Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn?

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn og hvaðan komu heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar?

Reglulega koma fram nýir smitsjúkdómar (e. emerging infectious diseases (EIDs)) sem menn hafa ekki áður þurft að kljást við. Um 75% af nýjum smitsjúkdómum eru svonefndar súnur (e. zoonoses), en það orð er notað um sjúkdóma sem smitast með náttúrulegum hætti á milli dýra og manna. Þar af eiga um 70% upptök sín í villtum dýrum.

Þessir smitsjúkdómar geta borist beint frá villtum dýrum til manna en oft og tíðum er ferillinn þannig að sýkillinn berst fyrst til annarra dýrategunda, sem þá nefnast millihýslar, og síðan til manna. Mesta hættan á smiti frá dýrum yfir í menn er talin vera frá leðurblökum en þar á eftir koma prímatar, hófdýr og nagdýr.

Einnig er rétt að nefna að nokkrar aðrar súnur í mönnum koma frá fuglum. Inflúensuveiran kom upphaflega frá fuglum og einnig má rekja alla heimsfaraldra inflúensu til fugla, eins og fram kemur hér fyrir neðan. Á heildina litið er umfang þeirra þó minna miðað við þær súnur sem koma frá spendýrum.

Dæmi um súnur, sjúkdóma sem geta borist úr dýrum í menn.

Áætlað er að nýir smitsjúkdómar valdi samanlagt hundruðum þúsunda dauðsfalla á hverju ári. Margir þessara sjúkdóma valda staðbundnum faröldrum en í einstaka tilfellum ná þeir mikilli útbreiðslu, jafnvel um heim allan. Þar sem langflestir nýir smitsjúkdómar eru súnur þarf ekki að koma á óvart að allir heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar hafi komið frá dýrum.

Heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar

Hin svonefnda spænska veiki átti líklega uppruna sinn úr eldisfuglum. Þar var um að ræða nýjan stofn af inflúensuveiru af A-stofni H1N1. Fólk hafði almennt litla mótstöðu gegn veirunni og veikindin voru því margfalt alvarlegri en í hefðbundnum inflúensusýkingum. Spænska veikin er skæðasta skráði faraldur sögunnar. Talið er að 50-100 milljónir manna hafi látist í faraldrinum sem geisaði víðs vegar um heim 1918-1919. Á Íslandi er talið að tæplega 500 manns hafi látist af völdum veikinnar.

Asíuflensan 1957 var vegna inflúensuveiru af H2N2-gerð, upprunalega komin úr fuglum en svín voru líklega millihýsill. Veikin kom fyrst fram í Kína snemma árs 1957 en barst þaðan til annarra landa. Talið er að rekja megi á bilinu eina til tvær milljónir dauðsfalla um heim allan til asíuflensunnar. Flensan barst til Íslands haustið 1957, líklega frá Rússlandi.

Spænska veikin 1918-1919 er skæðasti heimsfaraldur sem sögur fara af.

Hong Kong-flensan 1968 var inflúensufaraldur af völdum H3N2-inflúensuveiru. Eins og asíuflensan áratug fyrr er veiran talin hafa borist úr fuglum í menn með svín sem millihýsil. Hún kom fyrst fram í Hong Kong í júlí og barst þaðan til flestra landa heims þegar leið á árið. Til Íslands barst hún í desember 1968. Talið er að á bilinu 500.000 – 2 milljónir hafi látist af völdum hennar.

HIV (e. human immunodeficiency virus) er veiran sem veldur alnæmi (e. AIDS), hún greindist fyrst í upphafi 9. áratugar 20. aldar. Talið er að ráðandi stofn hennar hafi borist frá simpönsum yfir í menn snemma á 20. öldinni en ekki valdið faraldri fyrr en áratugum seinna. Fræðimenn eru ekki á einu máli um hvort rétt sé að skilgreina faraldur HIV sem heimsfaraldur en sjúkdómurinn er hafður með hér sem dæmi um mjög útbreidda súnuveiru. Frá upphafi hafa um 75 milljónir um heim allan smitast af HIV-veirunni og um 32 milljónir hafa látist af völdum hennar. Frá upphafi HIV-faraldursins hér á landi, árið 1983, hafa 427 einstaklingar greinst með HIV-sýkingu.

