Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað er „meme“ og er til íslenskt orð yfir það?

Ágústa Þorbergsdóttir

Breski líffræðingurinn Richard Dawkins kom fram með hugtakið meme í bók sinni The Selfish Gene sem kom út árið 1976 og fjallar um hópa, erfðir og náttúruval.

Dawkins myndaði orðið meme með því að fella saman enska orðið gene og gríska orðið mimeme (μίμημα „það sem hermt er eftir“). Meme, sem er borið fram „mím“ [miːm] á ensku, rímar því við enska orðið gene [dʒiːn] og á hugtakið að merkja eins konar menningarlega hliðstæðu gena. Á viðlíkan hátt og gen afritast frá foreldrum til afkvæma eru meme menningarleg gen eða stef sem eru höfð eftir og afrituð með tilbrigðum og þróast. Fyrir tilstilli meme verður til menningarlegt mynstur eða hegðunarmynstur sem berst á milli manna innan menningarsvæðis.

Áður fyrr dreifðust meme yfirleitt innan staðbundinna menningarheima eða samfélagshópa. Segja má að eins konar straumhvörf hafi orðið á meme með tilkomu Internetsins. Með alþjóðlegu samfélagi urðu til nýir möguleikar og meme gátu farið um allan heim. Meme varð þekkt hugtak meðal almennings en segja má að merkingin hafi jafnframt þrengst á síðari árum. Í hugum margra er meme einkum brandarar, myndir eða myndbönd sem fljúga um netheima og er deilt áfram en í raun getur meme verið hvað það sem er hægt að herma eftir og þarf ekki endilega að vera fyndið.

Breski líffræðingurinn Richard Dawkins kom fram með hugtakið meme árið 1976. Á ensku rímar það við orðið gene. Meme eru menningarleg gen eða stef sem eru höfð eftir og afrituð með tilbrigðum og þróast. Á myndinni sést meme með Dawkins.

Þegar talað er um meme á íslensku virðist algengast að notaður sé enski framburðurinn „mím“. Meme virðist ekki enn hafa náð að aðlagast íslensku sem tökuorð og ritháttur og beyging er á reiki. Orðið er ýmist ritað með enskum (meme) eða íslenskum rithætti (mím) og virðist ýmist vera notað sem hvorugkynsorð eða karlkynsorð.

Algengasta íslenska þýðingin á meme er „jarm“. Skýringin er sú að ef orðið meme er lesið með íslenskum framburði væri það me-me sem jafnframt er haft er um hljóð í sauðfé. Um er að ræða eins konar orðaleik en tengingin við sauðfé og jarm fyrirfinnst vissulega ekki í hugtakinu meme. Þó má ef til vill segja að í jarmi kinda sé endurtekning og þegar hermt er eftir með smá tilbrigðum og endurtekið ótal sinnum geti það minnt á hjörð kinda jarma í kór.

Fleiri tillögur hafa komið fram, svo sem farandbrandari[1] en gallinn er sá að meme þarf ekki endilega að vera fyndið. Önnur tillaga er fluga[2], samanber „að fá flugu í höfuðið“. Hvorug þessara tillagna hafa náð fótfestu en á Internetinu má finna fjölmörg dæmi um þýðinguna jarm og fleirtölumyndina jörm.

Þegar þetta er skrifað er ekki unnt að svara því ótvírætt hvert er íslenska orðið fyrir meme. Hugsanlega mun jarm fá nýja merkingu til viðbótar hinni gömlu og tökuorðið meme mun ef til vill aðlagast og fá ákveðna beygingu og rithátt í íslensku máli. Tíminn mun leiða það í ljós.

Tilvísanir:
  1. ^ Um eðli farandbrandarans — Sýsifos. (Sótt 25.02.2020).
  2. ^ Íslensk míms : Iceland. (Sótt 25.02.2020).

Heimildir:

Mynd:

Höfundur

Ágústa Þorbergsdóttir

deildarstjóri á málræktarsviði hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

6.3.2020

Spyrjandi

Brynjar Páll Jóhannesson

Tilvísun

Ágústa Þorbergsdóttir. „Hvað er „meme“ og er til íslenskt orð yfir það?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2020. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78781.

