Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er tengingin milli grískrar heimspeki og heimspekinga miðalda?

Geir Þ. Þórarinsson

Spurningin er viðamikil en í stuttu máli má segja að sú heimspekihefð sem varð til og mótaðist meðal Forngrikkja eigi sér órofa sögu sem teygir sig í gegnum Rómaveldi og miðaldir til okkar tíma, þótt hún teygi sig reyndar í aðrar áttir líka. Þessi hefð er stundum kölluð vestræn heimspeki. Þetta er ekki eina heimspekihefðin sem til er og sem dæmi má nefna jafn gamlar og ríkulegar heimspekihefðir í Kína og Indlandi til forna. Í þeim er að finna eitt og annað bæði líkt og ólíkt. Mögulega höfðu grísk og indversk heimspeki einhver áhrif hvor á aðra, þótt erfitt sé að sýna fram á það, en vafasamara er hvort finna megi einhver tengsl milli grískrar og kínverskrar heimspeki í fornöld. Hér verður ekki fjallað nánar um kínverska eða indverska heimspeki af því að hér er spurt hvernig grísk heimspeki tengist miðaldaheimspeki.

Eins og segir hér að ofan má rekja vestræna heimspeki aftur til Forngrikkja í gegnum miðaldir og Rómaveldi. Eins og svo margt annað fengu Rómverjar gríska heimspeki í arf og gerðu að sinni. Um þetta má meðal annars lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku? Rómverjar kynntust grískri heimspeki á 2. öld fyrir okkar tímatal (f.o.t.) og voru sumir í fyrstu lítt hrifnir. Þó var ekki aftur snúið og segja má að á 1. og 2. öld f.o.t. hafi þeir drukkið í sig og í einhverjum skilningi eignað sér gríska heimspeki, mælskulist og bókmenntir. Skáldið Titus Lucretius Carus (um 98–55 f.o.t.) samdi kvæðið De rerum natura eða Um eðli hlutanna um heimspeki Epikúrosar og Marcus Tullius Cicero (106–43 f.o.t.) bæði samdi mörg rit og þýddi um ýmsa þætti grískrar heimspeki. Það gerði samtímamaður hans, Marcus Terentius Varro (116–27 f.o.t.) einnig. Á fyrstu öld f.o.t. voru rit Aristótelesar (þau sem enn eru varðveitt) gefin út í Róm en auk þess voru rit Platons vel þekkt. Ef til vill var þó stóuspeki vinsælasta heimspekin, ekki síst meðal yfirstéttarinnar, að minnsta kosti fram að 3. öld en þá varð svonefndur nýplatonismi ríkjandi.

Á 1. og 2. öld f.o.t. eignuðu Rómverjar sér í einhverjum skilningi gríska heimspeki. Skáldið Lucretius samdi t.a.m. kvæðið De rerum natura eða Um eðli hlutanna um heimspeki Epikúrosar. Myndin er af útgáfu á riti Lucretiusar frá 1712.

Í síðfornöld gliðnaði Rómaveldi í tvennt og að lokum varð skiptingin varanleg. Þennan klofning austurs og vesturs má rekja til 4. aldar. Þótt lítið breyttist í fyrstu hafði hann þó að endingu umtalsverðar afleiðingar, bæði pólitískar, trúarlegar og menningarlegar. Með tilurð Austrómverska og Vestrómverska ríkisins dró um síðir úr samskiptum milli austurs og vesturs. Hefð er fyrir því að tala um að Vestrómverska ríkið hafi fallið árið 476 enda Rómaborg þá komin undir yfirráð Gota. Kunnátta í grísku týndist nær alveg í leifum Vestrómverska ríkisins og þar með rofnaði aðgangur manna í vestri að ritum á grísku sem varð til þess að þar gátu menn einungis lesið þá heimspeki sem hafði verið skrifuð á latínu. Margt af því efni var raunar lítið lesið og fá eintök til þannig að einnig rofnaði tengingin við eldri bókmenntir á latínu að nokkru leyti.

