Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er tegundahyggja?

Henry Alexander Henrysson

Nýlega hefur farið fram mikil umræða á heimilinu um hvort snerta megi álmtré í garðinum. Ég hef verið sá sem staðið hefur með trénu á meðan aðrir vilja meiri birtu í garðinn. Ein meginröksemd andstæðinga minna á heimilinu er að ég hafi gengið harðast fram við að fækka ösp í garðinum. Spurningar hafa því eðlilega vaknað um hvort ég sé alveg samkvæmur sjálfum mér í því að halda upp á eina tegund öðrum fremur.

Hversdagslegur skilningur á hugtakinu „tegundahyggja“ (e. speciesism) lýsir svona klípum sem við lendum í þegar ein tegund úr lífríkinu fellur okkur í geð og við erum til í að taka meiri tillit til tilveruréttar einstaklinga af þeirri tegund. Plönturíkið er þó ekki algengur vettvangur slíkra hugleiðinga. Tegundahyggja snertir því oftast það hvernig við flokkum dýraríkið miskunnarlaust niður okkur í hag. Sum dýr eru jafnvel flokkuð sem meindýr og réttdræp í okkar augum. Það er býsna öflug tegundahyggja að telja sig geta flokkað dýr eftir því hvort þau valda okkur mannfólki ama eða ekki.

Hávaxinn álmur.

Siðfræðileg merking tegundahyggju snýr fyrst og fremst að þessari aðgreiningu sem við gerum milli hagsmuna fólks annars vegar og hagsmuna dýra hins vegar. Hugtakið er sjaldan notað þegar við greinum okkur frá öðrum tegundum lífríkisins enda líffræðilegur munur miklu víðtækari. Þau sem nota hugtakið tegundahyggja til að gagnrýna ýmsar ákvarðanir okkar og athafnir benda gjarnan á að sú lína sem við drögum milli manna og annarra spendýra sé líffræðilega handahófskennd. Er þá oft sérstaklega horft til dýra sem vitað er að hafa svipað taugakerfi og við í þróunarlegu tilliti.

Hugtakið varð þekkt innan siðfræði í meðförum heimspekingsins Peters Singer (f. 1946) um miðjan áttunda áratuginn. Þótt hann sé ekki höfundur hugtaksins tengja flestir það við skrif hans enda er hann einn áhrifamesti heimspekingur síðustu áratuga. Á þeim tíma var til dæmis notkun dýra í tilraunaskyni undir smásjá siðfræðinga og má segja að gagnrýni, eða ásakanir um tegundahyggju hafi átt þátt í því að breyta viðhorfi okkar undanfarið til notkunar dýra í tilraunum. Þótt dýratilraunir heyri enn ekki sögunni til við þróun lyfja og snyrtivara er reynt að lágmarka fjölda dýra í tilraunum og þann sársauka sem þau verða mögulega fyrir. Einnig er sífellt verið að leita nýrra leiða til að sleppa því að nota dýr í tilraunum og athugað hvort tæknilausnir geti komið í stað þeirra.

Almennt má segja að sá gagnrýni tónn sem felst í hugtakinu hafi haft gríðarleg áhrif síðan það kom fram, þótt baráttufólki um dýravelferð þyki vissulega mikið verk enn óunnið. Hugtakið hefur virkað vel til að sá fræjum þeirrar hugsunar að kannski höfum við verið skeytingarlaus um hag annarra dýrategunda í siðlegu tilliti. Ein birtingarmynd þessarar þróunar er sá vöxtur sem orðið hefur í hópi grænkera. Nú er sá lífsstíll orðinn býsna áberandi sem hafnar alfarið því að hægt sé að réttlæta það með siðferðilegum rökum að ein dýrategund noti aðrar sér til hagsbóta, slái eign sinni á þær og neiti þeim um rétt til lífs.

Ein nýleg birtingarmynd þessarar þróunar eru kröfur baráttufólks um réttindi til handa mannöpum víða um heim. Fræg er til dæmis nýleg niðurstaða dómara í Argentínu um að órangútanapinn Sandra hefði til að bera siðferðilega stöðu sambærilega við manneskju. Fleiri dæmi í svipuðum dúr mætti nefna um það hvernig skörp siðferðileg skil milli mannfólks annars vegar og dýraríkisins hins vegar hafa verið að mást út. Er ekki ástæða til að gera ráð fyrir öðru en gagnrýnar ábendingar um tegundahyggju haldi áfram að verða öflugt tæki þeirra sem trúa á siðferðilegan jöfnuð innan alls dýraríkisins.

Sumir hafa bent á að tilraunir til að taka mannapa undir réttindaregnhlífina geri í raun ekkert nema færa línuna aðeins til. Tegundahyggjan verði enn jafn stæk gagnvart flestum dýrategundum. Á myndinni sjást órangútanapar í dýragarði.

