Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Er raunverulega hægt að orða hugsanir sínar?

Elmar Geir Unnsteinsson

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Er tungumálið öðrum þræði „bara ruslakista heilans“ (eins og bróðir minn orðaði það) eða hvers vegna annars breytir það einhverju um mína líðan að hafa orðað einhverja hugsun upphátt eins og það virðist gera?

Þessi spurning er ansi djúp ráðgáta sem getur strax af sér aðrar enn dýpri. Gott er að byrja svarið með annarri spurningu: Ef þú gætir ekki sett hugsanir þínar í orð, hvernig gæti ég skilið það sem þú segir? Ef við gefum okkur að við skiljum stundum hvert annað virðist ef til vill leiða af því að hugsanir hljóti stundum að vera bundnar í orð.

Reyndar er það alls ekki svo einfalt. Til dæmis notum við venjulega miklu fleira en orðin ein til að skilja hvert annað: samhengi, sameiginlega þekkingu, látbragð, getgátur um skoðanir, langanir og ætlanir mælandans, og svo mætti lengi telja. Ímyndum okkur að ég segi við þig,
(1) Réttu mér bókina mína.

Hér er nokkuð ljóst að setningin í (1) getur ekki ákvarðað það hvort ég meina bók sem ég skrifaði, bók sem ég á, eða bók sem mig langar í. Auðvelt er að ímynda sér ólíkt samhengi þar sem ég segi (1) en meina bara einn af þessum möguleikum. Stundum er því haldið fram að slík vanákvörðun sé eiginleiki allra setninga í mannlegu máli.[1] Ef það er satt virðist svarið vera neikvætt; það er ekki beinlínis hægt að orða hugsanir sínar. Eitthvað annað verður ávallt að koma til skjalanna.

Ímyndum okkur að ég segi við þig: „Réttu mér bókina mína.“

Óneitanlega eru þó einhverjar upplýsingar eða inntak fólgið í setningunni sem slíkri. Það er að segja, setning (1) felur í sér eitthvert óbrigðult og samhengislaust inntak. Þetta er inntakið sem allar tjáningar setningarinnar, á ólíkum tímum og af ólíkum mælendum, eiga sameiginlegt. En það er ansi umdeilt hvert eðli þessa inntaks geti verið og þá hvort það feli í sér réttnefnda hugsun eða ekki.

En hvernig má það vera? Er ekki allt sem gerist í huganum einhvers konar hugsun? Þannig að þegar (1) birtist fyrir hugskotsjónum mér – eins og lag sem ég er með á heilanum – þá hlýt ég að vera að hugsa. Já, vissulega. En það að segja eða hugsa setningu er ekki það sama og að hugsa eða dæma um inntak hennar. Einhver sem ekki skilur íslensku getur auðveldlega hugsað (1) án þess að nokkurt inntak sé þar með hugsað eða dæmt.

Nú er tímabært að kynna nokkur fræðileg hugtök til sögunnar. Í fyrsta lagi skal greina á milli náttúrulegra tungumála, málkunnáttunnar og meðfæddra mála. Öll þessi þrjú hugtök eru umdeild í fræðunum. Náttúruleg mál eru mál eins og íslenska, enska og portúgalska. Noam Chomsky hefur til dæmis fært rök fyrir því að slík tungumál séu ekki heppilegt rannsóknarefni í málvísindum vegna þess að skilin á milli ólíkra mála séu allt of handahófskennd.[2] Chomsky lagði til að frekar ætti að rannsaka málkunnáttuna, sem er einfaldlega meðfæddur hæfileiki manneskjunnar til máltöku. En máltaka beinist þá að náttúrulegum málum en ekki meðfæddum. Jerry Fodor er einna þekktastur fyrir að halda því fram að vitsmunaleg ferli eigi sér stað í meðfæddum mál-líkum miðli sem stundum er kallaður huglenska (e. Mentalese).[3] Ef Fodor og fylgjendur hans hafa lög að mæla eru hugsanir okkar alltaf bundnar í einhvers konar setningar – setningarnar sem tilheyra huglensku en ekki neinu náttúrulegu máli. Til dæmis mætti þá ímynda sér að sú hugsun sem mælandinn meinar með því að segja (1) við ákveðið tilefni sé raunverulega bundin í huglenska setningu sem greinir á milli ólíkra leiða til að leysa úr margræðni (1). Enda hlýtur eitthvað í huga mælandans að greina á milli þessara ólíku meininga, ekki satt?

