Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Er hægt að rannsaka hvort maður er með ofnæmi fyrir aukefnum í mat?

Davíð Gíslason

Svonefnt aukefnaóþol fyrir íblöndunarefnum í matvælum hefur lengi verið ágreiningsefni meðal lækna. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var mikið skrifað um óþol fyrir þessum efnum, en þegar tvíblind þolpróf voru gerð fyrir einstökum aukefnum var niðurstaðan sú að innan við 1% af fólki væri með aukefnaóþol. Talan var þó töluvert hærri fyrir astmasjúklinga og þá sem voru með langvinnan ofsakláða. Eðli aukefnaóþols er óþekkt og því er ekki hægt að fullyrða að þolpróf nái að greina alla sem hafa þetta heilkenni. Einkennin geta tekið miklu lengri tíma að koma fram en svo að þolpróf nái að greina þau. Svo er ekki heldur hægt að útiloka að það þurfi fleiri en eitt aukefni til að valda einkennum.

Aukefni í matvælum hafa þekkst í þúsundir ára, og líklega er salt og brennisteinn elstu íblöndunarefni. Þeirra er getið í fyrstu Mósebók þótt í öðru samhengi sé. Í Evrópu eru aukefni merkt með svo kölluð E-númerum. Þeim er skipt upp í nokkra flokka. Óþol hefur einkum verið tengt rotvarnarefnum (bensósýrusamböndum, brennisteinssöltum og saltpétri), nokkrum litarefnum (tartrasíni og erýtrósíni), þráavarnarefnum (bútýlhydroxíanisól og bútýlhydroxítólúen), og einnatríum glútamati (MSG). Einstök bindiefni, svonefnd alginöt og gúmmísambönd, geta valdið bráðaofnæmi. Rauða litarefnið karmín, sem unnið er úr bjöllunni Dactylopius coccus, og guli liturinn anattó geta einnig valdið ofnæmi. Líklega er karmín best þekkt af drykknum Campari.

Drykkurinn Campari inniheldur rauða litarefnið karmín sem unnið er úr bjöllunni Dactylopius coccus. Það getur valdið ofnæmi.

Brennisteinssölt (súlfíð: E 220–227) hafa verið notuð í þúsundir ára til að koma í veg fyrir mygluskemmdir í vínum, en á áttunda áratug síðustu aldar var algengt að úða salatbari með súlfíðum til að halda fersku útliti þeirra. Þetta olli alvarlegum ofnæmiseinkennum í sumum tilfellum og 6 dauðsföll hafa verið skráð.[1] Bensóöt (E 210–219) koma eðlilega fyrir í sumu grænmeti og berjum en í litlu magni. Bensóötum eru bætt í ýmsar drykkjarvörur og baksturvörur til að auka geymsluþol. Saltpétur (E 250-252) kemur oftast fyrir í unnum kjötvörum og ostum.

Hér verður ekki farið nánar út í þau einkenni sem einstaka aukefni eiga að geta valdið, enda skoðanir um það skiptar meðal fræðimanna. Aukefnin eru talin geta valdið einkennum frá húð (kláða, roða og útbrotum), frá meltingarfærum (ógleði, uppköstum, verkjum og niðurgangi), frá öndunarfærum (astma, hósta og nefbólgum), frá stoðkerfi (vöðvaverkjum, liðverkjum, þreytu og slappleika) og frá miðtaugakerfi (höfuðverk, einbeitingarskorti og sumir nefna ADHD). Einnig valda þau bjúgsöfnun.

E-númer eru oft notuð til að auðkenna aukefni í matvælum. Litarefni í matvælum hafa númer á bilinu 100-199.

Þar sem einkenni af aukefnum eru sjaldnast til komin fyrir atbeina ónæmiskerfisins þá eru húðpróf og blóðrannsóknir eins og lýst er í svari við spurningunni Hvernig fer ofnæmispróf fram? gagnslaus til að greina óþolið. Algengi aukefnaóþols er ekki þekkt, en hefur eins og áður segir verið talið vel innan við 1% þegar mið er tekið af þolprófum.

Höfundur þessa svars hefur lengi reynt að nálgast þetta vandamál með öðrum hætti. Þá er sjúklingurinn látinn halda dagbók í 12 daga á sínu venjulega fæði. Hann skráir öll einkenni og gefur þeim stig frá 0-3. Síðan er hann á aukefnasnauðu fæði í aðra 12 daga og heldur skráningunni áfram á sama hátt. Svo er borinn saman fjölda þeirra stiga sem hann fær seinni 6 dagana á aukefnasnauðu fæði og helmingur þeirra stiga sem hann fékk á venjulegu fæði í 12 daga. Ef stigin eru helmingi færri síðustu sex dagana má gera ráð fyrir því að hann hafi aukefnaóþol.