En það eru þó ekki allir á því máli að ásökun um tegundahyggju eigi rétt á sér. Til dæmis hafa sumir bent á að tilraunir til að taka mannapa undir réttindaregnhlífina geri í raun ekkert nema færa línuna aðeins til. Tegundahyggjan verði enn jafn stæk gagnvart flestum dýrategundum. Þá hefur komið fram siðfræðileg gagnrýni um að einungis manneskjur geti verið handhafar réttinda enda fylgi þeim skyldur sem aðeins þær geti borið. Margir hafa sagt að siðferði tilheyri í raun aðeins mannkyni, hegðun þess og ætlunum. Það séu mistök að víkka siðferðismengið út svo nokkru nemi og því sé hinu skörpu skil einungis merki um hvar siðferði liggi. Hið náttúrulega ástand feli það í sér að hver tegund reyni að tryggja eigin velferð og mannkyn sé eina tegundin sem leitist við að gera það á siðlegan máta. Að lokum má nefna gagnrýni um að þessi áhersla á velferð dýra sé í raun á kostnað mikilvægari baráttumála. Kynþáttahyggja sé til dæmis miklu raunverulegra og stærra vandamál í mannlegu samfélagi og meira aðkallandi að berjast gegn henni heldur en gegn tegundahyggju.

Tegundahyggja mun þó halda áfram að vera lykilhugtak hjá þeim sem berjast fyrir réttindum dýra. Sú einfalda hugmynd sem hugtakið byggir á hefur gríðarlegan siðferðilegan slagkraft og mun ávallt virka sem þörf áminning. Á hinn bóginn er ólíklegt að mannkyn muni almennt hætta að gera sig sekt um einhvers konar tegundahyggju í framtíðinni. Hagsmunir mannkyns munu alltaf vera í fyrsta sæti. En ef áminningin um tegundahyggju verður til þess að hægja á ógnvænlegri útrýmingu dýrategunda eða grimmilegri notkun á dýrum okkur til hagsbóta má segja að sú áminning hafi svo sannarlega haft rétt á sér.

Mynd:

Upprunalega spurningin var: Hæ, hæ ég veit ekki alveg hvern á að spurja en veist þú nokkuð íslenska orðið fyrir speciesism?

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

8.10.2020

Spyrjandi

Hjördís

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hvað er tegundahyggja?“ Vísindavefurinn, 8. október 2020. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=79352.

Henry Alexander Henrysson. (2020, 8. október). Hvað er tegundahyggja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79352

Henry Alexander Henrysson. „Hvað er tegundahyggja?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2020. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=79352>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er tegundahyggja?
Nýlega hefur farið fram mikil umræða á heimilinu um hvort snerta megi álmtré í garðinum. Ég hef verið sá sem staðið hefur með trénu á meðan aðrir vilja meiri birtu í garðinn. Ein meginröksemd andstæðinga minna á heimilinu er að ég hafi gengið harðast fram við að fækka ösp í garðinum. Spurningar hafa því eðlilega vaknað um hvort ég sé alveg samkvæmur sjálfum mér í því að halda upp á eina tegund öðrum fremur.

Hversdagslegur skilningur á hugtakinu „tegundahyggja“ (e. speciesism) lýsir svona klípum sem við lendum í þegar ein tegund úr lífríkinu fellur okkur í geð og við erum til í að taka meiri tillit til tilveruréttar einstaklinga af þeirri tegund. Plönturíkið er þó ekki algengur vettvangur slíkra hugleiðinga. Tegundahyggja snertir því oftast það hvernig við flokkum dýraríkið miskunnarlaust niður okkur í hag. Sum dýr eru jafnvel flokkuð sem meindýr og réttdræp í okkar augum. Það er býsna öflug tegundahyggja að telja sig geta flokkað dýr eftir því hvort þau valda okkur mannfólki ama eða ekki.

Hávaxinn álmur.

Siðfræðileg merking tegundahyggju snýr fyrst og fremst að þessari aðgreiningu sem við gerum milli hagsmuna fólks annars vegar og hagsmuna dýra hins vegar. Hugtakið er sjaldan notað þegar við greinum okkur frá öðrum tegundum lífríkisins enda líffræðilegur munur miklu víðtækari. Þau sem nota hugtakið tegundahyggja til að gagnrýna ýmsar ákvarðanir okkar og athafnir benda gjarnan á að sú lína sem við drögum milli manna og annarra spendýra sé líffræðilega handahófskennd. Er þá oft sérstaklega horft til dýra sem vitað er að hafa svipað taugakerfi og við í þróunarlegu tilliti.

