Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvaða rök liggja á bakvið bann á mannáti?

Henry Alexander Henrysson

Fá viðmið eru eins geirnegld í siðferðislíf okkar og bannið við að leggja sér manneskjur til munns. Listir og dægurmenning hafa lengi nýtt sér þetta viðhorf til að skapa eftirminnilegar en um leið viðurstyggilegar persónur. Persóna Hannibals Lecter sem margir muna eftir er til dæmis sérlega ógeðfelld. Óviðjafnanleg siðfágun persónunnar skiptir engu þegar sú fágun speglast í þeim ávana hennar að elda fórnarlömb sín. Mannát er ólöglegt vegna þess að það gengur gegn þessum siðferðilegu viðmiðum. Lög eru yfirleitt sett til þess túlka slík ráðandi viðhorf í samfélaginu.

En þótt sitthvað í siðferðislífi okkar virðist sjálfljóst er ekki þar með sagt að fyrir liggi hverjar ástæðurnar eru. Þess vegna er það vissulega áhugavert að skoða rökin bakvið þessi viðhorf okkar, líkt og allt annað sem leikur lykilhlutverk í að viðhalda siðmenningunni. Hver sá sem ferðast um heiminn verður til dæmis var við ólíka siði varðandi það hvað fólk telur eðlilegt að leggja sér til munns. Á bann við mannáti sér kannski ekki dýpri siðferðilegar rætur heldur en það að hundaát er litið ólíkum augum milli menningarheima? Er þetta, þegar öllu er á botninn hvolft, smekksatriði? Eða eru þau okkar sem líta hvorki á hunda né mannfólk sem fæðu að hlíta góðum rökum?

Myndskreyting við þekkt 16. aldar rit sem sýnir mannát í Brasilíu.

Upphaflega spurningin hljóðaði annars svo:
Mannát gæti fræðilega séð unnið gegn tveimur stærstu heimsvandamálum á einu bretti, offjölgun og hungursneyð, svo hvers vegna er mannát ólöglegt? Þ.e.a.s. með hvaða rökfræðilegu rökum (en ekki bara eitthvað „oj bara“ siðfræðivæl) hefur þetta verið bannað?

Önnur forsenda spurningarnar er sú að hungursneyð í heiminum stafi af skorti á matvælum á heimsvísu. Það má setja spurningamerki við þá fullyrðingu. Hungursneyð í samtímanum stafar yfirleitt af öðrum orsökum. Stríð og náttúruhamfarir eru yfirleitt orsakirnar og er í raun ekki tæknilega flókið fyrir alþjóðasamfélagið að bregðast við slíkum staðbundnum aðstæðum. Það er ekki skortur á matvælum á heimsvísu. Og það er fátt sem bendir til að gott sé að mæta hungursneyð með kjötáti af jafn rýrum skepnum og manneskjum. Þótt auðvitað finnist þekktar undantekningar þá er vöðvauppbygging okkar ekki sambærileg við þær skepnur sem hafa þróast með okkur í landbúnaði í gegnum árþúsundin.

Hin forsendan um að sporna gegn fólksfjölgun er hins vegar allrar athygli verð. Vandamálið við þessa forsendu snertir svo sem ekki mannátið sem slíkt heldur miklu fremur stærri spurningar um hvort okkur leyfist að taka líf annarra manneskja til að mæta tilteknum markmiðum. Hvort slíkt sé réttlætanlegt verður alltaf fyrst og fremst siðferðileg spurning og ekki ljóst hvaða önnur rök geta spilað þar inn í. Einnig þyrfti að svara því hvernig við myndum fella fólk á sem mannúðlegastan máta. Siðferðilegu spurningarnar liggja víða.

En þessar efasemdir um forsendur upphaflegu spurningarinnar breyta þó ekki því að það kann að vera áhugavert að leitast við að svara því hvers vegna bann við mannáti er svo víðtækt. Viðhorf sem efast um rökin bakvið bann við mannáti geta verið af ýmsu tagi. Sumir geta sagt það stæka tegundahyggju að leggja sér önnur spendýr til munns en kúgast á sama tíma við tilhugsunina um að borða mannakjöt. Þá getur fólk einnig bent á að það sé fjarri því óþekkt í dýraríkinu að dýr borði einstaklinga af sömu tegund. Mannát hefur þar að auki þekkst í ólíkum menningarsamfélögum. Hver erum við að segja okkar siðmenningu standa öðrum framar? Einnig má nefna að pælingar um að það felist sjúkdómahætta í mannáti skýri ekki hvers vegna okkur býður við því. Slíkar hugmyndir eru tiltölulega nýtilkomnar í sögu mannkyns.

Ástæður þess að mannát er siðferðilega rangt – og þar af leiðandi ólöglegt – koma fram í því hvernig við bregðumst við ofangreindum atriðum. Til einföldunar má segja að þessar ástæður séu af tvennu tagi, þótt þær vissulega tengist. Fyrri ástæðan felst í því sem við nefnum „mannhelgi“. Hún felst í því að okkur ber að sýna öðru fólki virðingu, óháð stétt og stöðu, og er nokkurs konar kjölfesta í siðferðislífi okkar. Vissulega kemur það fyrir að erfitt getur reynst að gæta að mannhelginni, til dæmis í stríðsátökum, en þó er reynt – til dæmis með alþjóðlegum samningum – að finna leiðir til þess að öll virðing skolist ekki til.

