Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvaða sérfræðingum á að treysta í málefnum sem tengjast COVID-19?

Victor Karl Magnússon

Sérfræðingar gegna tveimur mikilvægum hlutverkum í COVID-19-faraldrinum. Í fyrsta lagi aðstoða þeir stjórnvöld við stefnumótun og í öðru lagi sjá þeir um að upplýsa almenning og byggja upp traust. En þá vaknar mikilvæg spurning: hverjir eru þessir sérfræðingar? Hverjir eiga að aðstoða stjórnvöld við stefnumótun og upplýsa almenning? Hvernig á almenningur að ákvarða hvort tilteknum „sérfræðingi“ sé treystandi?

Til þess að hægt sé að svara þessu er gagnlegt að gera grein fyrir því hvað felst almennt í því að vera sérfræðingur. Í grundvallaratriðum mætti segja að einstaklingur sé sérfræðingur á tilteknu sviði ef hann hefur meiri þekkingu, hæfni og skilning á sínu sérsviði en gengur og gerist. Einstaklingur sem uppfyllir þessi skilyrði er líklegri til þess að mynda sér áreiðanlegar og vel ígrundaðar skoðanir um málefni sem tengjast hans sérsviði með beinum hætti. Til dæmis mætti segja að reynslumikill bifvélavirki sé sérfræðingur í bílaviðgerðum ef viðkomandi myndar sér áreiðanlegar skoðanir um bilaða bíla á grundvelli þeirrar þekkingar og hæfni sem hann býr yfir. Vert er að leggja áherslu á að sérfræðiþekking er ávallt bundin við tiltekið svið. Sem dæmi væri sjaldnast skynsamlegt að fara til tannlæknis með bilaðan bíl eða að láta bifvélavirkja sjá um tannviðgerðir.

Við eigum að geta treyst sérfræðingi í tannviðgerðum fyrir viðhaldi tannanna en varla til að gera við bílinn okkar.

Hvers konar traust?

Traust er bundið við ákveðið svið hverju sinni, rétt eins og sérfræðiþekking. Þegar við segjumst treysta einhverjum þá meinum við yfirleitt að við treystum viðkomandi á tilteknu sviði eða til ákveðinna gjörða. Til dæmis gætum við treyst einum aðila fyrir leyndarmáli og öðrum til þess að skila ryksugu en ekki endilega öfugt. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við tölum um traust til sérfræðinga - hverju erum við nákvæmlega að treysta þeim fyrir og undir hvaða kringumstæðum?

Yfirleitt er um tvenns konar traust að ræða í þessu samhengi. Í fyrsta lagi treystum við oft sérfræðingum fyrir því að veita áreiðanlegar upplýsingar. Til dæmis gæti ég myndað mér þá skoðun að gos sé væntanlegt í tilteknu eldfjalli þegar ég heyri viðtal við jarðfræðing sem segir eldgos vera yfirvofandi. Í öðru lagi treystum við því stundum að sérfræðingar beri hag okkar fyrir brjósti þegar við fylgjum ráðum þeirra með beinum hætti. Til dæmis gæti ég tekið þá ákvörðun að yfirgefa heimilið mitt ef sami jarðfræðingur segði að hætta stafi af þessu yfirvofandi eldgosi. Fyrri tegundin af trausti, sem snýr að upplýsingagjöf, hefur verið kallað þekkingarfræðilegt traust (e. epistemic trust). Seinni tegundin af trausti, sem snýr að því að fylgja ráðum einhvers, kallast tilmælatraust (e. recommendation trust).[1]

Snúum okkur nú aftur að upphaflegu spurningunni með þessar skilgreiningar í farteskinu: hvaða sérfræðingum á að treysta varðandi COVID-19?

Þekkingarfræðilegt traust

Þegar kemur að þekkingarfræðilegu trausti eru nokkrar þumalputtareglur sem hægt er að styðjast við. Heimspekingar eins og Alvin Goldman og Finnur Dellsén hafa til dæmis stungið upp á aðferðum til þess að meta hvort orðræða tiltekins sérfræðings sé traustsins verð.[2] Þessum aðferðum mætti lýsa með nokkrum gagnrýnum spurningum sem vert er að velta fyrir sér þegar sérfræðingar halda einhverju fram:

  1. Er viðkomandi raunverulegur sérfræðingur?
  2. Nær sérfræðiþekking viðkomandi yfir það málefni sem um ræðir?
  3. Virðist viðkomandi byggja afstöðu sína á haldbærum gögnum eða rökum?
  4. Er samstaða meðal annarra sérfræðinga um það sem viðkomandi heldur fram?
  5. Hefur viðkomandi haft rétt fyrir sér áður um svipuð málefni?
  6. Er viðkomandi laus við óæskilega hvata (til dæmis fjárhagslega) sem gætu haft áhrif á afstöðu hans?