Á 8.–10. öld urðu til þrjár meginhefðir í heimspeki miðalda sem fjarlægðust hver aðra og höfðu frá 10. öld lítil sem engin áhrif hver á aðra: í latínumælandi leifum Vestrómverska ríkisins, býsanska hefðin í hinu grískumælandi Austrómverska ríki og miðausturlenska hefðin. Allar voru þær undir sterkum áhrifum ríkjandi trúarbragða, kristni í bæði Austrómverska ríkinu og leifunum af því vestrómverska en íslam í miðausturlensku hefðinni. Gyðingleg miðaldaheimspeki var einnig til.

Í Austrómverska ríkinu héldu áhrif nýplatonismans áfram en nú voru allir helstu hugsuðir orðnir kristnir, til dæmis Jóhannes Fílópónos á 6. öld og Mikael frá Efesos á 12. öld. Þeir sýndu Aristótelesi einnig mikinn áhuga, lásu hann ákaft og skrifuðu um kenningar hans.

Mikilvægustu höfundarnir í Vestur-Evrópu á ármiðöldum voru Cicero og Seneca. Af heimspekiritum Ciceros, sem lesin voru á miðöldum, má nefna Samræður í Tusculum (Tusculanae disputationes), Um vináttuna (Laelius de amicitia), Um ellina (Cato maior de senectute), Um endimörk góðs og ills (De finibus bonorum et malorum), Um skyldur (De officiis) og útdrátt úr riti hans Um ríkið (De re publica) sem gengur undir nafninu Draumur Scipios (Somnium Scipionis). Rit Senecu voru jafnvel vinsælli, en allt frá síðfornöld til ármiðalda og á hámiðöldum var hann í miklum metum sem siðfræðingur. Að lokum skal nefna Boethius (um 480–525) en rit hans Hugfró heimspekinnar (De consolatione philosophiae) byggði á ritum eldri höfunda og naut mikilla vinsælda á miðöldum. Boethius hafði haft áform um að varðveita með einhverjum hætti uppsafnaða visku heimspekinnar og bæði þýddi rit úr grísku á latínu og samdi við þau margvísleg skýringarrit en ekkert þeirra naut viðlíka vinsælda eins og Hugfró heimspekinnar. Honum entist líka ekki aldur til að klára allt það mikla þýðingastarf sem hann ætlaði sér en þýðing hans á rökfræðiritum Aristótelesar er enn til og var líklega eini textinn eftir Aristóteles sem til var á latínu. Einnig var til nokkuð vinsæl þýðing Chalcidiusar nokkurs á einni af samræðum Platons, Tímajosi, sem Cicero hafði einnig þýtt, en lítið annað.

Boethius (um 480–525) þýddi bæði rit úr grísku á latínu og samdi við þau margvísleg skýringarrit. Vinsælasta verk hans var Hugfró heimspekinnar en hér sést myndlýsing úr handriti af því frá 14. öld.

Heimspeki miðalda í Vestur-Evrópu einkennist því meðal annars af takmarkaðri þekkingu á grískri heimspeki en að henni höfðu menn einungis óbeinan aðgang í gegnum örfáar þýðingar og endursagnir. Annað sem einkennir heimspeki miðalda er áhrif trúarbragða, það er kristni. Þessi áhrif má rekja aftur til síðfornaldar. Kristni hafði eflst talsvert á 4. öld; árið 380 var hún orðin að ríkistrú Rómaveldis og skömmu síðar voru heiðin trúarbrögð bönnuð. Mikill meirihluti varðveittra texta frá þessum tíma er eftir kristna höfunda, sem höfðu margir hverjir talsverð áhrif á miðöldum. Sumir þeirra sýndu heimspekinni áhuga. Að öðrum ólöstuðum hlýtur Ágústínus frá Hippó að vera áhrifamestur þeirra höfunda síðfornaldar sem skrifuðu um heimspeki á latínu, þótt áhrif hans stafi reyndar einkum af guðfræðilegum ritum hans, svo sem Um borg guðs (De civitate dei) og Um þrenninguna (De trinitate) að ógleymdu vinsælasta riti hans Játningunum (Confessiones). Ágústínus deilir á heimspekinga klassískrar fornaldar frá sjónarhóli kristins kennimanns en er um leið rækilega undir áhrifum frá Platoni og platonsku hefðinni.