Svínaflensan svokallaða, sem kom fram árið 2009, var inflúensa af gerðinni H1N1. Talið er að hún hafi komið úr fuglum en með svín sem líklegan millihýsil. Veikin var fyrst greind snemma vors í Mexíkó og Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og breiddist þaðan út á skömmum tíma. Í júní lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir heimsfaraldri. Veikin barst til Íslands undir lok maí og náði útbreiðslan hámarki í október og nóvember. Hún olli miklu umframálagi á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, þrátt fyrir bólusetningar og notkun veirulyfja. Um 200 manns, flestir yngri en 65 ára, voru lagðir inn á sjúkrahús og 20 af þeim voru lagðir inn á gjörgæslu. Svínaflensan var þó ekki eins skæð og fyrri heimsfaraldrar en talið er að hún hafi kostað allt að 575.000 dauðsföll á heimsvísu.

COVID-19-faraldurinn sem gengur yfir heimsbyggðina 2020 orsakast af veiru sem kallast SARS-CoV-2. Talið er að veiran sé upprunalega komin úr leðurblökum og hafi borist í menn í gegnum óþekktan millihýsil. Sjúkdómurinn var fyrst greindur í Kína í desember 2019 en vitað er að veiran var þegar farin að sýkja fólk í Wuhan-borg um miðjan nóvember. Þegar þetta svar er skrifað, í lok apríl 2020, hefur veiran borist til nánast allra landa heims, yfir 2,9 milljónir tilfella verið greind og rúmlega 205.000 manns dáið.

Lokaorð

Þessir nýju smitsjúkdómar sem urðu að heimsfaröldrum eiga það ekki aðeins sameiginlegt að sýkilinn berst upphaflega úr dýrum heldur voru veirur orsök þeirra allra. Sýkillinn þarf þó ekki að vera veira, bakteríur geta líka borist á milli dýra og manna og valdið mjög skæðum og útbreiddum sjúkdómum. Þar má til dæmis nefna bakteríuna Yersinia pestis sem olli svartadauða. Sá sjúkdómur er fyrst og fremst bundinn við nagdýr, til dæmis rottur, en hann getur borist í menn með flóm nagdýra.

Frumdýr, príon, sveppir og ormar geta einnig orsakað nýja smitsjúkdóma en þessar uppsprettur eru ekki eins áberandi og veirur og bakteríur.

Heimildir og myndir:

Spurningu Hrannar er hér svarað að hluta.

Höfundar

Jón Magnús Jóhannesson

læknir og rannsakandi

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

27.4.2020

Spyrjandi

Hrönn Bjarnadóttir, ritstjórn

Tilvísun

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2020. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=79262.

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2020, 27. apríl). Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79262

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2020. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=79262>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Hvaðan berast nýir smitsjúkdómar í menn og hvaðan komu heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar?

Reglulega koma fram nýir smitsjúkdómar (e. emerging infectious diseases (EIDs)) sem menn hafa ekki áður þurft að kljást við. Um 75% af nýjum smitsjúkdómum eru svonefndar súnur (e. zoonoses), en það orð er notað um sjúkdóma sem smitast með náttúrulegum hætti á milli dýra og manna. Þar af eiga um 70% upptök sín í villtum dýrum.

Þessir smitsjúkdómar geta borist beint frá villtum dýrum til manna en oft og tíðum er ferillinn þannig að sýkillinn berst fyrst til annarra dýrategunda, sem þá nefnast millihýslar, og síðan til manna. Mesta hættan á smiti frá dýrum yfir í menn er talin vera frá leðurblökum en þar á eftir koma prímatar, hófdýr og nagdýr.

Einnig er rétt að nefna að nokkrar aðrar súnur í mönnum koma frá fuglum. Inflúensuveiran kom upphaflega frá fuglum og einnig má rekja alla heimsfaraldra inflúensu til fugla, eins og fram kemur hér fyrir neðan. Á heildina litið er umfang þeirra þó minna miðað við þær súnur sem koma frá spendýrum.

Dæmi um súnur, sjúkdóma sem geta borist úr dýrum í menn.

Áætlað er að nýir smitsjúkdómar valdi samanlagt hundruðum þúsunda dauðsfalla á hverju ári. Margir þessara sjúkdóma valda staðbundnum faröldrum en í einstaka tilfellum ná þeir mikilli útbreiðslu, jafnvel um heim allan. Þar sem langflestir nýir smitsjúkdómar eru súnur þarf ekki að koma á óvart að allir heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar hafi komið frá dýrum.

Heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar

Hin svonefnda spænska veiki átti líklega uppruna sinn úr eldisfuglum. Þar var um að ræða nýjan stofn af inflúensuveiru af A-stofni H1N1. Fólk hafði almennt litla mótstöðu gegn veirunni og veikindin voru því margfalt alvarlegri en í hefðbundnum inflúensusýkingum. Spænska veikin er skæðasta skráði faraldur sögunnar. Talið er að 50-100 milljónir manna hafi látist í faraldrinum sem geisaði víðs vegar um heim 1918-1919. Á Íslandi er talið að tæplega 500 manns hafi látist af völdum veikinnar.