Ef svarið við öllum ofangreindum spurningum er já, þá eru sterk rök sem hníga að því að treysta viðkomandi sérfræðingi. Ef svarið við flestum ofangreindum spurningum er nei, þá eru ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart því sem verið er að halda fram. Við getum til dæmis ímyndað okkur meintan sérfræðing sem birtir skýrslu þar sem því er haldið fram að hægt sé að lækna COVID-19 með gosdrykkju. Ef við komumst síðan að því að viðkomandi hefur engan bakgrunn í læknisfræði (samanber viðmið 2), að enginn annar virðist halda þessu fram (samanber viðmið 4) og að hann sé á launaskrá hjá gosframleiðanda (samanber viðmið 6) þá væri skynsamlegt að taka því sem hann segir með miklum fyrirvara. Að þessu sögðu, þá eru þessi viðmið alls ekki heilög. Stundum er erfitt að vita hvort tiltekin viðmið séu yfirhöfuð uppfyllt. Í mörgum tilfellum gæti síðan verið góð ástæða fyrir því að einhver sérfræðingur uppfylli ekki einstök viðmið. En þegar margir þættir koma saman, eins og í dæminu um hér fyrir ofan, þá eru ríkar ástæður til þess að vera á tánum og taka ekki viðkomandi á orðinu einu saman.

Tilmælatraust og COVID-19

Hér áður var greint á milli þekkingarfræðilegs trausts annars vegar og tilmælatrausts hins vegar. Í stuttu máli snýst þekkingarfræðilegt traust til sérfræðinga um að trúa því sem sérfræðingar segja en tilmælatraust til sérfræðinga snýst um að fylgja ráðum þeirra. Í COVID-19-faraldrinum hefur oft reynt á tilmælatraust almennings, til dæmis þegar sóttvarnayfirvöld hafa biðlað til fólks að viðhalda samskiptafjarlægðum eða virða reglur um sóttkví. Sérfræðingar sem njóta tilmælatrausts ættu helst að uppfylla svipuð viðmið og þeir sem njóta þekkingarfræðilegs trausts. Það er, þeir ættu að hafa raunverulega sérfræðikunnáttu á viðeigandi sviði, byggja ráðleggingar sínar á haldbærum rökum, vera lausir við annarlega hvata og svo framvegis. Þar að auki skiptir miklu máli að viðkomandi sérfræðingar hafi almannahagsmuni að leiðarljósi og geri fólki ljóst hvers vegna það sé þess virði að fylgja þeim tilmælum sem verið er að tefla fram. Þetta virðist hafa gengið vel hjá sóttvarnayfirvöldum í fyrstu bylgju COVID-19-faraldursins á Íslandi en kannanir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands benda til þess að meirihluti almennings hafi verið sáttur við sóttvarnaaðgerðir (þrátt fyrir íþyngjandi eðli þeirra) og tekið virkan þátt í þeim.

Sérfræðingar sem njóta tilmælatrausts ættu helst að uppfylla svipuð viðmið og þeir sem njóta þekkingarfræðilegs trausts. Það er, þeir ættu að hafa raunverulega sérfræðikunnáttu á viðeigandi sviði, byggja ráðleggingar sínar á haldbærum rökum, vera lausir við annarlega hvata og svo framvegis.

Loks ber að nefna að það getur skipt máli fyrir tilmælatraust að sérfræðingarnir gegni viðeigandi stöðum í samfélaginu. Samkvæmt íslenskum lögum ber sóttvarnalækni, sem starfar undir embætti landlæknis, að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf á farsóttatímum. Það er því eðlilegt að tilmæli opinberra sérfræðinga hjá þessum embættum hafi fengið mikinn hljómgrunn í samfélaginu undanfarna mánuði. Á krísutímum, þar sem tímapressan er mikil, getur jafnframt skipt máli að hafa skýra og samræmda stefnu– sérstaklega þegar stefnan kallar á samvinnu við almenning. Það hefði til dæmis verið ruglandi og óskilvirkt ef hver og einn á Íslandi hefði valið sér „sinn sérfræðing” og fylgt mismunandi sóttvarnaráðstöfunum. Ef sumir hefðu fylgt tilmælum danskra sóttvarnayfirvalda en aðrir tilmælum franskra sóttvarnayfirvalda á meðan allir hefðu hlýtt á upplýsingafundi almannavarna þá hefði óæskileg ringulreið skapast í samfélaginu.