EinkenniÁ venjulegu
fæði í 12 daga
Á aukefnasnauðu
fæði í 12 daga
Hósti
15
6
Mæði
0
0
Surgur
0
0
Nefrennsli
10
4
Hnerrar
4
4
Nefstífla
11
6
Verkir í maga
12
0
Uppþemba
11
0
Höfuðverkur
10
4
Liðverkir
16
2
Þreyta
15
0
Vöðvaverkir
11
0
Bjúgur
11
0

Tafla 1. Stig einkenna á venjulegu fæði og aukefnasnauðu fæði.

Árangur af aukefnasnauðu fæði er auðvitað misgóður, en stundum skiptir slíkt fæði sköpum um líðan sjúklingsins. Í töflu hér fyrir ofan sést dæmi um slíkan árangur hjá 30 ára konu með margbrotna sjúkrasögu. Á venjulegu fæði gefa einkennin 126 stig á 12 dögum, og einkenni eru mikil frá nefi, meltingarvegi og frá stoðkerfi. Á aukefnasnauðu fæði gefa einkennin 26 stig á 12 dögum. Á mynd hér fyrir neðan er einkennunum skipt í fyrri 6 dagana og seinni 6 dagana á aukefnasnauðu fæði. Fyrri 6 dagarnir gefa 22 stig en seinni 6 dagarnir 4 stig. Það má heita að öll einkenni séu horfin eftir 6 daga nema væg einkenni frá nefi. Þetta sýnir að einkenni lagast stundum hægt á aukefnasnauðu fæði, og það er ekki við því að búast að venjuleg þolpróf geti greint þannig óþol.

Einkenni á aukefnasnauðu fæði.

Tilvísun:
  1. ^ Isabel J. Skypala, M. Williams, L. Reeves, R. Meyer og C. Venter.Sensitivity to food additives, vaso-active amines and salicylates: a review of the evidence. Clin Transl Allergy. 2015; 5: 34.

Myndir:

Höfundur

Davíð Gíslason

sérfræðingur í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum

Útgáfudagur

8.4.2019

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Davíð Gíslason. „Er hægt að rannsaka hvort maður er með ofnæmi fyrir aukefnum í mat?“ Vísindavefurinn, 8. apríl 2019. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77281.

Davíð Gíslason. (2019, 8. apríl). Er hægt að rannsaka hvort maður er með ofnæmi fyrir aukefnum í mat? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77281

Davíð Gíslason. „Er hægt að rannsaka hvort maður er með ofnæmi fyrir aukefnum í mat?“ Vísindavefurinn. 8. apr. 2019. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77281>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hægt að rannsaka hvort maður er með ofnæmi fyrir aukefnum í mat?
Svonefnt aukefnaóþol fyrir íblöndunarefnum í matvælum hefur lengi verið ágreiningsefni meðal lækna. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var mikið skrifað um óþol fyrir þessum efnum, en þegar tvíblind þolpróf voru gerð fyrir einstökum aukefnum var niðurstaðan sú að innan við 1% af fólki væri með aukefnaóþol. Talan var þó töluvert hærri fyrir astmasjúklinga og þá sem voru með langvinnan ofsakláða. Eðli aukefnaóþols er óþekkt og því er ekki hægt að fullyrða að þolpróf nái að greina alla sem hafa þetta heilkenni. Einkennin geta tekið miklu lengri tíma að koma fram en svo að þolpróf nái að greina þau. Svo er ekki heldur hægt að útiloka að það þurfi fleiri en eitt aukefni til að valda einkennum.

Aukefni í matvælum hafa þekkst í þúsundir ára, og líklega er salt og brennisteinn elstu íblöndunarefni. Þeirra er getið í fyrstu Mósebók þótt í öðru samhengi sé. Í Evrópu eru aukefni merkt með svo kölluð E-númerum. Þeim er skipt upp í nokkra flokka. Óþol hefur einkum verið tengt rotvarnarefnum (bensósýrusamböndum, brennisteinssöltum og saltpétri), nokkrum litarefnum (tartrasíni og erýtrósíni), þráavarnarefnum (bútýlhydroxíanisól og bútýlhydroxítólúen), og einnatríum glútamati (MSG). Einstök bindiefni, svonefnd alginöt og gúmmísambönd, geta valdið bráðaofnæmi. Rauða litarefnið karmín, sem unnið er úr bjöllunni Dactylopius coccus, og guli liturinn anattó geta einnig valdið ofnæmi. Líklega er karmín best þekkt af drykknum Campari.

Drykkurinn Campari inniheldur rauða litarefnið karmín sem unnið er úr bjöllunni Dactylopius coccus. Það getur valdið ofnæmi.

