Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað?

Nanna Kristjánsdóttir

Hér er svarað eftirfarandi spurningum:

  • Hafandi vitneskju nútímans um staðfesta atburði sögunnar, væri samt hægt að færa fyrir því einhver rök að það að fara aftur í tímann og kála Hitler sem krakka væri ekki réttlætanlegt?
  • Ef Adolf Hitler hefði ekki risið til valda, hefði nasisminn þá aldrei risið upp eða hefði nasisminn risið hvort sem er?
  • Var stríðið Hitler að kenna?
  • Þegar einn einstaklingur eða atburður í sögunni hefur afdrifarík áhrif er algengt að fólk spyrji sig: Hvað ef? Hvað ef risaeðlurnar hefðu ekki dáið út? Hvað ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland en ekki Bretar? Hvað ef Kólumbus hefði ekki siglt til Ameríku? Þrátt fyrir að slíkar vangaveltur leiði ekki af sér hlutlægan sagnfræðilegan sannleik geta þær engu að síður verið skemmtilegar og varpað nýju ljósi á söguna.

    Spurningin um hvort réttlætanlegt væri að myrða Adolf Hitler sem ungabarn, ef gengið er út frá því að tímaflakk sé mögulegt, hefur skapað miklar umræður á veraldarvefnum undanfarin ár (sjá til dæmis hér, hér og hér.) Það væri þá gert undir því yfirskyni að koma í veg fyrir þann hrylling sem nasistaflokkur Þýskalands, undir handleiðslu Hitlers, var valdur að á 5. áratug 20. aldar, helförina og sjálfa seinni heimsstyrjöldina. Segja má að kjarni þessarar vangaveltu sé eftirfarandi: Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað?

    Hér verður spurningunni svarað út frá sagnfræðilegu sjónarmiði en því látið ósvarað hvort slíkur verknaður væri siðferðislega réttlætanlegur.

    Adolf Hitler í lok árs 1889. Er réttlætanlegt að drepa þetta barn?

    Án þess að gera lítið úr persónutöfrum, sannfæringarkrafti og áræðni Adolfs Hitler, þá getur enginn einstaklingur orðið valdur að viðlíka sammannlegum hamförum og seinni heimsstyrjöldinni í tómarúmi. Ýmsar félagslegar, menningarlegar og stjórnmálalegar kringumstæður millistríðsáranna voru slíkar að hægt er að færa rök fyrir því að aðeins hafi verið tímaspursmál hvenær kæmi aftur til átaka í Evrópu. Í kjölfar loka fyrri heimsstyrjaldarinnar var Evrópa rjúkandi rúst. Stríðinu lauk með undirskrift hinna svokölluðu Versalasamninga sem áttu að tryggja áframhaldandi frið. Því markmiði átti að ná fram með því að gera Þjóðverjum, sem ásamt bandamönnum sínum voru sagðir einir bera ábyrgð á því að stríðið braust út, ómögulegt að hefja stríð á ný. Þýskaland var meðal annars svipt landsvæðum og gert að greiða háar stríðsskaðabætur, auk þess sem herafli Þjóðverja átti að takmarkast við 100.000 hermenn.

    Þetta þótti Þjóðverjum óréttlátt og niðurlægjandi, enda voru tildrög styrjaldarinnar flókin og öll helstu stórveldi Evrópu tóku virkan þátt í henni. Refsiaðgerðir sigurvegara fyrri heimsstyrjaldarinnar gegn Þjóðverjum höfðu mikil áhrif á stjórnmála- og efnahagsþróun í Þýskalandi á 3. áratug 20. aldar. Þær gáfu andstæðingum Weimarstjórnarinnar, sem hafði stýrt Þýskalandi frá stríðslokum, byr undir báða vængi og styrktu baráttu þeirra í átt að því að koma á einhvers konar valdboðskerfi (e. authoritarianism.) Kommúnísk hugmyndafræði og byltingin í Rússlandi, ásamt uppgangi fasisma og hægri þjóðernisstefnu á Ítalíu og víðar, gróf undan trú á þingræðisskipulaginu víða í Evrópu, þar á meðal Þýskalandi. Kreppan mikla á fjórða áratugnum leiddi síðan til pólitískrar og efnahagslegrar upplausnar í Þýskalandi. Stjórnmálakerfið varð óstarfhæft þar sem hægri- og vinstriflokkar gátu ekki komið sér saman um stjórnarmyndun og atvinnuleysi jókst úr 4,5% í 24% á árunum 1929–1932.

    Þýskt áróðurveggspjald frá árinu 1919 sem varar við bolsjevisma, fyrirrennara kommúnisma.