Þetta þýðir alls ekki að stefna íslenskra sóttvarnayfirvalda sé sú eina rétta eða hafin yfir gagnrýni. Punkturinn er einfaldlega sá að þegar tiltekin stefna er valin, sem krefst samvinnu almennings, þá mun sú stefna skila sem bestu niðurstöðum þegar allir eru á sömu blaðsíðu. Það eru því sterk rök sem hníga að því leyfa opinberum sérfræðingum hjá embætti landlæknis að móta samræmda sóttvarnastefnu, svo lengi sem hægt sé að treysta því að viðkomandi sérfræðingar séu hæfir, einlægir og tilbúnir að hlýða á málefnilega gagnrýni. Sumir hafa líkt þessari hlutverkaskiptingu við stöðu handboltaþjálfara eða leikstjóra og kannski er eitthvað til í því. Í miðjum handboltaleik er vænlegt að fylgja leikkerfi þjálfarans - að því gefnu að hægt sé að treysta því að þjálfarinn sé hæfur og beri hagsmuni liðsins fyrir brjósti . Á milli leikja gefst síðan rými fyrir fleiri aðila til þess að endurmeta og móta stefnu liðsins í sameiningu.

Það sama getur átt við um sérfræðinga. Það er vænlegt að treysta þeim (þegar málefnin tengjast sérsviði þeirra) og í neyðarástandi getur það verið eini valkosturinn í stöðunni. En fólk verður líka að finna jafnvægi milli þess að treysta og að hugsa með gagnrýnum hætti. Þá getur verið gott að grípa í viðmiðin sex sem kynnt voru hér að ofan.

Samantekt

  • Sérfræðingar eru þeir sem hafa meiri kunnátta, þekkingu og hæfni á tilteknu sviði en gengur og gerist.
  • Það er enginn einn sérfræðingur í öllu sem við kemur COVID-19 því faraldurinn tengist mörgum sviðum.
  • Læknar og faraldsfræðingar hafa til dæmis margt að segja um sjálfan sjúkdóminn og hegðun hans en félagsfræðingar, hagfræðingar og aðrir hafa margt að segja um þau samfélagslegu áhrif sem faraldurinn veldur.
  • Þegar ákvarða á hvort málflutningur tiltekins sérfræðings sé traustur er æskilegt að horfa til þess hvort aðrir sérfræðingar taki undir afstöðuna, hvort hún byggist á haldbærum rökum, hvort afstaðan gæti verið lituð af óæskilegum hvötum (til dæmis fjárhagslegum) og hvort viðkomandi hafi haft rétt fyrir sér áður um svipuð mál.
  • Það er stundum gagnlegt að greina á milli þess að treysta upplýsingagjöf sérfræðinga og að fara eftir tilmælum þeirra.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá Bennett (2020).
  2. ^ Samanber Goldman (2001) og Finnur Dellsén (2020).

Heimildir og myndir:

Myndir:


Þetta svar er hluti af verkefninu Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum þar sem nemar í heimspeki eða nýútskrifaðir heimspekingar skoða ýmislegt í tengslum við COVID-19-faraldurinn út frá heimspekilegu sjónarhorni. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, prófessors í heimspeki og hagnýtri siðfræði, Finns Ulf Dellsén, dósents í heimspeki, og Vilhjálms Árnasonar, prófessors í heimspeki og formanns stjórnar Siðfræðistofnunar.

Spurningu Arnar er hér svarað að hluta.

Höfundur

Victor Karl Magnússon

meistaranemi í heimspeki við Ludwig-Maximillian háskólann í München

Útgáfudagur

21.9.2020

Spyrjandi

Örn, ritstjórn

Tilvísun

Victor Karl Magnússon. „Hvaða sérfræðingum á að treysta í málefnum sem tengjast COVID-19?“ Vísindavefurinn, 21. september 2020. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=80049.

