Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Er til próf sem sýnir hvort maður hafi einhvern tíma fengið COVID-19?

Erna Magnúsdóttir

Upprunaleg spurning Leifs var:
Varðandi COVID-19-vírusinn. Ég hef unnið í ca. 4 daga í nánum samskiptum við fólk frá Asíu, t.d. Kína, Tælandi, þegar þetta fólk var að ferðast hér. Síðastliðið haust fékk ég slappleika og var lengi að ná mér, m.a. þrálátan þurran hósta, og þetta var svo slæmt að ég fór í fyrsta skipti á ævinni í lungnamyndatöku. Spurningin er: Er til eitthvað próf í dag sem sýnir hvort maður hafi verið með eða fengið þá COVID-19-vírusinn?

Til þess að meta eftir á hvort einstaklingar hafi sýkst af veiru er stuðst við blóðvökvagreiningu (sermismælingar, e. serologic test). Með blóðvökvagreiningu má athuga hvort einstaklingur hafi myndað sértæk mótefni gegn ákveðinni veiru, en það gefur til kynna að einstaklingurinn hafi orðið fyrir sýkingu og því framleitt mótefni gegn veirunni.

Þegar heilbrigður einstaklingur sýkist af veiru bregst ónæmiskerfið við með því að framleiða sértæk mótefni sem bindast veirunni og virkja frumur ónæmiskerfisins til að eyða henni. Mótefnasvarið er tiltölulega hægvirkt, það tekur um viku frá fyrstu sýkingu fyrir líkamann að framleiða nógu mikið af sértækum mótefnum til að hægt sé að mæla þau. Hins vegar er mótefnasvarið oft einstaklega langvinnt, þar sem langlífar plasmafrumur[1] geta lifað í beinmerg og seytt mótefnum, jafnvel svo áratugum skiptir.

Ein leið til að skoða hvort einstaklingur hafi fengið COVID-19 er að kanna hvort viðkomandi er með mótefni gegn svonefndu broddprótíni veirunnar. Vitað er að broddprótín annarra veira vekur upp sterkt mótefnasvar í mönnum og er því líklegt að mótefni gegn því sé myndað hjá þeim sem sýkjast.

Nú eru komin fram á sjónarsviðið blóðvökvapróf til að mæla mótefnasvar við SARS-CoV-2-veirunni, þó enn eigi eftir að koma þeim í almenna dreifingu og meta áreiðanleika þeirra. Eitt prófanna sem fengið hefur mikla umfjöllun[2] byggir á því að nota þekkingu okkar á erfðaefni veirunnar til þess að framleiða yfirborðsprótín úr veirunni, svokallað broddprótín (e. spike protein).[3] Síðan er yfirborð tilraunaskála þakið með broddprótíninu og sermi úr einstaklingum sem prófa á hvort hafi sýkst af SARS-CoV-2 sett á skálarnar með prótíninu. Ef mótefni gegn broddprótíninu eru til staðar í serminu bindast þau við prótínið á botni skálarinnar og er hægt að nota ensím til þess að mæla hvort binding hafi orðið eða ekki.

Þess má geta að broddprótínið varð fyrir valinu af því að samskonar prótín annarra veira vekja upp sterkt mótefnasvar í mönnum og því líklegt að mótefni gegn því sé myndað hjá þeim sem sýkjast. Þessi aðferðafræði er nokkuð dæmigerð fyrir blóðvökvapróf fyrir veirusýkingum, en misjafnt er hvaðan veiruprótínin koma, hvort stök prótín séu framleidd ein og sér eða hvort heilar veirur séu einangraðar til þess að nota í slíkum prófum.

Myndin sýnir niðurstöðu úr ensímtengdu mótefnaprófi sem oft er notað við blóðvökvagreiningu. Eftir því sem liturinn er dekkri, þeim meira er af mótefni í sýninu.

Ekki er ákjósanlegt að mæla mótefni til þess að meta það hvort einstaklingur sé sýktur áður en einkenni koma fram eða skömmu eftir að þau koma fram vegna þess hve mótefnasvar líkamans er hægvirkt. Þess vegna hafa íslensk stjórnvöld afþakkað próf frá breskum stjórnvöldum, því að þau byggja á mótefnamælingum og nýtast því ekki í þeirri viðleitni heilbrigðisyfirvalda hér að greina sýkingar snemma til að stöðva útbreiðslu, auk þess sem næmni og áreiðanleiki prófanna er ekki enn orðinn ljós.[4]

Hins vegar má fá mynd af því eftir á hversu margir hafi sýkst af ákveðinni veiru með blóðvökvaprófi, og eru þau því mikilvægt tæki til þess að meta útbreiðslu sýkingar eftir að faraldur hefur gengið yfir. Jafnframt geta prófin gefið til kynna hversu lengi mótefnasvar gegn ákveðnum veirum varir og hvers konar mótefnasvar líkaminn myndar gegn þeim. Blóðvökvaprófin eru líka ómetanleg þegar kemur að því að tímasetja upphaf veirufaraldurs eftir á. Þá má nota blóðsýni úr sjúklingum sem tekin voru fyrir löngu síðan en komið fyrir í sýnageymslum til þess að mæla hvort mótefni gegn veirunni séu til staðar.

