Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík
1944

Af hverju var lýðveldi stofnað á Íslandi og hver stofnaði það?

Stefanía Óskarsdóttir

Lýðveldi þýðir að þjóðhöfðingi ríkis erfir ekki embættið heldur er kjörinn. Stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944 markaði endalok sambands Danmerkur og Íslands sem staðið hafði í aldir. Smá saman höfðu Íslendingar þó fengið aukið sjálfstæði. Fyrst fengum við löggjafarvald í séríslenskum málum (1874), heimastjórn (1904) og loks fullveldi 1918. Fullveldisviðurkenningin fól í sér að Ísland varð sjálfstætt ríki.

Samkvæmt sambandslagasamningnum, sem veitti Íslandi fullveldi, voru Ísland og Danmörk tvö sjálfstæð ríki með eigin þing og ríkisstjórn. Þau höfðu þó sameiginlegan konung sem á þessum tíma var orðinn valdalítill. Það varð fljótlega ljóst að vilji var til þess á Íslandi að segja upp sambandslagasamningunum um leið og hægt væri (eftir 1943) og þar með konungssambandinu við Danmörk. Þann vilja mátti annars vega rekja til löngunar til að ráða að fullu yfir eigin landi og stjórn og hins vegar til stuðnings nútímahugmynda um lýðræði. Samkvæmt slíkum hugmyndum skal allt ríkisvald eiga uppruna sinn hjá almenningi.

Dönsk - íslensk sambandslög 1918. Árið 1941 samþykkti Alþingi að segja upp sambandslagasamningnum og stefna að stofnun lýðveldis.

Árið 1928 samþykkti Alþingi að stefna að uppsögn sambandslagasamningsins. Í kjölfar hernáms Þjóðverja á Danmörku í apríl ákvað Alþingi að taka konungsvaldið til sín í ljósi breyttra aðstæðna vegna hernámsins. Ári síðar (17. maí 1941) samþykkti Alþingi svo að segja upp sambandslagasamningnum og stefna að stofnun lýðveldis.

Það var Alþingi, með samþykki kjósenda, sem stóð að stofnun lýðveldisins. Eftir að samþykkt hafði verið að segja upp sambandslagasamningunum þurfti að breyta stjórnarskránni og einnig að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn sambandslagasamningsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um uppsögn samningsins og breytingar á stjórnarskrá var haldin í maí 1944. Kosningaþátttaka var gífurlega mikil (98,4%) og nær allir kjósendur studdu bæði stofnun lýðveldis og uppsögn sambandslagasamningsins.

Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland tók gildi 17. júní 1944. Þann dag var lýðveldið formlega stofnað á Þingvöllum. Fyrsti forseti lýðveldisins var Sveinn Björnsson sem var kjörinn af Alþingi. Sveinn var sjálfkjörinn fjórum árum síðar. Fyrstu almennu forsetakosningarnar voru svo haldnar árið 1952. Þá var Ásgeir Ásgeirsson kosinn forseti. Næstur til að verða forseti var Kristján Eldjárn (1968-1980), þá Vigdís Finnbogadóttir (1980-1996), svo Ólafur Ragnar Grímsson (1996-2016) og loks Guðni Th. Jóhannesson (frá 2016). Forseti Íslands kemur ekki að daglegri stjórn ríkisins og er fremur valdalítill. Embættið er engu að síður mikilvægt í táknrænum skilningi. Það minnir á sjálfstæði landsins og sameinar landsmenn.

Mynd:

Höfundur

Stefanía Óskarsdóttir

prófessor í stjórnmálafræðideild við HÍ

Útgáfudagur

26.6.2019

Spyrjandi

Nemendur í Grunnskóla Bolungarvíkur, Steinunn Svanhildur

Tilvísun

Stefanía Óskarsdóttir. „Af hverju var lýðveldi stofnað á Íslandi og hver stofnaði það?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2019. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77585.

Stefanía Óskarsdóttir. (2019, 26. júní). Af hverju var lýðveldi stofnað á Íslandi og hver stofnaði það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77585

Stefanía Óskarsdóttir. „Af hverju var lýðveldi stofnað á Íslandi og hver stofnaði það?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2019. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77585>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju var lýðveldi stofnað á Íslandi og hver stofnaði það?
Lýðveldi þýðir að þjóðhöfðingi ríkis erfir ekki embættið heldur er kjörinn. Stofnun lýðveldis á Íslandi árið 1944 markaði endalok sambands Danmerkur og Íslands sem staðið hafði í aldir. Smá saman höfðu Íslendingar þó fengið aukið sjálfstæði. Fyrst fengum við löggjafarvald í séríslenskum málum (1874), heimastjórn (1904) og loks fullveldi 1918. Fullveldisviðurkenningin fól í sér að Ísland varð sjálfstætt ríki.

Samkvæmt sambandslagasamningnum, sem veitti Íslandi fullveldi, voru Ísland og Danmörk tvö sjálfstæð ríki með eigin þing og ríkisstjórn. Þau höfðu þó sameiginlegan konung sem á þessum tíma var orðinn valdalítill. Það varð fljótlega ljóst að vilji var til þess á Íslandi að segja upp sambandslagasamningunum um leið og hægt væri (eftir 1943) og þar með konungssambandinu við Danmörk. Þann vilja mátti annars vega rekja til löngunar til að ráða að fullu yfir eigin landi og stjórn og hins vegar til stuðnings nútímahugmynda um lýðræði. Samkvæmt slíkum hugmyndum skal allt ríkisvald eiga uppruna sinn hjá almenningi.

Dönsk - íslensk sambandslög 1918. Árið 1941 samþykkti Alþingi að segja upp sambandslagasamningnum og stefna að stofnun lýðveldis.

Árið 1928 samþykkti Alþingi að stefna að uppsögn sambandslagasamningsins. Í kjölfar hernáms Þjóðverja á Danmörku í apríl ákvað Alþingi að taka konungsvaldið til sín í ljósi breyttra aðstæðna vegna hernámsins. Ári síðar (17. maí 1941) samþykkti Alþingi svo að segja upp sambandslagasamningnum og stefna að stofnun lýðveldis.

Það var Alþingi, með samþykki kjósenda, sem stóð að stofnun lýðveldisins. Eftir að samþykkt hafði verið að segja upp sambandslagasamningunum þurfti að breyta stjórnarskránni og einnig að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn sambandslagasamningsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla um uppsögn samningsins og breytingar á stjórnarskrá var haldin í maí 1944. Kosningaþátttaka var gífurlega mikil (98,4%) og nær allir kjósendur studdu bæði stofnun lýðveldis og uppsögn sambandslagasamningsins.

Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland tók gildi 17. júní 1944. Þann dag var lýðveldið formlega stofnað á Þingvöllum. Fyrsti forseti lýðveldisins var Sveinn Björnsson sem var kjörinn af Alþingi. Sveinn var sjálfkjörinn fjórum árum síðar. Fyrstu almennu forsetakosningarnar voru svo haldnar árið 1952. Þá var Ásgeir Ásgeirsson kosinn forseti. Næstur til að verða forseti var Kristján Eldjárn (1968-1980), þá Vigdís Finnbogadóttir (1980-1996), svo Ólafur Ragnar Grímsson (1996-2016) og loks Guðni Th. Jóhannesson (frá 2016). Forseti Íslands kemur ekki að daglegri stjórn ríkisins og er fremur valdalítill. Embættið er engu að síður mikilvægt í táknrænum skilningi. Það minnir á sjálfstæði landsins og sameinar landsmenn.

Mynd:...