Hugtakið varð þekkt innan siðfræði í meðförum heimspekingsins Peters Singer (f. 1946) um miðjan áttunda áratuginn. Þótt hann sé ekki höfundur hugtaksins tengja flestir það við skrif hans enda er hann einn áhrifamesti heimspekingur síðustu áratuga. Á þeim tíma var til dæmis notkun dýra í tilraunaskyni undir smásjá siðfræðinga og má segja að gagnrýni, eða ásakanir um tegundahyggju hafi átt þátt í því að breyta viðhorfi okkar undanfarið til notkunar dýra í tilraunum. Þótt dýratilraunir heyri enn ekki sögunni til við þróun lyfja og snyrtivara er reynt að lágmarka fjölda dýra í tilraunum og þann sársauka sem þau verða mögulega fyrir. Einnig er sífellt verið að leita nýrra leiða til að sleppa því að nota dýr í tilraunum og athugað hvort tæknilausnir geti komið í stað þeirra.

Almennt má segja að sá gagnrýni tónn sem felst í hugtakinu hafi haft gríðarleg áhrif síðan það kom fram, þótt baráttufólki um dýravelferð þyki vissulega mikið verk enn óunnið. Hugtakið hefur virkað vel til að sá fræjum þeirrar hugsunar að kannski höfum við verið skeytingarlaus um hag annarra dýrategunda í siðlegu tilliti. Ein birtingarmynd þessarar þróunar er sá vöxtur sem orðið hefur í hópi grænkera. Nú er sá lífsstíll orðinn býsna áberandi sem hafnar alfarið því að hægt sé að réttlæta það með siðferðilegum rökum að ein dýrategund noti aðrar sér til hagsbóta, slái eign sinni á þær og neiti þeim um rétt til lífs.

Ein nýleg birtingarmynd þessarar þróunar eru kröfur baráttufólks um réttindi til handa mannöpum víða um heim. Fræg er til dæmis nýleg niðurstaða dómara í Argentínu um að órangútanapinn Sandra hefði til að bera siðferðilega stöðu sambærilega við manneskju. Fleiri dæmi í svipuðum dúr mætti nefna um það hvernig skörp siðferðileg skil milli mannfólks annars vegar og dýraríkisins hins vegar hafa verið að mást út. Er ekki ástæða til að gera ráð fyrir öðru en gagnrýnar ábendingar um tegundahyggju haldi áfram að verða öflugt tæki þeirra sem trúa á siðferðilegan jöfnuð innan alls dýraríkisins.

Sumir hafa bent á að tilraunir til að taka mannapa undir réttindaregnhlífina geri í raun ekkert nema færa línuna aðeins til. Tegundahyggjan verði enn jafn stæk gagnvart flestum dýrategundum. Á myndinni sjást órangútanapar í dýragarði.

En það eru þó ekki allir á því máli að ásökun um tegundahyggju eigi rétt á sér. Til dæmis hafa sumir bent á að tilraunir til að taka mannapa undir réttindaregnhlífina geri í raun ekkert nema færa línuna aðeins til. Tegundahyggjan verði enn jafn stæk gagnvart flestum dýrategundum. Þá hefur komið fram siðfræðileg gagnrýni um að einungis manneskjur geti verið handhafar réttinda enda fylgi þeim skyldur sem aðeins þær geti borið. Margir hafa sagt að siðferði tilheyri í raun aðeins mannkyni, hegðun þess og ætlunum. Það séu mistök að víkka siðferðismengið út svo nokkru nemi og því sé hinu skörpu skil einungis merki um hvar siðferði liggi. Hið náttúrulega ástand feli það í sér að hver tegund reyni að tryggja eigin velferð og mannkyn sé eina tegundin sem leitist við að gera það á siðlegan máta. Að lokum má nefna gagnrýni um að þessi áhersla á velferð dýra sé í raun á kostnað mikilvægari baráttumála. Kynþáttahyggja sé til dæmis miklu raunverulegra og stærra vandamál í mannlegu samfélagi og meira aðkallandi að berjast gegn henni heldur en gegn tegundahyggju.

Tegundahyggja mun þó halda áfram að vera lykilhugtak hjá þeim sem berjast fyrir réttindum dýra. Sú einfalda hugmynd sem hugtakið byggir á hefur gríðarlegan siðferðilegan slagkraft og mun ávallt virka sem þörf áminning. Á hinn bóginn er ólíklegt að mannkyn muni almennt hætta að gera sig sekt um einhvers konar tegundahyggju í framtíðinni. Hagsmunir mannkyns munu alltaf vera í fyrsta sæti. En ef áminningin um tegundahyggju verður til þess að hægja á ógnvænlegri útrýmingu dýrategunda eða grimmilegri notkun á dýrum okkur til hagsbóta má segja að sú áminning hafi svo sannarlega haft rétt á sér.

Mynd:

Upprunalega spurningin var: Hæ, hæ ég veit ekki alveg hvern á að spurja en veist þú nokkuð íslenska orðið fyrir speciesism?...