Brennisteinssölt (súlfíð: E 220–227) hafa verið notuð í þúsundir ára til að koma í veg fyrir mygluskemmdir í vínum, en á áttunda áratug síðustu aldar var algengt að úða salatbari með súlfíðum til að halda fersku útliti þeirra. Þetta olli alvarlegum ofnæmiseinkennum í sumum tilfellum og 6 dauðsföll hafa verið skráð.[1] Bensóöt (E 210–219) koma eðlilega fyrir í sumu grænmeti og berjum en í litlu magni. Bensóötum eru bætt í ýmsar drykkjarvörur og baksturvörur til að auka geymsluþol. Saltpétur (E 250-252) kemur oftast fyrir í unnum kjötvörum og ostum.

Hér verður ekki farið nánar út í þau einkenni sem einstaka aukefni eiga að geta valdið, enda skoðanir um það skiptar meðal fræðimanna. Aukefnin eru talin geta valdið einkennum frá húð (kláða, roða og útbrotum), frá meltingarfærum (ógleði, uppköstum, verkjum og niðurgangi), frá öndunarfærum (astma, hósta og nefbólgum), frá stoðkerfi (vöðvaverkjum, liðverkjum, þreytu og slappleika) og frá miðtaugakerfi (höfuðverk, einbeitingarskorti og sumir nefna ADHD). Einnig valda þau bjúgsöfnun.

E-númer eru oft notuð til að auðkenna aukefni í matvælum. Litarefni í matvælum hafa númer á bilinu 100-199.

Þar sem einkenni af aukefnum eru sjaldnast til komin fyrir atbeina ónæmiskerfisins þá eru húðpróf og blóðrannsóknir eins og lýst er í svari við spurningunni Hvernig fer ofnæmispróf fram? gagnslaus til að greina óþolið. Algengi aukefnaóþols er ekki þekkt, en hefur eins og áður segir verið talið vel innan við 1% þegar mið er tekið af þolprófum.

Höfundur þessa svars hefur lengi reynt að nálgast þetta vandamál með öðrum hætti. Þá er sjúklingurinn látinn halda dagbók í 12 daga á sínu venjulega fæði. Hann skráir öll einkenni og gefur þeim stig frá 0-3. Síðan er hann á aukefnasnauðu fæði í aðra 12 daga og heldur skráningunni áfram á sama hátt. Svo er borinn saman fjölda þeirra stiga sem hann fær seinni 6 dagana á aukefnasnauðu fæði og helmingur þeirra stiga sem hann fékk á venjulegu fæði í 12 daga. Ef stigin eru helmingi færri síðustu sex dagana má gera ráð fyrir því að hann hafi aukefnaóþol.

EinkenniÁ venjulegu
fæði í 12 daga
Á aukefnasnauðu
fæði í 12 daga
Hósti
15
6
Mæði
0
0
Surgur
0
0
Nefrennsli
10
4
Hnerrar
4
4
Nefstífla
11
6
Verkir í maga
12
0
Uppþemba
11
0
Höfuðverkur
10
4
Liðverkir
16
2
Þreyta
15
0
Vöðvaverkir
11
0
Bjúgur
11
0

Tafla 1. Stig einkenna á venjulegu fæði og aukefnasnauðu fæði.

Árangur af aukefnasnauðu fæði er auðvitað misgóður, en stundum skiptir slíkt fæði sköpum um líðan sjúklingsins. Í töflu hér fyrir ofan sést dæmi um slíkan árangur hjá 30 ára konu með margbrotna sjúkrasögu. Á venjulegu fæði gefa einkennin 126 stig á 12 dögum, og einkenni eru mikil frá nefi, meltingarvegi og frá stoðkerfi. Á aukefnasnauðu fæði gefa einkennin 26 stig á 12 dögum. Á mynd hér fyrir neðan er einkennunum skipt í fyrri 6 dagana og seinni 6 dagana á aukefnasnauðu fæði. Fyrri 6 dagarnir gefa 22 stig en seinni 6 dagarnir 4 stig. Það má heita að öll einkenni séu horfin eftir 6 daga nema væg einkenni frá nefi. Þetta sýnir að einkenni lagast stundum hægt á aukefnasnauðu fæði, og það er ekki við því að búast að venjuleg þolpróf geti greint þannig óþol.

Einkenni á aukefnasnauðu fæði.

Tilvísun:
  1. ^ Isabel J. Skypala, M. Williams, L. Reeves, R. Meyer og C. Venter.Sensitivity to food additives, vaso-active amines and salicylates: a review of the evidence. Clin Transl Allergy. 2015; 5: 34.

Myndir:

...