Mannát í rússnesku hungursneyðinni 1921.

Seinni ástæðuna er einmitt hægt að skýra í framhaldi af þessu dæmi um stríðsátök. Fyrir utan sögur af mannáti sem hefur orsakast af mikilli neyð, þá eru flest þekkt dæmi tengd valdi. Sigurvegarar snæða þá sem bíða lægra haldi fyrir þeim í átökum eða þá að fólk telur það valdefla sig að leggja líffæri annars einstaklings, til dæmis hjarta, sér til munns. Ýmis konar hjátrú tengist slíkum athöfnum. Hvatirnar sem liggja þar að baki eru með öðrum orðum ranglátar. Þær snúast um að nota aðra manneskju til að auka kraft sinn og ásýnd um völd. Valdið gengur gegn mannhelginni. Rökin gegn mannáti eru því þau að það getur aldrei verið siðferðilega hlutlaus athöfn, að minnsta kosti ekki að sama marki og það að nærast með öðrum og hefðbundnari hætti.

Enn væri þó hægt að ræða margt varðandi siðferðilega hlið mannáts. Eitt atriðið er til dæmis sú spurning hversu stóran hluta manneskju þurfi að innbyrða til þess að neyslan sé óumdeilanlega siðferðilega ámælisverð. Er ásættanlegra að borða kjöt af manneskju sem lætur ekki lífið? Eða er látin hvort sem er? Ætti að vera leyfilegt að gefa hluta af sér til matreiðslu, til dæmis hluta af læri eða líffæri, ef maður gerir það á upplýstan máta og eindregin vilji er til? Mætti maður jafnvel borða sjálfan sig? Og raunar er það heimspekileg spurning hvað telst vera hluti manneskju. Flokkast blóðdrykkja sem mannát? Er það tegund mannáts að smakka á fylgju, eins og sögur hafa borist af? Spurningarnar eru í raun óteljandi og þyrfti að svara hverri fyrir sig í sérstökum færslum á Vísindavefnum.

Myndir:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

13.11.2020

Spyrjandi

Örn

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hvaða rök liggja á bakvið bann á mannáti?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2020. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=79974.

Henry Alexander Henrysson. (2020, 13. nóvember). Hvaða rök liggja á bakvið bann á mannáti? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79974

Henry Alexander Henrysson. „Hvaða rök liggja á bakvið bann á mannáti?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2020. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=79974>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða rök liggja á bakvið bann á mannáti?
Fá viðmið eru eins geirnegld í siðferðislíf okkar og bannið við að leggja sér manneskjur til munns. Listir og dægurmenning hafa lengi nýtt sér þetta viðhorf til að skapa eftirminnilegar en um leið viðurstyggilegar persónur. Persóna Hannibals Lecter sem margir muna eftir er til dæmis sérlega ógeðfelld. Óviðjafnanleg siðfágun persónunnar skiptir engu þegar sú fágun speglast í þeim ávana hennar að elda fórnarlömb sín. Mannát er ólöglegt vegna þess að það gengur gegn þessum siðferðilegu viðmiðum. Lög eru yfirleitt sett til þess túlka slík ráðandi viðhorf í samfélaginu.

En þótt sitthvað í siðferðislífi okkar virðist sjálfljóst er ekki þar með sagt að fyrir liggi hverjar ástæðurnar eru. Þess vegna er það vissulega áhugavert að skoða rökin bakvið þessi viðhorf okkar, líkt og allt annað sem leikur lykilhlutverk í að viðhalda siðmenningunni. Hver sá sem ferðast um heiminn verður til dæmis var við ólíka siði varðandi það hvað fólk telur eðlilegt að leggja sér til munns. Á bann við mannáti sér kannski ekki dýpri siðferðilegar rætur heldur en það að hundaát er litið ólíkum augum milli menningarheima? Er þetta, þegar öllu er á botninn hvolft, smekksatriði? Eða eru þau okkar sem líta hvorki á hunda né mannfólk sem fæðu að hlíta góðum rökum?

Myndskreyting við þekkt 16. aldar rit sem sýnir mannát í Brasilíu.

Upphaflega spurningin hljóðaði annars svo:
Mannát gæti fræðilega séð unnið gegn tveimur stærstu heimsvandamálum á einu bretti, offjölgun og hungursneyð, svo hvers vegna er mannát ólöglegt? Þ.e.a.s. með hvaða rökfræðilegu rökum (en ekki bara eitthvað „oj bara“ siðfræðivæl) hefur þetta verið bannað?