Ágústa Þorbergsdóttir. (2020, 6. mars). Hvað er „meme“ og er til íslenskt orð yfir það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78781

Ágústa Þorbergsdóttir. „Hvað er „meme“ og er til íslenskt orð yfir það?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2020. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78781>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er „meme“ og er til íslenskt orð yfir það?

Breski líffræðingurinn Richard Dawkins kom fram með hugtakið meme í bók sinni The Selfish Gene sem kom út árið 1976 og fjallar um hópa, erfðir og náttúruval.

Dawkins myndaði orðið meme með því að fella saman enska orðið gene og gríska orðið mimeme (μίμημα „það sem hermt er eftir“). Meme, sem er borið fram „mím“ [miːm] á ensku, rímar því við enska orðið gene [dʒiːn] og á hugtakið að merkja eins konar menningarlega hliðstæðu gena. Á viðlíkan hátt og gen afritast frá foreldrum til afkvæma eru meme menningarleg gen eða stef sem eru höfð eftir og afrituð með tilbrigðum og þróast. Fyrir tilstilli meme verður til menningarlegt mynstur eða hegðunarmynstur sem berst á milli manna innan menningarsvæðis.

Áður fyrr dreifðust meme yfirleitt innan staðbundinna menningarheima eða samfélagshópa. Segja má að eins konar straumhvörf hafi orðið á meme með tilkomu Internetsins. Með alþjóðlegu samfélagi urðu til nýir möguleikar og meme gátu farið um allan heim. Meme varð þekkt hugtak meðal almennings en segja má að merkingin hafi jafnframt þrengst á síðari árum. Í hugum margra er meme einkum brandarar, myndir eða myndbönd sem fljúga um netheima og er deilt áfram en í raun getur meme verið hvað það sem er hægt að herma eftir og þarf ekki endilega að vera fyndið.

Breski líffræðingurinn Richard Dawkins kom fram með hugtakið meme árið 1976. Á ensku rímar það við orðið gene. Meme eru menningarleg gen eða stef sem eru höfð eftir og afrituð með tilbrigðum og þróast. Á myndinni sést meme með Dawkins.

Þegar talað er um meme á íslensku virðist algengast að notaður sé enski framburðurinn „mím“. Meme virðist ekki enn hafa náð að aðlagast íslensku sem tökuorð og ritháttur og beyging er á reiki. Orðið er ýmist ritað með enskum (meme) eða íslenskum rithætti (mím) og virðist ýmist vera notað sem hvorugkynsorð eða karlkynsorð.

Algengasta íslenska þýðingin á meme er „jarm“. Skýringin er sú að ef orðið meme er lesið með íslenskum framburði væri það me-me sem jafnframt er haft er um hljóð í sauðfé. Um er að ræða eins konar orðaleik en tengingin við sauðfé og jarm fyrirfinnst vissulega ekki í hugtakinu meme. Þó má ef til vill segja að í jarmi kinda sé endurtekning og þegar hermt er eftir með smá tilbrigðum og endurtekið ótal sinnum geti það minnt á hjörð kinda jarma í kór.

Fleiri tillögur hafa komið fram, svo sem farandbrandari[1] en gallinn er sá að meme þarf ekki endilega að vera fyndið. Önnur tillaga er fluga[2], samanber „að fá flugu í höfuðið“. Hvorug þessara tillagna hafa náð fótfestu en á Internetinu má finna fjölmörg dæmi um þýðinguna jarm og fleirtölumyndina jörm.

Þegar þetta er skrifað er ekki unnt að svara því ótvírætt hvert er íslenska orðið fyrir meme. Hugsanlega mun jarm fá nýja merkingu til viðbótar hinni gömlu og tökuorðið meme mun ef til vill aðlagast og fá ákveðna beygingu og rithátt í íslensku máli. Tíminn mun leiða það í ljós.

Tilvísanir:
  1. ^ Um eðli farandbrandarans — Sýsifos. (Sótt 25.02.2020).
  2. ^ Íslensk míms : Iceland. (Sótt 25.02.2020).

Heimildir:

Mynd:...