Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Er það satt sem Express.co.uk segir að svarthol sé að koma til jarðar?

Sævar Helgi Bragason

Spurningin í heild sinni var svona:

Ég er að stressa mig útaf Express.co.uk sem segir að svarthol sé að koma til jarðar en stjúpmamma mín segir að þau hagi sér ekki þannig, er það satt?

Stjúpmamma þín hefur alveg rétt fyrir sér. Engar líkur eru á því að svarthol komi og gleypi jörðina nokkurn tímann. Raunar er það útilokað. Öll svarthol eru svo óralangt frá jörðinni að okkur stafar engin hætta af þeim. Óhætt er að flokka allar fréttir sem birtast um slíkar yfirvofandi hamfarir sem falsfréttir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Margir halda að svarthol séu eins og ryksugur. Svo er ekki. Svarthol soga ekkert til sín. Ef sólin myndi breytast í svarthol (sem getur aldrei gerst því sólin er ekki nógu efnismikil) myndi jörðin aðeins halda áfram að snúast í kringum svartholið eins og ekkert hefði í skorist.

Margir halda að svarthol séu eins og ryksugur. Svo er ekki. Svarthol soga ekkert til sín.

Útilokað er að falla í svarthol nema fara alltof nálægt þeim, inn fyrir tiltekin mörk sem kallast sjóndeild. Sjóndeildinni mætti líkja við brún á fossi. Fari eitthvað inn fyrir sjóndeildina er engrar undankomu auðið.

Svipað gildir um sólina, tunglið og jörðina og raunar öll efnisleg fyrirbæri. Ef þú ert úti í geimnum en ferð of nálægt jörðinni fellurðu til jarðar á endanum og sleppur ekki burt. Nema auðvitað þú setjist inn í eldflaug og látir skjóta þér nógu hratt út í geiminn til að losna úr þyngdarsviði jarðar.

Allir efnislegir hlutir hafa þyngdarkraft eða þyngdarsvið. Því massameiri sem hluturinn er, þeim mun sterkari er þyngdarkrafturinn. Fyrirbæri eins og jörðin inniheldur fremur lítið efni (hefur lítinn massa) og þyngdarkraftur hennar er þess vegna tiltölulega veikur. Til að sleppa frá jörðinni þarf geimfar „bara“ að ná 11 km hraða á sekúndu.

Enski eðlisvísindamaðurinn og stærðfræðingurinn Ísak Newton uppgötvaði að þyngdarkrafturinn hættir aldrei heldur dofnar hratt með aukinni fjarlægð. Þyngdarkraftur jarðar nær um 1,5 milljón km út í geiminn. Utar er þyngdarkraftur jarðar veikari en þyngdarkraftur sólar. Ef þú ert innan þyngdarsviðs jarðar togar jörðin í þig með meiri krafti en sólin. En ef þú ferð meira en 1,5 milljón km í burtu frá jörðinni tekur sólin við og þá ertu bara eins og reikistjörnurnar, komin(n) á braut um sólina.

Ísak Newton uppgötvaði að þyngdarkrafturinn hættir aldrei heldur dofnar hratt með aukinni fjarlægð. Myndin er frægt verk af Newton sem William Blake gerði um 1800.

Svarthol eru staðir í geimnum þar sem þyngdarkrafturinn er svo sterkur að allt sem fellur inn sleppur aldrei burt. Til að losna úr svartholi þyrfti geimfar með öðrum orðum að ná meiri hraða en sem nemur hraða ljóssins, meira en 300.000 km hraða á sekúndu. Þess vegna eru svarthol ósýnileg, ekki einu sinni ljósið sleppur þaðan! Næsta nágrenni þeirra getur hins vegar verið ægibjart ef svartholin eru að gleypa efni sem fór of nálægt. Þannig hafa flest svarthol fundist.

Þótt svarthol hafi gríðarsterk þyngdarsvið eru þau öll svo óralangt í burtu að þau toga lítið sem ekkert í okkur. Þyngdartog sólarinnar er margfalt sterkara en þyngdartog fjarlægra svarthola vegna þess að við erum svo miklu, miklu nær sólinni.

Nálægasta svarthol sem fundist hefur til þessa er í 1000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnukerfi sem kallast HR 6819. Ef við mundum ferðast þangað á mesta hraða sem manngert farartæki hefur náð, ferðahraða Voyager 1 gervitunglsins, tæki það tuttugu milljónir ára fyrir okkur að komast þangað. Í kerfinu eru tvær stjörnur sem snúast í kringum svarthol sem er fjórum sinnum efnismeira en sólin okkar. [1]

Sennilega er fjöldi svartholi miklu nær okkur. Þrátt fyrir það eru þau öll svo langt í burtu að jörðinni, sólinni eða öðrum reikistjörnum mun aldrei stafa nokkur einasta hætta af þeim.

Tilvísun:
  1. ^ Mælitæki ESO finnur nálægasta svartholið við Jörðina

Frekara lesefni:

Myndir:

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

18.5.2020

Spyrjandi

Sunna Björk

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Er það satt sem Express.co.uk segir að svarthol sé að koma til jarðar?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2020. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=79484.