Önnur forsenda spurningarnar er sú að hungursneyð í heiminum stafi af skorti á matvælum á heimsvísu. Það má setja spurningamerki við þá fullyrðingu. Hungursneyð í samtímanum stafar yfirleitt af öðrum orsökum. Stríð og náttúruhamfarir eru yfirleitt orsakirnar og er í raun ekki tæknilega flókið fyrir alþjóðasamfélagið að bregðast við slíkum staðbundnum aðstæðum. Það er ekki skortur á matvælum á heimsvísu. Og það er fátt sem bendir til að gott sé að mæta hungursneyð með kjötáti af jafn rýrum skepnum og manneskjum. Þótt auðvitað finnist þekktar undantekningar þá er vöðvauppbygging okkar ekki sambærileg við þær skepnur sem hafa þróast með okkur í landbúnaði í gegnum árþúsundin.

Hin forsendan um að sporna gegn fólksfjölgun er hins vegar allrar athygli verð. Vandamálið við þessa forsendu snertir svo sem ekki mannátið sem slíkt heldur miklu fremur stærri spurningar um hvort okkur leyfist að taka líf annarra manneskja til að mæta tilteknum markmiðum. Hvort slíkt sé réttlætanlegt verður alltaf fyrst og fremst siðferðileg spurning og ekki ljóst hvaða önnur rök geta spilað þar inn í. Einnig þyrfti að svara því hvernig við myndum fella fólk á sem mannúðlegastan máta. Siðferðilegu spurningarnar liggja víða.

En þessar efasemdir um forsendur upphaflegu spurningarinnar breyta þó ekki því að það kann að vera áhugavert að leitast við að svara því hvers vegna bann við mannáti er svo víðtækt. Viðhorf sem efast um rökin bakvið bann við mannáti geta verið af ýmsu tagi. Sumir geta sagt það stæka tegundahyggju að leggja sér önnur spendýr til munns en kúgast á sama tíma við tilhugsunina um að borða mannakjöt. Þá getur fólk einnig bent á að það sé fjarri því óþekkt í dýraríkinu að dýr borði einstaklinga af sömu tegund. Mannát hefur þar að auki þekkst í ólíkum menningarsamfélögum. Hver erum við að segja okkar siðmenningu standa öðrum framar? Einnig má nefna að pælingar um að það felist sjúkdómahætta í mannáti skýri ekki hvers vegna okkur býður við því. Slíkar hugmyndir eru tiltölulega nýtilkomnar í sögu mannkyns.

Ástæður þess að mannát er siðferðilega rangt – og þar af leiðandi ólöglegt – koma fram í því hvernig við bregðumst við ofangreindum atriðum. Til einföldunar má segja að þessar ástæður séu af tvennu tagi, þótt þær vissulega tengist. Fyrri ástæðan felst í því sem við nefnum „mannhelgi“. Hún felst í því að okkur ber að sýna öðru fólki virðingu, óháð stétt og stöðu, og er nokkurs konar kjölfesta í siðferðislífi okkar. Vissulega kemur það fyrir að erfitt getur reynst að gæta að mannhelginni, til dæmis í stríðsátökum, en þó er reynt – til dæmis með alþjóðlegum samningum – að finna leiðir til þess að öll virðing skolist ekki til.

Mannát í rússnesku hungursneyðinni 1921.

Seinni ástæðuna er einmitt hægt að skýra í framhaldi af þessu dæmi um stríðsátök. Fyrir utan sögur af mannáti sem hefur orsakast af mikilli neyð, þá eru flest þekkt dæmi tengd valdi. Sigurvegarar snæða þá sem bíða lægra haldi fyrir þeim í átökum eða þá að fólk telur það valdefla sig að leggja líffæri annars einstaklings, til dæmis hjarta, sér til munns. Ýmis konar hjátrú tengist slíkum athöfnum. Hvatirnar sem liggja þar að baki eru með öðrum orðum ranglátar. Þær snúast um að nota aðra manneskju til að auka kraft sinn og ásýnd um völd. Valdið gengur gegn mannhelginni. Rökin gegn mannáti eru því þau að það getur aldrei verið siðferðilega hlutlaus athöfn, að minnsta kosti ekki að sama marki og það að nærast með öðrum og hefðbundnari hætti.

Enn væri þó hægt að ræða margt varðandi siðferðilega hlið mannáts. Eitt atriðið er til dæmis sú spurning hversu stóran hluta manneskju þurfi að innbyrða til þess að neyslan sé óumdeilanlega siðferðilega ámælisverð. Er ásættanlegra að borða kjöt af manneskju sem lætur ekki lífið? Eða er látin hvort sem er? Ætti að vera leyfilegt að gefa hluta af sér til matreiðslu, til dæmis hluta af læri eða líffæri, ef maður gerir það á upplýstan máta og eindregin vilji er til? Mætti maður jafnvel borða sjálfan sig? Og raunar er það heimspekileg spurning hvað telst vera hluti manneskju. Flokkast blóðdrykkja sem mannát? Er það tegund mannáts að smakka á fylgju, eins og sögur hafa borist af? Spurningarnar eru í raun óteljandi og þyrfti að svara hverri fyrir sig í sérstökum færslum á Vísindavefnum.

Myndir:...