Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvers konar veira veldur COVID-19 og hvað er vitað um hana?

Landlæknisembættið

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína, þá af óþekktum orsökum. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða. Veiran var fyrst nefnt 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hefur hún nú hlotið nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast nú COVID-19. Veiran er ekki eins skæð og SARS eða MERS kórónaveirur sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi og þessi faraldur hefur nú þegar haft mun meiri áhrif á heimsvísu en SARS faraldurinn hafði.

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (meðal annars fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru voru MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS sem barst frá Kína á árunum 2002–2003. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.

Kóraónaveiran SARS-CoV-2 kom fyrst upp í Wuhan, höfuðborg Hubei-héraðs í Kína.

Upptök veirunnar eru ekki kunn en vitað er að mögnun átti sér stað á votmarkaði í borginni Wuhan í Kína, þar sem verslun með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra fór fram. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega með annan, óþekktan, millihýsil áður en smit barst í menn og loks manna á milli.

Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og ekki er vitað um nein veirulyf sem hafa veruleg áhrif á sjúkdómsgang við COVID-19. Ýmis lyf hafa verið rannsökuð í Kína á undanförnum vikum og er niðurstöðu beðið með eftirvæntingu um allan heim. Ekki er heldur þekkt nein sértæk meðferð við sjúkdómnum og beinist meðferð því enn sem komið er að því að sinna grunnþörfum og einkennum eftir ástandi sjúklings.

Einkenni COVID-19 líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og svo framvegis. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en þó þekkt, líkt og við inflúensu og MERS. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

Rafeindasmásjármynd af kórónaveiruafbrigðinu SARS-Cov-2. Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum.

COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu. Ekki hefur verið staðfest að fólk geti verið smitandi áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.

Nánir aðstandendur einstaklinga sem hafa veikst af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægasta vörn þessara hópa gegn smiti.

Enn er ekki búið að skilgreina nákvæmlega áhættuhópa með tilliti til alvarlegrar sýkingar. Flestir sem létust á fyrstu vikum faraldursins voru aldraðir og með undirliggjandi vandamál svo sem hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki, háþrýsting eða lifrarsjúkdóma. Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (svo sem sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu. Lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna en upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er.

Myndir:

Þetta svar svar er fengið af vef Embættis landlæknis og birt með góðfúslegu leyfi.

Spurningu Kristófers er svarað að hluta.

Höfundur

Landlæknisembættið

embætti landlæknis

Útgáfudagur

30.1.2020

Spyrjandi

Arnar Elvarsson, Kristófer Þ.

Tilvísun

Landlæknisembættið. „Hvers konar veira veldur COVID-19 og hvað er vitað um hana?“ Vísindavefurinn, 30. janúar 2020. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78555.

Landlæknisembættið. (2020, 30. janúar). Hvers konar veira veldur COVID-19 og hvað er vitað um hana? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78555

Landlæknisembættið. „Hvers konar veira veldur COVID-19 og hvað er vitað um hana?“ Vísindavefurinn. 30. jan. 2020. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78555>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar veira veldur COVID-19 og hvað er vitað um hana?
Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína, þá af óþekktum orsökum. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða. Veiran var fyrst nefnt 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hefur hún nú hlotið nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast nú COVID-19. Veiran er ekki eins skæð og SARS eða MERS kórónaveirur sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi og þessi faraldur hefur nú þegar haft mun meiri áhrif á heimsvísu en SARS faraldurinn hafði.

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (meðal annars fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru voru MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS sem barst frá Kína á árunum 2002–2003. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.

Kóraónaveiran SARS-CoV-2 kom fyrst upp í Wuhan, höfuðborg Hubei-héraðs í Kína.

Upptök veirunnar eru ekki kunn en vitað er að mögnun átti sér stað á votmarkaði í borginni Wuhan í Kína, þar sem verslun með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra fór fram. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega með annan, óþekktan, millihýsil áður en smit barst í menn og loks manna á milli.

Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og ekki er vitað um nein veirulyf sem hafa veruleg áhrif á sjúkdómsgang við COVID-19. Ýmis lyf hafa verið rannsökuð í Kína á undanförnum vikum og er niðurstöðu beðið með eftirvæntingu um allan heim. Ekki er heldur þekkt nein sértæk meðferð við sjúkdómnum og beinist meðferð því enn sem komið er að því að sinna grunnþörfum og einkennum eftir ástandi sjúklings.

Einkenni COVID-19 líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta og svo framvegis. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en þó þekkt, líkt og við inflúensu og MERS. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

Rafeindasmásjármynd af kórónaveiruafbrigðinu SARS-Cov-2. Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum.

COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu. Ekki hefur verið staðfest að fólk geti verið smitandi áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.

Nánir aðstandendur einstaklinga sem hafa veikst af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægasta vörn þessara hópa gegn smiti.

Enn er ekki búið að skilgreina nákvæmlega áhættuhópa með tilliti til alvarlegrar sýkingar. Flestir sem létust á fyrstu vikum faraldursins voru aldraðir og með undirliggjandi vandamál svo sem hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki, háþrýsting eða lifrarsjúkdóma. Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (svo sem sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu. Lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna en upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er.

Myndir:

Þetta svar svar er fengið af vef Embættis landlæknis og birt með góðfúslegu leyfi.

Spurningu Kristófers er svarað að hluta....