Næst skulum við ræða hugsun stuttlega. Hugsun þarf sennilega ekki á orðum að halda, enda væri annars erfitt að útskýra hvernig við veljum hugsunum okkar orð. Hugsunin hlýtur að koma á undan og orðin á eftir. Samt er það stundum þannig að við virðumst ekki geta vitað hvað við hugsum áður en við höfum valið réttu orðin. Hvernig í ósköpunum gæti það samt staðist?[4] Spyrjandi upprunalegu spurningarinnar lét það einmitt fylgja með að það sætti nokkurri furðu að þegar hugsunin hefur verið sett í búning orða hefði hún önnur áhrif á líðan hans. Hvernig skyldi standa á því?

Hér er ein tilgáta sem gæti leyst hnútinn þótt hún sé engan veginn fullsönnuð eða óumdeild. Í fyrsta lagi skulum við einskorða okkur við svonefnd vitsmunaleg viðhorf, það er viðhorf á borð við skoðun eða þekkingu sem beinast að inntaki sem tekur sanngildi. Þannig verður hugsunarhugtakið örlítið nákvæmara. Ég hugsa þá X aðeins ef X getur verið satt eða ósatt og ég hef eitthvert vitsmunalegt viðhorf til X (til dæmis: ég held að bókin mín sé á borðinu). Í öðru lagi eru setningar náttúrulegra tungumála settar saman af höfundum sínum með það að augnamiði að tjá einhverjum ákveðna hugsun í ákveðnu samhengi og á ákveðnum tíma. Stundum vill svo til að mælandinn setur setninguna saman til að tjá sjálfum sér einhverja hugsun. En markmiðið hefur yfirleitt með einhvers konar samskipti að gera.

Ef þetta er satt má gera sér ýmsar sennilegar hugmyndir um muninn á hugsun og setningu sem tjáir nákvæmlega þá hugsun. Þegar mælandinn hefur sett hugsunina í orð lærir hann mögulega eitthvað um það hvort þessi tiltekna setning sé í raun og veru vel til þess fallin að tjá þá hugsun sem henni er ætlað að tjá. Þetta getur breytt afstöðu okkar til hugsunarinnar sjálfrar eða kennt okkur eitthvað um tjáningu hennar. Til dæmis tjáum við sömu hugsun ekki á sama hátt við mjög unga viðmælendur og við þá sem eldri eru. Við gætum líka óvart tjáð einhverja aðra hugsun – í þeim skilningi að orðin eru betur túlkuð sem tjáning á einhverju öðru en við meintum – og komist að því að nýja hugsunin sé nær því að vera sönn.[5]

Tilvísanir:
  1. ^ Robyn Carston. Thoughts and Utterances. Blackwell, Oxford. 2002, kafli 1.
  2. ^ Noam Chomsky. Knowledge of Language. Praeger, New York. 1986.
  3. ^ Jerry Fodor. The Language of Thought Hypothesis. Harvard University Press, Cambridge, MA. 1975.
  4. ^ Eli Alshanetsky. Articulating a Thought. Oxford University Press, Oxford. 2019.
  5. ^ Elmar Unnsteinsson. „The Social Epistemology of Introspection,“ Mind and Language, Early View, 2022 (https://doi.org/10.1111/mila.12438).

Mynd:

Höfundur

Elmar Geir Unnsteinsson

lektor í heimspeki við University College Dublin og vísindamaður við Hugvísindasvið HÍ

Útgáfudagur

13.1.2023

Spyrjandi

Örn

Tilvísun

Elmar Geir Unnsteinsson. „Er raunverulega hægt að orða hugsanir sínar?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2023. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82488.