    Upp úr þessum jarðvegi stjórnmála- og efnahagsöngþveitis tókst nasistaflokki Hitlers að komast til valda árið 1933. Hitler hét því að binda enda á efnahagskreppuna og hefja Þýskaland aftur til vegs og virðingar á alþjóðavettvangi. Stefna flokksins einkenndist af öfgaþjóðernishyggju, and-kommúnisma, kynþáttahyggju og gyðingahatri, sem átti sér langa sögu í Evrópu. Þannig náðu nasistar að skapa sameiginlegan óvin, gyðinga og aðra sem ekki voru af hinum „aríska kynstofni,“ sem leiddi til ofsókna og síðan til skipulagðrar útrýmingarherferðar gegn þeim. Slavar, Rómafólk og Sinti eða „sígaunar” voru einnig flokkaðir af nasistum sem „óæðri kynþættir”.

    Þegar horft er til áðurnefnds ástands í Evrópu í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar er ómögulegt að fullyrða að Hitler hafi persónulega orðið valdur af stríðinu. Það hvort að Hitler hafi átt þátt í því að átökin voru á jafn stórum skala og raun ber vitni er svo annað mál. Hitler var einstaklega fær leiðtogi og enginn vafi á að án slíks hefði nasistaflokkurinn ekki náð sömu vinsældum. Hitler var hafinn á loft sem þjóðhetja, og aðdáun á honum var hryggjarstykkið í stefnu flokksins. Sagnfræðingar eru flestir sammála um að Hitler beri að stórum hluta ábyrgð á atburðum síðari heimsstyrjaldarinnar, en talið er að hún hafi kostað á bilinu 75–85 milljónir mannslífa.

    Áróðursmynd sem sýnir Hitler baðaðan hetjuljóma. Undir myndinni stendur „Lifi Þýskaland!“

    Það þýðir þó ekki að hægt sé að fullyrða að án Hitlers hefði ekki orðið neitt stríð. Í Þýskalandi voru öll skilyrði fyrir hendi til að þjóðernissinnaður öfgahægriflokkur næði þar völdum. Ef Hitler hefði ekki verið til má telja líklegt að sambærilegur flokkur og nasistaflokkurinn hefði getað náð fótfestu. Hitler kom ekki sjálfur að stofnun flokksins, og stefna hans var að miklu leyti mynduð áður en Hitler varð þar einvaldur. Nasistaflokkurinn hefði þannig getað náð völdum með annan mann í brúnni. Þrátt fyrir allan þann hrylling sem Hitler var valdur að, beint eða óbeint, þá gerði hann líka mistök; hann tapaði stríðinu. Þessi ímyndaði staðgengill Hitlers hefði óneitanleg haft áhrif á framgöngu stríðsins, og í því samhengi eru óteljandi möguleikar. Kannski hefði stríðið hafist mun síðar; kannski hefði varla nokkuð orðið úr því. Kannski hefði komið til enn harðari átaka en raunin varð og kannski hefði Þýskalandi nasismans tekist að vinna stríðið. Þá væri heimsmynd okkar töluvert önnur, og líklega töluvert síðri.

    Heimildir:
    • Gerhard L. Weinberg. World War II. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press, 2014.
    • Weimar Republic. Encyclopedia Britannica. (Sótt 16. júní 2021.)
    • World War II. Encyclopedia Britannica. (Sótt 16. júní 2021.)

    Myndir:

    Höfundur þakkar Vali Ingimundarsyni, prófessor í sagnfræði við HÍ, fyrir yfirlestur og viðbót við svarið. Ari Guðni Hauksson sagnfræðingur og Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við HÍ, fá einnig þakkir fyrir yfirlestur og ábendingar.

    Auk ofangreindra spurninga hefur eftirfarandi spurningum verið svarað hér, ýmist til hálfs eða að fullu:

  • Hvernig komst Hitler til valda? Hvernig var æska Hitlers?
  • Hvernig komst Adolf Hitler til valda og hvenær var Nasistaflokkurinn í Þýskalandi stofnaður?
  • Hvernig reyndi Hitler að ná völdum í Þýskalandi árið 1924?
  • Hvað leiddi til þess að Hitler ákvað að stofna Nasistaflokkinn og senda flokkinn fram í kosningar?
  • Af hverju féllu Þjóðverjar fyrir Hitler og nasisma?
  • Hvað varð til þess að Hitler komst til valda?
  • Höfundur

    Útgáfudagur

    14.9.2021

    Spyrjandi

    Örn, Björn Gústav Jónsson, Bragi Páll Sigurðarson

    Tilvísun

    Nanna Kristjánsdóttir. „Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað?“ Vísindavefurinn, 14. september 2021. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81685.