Tilvísanir:
  1. ^ Plasmafrumur eru þær frumur ónæmiskerfisins sem framleiða og seyta mótefnum. Þær eiga uppruna sinn í beinmerg og tilheyra hvítum blóðkornum.
  2. ^ Amanat, F o.fl. A serological assay to detect SARS-CoV-2 seroconversion in humans. MedRxiv, birt á netinu 18.03.2020. (Sótt 27.03.2020).
  3. ^ Einnig mætti nefna það bindiprótín á íslensku því það binst við svonefndan ARD-viðtaka.
  4. ^ Bjartsýnn á pinnana frá Össuri en afþakkar bresku heimaprófin - Vísir. (Sótt 27.03.2020).

Myndir:

Þorsteinn Yngvi spurði:
Er hægt að greina með blóðprufu eftir einhvern tíma, hugsanlega ár, hvort einstaklingur hafi fengið COVID-19 án þess að hann hafi vitað af því?

Guðmundur Örn spurði:

Er hægt að mæla hvort maður hafi myndað mótefni gegn COVID-19? Er hægt að komast í slíka mælingu hérlendis?

Guðjón B. Guðbjörnsson spurði:

Er hægt að sjá hvort fólk hefur fengið vírusinn (COVID-19) þá á ég við þeir sem hafa tekið víkinginn á þetta og verið með væg einkenni og hafa náð sér? Sést það í prófum sem verið er að taka?

Höfundur

Erna Magnúsdóttir

dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild HÍ

Útgáfudagur

28.3.2020

Spyrjandi

Leifur Sörensen, Þorsteinn Yngvi Jónsson, Guðmundur Örn Jónsson, Guðjón B. Guðbjörnsson

Tilvísun

Erna Magnúsdóttir. „Er til próf sem sýnir hvort maður hafi einhvern tíma fengið COVID-19?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2020. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=79035.

Erna Magnúsdóttir. (2020, 28. mars). Er til próf sem sýnir hvort maður hafi einhvern tíma fengið COVID-19? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79035

Erna Magnúsdóttir. „Er til próf sem sýnir hvort maður hafi einhvern tíma fengið COVID-19?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2020. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=79035>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er til próf sem sýnir hvort maður hafi einhvern tíma fengið COVID-19?
Upprunaleg spurning Leifs var:

Varðandi COVID-19-vírusinn. Ég hef unnið í ca. 4 daga í nánum samskiptum við fólk frá Asíu, t.d. Kína, Tælandi, þegar þetta fólk var að ferðast hér. Síðastliðið haust fékk ég slappleika og var lengi að ná mér, m.a. þrálátan þurran hósta, og þetta var svo slæmt að ég fór í fyrsta skipti á ævinni í lungnamyndatöku. Spurningin er: Er til eitthvað próf í dag sem sýnir hvort maður hafi verið með eða fengið þá COVID-19-vírusinn?

Til þess að meta eftir á hvort einstaklingar hafi sýkst af veiru er stuðst við blóðvökvagreiningu (sermismælingar, e. serologic test). Með blóðvökvagreiningu má athuga hvort einstaklingur hafi myndað sértæk mótefni gegn ákveðinni veiru, en það gefur til kynna að einstaklingurinn hafi orðið fyrir sýkingu og því framleitt mótefni gegn veirunni.

Þegar heilbrigður einstaklingur sýkist af veiru bregst ónæmiskerfið við með því að framleiða sértæk mótefni sem bindast veirunni og virkja frumur ónæmiskerfisins til að eyða henni. Mótefnasvarið er tiltölulega hægvirkt, það tekur um viku frá fyrstu sýkingu fyrir líkamann að framleiða nógu mikið af sértækum mótefnum til að hægt sé að mæla þau. Hins vegar er mótefnasvarið oft einstaklega langvinnt, þar sem langlífar plasmafrumur[1] geta lifað í beinmerg og seytt mótefnum, jafnvel svo áratugum skiptir.