Elmar Geir Unnsteinsson. (2023, 13. janúar). Er raunverulega hægt að orða hugsanir sínar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82488

Elmar Geir Unnsteinsson. „Er raunverulega hægt að orða hugsanir sínar?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2023. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82488>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er raunverulega hægt að orða hugsanir sínar?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Er tungumálið öðrum þræði „bara ruslakista heilans“ (eins og bróðir minn orðaði það) eða hvers vegna annars breytir það einhverju um mína líðan að hafa orðað einhverja hugsun upphátt eins og það virðist gera?

Þessi spurning er ansi djúp ráðgáta sem getur strax af sér aðrar enn dýpri. Gott er að byrja svarið með annarri spurningu: Ef þú gætir ekki sett hugsanir þínar í orð, hvernig gæti ég skilið það sem þú segir? Ef við gefum okkur að við skiljum stundum hvert annað virðist ef til vill leiða af því að hugsanir hljóti stundum að vera bundnar í orð.

Reyndar er það alls ekki svo einfalt. Til dæmis notum við venjulega miklu fleira en orðin ein til að skilja hvert annað: samhengi, sameiginlega þekkingu, látbragð, getgátur um skoðanir, langanir og ætlanir mælandans, og svo mætti lengi telja. Ímyndum okkur að ég segi við þig,
(1) Réttu mér bókina mína.

Hér er nokkuð ljóst að setningin í (1) getur ekki ákvarðað það hvort ég meina bók sem ég skrifaði, bók sem ég á, eða bók sem mig langar í. Auðvelt er að ímynda sér ólíkt samhengi þar sem ég segi (1) en meina bara einn af þessum möguleikum. Stundum er því haldið fram að slík vanákvörðun sé eiginleiki allra setninga í mannlegu máli.[1] Ef það er satt virðist svarið vera neikvætt; það er ekki beinlínis hægt að orða hugsanir sínar. Eitthvað annað verður ávallt að koma til skjalanna.

Ímyndum okkur að ég segi við þig: „Réttu mér bókina mína.“

Óneitanlega eru þó einhverjar upplýsingar eða inntak fólgið í setningunni sem slíkri. Það er að segja, setning (1) felur í sér eitthvert óbrigðult og samhengislaust inntak. Þetta er inntakið sem allar tjáningar setningarinnar, á ólíkum tímum og af ólíkum mælendum, eiga sameiginlegt. En það er ansi umdeilt hvert eðli þessa inntaks geti verið og þá hvort það feli í sér réttnefnda hugsun eða ekki.

En hvernig má það vera? Er ekki allt sem gerist í huganum einhvers konar hugsun? Þannig að þegar (1) birtist fyrir hugskotsjónum mér – eins og lag sem ég er með á heilanum – þá hlýt ég að vera að hugsa. Já, vissulega. En það að segja eða hugsa setningu er ekki það sama og að hugsa eða dæma um inntak hennar. Einhver sem ekki skilur íslensku getur auðveldlega hugsað (1) án þess að nokkurt inntak sé þar með hugsað eða dæmt.

Nú er tímabært að kynna nokkur fræðileg hugtök til sögunnar. Í fyrsta lagi skal greina á milli náttúrulegra tungumála, málkunnáttunnar og meðfæddra mála. Öll þessi þrjú hugtök eru umdeild í fræðunum. Náttúruleg mál eru mál eins og íslenska, enska og portúgalska. Noam Chomsky hefur til dæmis fært rök fyrir því að slík tungumál séu ekki heppilegt rannsóknarefni í málvísindum vegna þess að skilin á milli ólíkra mála séu allt of handahófskennd.[2] Chomsky lagði til að frekar ætti að rannsaka málkunnáttuna, sem er einfaldlega meðfæddur hæfileiki manneskjunnar til máltöku. En máltaka beinist þá að náttúrulegum málum en ekki meðfæddum. Jerry Fodor er einna þekktastur fyrir að halda því fram að vitsmunaleg ferli eigi sér stað í meðfæddum mál-líkum miðli sem stundum er kallaður huglenska (e. Mentalese).[3] Ef Fodor og fylgjendur hans hafa lög að mæla eru hugsanir okkar alltaf bundnar í einhvers konar setningar – setningarnar sem tilheyra huglensku en ekki neinu náttúrulegu máli. Til dæmis mætti þá ímynda sér að sú hugsun sem mælandinn meinar með því að segja (1) við ákveðið tilefni sé raunverulega bundin í huglenska setningu sem greinir á milli ólíkra leiða til að leysa úr margræðni (1). Enda hlýtur eitthvað í huga mælandans að greina á milli þessara ólíku meininga, ekki satt?