Victor Karl Magnússon. (2020, 21. september). Hvaða sérfræðingum á að treysta í málefnum sem tengjast COVID-19? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=80049

Victor Karl Magnússon. „Hvaða sérfræðingum á að treysta í málefnum sem tengjast COVID-19?“ Vísindavefurinn. 21. sep. 2020. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=80049>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða sérfræðingum á að treysta í málefnum sem tengjast COVID-19?
Sérfræðingar gegna tveimur mikilvægum hlutverkum í COVID-19-faraldrinum. Í fyrsta lagi aðstoða þeir stjórnvöld við stefnumótun og í öðru lagi sjá þeir um að upplýsa almenning og byggja upp traust. En þá vaknar mikilvæg spurning: hverjir eru þessir sérfræðingar? Hverjir eiga að aðstoða stjórnvöld við stefnumótun og upplýsa almenning? Hvernig á almenningur að ákvarða hvort tilteknum „sérfræðingi“ sé treystandi?

Til þess að hægt sé að svara þessu er gagnlegt að gera grein fyrir því hvað felst almennt í því að vera sérfræðingur. Í grundvallaratriðum mætti segja að einstaklingur sé sérfræðingur á tilteknu sviði ef hann hefur meiri þekkingu, hæfni og skilning á sínu sérsviði en gengur og gerist. Einstaklingur sem uppfyllir þessi skilyrði er líklegri til þess að mynda sér áreiðanlegar og vel ígrundaðar skoðanir um málefni sem tengjast hans sérsviði með beinum hætti. Til dæmis mætti segja að reynslumikill bifvélavirki sé sérfræðingur í bílaviðgerðum ef viðkomandi myndar sér áreiðanlegar skoðanir um bilaða bíla á grundvelli þeirrar þekkingar og hæfni sem hann býr yfir. Vert er að leggja áherslu á að sérfræðiþekking er ávallt bundin við tiltekið svið. Sem dæmi væri sjaldnast skynsamlegt að fara til tannlæknis með bilaðan bíl eða að láta bifvélavirkja sjá um tannviðgerðir.

Við eigum að geta treyst sérfræðingi í tannviðgerðum fyrir viðhaldi tannanna en varla til að gera við bílinn okkar.

Hvers konar traust?

Traust er bundið við ákveðið svið hverju sinni, rétt eins og sérfræðiþekking. Þegar við segjumst treysta einhverjum þá meinum við yfirleitt að við treystum viðkomandi á tilteknu sviði eða til ákveðinna gjörða. Til dæmis gætum við treyst einum aðila fyrir leyndarmáli og öðrum til þess að skila ryksugu en ekki endilega öfugt. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við tölum um traust til sérfræðinga - hverju erum við nákvæmlega að treysta þeim fyrir og undir hvaða kringumstæðum?

Yfirleitt er um tvenns konar traust að ræða í þessu samhengi. Í fyrsta lagi treystum við oft sérfræðingum fyrir því að veita áreiðanlegar upplýsingar. Til dæmis gæti ég myndað mér þá skoðun að gos sé væntanlegt í tilteknu eldfjalli þegar ég heyri viðtal við jarðfræðing sem segir eldgos vera yfirvofandi. Í öðru lagi treystum við því stundum að sérfræðingar beri hag okkar fyrir brjósti þegar við fylgjum ráðum þeirra með beinum hætti. Til dæmis gæti ég tekið þá ákvörðun að yfirgefa heimilið mitt ef sami jarðfræðingur segði að hætta stafi af þessu yfirvofandi eldgosi. Fyrri tegundin af trausti, sem snýr að upplýsingagjöf, hefur verið kallað þekkingarfræðilegt traust (e. epistemic trust). Seinni tegundin af trausti, sem snýr að því að fylgja ráðum einhvers, kallast tilmælatraust (e. recommendation trust).[1]

Snúum okkur nú aftur að upphaflegu spurningunni með þessar skilgreiningar í farteskinu: hvaða sérfræðingum á að treysta varðandi COVID-19?

