón?“ Vísindavefurinn, 1. mars 2019. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77135.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2019, 1. mars). Af hverju er talað um græna herbergið í Evróvisjón? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77135

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju er talað um græna herbergið í Evróvisjón?“ Vísindavefurinn. 1. mar. 2019. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77135>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju er talað um græna herbergið í Evróvisjón?
Löng hefð er fyrir því á Englandi og í sumum öðrum enskumælandi löndum að kalla rýmið sem leikarar sitja stundum í og spjalla saman áður en þeir fara inn á svið græna herbergið (e. green room). Á meginlandi Evrópu ganga sams konar herbergi yfirleitt undir öðrum nöfnum. Í Frakklandi kallast þau foyer des artistes, í Þýskalandi Konversationszimmer, á Ítalíu sala degli artisti, á Spáni salón de artistas og í Hollandi artistenfoyer.

Í Iðnó, þar sem Leikfélag Reykjavíkur starfaði frá 1897 þangað til Borgarleikhúsið opnaði 1989, kallaðist sambærilegt rými almenningur.[1] Í Þjóðleikhúsinu er hins vegar talað um græna herbergið[2], væntanlega hefur sú venja orðið til með leikurum sem lærðu leiklist á Englandi. Á fimmtíu ára afmæli Þjóðleikhússins lýsti leikkonan Guðrún Þ. Stephensen því þegar hún lék Soffíu frænku í Kardimommubænum:

Eins og margir vita háttar þannig til baksviðs í Þjóðleikhúsinu að leikarar sitja oftast í svonefndri hornstofu eða “græna herberginu”, sem er rétt aftan við sviðsinngangana tvo og spjalla saman áður en að þeim kemur að fara inn á svið.[3]

Uppruna græna herbergisins er hægt að rekja aftur til enskra leikhúsa endurreisnartímans. Þar nefndist aðstaða leikara til að skipta um búninga tiring house.[4] Orðið tires var á þeim tíma haft um búninga og höfuðbúnað, samanber orðið attire. Rýmið sem notað var til búningaskipta var í mörgum tilvikum eins konar hús og áhorfendasalurinn byggður umhverfis það. Á búningahúsinu voru einar eða tvennar dyr að leiksviðiðinu og í húsinu klæddust eða skiptu leikarar um búninga áður en þeir fóru inn á sviðið. Á búningahúsunum gátu einnig verið svalir fyrir áhorfendur. Seinna meir varð orðið 'tiring room' eða búningaherbergi algengara, enda þá ekki alltaf um eiginlegt hús að ræða.

Eina varðveitta teikning samtímamanns af ensku endurreisnarleikhúsi. „Húsið“ sem sést fyrir miðri mynd er hið eiginlega 'tiring house'.

Ekki eru til heimildir sem staðfesta að tjöld hafi verið hengd upp í búningahúsum endurreisnartímans. Afar lítið er til dæmis vitað um elsta almenningsleikhúsið sem byggt var 1567 og nefndist Red Lion. Líklegt er þó talið að einhvern tíma hafi verið tekið upp á því að hengja tjöld á búningahúsin, annað hvort fyrir framan eða aftan dyrnar sem opnuðust inn á leiksviðið. Með tjöldum hefði verið hægt að koma í veg fyrir að áhorfendur sæju inn í búningahúsið, þegar gengið var inn og út af sviðinu, og eins gætu leikarar sem fyrir aftan voru gægst fram undan tjaldinu til að fylgjast með framvindu á sviðinu. Þessi tjöld gætu í einhverjum tilvikum hafa verið græn.[5]

Á tímabilinu sem nefnt er Restoration í Englandi og nær yfir árin 1660 til 1688 finnast elstu staðfestu heimildirnar um grænan lit á búningaherbergjum. Þann 10. desember 1662 var búningameistara í enska leikhúsinu Cockpit falið að þekja veggi efri búningaherbergis með grænu ullarefni með flókaáferð, ekki ósvipuðu því sem er á biljarðborðum. Ullardúkar af þessu tagi voru algengir í Englandi á 16. og 17. öld og bárust til Englands með flæmskum handverskmönnum. Þeir voru upprunalega kastaníubrúnir en síðan litaðir svartir, gráir, rauðir eða grænir og nýttir á ýmsa vegu í leikhúsum.

Teikning C. Walter Hodges (1909-2004) af 'tiring house' í ensku endurreisnarleihúsi með tjaldi fyrir.

Smám saman varð græna ullarefnið eitt af einkennum enskra leikhúsa. Þegar harmleikir voru settir á svið var grænn dúkur lagður á sviðið, til að vernda búninga leikaranna. Farið var að nota sama græna dúkinn í sviðstjöld og þegar áhorfendasæti komu til sögunnar voru þau grænbólstruð. Á átjándu öldinni var þessi litur orðinn svo ríkjandi að allt sviðið og önnur rými leikhúsanna voru einnig lögð græna ullardúknum. Sviðsmenn sem komu inn á sviðið þegar skipt var á milli atriði voru einnig grænklæddir.

Baksviðsherbergi leikara í enskum leikhúsum hafa kallast græn herbergi allt frá síðari hluta 17. aldar og ef til vill fyrr. Hugsanlega er skýringin sú að grænir ullardúkar hafi verið hengdir fyrir elstu búningahúsin eða þá að búningaherbergi sem seinna komu til sögunnar og voru þakin grænu efni hafi eðlilega verið kölluð græn herbergi.

Tilvísanir:
  1. ^ Munnleg heimild: Valgerður Dan Jónsdóttir.
  2. ^ Heimild: Ari Matthíasson.
  3. ^ Guðrún Þ. Stephensen leikkona látin - Færsla - Þjóðleikhúsið. (Sótt 12.02.2019).
  4. ^ Stundum einnig nefnt 'tiring room' á þessum tíma og enn frekar seinna í sögunni.
  5. ^ Frá árinu 1572 giltu lög í Englandi sem kváðu á um að hvert leikfélag hefði tiltekinn aðalsmann sem verndara eða styrktarmann. Leikarar gegndu því þjónustuhlutverki aðalsmanna og eitt af ytri táknum þess hlutverks var búningur í ákveðnum lit. Grænn var einn af þeim litum.

Heimildir og frekara lesefni:

Myndir:

...