Næst skulum við ræða hugsun stuttlega. Hugsun þarf sennilega ekki á orðum að halda, enda væri annars erfitt að útskýra hvernig við veljum hugsunum okkar orð. Hugsunin hlýtur að koma á undan og orðin á eftir. Samt er það stundum þannig að við virðumst ekki geta vitað hvað við hugsum áður en við höfum valið réttu orðin. Hvernig í ósköpunum gæti það samt staðist?[4] Spyrjandi upprunalegu spurningarinnar lét það einmitt fylgja með að það sætti nokkurri furðu að þegar hugsunin hefur verið sett í búning orða hefði hún önnur áhrif á líðan hans. Hvernig skyldi standa á því?

Hér er ein tilgáta sem gæti leyst hnútinn þótt hún sé engan veginn fullsönnuð eða óumdeild. Í fyrsta lagi skulum við einskorða okkur við svonefnd vitsmunaleg viðhorf, það er viðhorf á borð við skoðun eða þekkingu sem beinast að inntaki sem tekur sanngildi. Þannig verður hugsunarhugtakið örlítið nákvæmara. Ég hugsa þá X aðeins ef X getur verið satt eða ósatt og ég hef eitthvert vitsmunalegt viðhorf til X (til dæmis: ég held að bókin mín sé á borðinu). Í öðru lagi eru setningar náttúrulegra tungumála settar saman af höfundum sínum með það að augnamiði að tjá einhverjum ákveðna hugsun í ákveðnu samhengi og á ákveðnum tíma. Stundum vill svo til að mælandinn setur setninguna saman til að tjá sjálfum sér einhverja hugsun. En markmiðið hefur yfirleitt með einhvers konar samskipti að gera.

Ef þetta er satt má gera sér ýmsar sennilegar hugmyndir um muninn á hugsun og setningu sem tjáir nákvæmlega þá hugsun. Þegar mælandinn hefur sett hugsunina í orð lærir hann mögulega eitthvað um það hvort þessi tiltekna setning sé í raun og veru vel til þess fallin að tjá þá hugsun sem henni er ætlað að tjá. Þetta getur breytt afstöðu okkar til hugsunarinnar sjálfrar eða kennt okkur eitthvað um tjáningu hennar. Til dæmis tjáum við sömu hugsun ekki á sama hátt við mjög unga viðmælendur og við þá sem eldri eru. Við gætum líka óvart tjáð einhverja aðra hugsun – í þeim skilningi að orðin eru betur túlkuð sem tjáning á einhverju öðru en við meintum – og komist að því að nýja hugsunin sé nær því að vera sönn.[5]

Tilvísanir:
  1. ^ Robyn Carston. Thoughts and Utterances. Blackwell, Oxford. 2002, kafli 1.
  2. ^ Noam Chomsky. Knowledge of Language. Praeger, New York. 1986.
  3. ^ Jerry Fodor. The Language of Thought Hypothesis. Harvard University Press, Cambridge, MA. 1975.
  4. ^ Eli Alshanetsky. Articulating a Thought. Oxford University Press, Oxford. 2019.
  5. ^ Elmar Unnsteinsson. „The Social Epistemology of Introspection,“ Mind and Language, Early View, 2022 (https://doi.org/10.1111/mila.12438).

Mynd:...