Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Er til eitthvað sem nefnist kínversk læknisfræði og eru aðferðir hennar enn í notkun?

Geir Sigurðsson

Kínversk læknisfræði er svo sannarlega til og hún er enn mikið ástunduð, jafnt innan sem utan Kína. Almennt er raunar vísað til hennar sem „hefðbundinnar kínverskrar læknisfræði“ (kínv. chuantong zhongguo yixue 傳統中國醫學, e. traditional Chinese medicine, oft stytt sem TCM), enda byggist hún á fornum tegundum kínverskrar heims- og þekkingarfræði sem greinast nokkuð frá þeim sem urðu ráðandi í veröldinni eftir vísindabyltinguna í Evrópu og móta grundvöll nútímalegrar læknisfræði.

Elsta grundvallarrit kínverskrar læknisfræði nefnist Huangdi neijing 皇帝内經 sem mætti útleggja sem Heimulleg ritning Gula keisarans. Rit þetta var að öllum líkindum sett saman á fyrri hluta Han-keisaraveldisins, á 2. eða 1. öld f.Kr., þótt hlutar þess kunni jafnvel að vera enn eldri, en það var einmitt á þessum tíma sem ofangreind heims- og þekkingarfræði mótaðist í Kína. Læknisfræðin byggist meðal annars á táknkerfum yin og yang 陰陽 og hinum fimm fösum (wuxing 五行), auk þess sem gengið er út frá tilvist og virkni flæðandi lífsorku qi 氣 sem verður hvorki smættuð í efnislega né andlega verund. Yin/yang og fasarnir fimm eru fyrst og fremst hugtök til að auðkenna ólíka eða andstæða eiginleika í stöðugri rás veraldarferlisins og gera þannig kleift að meta hvernig unnt sé að ná og viðhalda jafnvægi eða samstillingu (he 和) milli allra þátta líkamskerfisins en það er einmitt meginmarkmið kínverskrar læknisfræði.

Nudd er ein þeirra aðferða sem beitt er í kínverskri læknisfræði.

Fjölda aðferða er beitt innan kínverskrar læknisfræði í þessu skyni og ber þar einna helst að nefna nálastungu, blóðtöku, húðskröpun, hitameðferðir, nudd af ýmsum toga og auðvitað inntöku ýmissa jurtalyfja. Nálastunga snýst um að hafa áhrif á flæði qi um líkamann og þannig lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóma. Raunar snýst hefðbundin kínversk læknisfræði fremur um forvarnir en eiginlegar lækningar eins og fram kemur í samræðu Wen konungs Wei-ríkis og hins rómaða læknis Bian Que úr fornritinu Heguanzi 鹖冠子. Bian Que átti tvo eldri bræður sem einnig voru læknar og spyr konungur hver þeirra sé hæfastur. Bian Que svarar: „Elsti bróðir minn er bestur, sá í miðjunni næstbestur en sjálfur er ég lakastur.“ Þegar konungur segist draga orð hans í efa útskýrir Bian Que:
Elsti bróðir minn greinir sjúkdóma þegar þeir eru enn óáþreifanlegir, hafa enn ekki tekið á sig mynd, og upprætir þá síðan. Þess vegna er hann ekki nafnkunnur utan fjölskyldunnar. Sá næstelsti nær tökum á sjúkdómum þegar þeir gera vart við sig í smæstu líkamshárum. Þess vegna er hann ekki nafnkunnur utan þorpsins. En ég, Bian Que, sting í æðar, gef lyf og meðul og risti í sundur húð og vöðva en sökum þessarar vanhæfni minnar er ég jafnvel nafnkunnur út fyrir furstadæmið.

Innan kínverskrar menningar er hefðbundin læknisfræði skilin mjög víðum skilningi og sett í samband við daglegan lífsstíl, mataræði og hreyfingu. Þannig miðar hún fyrst og fremst að forvörnum, að því að koma í veg fyrir kvilla fremur en að fengist sé við erfiðan vanda sem hefur fengið að þróast óáreittur um langa hríð. Kínverska matseld má því líta á sem hluta kínverskrar læknisfræði; hún snýst ekki einungis um bragð heldur þarf samsetning hráefnis og rétta að stuðla að jafnvægi í ferlum líkamans. Einnig hafa líkamsþjálfunaraðferðir á borð við taijiquan 太極拳 og qigong 氣功 þróast til að stuðla að langlífi og betri heilsu.

Nálastungur eru dæmi um algenga aðferð innan kínverskrar læknifræði og þykja þær bera árangur í vissum tilvikum.

Þótt nokkuð sé umdeilt hversu árangursrík hefðbundin kínversk læknisfræði sé og sumt af því sem hún tekur sér fyrir hendur teljist almennt til skottulækninga hefur hún breiðst að einhverju leyti út um allan heim. Nálastunguaðferðir eru til dæmis mjög algengar og þykja bera árangur í vissum tilvikum. Ýmis kínversk jurtalyf hafa einnig sannað gildi sitt. Í ýmsum ríkjum, til dæmis Alþýðulýðveldinu Kína, Singapúr og Malasíu, hefur verið komið á fót reglukerfi sem miðar að því að tryggja að hefðbundin kínversk læknisfræði sé í höndum ábyrgra aðila sem hafa fengið viðeigandi menntun og þjálfun og hafa þannig þekkingu á því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Heimildir, frekara lesefni og myndir:

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Ég var að pæla hvers konar læknisfræði sem Kínverjar notuðu er notuð enn í dag?

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

24.2.2021

Spyrjandi

Bergur Tjörvi Bjarnason

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Er til eitthvað sem nefnist kínversk læknisfræði og eru aðferðir hennar enn í notkun?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2021. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81178.

