Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?

Jón Ólafsson og Sævar Ari Finnbogason

Já, ein breyting hefur verið gerð en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi. Vorið 2013 – eftir að þáverandi stjórnarmeirihluti féll frá því að láta reyna á að koma stjórnarskrárfrumvarpi byggðu á frumvarpi Stjórnlagaráðs í gegnum þingið – náðist samkomulag um þá breytingu á stjórnarskránni að næsta kjörtímabil á eftir félli reglan um samþykki tveggja þinga úr gildi. Þess í stað hefði verið hægt að samþykkja breytingu á stjórnarskrá (eða setja nýja stjórnarskrá) með þeim hætti að fyrst samþykkti aukinn meirihluti þings breytingarnar (⅔ hlutar þingmanna) og því næst kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem að minnsta kosti 40% þeirra sem atkvæðisrétt hafa samþykktu þær líka.[1]

Frumvarp, byggt á drögum Stjórnlagaráðs, var lagt fram á Alþingi 16. nóvember 2012. Frumvarpið var rætt í þingsal og um það fjallað í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það náði hins vegar aldrei lengra en í aðra umræðu (Alþingi greiðir venjulega atkvæði um frumvörp að lokinni þriðju umræðu).[2] 6. mars náðist samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um að gera þá tímabundnu breytingu á ákvæði um stjórnarskrárbreytingar sem lýst er hér að ofan. Ástæða þess að aldrei var látið reyna á stuðning þingmanna við frumvarpið var annars vegar efasemdir meðal leiðtoga stjórnarflokkanna um að frumvarpið hefði meirihlutastuðning. Eins virtist stjórnarandstaðan hafa í hyggju að beita málþófi til að tefja málið og koma í veg fyrir afgreiðslu þess. Með þessu sögðust leiðtogar stjórnarflokkanna – sem lögðu frumvarpið fram ásamt formanni Bjartrar framtíðar – freista þess að halda lífi í frumvarpinu, og ná sem víðtækastri sátt um stjórnarskrárbreytingar.[3]

Ein breyting hefur verið gerð á stjórnarskránni frá hruni en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi.

Þar sem nýr stjórnarmeirhluti sem tók við vorið 2013 studdi ekki frumvarp byggt á drögum Stjórnlagaráðs kom ekki til þess að það væri lagt fram aftur á því kjörtímabili. Þess í stað skipaði forsætisráðherra nefnd sem átti að fjalla um mögulegar stjórnarskrárbreytingar.[4] Nefndin skilaði tillögum um þrjár breytingar á stjórnarskránni: Ákvæði um vernd og varðveislu náttúrunnar, ákvæði um þjóðareign á auðlindum og loks ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hefði heimilað að almenningur gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ný lög.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp á sumarþingi 2016 þar sem lagt var til að þremur ákvæðum sem samsvöruðu þessum tillögum yrði bætt við stjórnarskrána, en frumvarpið var ekki samþykkt.[5]

Loks má geta þess að frumvarp Stjórnlagaráðs hefur þrisvar verið lagt fram á Alþingi eftir að tímabundið breytingaákvæði féll úr gildi. Þingmenn Pírata lögðu frumvarpið fram í janúar 2019 og aftur um haustið – þá með þingmönnum Samfylkingar. Í bæði skiptin fór frumvarpið í gegnum fyrstu umræðu og var sent til meðferðar Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en fékk ekki frekari umfjöllun þings. Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins hafa aftur lagt frumvarpið fram á yfirstandandi þingi (2020-2021).[6]

Tilvísanir:
  1. ^ Lög nr. 91 11. júlí 2013. (Sótt 3.11.2020).
  2. ^ Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
  3. ^ Sjá greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
  4. ^ Sjá „Stjórnarskrárnefnd 2013-2017“ á vef forsætisráðuneytisins. (Sótt 3.11.2020).
  5. ^ Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 145. löggjafarþing 2015–2016. (Sótt 3.11.2020).
  6. ^ Sjá frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 149. löggjafarþing 2018–2019. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 150. löggjafarþing 2019–2020. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 151. löggjafarþing 2020–2021. (Sótt 3.11.2020).

Mynd:

Höfundar

Jón Ólafsson

prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Sævar Ari Finnbogason

aðstoðarmaður og doktorsnemi á Hugvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

3.11.2020

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Ólafsson og Sævar Ari Finnbogason. „Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?“ Vísindavefurinn, 3. nóvember 2020. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=80452.