Ein leið til að skoða hvort einstaklingur hafi fengið COVID-19 er að kanna hvort viðkomandi er með mótefni gegn svonefndu broddprótíni veirunnar. Vitað er að broddprótín annarra veira vekur upp sterkt mótefnasvar í mönnum og er því líklegt að mótefni gegn því sé myndað hjá þeim sem sýkjast.

Nú eru komin fram á sjónarsviðið blóðvökvapróf til að mæla mótefnasvar við SARS-CoV-2-veirunni, þó enn eigi eftir að koma þeim í almenna dreifingu og meta áreiðanleika þeirra. Eitt prófanna sem fengið hefur mikla umfjöllun[2] byggir á því að nota þekkingu okkar á erfðaefni veirunnar til þess að framleiða yfirborðsprótín úr veirunni, svokallað broddprótín (e. spike protein).[3] Síðan er yfirborð tilraunaskála þakið með broddprótíninu og sermi úr einstaklingum sem prófa á hvort hafi sýkst af SARS-CoV-2 sett á skálarnar með prótíninu. Ef mótefni gegn broddprótíninu eru til staðar í serminu bindast þau við prótínið á botni skálarinnar og er hægt að nota ensím til þess að mæla hvort binding hafi orðið eða ekki.

Þess má geta að broddprótínið varð fyrir valinu af því að samskonar prótín annarra veira vekja upp sterkt mótefnasvar í mönnum og því líklegt að mótefni gegn því sé myndað hjá þeim sem sýkjast. Þessi aðferðafræði er nokkuð dæmigerð fyrir blóðvökvapróf fyrir veirusýkingum, en misjafnt er hvaðan veiruprótínin koma, hvort stök prótín séu framleidd ein og sér eða hvort heilar veirur séu einangraðar til þess að nota í slíkum prófum.

Myndin sýnir niðurstöðu úr ensímtengdu mótefnaprófi sem oft er notað við blóðvökvagreiningu. Eftir því sem liturinn er dekkri, þeim meira er af mótefni í sýninu.

Ekki er ákjósanlegt að mæla mótefni til þess að meta það hvort einstaklingur sé sýktur áður en einkenni koma fram eða skömmu eftir að þau koma fram vegna þess hve mótefnasvar líkamans er hægvirkt. Þess vegna hafa íslensk stjórnvöld afþakkað próf frá breskum stjórnvöldum, því að þau byggja á mótefnamælingum og nýtast því ekki í þeirri viðleitni heilbrigðisyfirvalda hér að greina sýkingar snemma til að stöðva útbreiðslu, auk þess sem næmni og áreiðanleiki prófanna er ekki enn orðinn ljós.[4]

Hins vegar má fá mynd af því eftir á hversu margir hafi sýkst af ákveðinni veiru með blóðvökvaprófi, og eru þau því mikilvægt tæki til þess að meta útbreiðslu sýkingar eftir að faraldur hefur gengið yfir. Jafnframt geta prófin gefið til kynna hversu lengi mótefnasvar gegn ákveðnum veirum varir og hvers konar mótefnasvar líkaminn myndar gegn þeim. Blóðvökvaprófin eru líka ómetanleg þegar kemur að því að tímasetja upphaf veirufaraldurs eftir á. Þá má nota blóðsýni úr sjúklingum sem tekin voru fyrir löngu síðan en komið fyrir í sýnageymslum til þess að mæla hvort mótefni gegn veirunni séu til staðar.

Tilvísanir:
  1. ^ Plasmafrumur eru þær frumur ónæmiskerfisins sem framleiða og seyta mótefnum. Þær eiga uppruna sinn í beinmerg og tilheyra hvítum blóðkornum.
  2. ^ Amanat, F o.fl. A serological assay to detect SARS-CoV-2 seroconversion in humans. MedRxiv, birt á netinu 18.03.2020. (Sótt 27.03.2020).
  3. ^ Einnig mætti nefna það bindiprótín á íslensku því það binst við svonefndan ARD-viðtaka.
  4. ^ Bjartsýnn á pinnana frá Össuri en afþakkar bresku heimaprófin - Vísir. (Sótt 27.03.2020).

Myndir:

Þorsteinn Yngvi spurði:
Er hægt að greina með blóðprufu eftir einhvern tíma, hugsanlega ár, hvort einstaklingur hafi fengið COVID-19 án þess að hann hafi vitað af því?

Guðmundur Örn spurði:

Er hægt að mæla hvort maður hafi myndað mótefni gegn COVID-19? Er hægt að komast í slíka mælingu hérlendis?

Guðjón B. Guðbjörnsson spurði:

Er hægt að sjá hvort fólk hefur fengið vírusinn (COVID-19) þá á ég við þeir sem hafa tekið víkinginn á þetta og verið með væg einkenni og hafa náð sér? Sést það í prófum sem verið er að taka?
...