Á hámiðöldum var það aftur á móti Aristóteles sem mest áhrif hafði á bæði kristna hugsuði og alla heimspekilega orðræðu. Nú bárust nýjar þýðingar á ýmsum ritum Aristótelesar og höfðu ómæld og óafmáanleg áhrif á bæði heimsmynd og siðfræði kristinna manna og heimspekilega orðræðu og aðferðafræði. Slíkur var áhuginn að ýmsir innan kirkjunnar voru uggandi og á 12. öld voru rit hans bönnuð nokkrum sinnum. Aldrei tókst þó að drepa í glóðunum. Í raun urðu áhrif Aristótelesar að allsherjar báli bæði í skólaspekinni svokölluðu sem og í ritum Tómasar frá Aquino.

Rætur skólaspekinnar eru ýmsar og er meðal annars að finna í ritskýringarhefðum kristinna guðfræðinga og gyðinga en þó er driffjöðurin án efa rökfræði og aðferðafræði Aristótelesar. Eins og áður sagði voru nokkur rökfræðirita Aristótelesar aðgengileg í þýðingu Boethiusar strax á 6. öld en áhrifin jukust er nýjar þýðingar bárust og á fleiri ritum. Meðal helstu forkólfa skólaspekinnar á 11. og 12. öld voru Anselm frá Kantaraborg og Pétur Abelard en á 13. öld voru áhrifamestir Tómas frá Aquino, Roger Bacon og Duns Scotus og svo William af Ockham á 14. öld.

Segja má að hugmyndir Aristótelesar séu snar þáttur í nær allri heimspekilegri hugsun Tómasar þótt hann éti þær ekki upp hráar. Hann gerði til dæmis dygðakenningu Aristótelesar að sinni siðfræði en eykur við hana nýrri kristilegri vídd. Tómas hafði mikil áhrif á alla kristna heimspeki og guðfræði á sínum tíma og hefur enn. Á 19. öld varð hann opinber heimspekingur kaþólsku kirkjunnar og þá stöðu hefur hann enn í dag.

Þessi miklu áhrif Aristótelesar á hámiðöldum urðu meðal annars vegna þess að þýðingar á ritum hans urðu aðgengilegar. Hvaðan bárust þær? Í einhverjum tilvikum var þýtt beint úr grísku á latínu. Wilhelm frá Moerbeke er dæmi um slíkan þýðanda. Undir lok 14. aldar og á þeirri 15. bárust handrit meira og minna allra höfunda frá Kontantínópel til Ítalíu og voru bæði þýdd og prentuð en á miðöldum voru enn ekki forsendur til þess, enda grískukunnátta enn þá mjög sjaldgæf í Vestur-Evrópu og samgangur lítill. Í sumum tilvikum bárust áhrifin í gegnum arabíska höfunda.

Heimspeki fornaldar átti sér ekki aðeins eftirlíf í höndunum á kristnum kennimönnum heldur einnig í höndum arabískra og persneskra fræðimanna. Myndin er úr arabísku handriti frá fyrri hluta 13. aldar og sýnir m.a. Aristóteles (hægra megin).