Geir Sigurðsson. (2021, 24. febrúar). Er til eitthvað sem nefnist kínversk læknisfræði og eru aðferðir hennar enn í notkun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81178

Geir Sigurðsson. „Er til eitthvað sem nefnist kínversk læknisfræði og eru aðferðir hennar enn í notkun?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2021. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81178>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er til eitthvað sem nefnist kínversk læknisfræði og eru aðferðir hennar enn í notkun?
Kínversk læknisfræði er svo sannarlega til og hún er enn mikið ástunduð, jafnt innan sem utan Kína. Almennt er raunar vísað til hennar sem „hefðbundinnar kínverskrar læknisfræði“ (kínv. chuantong zhongguo yixue 傳統中國醫學, e. traditional Chinese medicine, oft stytt sem TCM), enda byggist hún á fornum tegundum kínverskrar heims- og þekkingarfræði sem greinast nokkuð frá þeim sem urðu ráðandi í veröldinni eftir vísindabyltinguna í Evrópu og móta grundvöll nútímalegrar læknisfræði.

Elsta grundvallarrit kínverskrar læknisfræði nefnist Huangdi neijing 皇帝内經 sem mætti útleggja sem Heimulleg ritning Gula keisarans. Rit þetta var að öllum líkindum sett saman á fyrri hluta Han-keisaraveldisins, á 2. eða 1. öld f.Kr., þótt hlutar þess kunni jafnvel að vera enn eldri, en það var einmitt á þessum tíma sem ofangreind heims- og þekkingarfræði mótaðist í Kína. Læknisfræðin byggist meðal annars á táknkerfum yin og yang 陰陽 og hinum fimm fösum (wuxing 五行), auk þess sem gengið er út frá tilvist og virkni flæðandi lífsorku qi 氣 sem verður hvorki smættuð í efnislega né andlega verund. Yin/yang og fasarnir fimm eru fyrst og fremst hugtök til að auðkenna ólíka eða andstæða eiginleika í stöðugri rás veraldarferlisins og gera þannig kleift að meta hvernig unnt sé að ná og viðhalda jafnvægi eða samstillingu (he 和) milli allra þátta líkamskerfisins en það er einmitt meginmarkmið kínverskrar læknisfræði.

Nudd er ein þeirra aðferða sem beitt er í kínverskri læknisfræði.

Fjölda aðferða er beitt innan kínverskrar læknisfræði í þessu skyni og ber þar einna helst að nefna nálastungu, blóðtöku, húðskröpun, hitameðferðir, nudd af ýmsum toga og auðvitað inntöku ýmissa jurtalyfja. Nálastunga snýst um að hafa áhrif á flæði qi um líkamann og þannig lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóma. Raunar snýst hefðbundin kínversk læknisfræði fremur um forvarnir en eiginlegar lækningar eins og fram kemur í samræðu Wen konungs Wei-ríkis og hins rómaða læknis Bian Que úr fornritinu Heguanzi 鹖冠子. Bian Que átti tvo eldri bræður sem einnig voru læknar og spyr konungur hver þeirra sé hæfastur. Bian Que svarar: „Elsti bróðir minn er bestur, sá í miðjunni næstbestur en sjálfur er ég lakastur.“ Þegar konungur segist draga orð hans í efa útskýrir Bian Que:
Elsti bróðir minn greinir sjúkdóma þegar þeir eru enn óáþreifanlegir, hafa enn ekki tekið á sig mynd, og upprætir þá síðan. Þess vegna er hann ekki nafnkunnur utan fjölskyldunnar. Sá næstelsti nær tökum á sjúkdómum þegar þeir gera vart við sig í smæstu líkamshárum. Þess vegna er hann ekki nafnkunnur utan þorpsins. En ég, Bian Que, sting í æðar, gef lyf og meðul og risti í sundur húð og vöðva en sökum þessarar vanhæfni minnar er ég jafnvel nafnkunnur út fyrir furstadæmið.

Innan kínverskrar menningar er hefðbundin læknisfræði skilin mjög víðum skilningi og sett í samband við daglegan lífsstíl, mataræði og hreyfingu. Þannig miðar hún fyrst og fremst að forvörnum, að því að koma í veg fyrir kvilla fremur en að fengist sé við erfiðan vanda sem hefur fengið að þróast óáreittur um langa hríð. Kínverska matseld má því líta á sem hluta kínverskrar læknisfræði; hún snýst ekki einungis um bragð heldur þarf samsetning hráefnis og rétta að stuðla að jafnvægi í ferlum líkamans. Einnig hafa líkamsþjálfunaraðferðir á borð við taijiquan 太極拳 og qigong 氣功 þróast til að stuðla að langlífi og betri heilsu.

Nálastungur eru dæmi um algenga aðferð innan kínverskrar læknifræði og þykja þær bera árangur í vissum tilvikum.

Þótt nokkuð sé umdeilt hversu árangursrík hefðbundin kínversk læknisfræði sé og sumt af því sem hún tekur sér fyrir hendur teljist almennt til skottulækninga hefur hún breiðst að einhverju leyti út um allan heim. Nálastunguaðferðir eru til dæmis mjög algengar og þykja bera árangur í vissum tilvikum. Ýmis kínversk jurtalyf hafa einnig sannað gildi sitt. Í ýmsum ríkjum, til dæmis Alþýðulýðveldinu Kína, Singapúr og Malasíu, hefur verið komið á fót reglukerfi sem miðar að því að tryggja að hefðbundin kínversk læknisfræði sé í höndum ábyrgra aðila sem hafa fengið viðeigandi menntun og þjálfun og hafa þannig þekkingu á því sem þeir taka sér fyrir hendur.

Heimildir, frekara lesefni og myndir:

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Ég var að pæla hvers konar læknisfræði sem Kínverjar notuðu er notuð enn í dag?
...