Þekkingarfræðilegt traust

Þegar kemur að þekkingarfræðilegu trausti eru nokkrar þumalputtareglur sem hægt er að styðjast við. Heimspekingar eins og Alvin Goldman og Finnur Dellsén hafa til dæmis stungið upp á aðferðum til þess að meta hvort orðræða tiltekins sérfræðings sé traustsins verð.[2] Þessum aðferðum mætti lýsa með nokkrum gagnrýnum spurningum sem vert er að velta fyrir sér þegar sérfræðingar halda einhverju fram:

  1. Er viðkomandi raunverulegur sérfræðingur?
  2. Nær sérfræðiþekking viðkomandi yfir það málefni sem um ræðir?
  3. Virðist viðkomandi byggja afstöðu sína á haldbærum gögnum eða rökum?
  4. Er samstaða meðal annarra sérfræðinga um það sem viðkomandi heldur fram?
  5. Hefur viðkomandi haft rétt fyrir sér áður um svipuð málefni?
  6. Er viðkomandi laus við óæskilega hvata (til dæmis fjárhagslega) sem gætu haft áhrif á afstöðu hans?

Ef svarið við öllum ofangreindum spurningum er já, þá eru sterk rök sem hníga að því að treysta viðkomandi sérfræðingi. Ef svarið við flestum ofangreindum spurningum er nei, þá eru ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart því sem verið er að halda fram. Við getum til dæmis ímyndað okkur meintan sérfræðing sem birtir skýrslu þar sem því er haldið fram að hægt sé að lækna COVID-19 með gosdrykkju. Ef við komumst síðan að því að viðkomandi hefur engan bakgrunn í læknisfræði (samanber viðmið 2), að enginn annar virðist halda þessu fram (samanber viðmið 4) og að hann sé á launaskrá hjá gosframleiðanda (samanber viðmið 6) þá væri skynsamlegt að taka því sem hann segir með miklum fyrirvara. Að þessu sögðu, þá eru þessi viðmið alls ekki heilög. Stundum er erfitt að vita hvort tiltekin viðmið séu yfirhöfuð uppfyllt. Í mörgum tilfellum gæti síðan verið góð ástæða fyrir því að einhver sérfræðingur uppfylli ekki einstök viðmið. En þegar margir þættir koma saman, eins og í dæminu um hér fyrir ofan, þá eru ríkar ástæður til þess að vera á tánum og taka ekki viðkomandi á orðinu einu saman.

Tilmælatraust og COVID-19

Hér áður var greint á milli þekkingarfræðilegs trausts annars vegar og tilmælatrausts hins vegar. Í stuttu máli snýst þekkingarfræðilegt traust til sérfræðinga um að trúa því sem sérfræðingar segja en tilmælatraust til sérfræðinga snýst um að fylgja ráðum þeirra. Í COVID-19-faraldrinum hefur oft reynt á tilmælatraust almennings, til dæmis þegar sóttvarnayfirvöld hafa biðlað til fólks að viðhalda samskiptafjarlægðum eða virða reglur um sóttkví. Sérfræðingar sem njóta tilmælatrausts ættu helst að uppfylla svipuð viðmið og þeir sem njóta þekkingarfræðilegs trausts. Það er, þeir ættu að hafa raunverulega sérfræðikunnáttu á viðeigandi sviði, byggja ráðleggingar sínar á haldbærum rökum, vera lausir við annarlega hvata og svo framvegis. Þar að auki skiptir miklu máli að viðkomandi sérfræðingar hafi almannahagsmuni að leiðarljósi og geri fólki ljóst hvers vegna það sé þess virði að fylgja þeim tilmælum sem verið er að tefla fram. Þetta virðist hafa gengið vel hjá sóttvarnayfirvöldum í fyrstu bylgju COVID-19-faraldursins á Íslandi en kannanir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands benda til þess að meirihluti almennings hafi verið sáttur við sóttvarnaaðgerðir (þrátt fyrir íþyngjandi eðli þeirra) og tekið virkan þátt í þeim.

Sérfræðingar sem njóta tilmælatrausts ættu helst að uppfylla svipuð viðmið og þeir sem njóta þekkingarfræðilegs trausts. Það er, þeir ættu að hafa raunverulega sérfræðikunnáttu á viðeigandi sviði, byggja ráðleggingar sínar á haldbærum rökum, vera lausir við annarlega hvata og svo framvegis.