    Nanna Kristjánsdóttir. (2021, 14. september). Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81685

    Nanna Kristjánsdóttir. „Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2021. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81685>.

    Chicago | APA | MLA

    Spyrja

    Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

    Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

    Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

    Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

    Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

    Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

    =

    Senda grein til vinar

    =

    Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað?
    Hér er svarað eftirfarandi spurningum:

  • Hafandi vitneskju nútímans um staðfesta atburði sögunnar, væri samt hægt að færa fyrir því einhver rök að það að fara aftur í tímann og kála Hitler sem krakka væri ekki réttlætanlegt?
  • Ef Adolf Hitler hefði ekki risið til valda, hefði nasisminn þá aldrei risið upp eða hefði nasisminn risið hvort sem er?
  • Var stríðið Hitler að kenna?
  • Þegar einn einstaklingur eða atburður í sögunni hefur afdrifarík áhrif er algengt að fólk spyrji sig: Hvað ef? Hvað ef risaeðlurnar hefðu ekki dáið út? Hvað ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland en ekki Bretar? Hvað ef Kólumbus hefði ekki siglt til Ameríku? Þrátt fyrir að slíkar vangaveltur leiði ekki af sér hlutlægan sagnfræðilegan sannleik geta þær engu að síður verið skemmtilegar og varpað nýju ljósi á söguna.

    Spurningin um hvort réttlætanlegt væri að myrða Adolf Hitler sem ungabarn, ef gengið er út frá því að tímaflakk sé mögulegt, hefur skapað miklar umræður á veraldarvefnum undanfarin ár (sjá til dæmis hér, hér og hér.) Það væri þá gert undir því yfirskyni að koma í veg fyrir þann hrylling sem nasistaflokkur Þýskalands, undir handleiðslu Hitlers, var valdur að á 5. áratug 20. aldar, helförina og sjálfa seinni heimsstyrjöldina. Segja má að kjarni þessarar vangaveltu sé eftirfarandi: Ef Adolf Hitler hefði ekki verið til, hefði seinni heimsstyrjöldin þá ekki átt sér stað?

    Hér verður spurningunni svarað út frá sagnfræðilegu sjónarmiði en því látið ósvarað hvort slíkur verknaður væri siðferðislega réttlætanlegur.

    Adolf Hitler í lok árs 1889. Er réttlætanlegt að drepa þetta barn?

    Án þess að gera lítið úr persónutöfrum, sannfæringarkrafti og áræðni Adolfs Hitler, þá getur enginn einstaklingur orðið valdur að viðlíka sammannlegum hamförum og seinni heimsstyrjöldinni í tómarúmi. Ýmsar félagslegar, menningarlegar og stjórnmálalegar kringumstæður millistríðsáranna voru slíkar að hægt er að færa rök fyrir því að aðeins hafi verið tímaspursmál hvenær kæmi aftur til átaka í Evrópu. Í kjölfar loka fyrri heimsstyrjaldarinnar var Evrópa rjúkandi rúst. Stríðinu lauk með undirskrift hinna svokölluðu Versalasamninga sem áttu að tryggja áframhaldandi frið. Því markmiði átti að ná fram með því að gera Þjóðverjum, sem ásamt bandamönnum sínum voru sagðir einir bera ábyrgð á því að stríðið braust út, ómögulegt að hefja stríð á ný. Þýskaland var meðal annars svipt landsvæðum og gert að greiða háar stríðsskaðabætur, auk þess sem herafli Þjóðverja átti að takmarkast við 100.000 hermenn.

    Þetta þótti Þjóðverjum óréttlátt og niðurlægjandi, enda voru tildrög styrjaldarinnar flókin og öll helstu stórveldi Evrópu tóku virkan þátt í henni. Refsiaðgerðir sigurvegara fyrri heimsstyrjaldarinnar gegn Þjóðverjum höfðu mikil áhrif á stjórnmála- og efnahagsþróun í Þýskalandi á 3. áratug 20. aldar. Þær gáfu andstæðingum Weimarstjórnarinnar, sem hafði stýrt Þýskalandi frá stríðslokum, byr undir báða vængi og styrktu baráttu þeirra í átt að því að koma á einhvers konar valdboðskerfi (e. authoritarianism.) Kommúnísk hugmyndafræði og byltingin í Rússlandi, ásamt uppgangi fasisma og hægri þjóðernisstefnu á Ítalíu og víðar, gróf undan trú á þingræðisskipulaginu víða í Evrópu, þar á meðal Þýskalandi. Kreppan mikla á fjórða áratugnum leiddi síðan til pólitískrar og efnahagslegrar upplausnar í Þýskalandi. Stjórnmálakerfið varð óstarfhæft þar sem hægri- og vinstriflokkar gátu ekki komið sér saman um stjórnarmyndun og atvinnuleysi jókst úr 4,5% í 24% á árunum 1929–1932.

