Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvenær varð smásagan til sem bókmenntagrein og af hverju?

Rúnar Helgi Vignisson

Almennt er talið að smásagan í því formi sem við þekkjum hana nú á dögum hafi orðið til á 19. öld. Þá hafi skapast vissar sögulegar aðstæður sem urðu til þess að fram kom frásagnarform sem mótaðist af fagurfræðilegum þáttum en tók jafnframt mið af væntingum stækkandi lesendahóps í borgaralegu samfélagi. Á þeim tíma steig smásagan niður til jarðar, ef svo má að orði komast, sögurnar urðu veraldlegri og persónurnar tóku að líkjast meira raunverulegu mannfólki. Undanfarar smásögunnar, svo sem ævintýri, þjóðsögur, dæmisögur og jafnvel Íslendingaþættir, skörtuðu aftur á móti yfirnáttúrulegum eða goðsagnakenndum persónum oft á tíðum. Þeim fylgdi líka iðulega siðferðisboðskapur sem dró mjög úr eða tók á sig aðrar myndir með nútímasmásögunni.

Meðal sögulegra aðstæðna sem stuðluðu að tilurð smásögunnar má nefna rómantísku stefnuna með áherslu sinni á einstaklinginn og innra líf hans. Í þeim anda einblína fyrstu smásagnahöfundarnir oftast á eina persónu, gjarnan smælingja eða utangarðsmann, og miðla hughrifum eða hugljómun sem hún verður fyrir. Á hinn bóginn má nefna raunsæisleg áhrif frá blaðamennsku; fólk vildi meira í þeim dúr, sögur sem hefðu getað gerst og endurspegluðu félagslegar aðstæður. Eftirspurn eftir slíku efni jókst með uppgangi prentaðra blaða og tímarita sem sóttust eftir grípandi sögum til að stytta lesendum stundir. Rætur smásögunnar liggja því bæði í raunsæi og rómantík.

Einn af frumherjum smásögunnar var þýski rithöfundurinn Ludwig Tieck (1773-1853).

Smásagan kom fram á svipuðum tíma í Rússlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og á Spáni og má ætla að ofangreindar aðstæður og hugmyndir hafi ráðið mestu um það. Meðal frumherja frá þessum löndum má nefna Nikolaj Gogol (1809–1852), Ludwig Tieck (1773–1853), Washington Irving (1783–1859), Guy de Maupassant (1850–1893) og Emiliu Pardo Bazán (1851–1921). Nokkru seinna kemur Horacio Quiroga (1878–1937) fram en hann má teljast faðir smásögunnar í Rómönsku-Ameríku. Í sögum þeirra flestra gætir enn áhrifa frá forverum smásögunnar en þau eru þó mjög tekin að dofna um aldamótin 1900, ekki síst fyrir tilstilli rússneska rithöfundarins Antons Tsjekhovs (1860–1904) sem þykir hafa lagt sérlega mikið af mörkum til smásögunnar sem einnar af greinum nútímabókmennta. Minna er vitað um sagnagerð kvenna á þessum árum en um og upp úr aldamótunum 1900 koma fram öflugir kvenhöfundar sem taka smásöguna til kostanna, svo sem Charlotte Perkins Gilman (1860–1935), Katherine Mansfield (1888–1923), Virginia Woolf (1882–1941) og María Luisa Bombal (1910–1980).

Gjarnan er litið á söguna „Grasaferð“ eftir Jónas Hallgrímsson (1807–1845) sem fyrstu íslensku smásöguna. Hún var prentuð í tímaritinu Fjölni árið 1847 en tveimur árum áður hafði Jónas þýtt eina þekktustu sögu frumherjans Ludwigs Tiecks, „Æfintýri af Eggerti Glóa“, sem hafði talsverð áhrif á skáldskaparfræði hans. Í III. bindi Íslenskrar bókmenntasögu er dregið í efa að „Grasaferð“ hafi verið fyrsta íslenska smásagan en bent á að hún hafi eigi að síður markað „merkileg tímamót þar sem hún hratt af stað ákveðnu ferli í íslenskri sagnagerð“ (s. 518). Þar er meðal annars átt við byggingu sögunnar en líka hugarflugið sem þarna fær byr undir vængi. Sagan hefur ýmis einkenni sem tengd hafa verið rómantísku stefnunni, svo sem áhersluna á innra líf aðalpersónunnar. Gestur Pálsson (1852–1891) telst líka einn af upphafsmönnum smásagnagerðar á Íslandi. Hann gekkst raunsæisstefnunni á hönd en henni var ætlað að lýsa raunverulegu mannlífi. Í þeim anda fékkst Gestur meðal annars við smælingja í sögum sínum.

Mynd:

Höfundur

Rúnar Helgi Vignisson

rithöfundur, þýðandi og prófessor í ritlist

Útgáfudagur

15.10.2021

Spyrjandi

Heiða Ó.

Tilvísun

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvenær varð smásagan til sem bókmenntagrein og af hverju?“ Vísindavefurinn, 15. október 2021. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82373.