Loks ber að nefna að það getur skipt máli fyrir tilmælatraust að sérfræðingarnir gegni viðeigandi stöðum í samfélaginu. Samkvæmt íslenskum lögum ber sóttvarnalækni, sem starfar undir embætti landlæknis, að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf á farsóttatímum. Það er því eðlilegt að tilmæli opinberra sérfræðinga hjá þessum embættum hafi fengið mikinn hljómgrunn í samfélaginu undanfarna mánuði. Á krísutímum, þar sem tímapressan er mikil, getur jafnframt skipt máli að hafa skýra og samræmda stefnu– sérstaklega þegar stefnan kallar á samvinnu við almenning. Það hefði til dæmis verið ruglandi og óskilvirkt ef hver og einn á Íslandi hefði valið sér „sinn sérfræðing” og fylgt mismunandi sóttvarnaráðstöfunum. Ef sumir hefðu fylgt tilmælum danskra sóttvarnayfirvalda en aðrir tilmælum franskra sóttvarnayfirvalda á meðan allir hefðu hlýtt á upplýsingafundi almannavarna þá hefði óæskileg ringulreið skapast í samfélaginu.

Þetta þýðir alls ekki að stefna íslenskra sóttvarnayfirvalda sé sú eina rétta eða hafin yfir gagnrýni. Punkturinn er einfaldlega sá að þegar tiltekin stefna er valin, sem krefst samvinnu almennings, þá mun sú stefna skila sem bestu niðurstöðum þegar allir eru á sömu blaðsíðu. Það eru því sterk rök sem hníga að því leyfa opinberum sérfræðingum hjá embætti landlæknis að móta samræmda sóttvarnastefnu, svo lengi sem hægt sé að treysta því að viðkomandi sérfræðingar séu hæfir, einlægir og tilbúnir að hlýða á málefnilega gagnrýni. Sumir hafa líkt þessari hlutverkaskiptingu við stöðu handboltaþjálfara eða leikstjóra og kannski er eitthvað til í því. Í miðjum handboltaleik er vænlegt að fylgja leikkerfi þjálfarans - að því gefnu að hægt sé að treysta því að þjálfarinn sé hæfur og beri hagsmuni liðsins fyrir brjósti . Á milli leikja gefst síðan rými fyrir fleiri aðila til þess að endurmeta og móta stefnu liðsins í sameiningu.

Það sama getur átt við um sérfræðinga. Það er vænlegt að treysta þeim (þegar málefnin tengjast sérsviði þeirra) og í neyðarástandi getur það verið eini valkosturinn í stöðunni. En fólk verður líka að finna jafnvægi milli þess að treysta og að hugsa með gagnrýnum hætti. Þá getur verið gott að grípa í viðmiðin sex sem kynnt voru hér að ofan.

Samantekt

  • Sérfræðingar eru þeir sem hafa meiri kunnátta, þekkingu og hæfni á tilteknu sviði en gengur og gerist.
  • Það er enginn einn sérfræðingur í öllu sem við kemur COVID-19 því faraldurinn tengist mörgum sviðum.
  • Læknar og faraldsfræðingar hafa til dæmis margt að segja um sjálfan sjúkdóminn og hegðun hans en félagsfræðingar, hagfræðingar og aðrir hafa margt að segja um þau samfélagslegu áhrif sem faraldurinn veldur.
  • Þegar ákvarða á hvort málflutningur tiltekins sérfræðings sé traustur er æskilegt að horfa til þess hvort aðrir sérfræðingar taki undir afstöðuna, hvort hún byggist á haldbærum rökum, hvort afstaðan gæti verið lituð af óæskilegum hvötum (til dæmis fjárhagslegum) og hvort viðkomandi hafi haft rétt fyrir sér áður um svipuð mál.
  • Það er stundum gagnlegt að greina á milli þess að treysta upplýsingagjöf sérfræðinga og að fara eftir tilmælum þeirra.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá Bennett (2020).
  2. ^ Samanber Goldman (2001) og Finnur Dellsén (2020).

Heimildir og myndir:

Myndir:


Þetta svar er hluti af verkefninu Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum þar sem nemar í heimspeki eða nýútskrifaðir heimspekingar skoða ýmislegt í tengslum við COVID-19-faraldurinn út frá heimspekilegu sjónarhorni. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, prófessors í heimspeki og hagnýtri siðfræði, Finns Ulf Dellsén, dósents í heimspeki, og Vilhjálms Árnasonar, prófessors í heimspeki og formanns stjórnar Siðfræðistofnunar.

Spurningu Arnar er hér svarað að hluta....