    Þýskt áróðurveggspjald frá árinu 1919 sem varar við bolsjevisma, fyrirrennara kommúnisma.

    Upp úr þessum jarðvegi stjórnmála- og efnahagsöngþveitis tókst nasistaflokki Hitlers að komast til valda árið 1933. Hitler hét því að binda enda á efnahagskreppuna og hefja Þýskaland aftur til vegs og virðingar á alþjóðavettvangi. Stefna flokksins einkenndist af öfgaþjóðernishyggju, and-kommúnisma, kynþáttahyggju og gyðingahatri, sem átti sér langa sögu í Evrópu. Þannig náðu nasistar að skapa sameiginlegan óvin, gyðinga og aðra sem ekki voru af hinum „aríska kynstofni,“ sem leiddi til ofsókna og síðan til skipulagðrar útrýmingarherferðar gegn þeim. Slavar, Rómafólk og Sinti eða „sígaunar” voru einnig flokkaðir af nasistum sem „óæðri kynþættir”.

    Þegar horft er til áðurnefnds ástands í Evrópu í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar er ómögulegt að fullyrða að Hitler hafi persónulega orðið valdur af stríðinu. Það hvort að Hitler hafi átt þátt í því að átökin voru á jafn stórum skala og raun ber vitni er svo annað mál. Hitler var einstaklega fær leiðtogi og enginn vafi á að án slíks hefði nasistaflokkurinn ekki náð sömu vinsældum. Hitler var hafinn á loft sem þjóðhetja, og aðdáun á honum var hryggjarstykkið í stefnu flokksins. Sagnfræðingar eru flestir sammála um að Hitler beri að stórum hluta ábyrgð á atburðum síðari heimsstyrjaldarinnar, en talið er að hún hafi kostað á bilinu 75–85 milljónir mannslífa.

    Áróðursmynd sem sýnir Hitler baðaðan hetjuljóma. Undir myndinni stendur „Lifi Þýskaland!“

    Það þýðir þó ekki að hægt sé að fullyrða að án Hitlers hefði ekki orðið neitt stríð. Í Þýskalandi voru öll skilyrði fyrir hendi til að þjóðernissinnaður öfgahægriflokkur næði þar völdum. Ef Hitler hefði ekki verið til má telja líklegt að sambærilegur flokkur og nasistaflokkurinn hefði getað náð fótfestu. Hitler kom ekki sjálfur að stofnun flokksins, og stefna hans var að miklu leyti mynduð áður en Hitler varð þar einvaldur. Nasistaflokkurinn hefði þannig getað náð völdum með annan mann í brúnni. Þrátt fyrir allan þann hrylling sem Hitler var valdur að, beint eða óbeint, þá gerði hann líka mistök; hann tapaði stríðinu. Þessi ímyndaði staðgengill Hitlers hefði óneitanleg haft áhrif á framgöngu stríðsins, og í því samhengi eru óteljandi möguleikar. Kannski hefði stríðið hafist mun síðar; kannski hefði varla nokkuð orðið úr því. Kannski hefði komið til enn harðari átaka en raunin varð og kannski hefði Þýskalandi nasismans tekist að vinna stríðið. Þá væri heimsmynd okkar töluvert önnur, og líklega töluvert síðri.

    Heimildir:
    • Gerhard L. Weinberg. World War II. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press, 2014.
    • Weimar Republic. Encyclopedia Britannica. (Sótt 16. júní 2021.)
    • World War II. Encyclopedia Britannica. (Sótt 16. júní 2021.)

    Myndir:

    Höfundur þakkar Vali Ingimundarsyni, prófessor í sagnfræði við HÍ, fyrir yfirlestur og viðbót við svarið. Ari Guðni Hauksson sagnfræðingur og Viðar Pálsson, dósent í sagnfræði við HÍ, fá einnig þakkir fyrir yfirlestur og ábendingar.

    Auk ofangreindra spurninga hefur eftirfarandi spurningum verið svarað hér, ýmist til hálfs eða að fullu:

  • Hvernig komst Hitler til valda? Hvernig var æska Hitlers?
  • Hvernig komst Adolf Hitler til valda og hvenær var Nasistaflokkurinn í Þýskalandi stofnaður?
  • Hvernig reyndi Hitler að ná völdum í Þýskalandi árið 1924?
  • Hvað leiddi til þess að Hitler ákvað að stofna Nasistaflokkinn og senda flokkinn fram í kosningar?
  • Af hverju féllu Þjóðverjar fyrir Hitler og nasisma?
  • Hvað varð til þess að Hitler komst til valda?
  • ...