Jón Ólafsson og Sævar Ari Finnbogason. (2020, 3. nóvember). Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=80452

Jón Ólafsson og Sævar Ari Finnbogason. „Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?“ Vísindavefurinn. 3. nóv. 2020. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=80452>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?
Já, ein breyting hefur verið gerð en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi. Vorið 2013 – eftir að þáverandi stjórnarmeirihluti féll frá því að láta reyna á að koma stjórnarskrárfrumvarpi byggðu á frumvarpi Stjórnlagaráðs í gegnum þingið – náðist samkomulag um þá breytingu á stjórnarskránni að næsta kjörtímabil á eftir félli reglan um samþykki tveggja þinga úr gildi. Þess í stað hefði verið hægt að samþykkja breytingu á stjórnarskrá (eða setja nýja stjórnarskrá) með þeim hætti að fyrst samþykkti aukinn meirihluti þings breytingarnar (⅔ hlutar þingmanna) og því næst kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem að minnsta kosti 40% þeirra sem atkvæðisrétt hafa samþykktu þær líka.[1]

Frumvarp, byggt á drögum Stjórnlagaráðs, var lagt fram á Alþingi 16. nóvember 2012. Frumvarpið var rætt í þingsal og um það fjallað í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það náði hins vegar aldrei lengra en í aðra umræðu (Alþingi greiðir venjulega atkvæði um frumvörp að lokinni þriðju umræðu).[2] 6. mars náðist samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um að gera þá tímabundnu breytingu á ákvæði um stjórnarskrárbreytingar sem lýst er hér að ofan. Ástæða þess að aldrei var látið reyna á stuðning þingmanna við frumvarpið var annars vegar efasemdir meðal leiðtoga stjórnarflokkanna um að frumvarpið hefði meirihlutastuðning. Eins virtist stjórnarandstaðan hafa í hyggju að beita málþófi til að tefja málið og koma í veg fyrir afgreiðslu þess. Með þessu sögðust leiðtogar stjórnarflokkanna – sem lögðu frumvarpið fram ásamt formanni Bjartrar framtíðar – freista þess að halda lífi í frumvarpinu, og ná sem víðtækastri sátt um stjórnarskrárbreytingar.[3]

Ein breyting hefur verið gerð á stjórnarskránni frá hruni en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi.

Þar sem nýr stjórnarmeirhluti sem tók við vorið 2013 studdi ekki frumvarp byggt á drögum Stjórnlagaráðs kom ekki til þess að það væri lagt fram aftur á því kjörtímabili. Þess í stað skipaði forsætisráðherra nefnd sem átti að fjalla um mögulegar stjórnarskrárbreytingar.[4] Nefndin skilaði tillögum um þrjár breytingar á stjórnarskránni: Ákvæði um vernd og varðveislu náttúrunnar, ákvæði um þjóðareign á auðlindum og loks ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hefði heimilað að almenningur gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ný lög.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp á sumarþingi 2016 þar sem lagt var til að þremur ákvæðum sem samsvöruðu þessum tillögum yrði bætt við stjórnarskrána, en frumvarpið var ekki samþykkt.[5]

Loks má geta þess að frumvarp Stjórnlagaráðs hefur þrisvar verið lagt fram á Alþingi eftir að tímabundið breytingaákvæði féll úr gildi. Þingmenn Pírata lögðu frumvarpið fram í janúar 2019 og aftur um haustið – þá með þingmönnum Samfylkingar. Í bæði skiptin fór frumvarpið í gegnum fyrstu umræðu og var sent til meðferðar Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en fékk ekki frekari umfjöllun þings. Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins hafa aftur lagt frumvarpið fram á yfirstandandi þingi (2020-2021).[6]

Tilvísanir:
  1. ^ Lög nr. 91 11. júlí 2013. (Sótt 3.11.2020).
  2. ^ Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
  3. ^ Sjá greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
  4. ^ Sjá „Stjórnarskrárnefnd 2013-2017“ á vef forsætisráðuneytisins. (Sótt 3.11.2020).
  5. ^ Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 145. löggjafarþing 2015–2016. (Sótt 3.11.2020).
  6. ^ Sjá frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 149. löggjafarþing 2018–2019. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 150. löggjafarþing 2019–2020. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 151. löggjafarþing 2020–2021. (Sótt 3.11.2020).

Mynd:...