Sævar Helgi Bragason. (2020, 18. maí). Er það satt sem Express.co.uk segir að svarthol sé að koma til jarðar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79484

Sævar Helgi Bragason. „Er það satt sem Express.co.uk segir að svarthol sé að koma til jarðar?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2020. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=79484>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er það satt sem Express.co.uk segir að svarthol sé að koma til jarðar?
Spurningin í heild sinni var svona:

Ég er að stressa mig útaf Express.co.uk sem segir að svarthol sé að koma til jarðar en stjúpmamma mín segir að þau hagi sér ekki þannig, er það satt?

Stjúpmamma þín hefur alveg rétt fyrir sér. Engar líkur eru á því að svarthol komi og gleypi jörðina nokkurn tímann. Raunar er það útilokað. Öll svarthol eru svo óralangt frá jörðinni að okkur stafar engin hætta af þeim. Óhætt er að flokka allar fréttir sem birtast um slíkar yfirvofandi hamfarir sem falsfréttir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Margir halda að svarthol séu eins og ryksugur. Svo er ekki. Svarthol soga ekkert til sín. Ef sólin myndi breytast í svarthol (sem getur aldrei gerst því sólin er ekki nógu efnismikil) myndi jörðin aðeins halda áfram að snúast í kringum svartholið eins og ekkert hefði í skorist.

Margir halda að svarthol séu eins og ryksugur. Svo er ekki. Svarthol soga ekkert til sín.

Útilokað er að falla í svarthol nema fara alltof nálægt þeim, inn fyrir tiltekin mörk sem kallast sjóndeild. Sjóndeildinni mætti líkja við brún á fossi. Fari eitthvað inn fyrir sjóndeildina er engrar undankomu auðið.

Svipað gildir um sólina, tunglið og jörðina og raunar öll efnisleg fyrirbæri. Ef þú ert úti í geimnum en ferð of nálægt jörðinni fellurðu til jarðar á endanum og sleppur ekki burt. Nema auðvitað þú setjist inn í eldflaug og látir skjóta þér nógu hratt út í geiminn til að losna úr þyngdarsviði jarðar.

Allir efnislegir hlutir hafa þyngdarkraft eða þyngdarsvið. Því massameiri sem hluturinn er, þeim mun sterkari er þyngdarkrafturinn. Fyrirbæri eins og jörðin inniheldur fremur lítið efni (hefur lítinn massa) og þyngdarkraftur hennar er þess vegna tiltölulega veikur. Til að sleppa frá jörðinni þarf geimfar „bara“ að ná 11 km hraða á sekúndu.

Enski eðlisvísindamaðurinn og stærðfræðingurinn Ísak Newton uppgötvaði að þyngdarkrafturinn hættir aldrei heldur dofnar hratt með aukinni fjarlægð. Þyngdarkraftur jarðar nær um 1,5 milljón km út í geiminn. Utar er þyngdarkraftur jarðar veikari en þyngdarkraftur sólar. Ef þú ert innan þyngdarsviðs jarðar togar jörðin í þig með meiri krafti en sólin. En ef þú ferð meira en 1,5 milljón km í burtu frá jörðinni tekur sólin við og þá ertu bara eins og reikistjörnurnar, komin(n) á braut um sólina.

Ísak Newton uppgötvaði að þyngdarkrafturinn hættir aldrei heldur dofnar hratt með aukinni fjarlægð. Myndin er frægt verk af Newton sem William Blake gerði um 1800.

Svarthol eru staðir í geimnum þar sem þyngdarkrafturinn er svo sterkur að allt sem fellur inn sleppur aldrei burt. Til að losna úr svartholi þyrfti geimfar með öðrum orðum að ná meiri hraða en sem nemur hraða ljóssins, meira en 300.000 km hraða á sekúndu. Þess vegna eru svarthol ósýnileg, ekki einu sinni ljósið sleppur þaðan! Næsta nágrenni þeirra getur hins vegar verið ægibjart ef svartholin eru að gleypa efni sem fór of nálægt. Þannig hafa flest svarthol fundist.

Þótt svarthol hafi gríðarsterk þyngdarsvið eru þau öll svo óralangt í burtu að þau toga lítið sem ekkert í okkur. Þyngdartog sólarinnar er margfalt sterkara en þyngdartog fjarlægra svarthola vegna þess að við erum svo miklu, miklu nær sólinni.

Nálægasta svarthol sem fundist hefur til þessa er í 1000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnukerfi sem kallast HR 6819. Ef við mundum ferðast þangað á mesta hraða sem manngert farartæki hefur náð, ferðahraða Voyager 1 gervitunglsins, tæki það tuttugu milljónir ára fyrir okkur að komast þangað. Í kerfinu eru tvær stjörnur sem snúast í kringum svarthol sem er fjórum sinnum efnismeira en sólin okkar. [1]

Sennilega er fjöldi svartholi miklu nær okkur. Þrátt fyrir það eru þau öll svo langt í burtu að jörðinni, sólinni eða öðrum reikistjörnum mun aldrei stafa nokkur einasta hætta af þeim.

Tilvísun:
  1. ^ Mælitæki ESO finnur nálægasta svartholið við Jörðina

Frekara lesefni:

Myndir:...