Rúnar Helgi Vignisson. (2021, 15. október). Hvenær varð smásagan til sem bókmenntagrein og af hverju? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82373

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvenær varð smásagan til sem bókmenntagrein og af hverju?“ Vísindavefurinn. 15. okt. 2021. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82373>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær varð smásagan til sem bókmenntagrein og af hverju?
Almennt er talið að smásagan í því formi sem við þekkjum hana nú á dögum hafi orðið til á 19. öld. Þá hafi skapast vissar sögulegar aðstæður sem urðu til þess að fram kom frásagnarform sem mótaðist af fagurfræðilegum þáttum en tók jafnframt mið af væntingum stækkandi lesendahóps í borgaralegu samfélagi. Á þeim tíma steig smásagan niður til jarðar, ef svo má að orði komast, sögurnar urðu veraldlegri og persónurnar tóku að líkjast meira raunverulegu mannfólki. Undanfarar smásögunnar, svo sem ævintýri, þjóðsögur, dæmisögur og jafnvel Íslendingaþættir, skörtuðu aftur á móti yfirnáttúrulegum eða goðsagnakenndum persónum oft á tíðum. Þeim fylgdi líka iðulega siðferðisboðskapur sem dró mjög úr eða tók á sig aðrar myndir með nútímasmásögunni.

Meðal sögulegra aðstæðna sem stuðluðu að tilurð smásögunnar má nefna rómantísku stefnuna með áherslu sinni á einstaklinginn og innra líf hans. Í þeim anda einblína fyrstu smásagnahöfundarnir oftast á eina persónu, gjarnan smælingja eða utangarðsmann, og miðla hughrifum eða hugljómun sem hún verður fyrir. Á hinn bóginn má nefna raunsæisleg áhrif frá blaðamennsku; fólk vildi meira í þeim dúr, sögur sem hefðu getað gerst og endurspegluðu félagslegar aðstæður. Eftirspurn eftir slíku efni jókst með uppgangi prentaðra blaða og tímarita sem sóttust eftir grípandi sögum til að stytta lesendum stundir. Rætur smásögunnar liggja því bæði í raunsæi og rómantík.

Einn af frumherjum smásögunnar var þýski rithöfundurinn Ludwig Tieck (1773-1853).

Smásagan kom fram á svipuðum tíma í Rússlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og á Spáni og má ætla að ofangreindar aðstæður og hugmyndir hafi ráðið mestu um það. Meðal frumherja frá þessum löndum má nefna Nikolaj Gogol (1809–1852), Ludwig Tieck (1773–1853), Washington Irving (1783–1859), Guy de Maupassant (1850–1893) og Emiliu Pardo Bazán (1851–1921). Nokkru seinna kemur Horacio Quiroga (1878–1937) fram en hann má teljast faðir smásögunnar í Rómönsku-Ameríku. Í sögum þeirra flestra gætir enn áhrifa frá forverum smásögunnar en þau eru þó mjög tekin að dofna um aldamótin 1900, ekki síst fyrir tilstilli rússneska rithöfundarins Antons Tsjekhovs (1860–1904) sem þykir hafa lagt sérlega mikið af mörkum til smásögunnar sem einnar af greinum nútímabókmennta. Minna er vitað um sagnagerð kvenna á þessum árum en um og upp úr aldamótunum 1900 koma fram öflugir kvenhöfundar sem taka smásöguna til kostanna, svo sem Charlotte Perkins Gilman (1860–1935), Katherine Mansfield (1888–1923), Virginia Woolf (1882–1941) og María Luisa Bombal (1910–1980).

Gjarnan er litið á söguna „Grasaferð“ eftir Jónas Hallgrímsson (1807–1845) sem fyrstu íslensku smásöguna. Hún var prentuð í tímaritinu Fjölni árið 1847 en tveimur árum áður hafði Jónas þýtt eina þekktustu sögu frumherjans Ludwigs Tiecks, „Æfintýri af Eggerti Glóa“, sem hafði talsverð áhrif á skáldskaparfræði hans. Í III. bindi Íslenskrar bókmenntasögu er dregið í efa að „Grasaferð“ hafi verið fyrsta íslenska smásagan en bent á að hún hafi eigi að síður markað „merkileg tímamót þar sem hún hratt af stað ákveðnu ferli í íslenskri sagnagerð“ (s. 518). Þar er meðal annars átt við byggingu sögunnar en líka hugarflugið sem þarna fær byr undir vængi. Sagan hefur ýmis einkenni sem tengd hafa verið rómantísku stefnunni, svo sem áhersluna á innra líf aðalpersónunnar. Gestur Pálsson (1852–1891) telst líka einn af upphafsmönnum smásagnagerðar á Íslandi. Hann gekkst raunsæisstefnunni á hönd en henni var ætlað að lýsa raunverulegu mannlífi. Í þeim anda fékkst Gestur meðal annars við smælingja í sögum sínum.

Mynd:...