Asíuflensan 1957 var vegna inflúensuveiru af H2N2-gerð, upprunalega komin úr fuglum en svín voru líklega millihýsill. Veikin kom fyrst fram í Kína snemma árs 1957 en barst þaðan til annarra landa. Talið er að rekja megi á bilinu eina til tvær milljónir dauðsfalla um heim allan til asíuflensunnar. Flensan barst til Íslands haustið 1957, líklega frá Rússlandi.

Spænska veikin 1918-1919 er skæðasti heimsfaraldur sem sögur fara af.

Hong Kong-flensan 1968 var inflúensufaraldur af völdum H3N2-inflúensuveiru. Eins og asíuflensan áratug fyrr er veiran talin hafa borist úr fuglum í menn með svín sem millihýsil. Hún kom fyrst fram í Hong Kong í júlí og barst þaðan til flestra landa heims þegar leið á árið. Til Íslands barst hún í desember 1968. Talið er að á bilinu 500.000 – 2 milljónir hafi látist af völdum hennar.

HIV (e. human immunodeficiency virus) er veiran sem veldur alnæmi (e. AIDS), hún greindist fyrst í upphafi 9. áratugar 20. aldar. Talið er að ráðandi stofn hennar hafi borist frá simpönsum yfir í menn snemma á 20. öldinni en ekki valdið faraldri fyrr en áratugum seinna. Fræðimenn eru ekki á einu máli um hvort rétt sé að skilgreina faraldur HIV sem heimsfaraldur en sjúkdómurinn er hafður með hér sem dæmi um mjög útbreidda súnuveiru. Frá upphafi hafa um 75 milljónir um heim allan smitast af HIV-veirunni og um 32 milljónir hafa látist af völdum hennar. Frá upphafi HIV-faraldursins hér á landi, árið 1983, hafa 427 einstaklingar greinst með HIV-sýkingu.

Svínaflensan svokallaða, sem kom fram árið 2009, var inflúensa af gerðinni H1N1. Talið er að hún hafi komið úr fuglum en með svín sem líklegan millihýsil. Veikin var fyrst greind snemma vors í Mexíkó og Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og breiddist þaðan út á skömmum tíma. Í júní lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir heimsfaraldri. Veikin barst til Íslands undir lok maí og náði útbreiðslan hámarki í október og nóvember. Hún olli miklu umframálagi á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, þrátt fyrir bólusetningar og notkun veirulyfja. Um 200 manns, flestir yngri en 65 ára, voru lagðir inn á sjúkrahús og 20 af þeim voru lagðir inn á gjörgæslu. Svínaflensan var þó ekki eins skæð og fyrri heimsfaraldrar en talið er að hún hafi kostað allt að 575.000 dauðsföll á heimsvísu.

COVID-19-faraldurinn sem gengur yfir heimsbyggðina 2020 orsakast af veiru sem kallast SARS-CoV-2. Talið er að veiran sé upprunalega komin úr leðurblökum og hafi borist í menn í gegnum óþekktan millihýsil. Sjúkdómurinn var fyrst greindur í Kína í desember 2019 en vitað er að veiran var þegar farin að sýkja fólk í Wuhan-borg um miðjan nóvember. Þegar þetta svar er skrifað, í lok apríl 2020, hefur veiran borist til nánast allra landa heims, yfir 2,9 milljónir tilfella verið greind og rúmlega 205.000 manns dáið.

Lokaorð

Þessir nýju smitsjúkdómar sem urðu að heimsfaröldrum eiga það ekki aðeins sameiginlegt að sýkilinn berst upphaflega úr dýrum heldur voru veirur orsök þeirra allra. Sýkillinn þarf þó ekki að vera veira, bakteríur geta líka borist á milli dýra og manna og valdið mjög skæðum og útbreiddum sjúkdómum. Þar má til dæmis nefna bakteríuna Yersinia pestis sem olli svartadauða. Sá sjúkdómur er fyrst og fremst bundinn við nagdýr, til dæmis rottur, en hann getur borist í menn með flóm nagdýra.

Frumdýr, príon, sveppir og ormar geta einnig orsakað nýja smitsjúkdóma en þessar uppsprettur eru ekki eins áberandi og veirur og bakteríur.

Heimildir og myndir:

Spurningu Hrannar er hér svarað að hluta....