Heimspeki fornaldar átti sér nefnilega ekki aðeins eftirlíf í höndunum á kristnum kennimönnum heldur einnig í höndum arabískra og persneskra fræðimanna. Rétt eins og heimspeki miðalda í Vestur-Evrópu varð til með því að grísk heimspeki — í gegnum rómverskar bókmenntir og latneskar þýðingar — fléttaðist saman við kristna guðfræði varð miðausturlensk miðaldaheimspeki til þegar íslömsk guðfræði fléttaðist saman við gríska heimspeki og vísindi. Um það leyti sem Vestur-Evrópumenn týndu grískukunnáttu sinni voru miðausturlenskir fræðimenn nokkuð stórvirkir þýðendur grískra heimspekirita og raunar annarra vísinda- og fræðirita líka, svo sem stærðfræði-, líffræði- og læknisfræðirita. Í Mið-Austurlöndum var lítið sem ekkert þýtt af latneskum bókmenntum en í staðinn höfðu menn þar mun betri kynni af ritum grískra höfunda. Fyrir vikið varð Platon til dæmis áhrifameiri í Mið-Austurlöndum en í Vestur-Evrópu en Aristótles ekki síður. Sum grísk rit höfðu verið þýdd á sýrísku á 6.–8. öld og persneskar þýðingar þekktust einnig en langmest var þýtt á arabísku á 9. og 10. öld.

Einn mikilvægasti heimspekingur og fræðimaður Mið-Austurlanda var Al-Kindi á 9. öld. Honum var falið að hafa umsjón með þýðingarverkefnum sem unnið var að og má segja að hafi verið forsenda þess sem á eftir kom. Al-Kindi varð fyrir djúpstæðum áhrifum platonsku hefðarinnar. Á 10. öld má greina sterkari áhrif Aristótelesar hjá Al-Farabi, sem var þó einnig undir áhrifum Platons. Sömu sögu er að segja snemma á 11. öld í verkum persneska heimspekingsins Ibn Sina (eða Avicenna) en áhrif hans á íslamska heimspeki voru afar mikil og víðtæk.

Á 11. öld kom einnig fram römm gagnrýni á heimspekingana í verkum persneska fræðimannsins Al-Ghazali. Að sumu leyti svipar honum til Ágústínusar því að gagnrýni hans á heimspekina er einkum ætlað að standa vörð um trúna. Áhrifa Aristótelesar gætti þó enn og ekki síður á 12. öld í ritum Ibn Rushd (eða Averroes) sem meðal annars brást við gagnrýni Al-Ghazalis. Hann var frá Spáni, sem arabar höfðu ráðið frá því um árið 700, og var mikilvirkur höfundur skýringarrita við rit Aristótelesar. Skýringarrit hans voru mörg hver þýdd á latínu og þannig hafði hann töluverð áhrif á evrópska miðaldaheimspeki, þar á meðal Tómas frá Aquino.

Þannig tengjast á endanum aftur þeir þræðir sem höfðu tvístrast á ármiðöldum þegar nýjar þýðingar og skýringarrit byrja að berast til Vestur-Evrópu bæði beint frá Grikklandi og í gegnum rit og þýðingar arabískra höfunda.

Heimild og ítarefni:
  • Marenbon, John. Medieval Philosophy: An Historical and Philosophical Introduction. London: Routlegde, 2007.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

18.1.2023

Spyrjandi

Árni Hrafn Hafsteinsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver er tengingin milli grískrar heimspeki og heimspekinga miðalda?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2023. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84202.

Geir Þ. Þórarinsson. (2023, 18. janúar). Hver er tengingin milli grískrar heimspeki og heimspekinga miðalda? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84202

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver er tengingin milli grískrar heimspeki og heimspekinga miðalda?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2023. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84202>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er tengingin milli grískrar heimspeki og heimspekinga miðalda?
Spurningin er viðamikil en í stuttu máli má segja að sú heimspekihefð sem varð til og mótaðist meðal Forngrikkja eigi sér órofa sögu sem teygir sig í gegnum Rómaveldi og miðaldir til okkar tíma, þótt hún teygi sig reyndar í aðrar áttir líka. Þessi hefð er stundum kölluð vestræn heimspeki. Þetta er ekki eina heimspekihefðin sem til er og sem dæmi má nefna jafn gamlar og ríkulegar heimspekihefðir í Kína og Indlandi til forna. Í þeim er að finna eitt og annað bæði líkt og ólíkt. Mögulega höfðu grísk og indversk heimspeki einhver áhrif hvor á aðra, þótt erfitt sé að sýna fram á það, en vafasamara er hvort finna megi einhver tengsl milli grískrar og kínverskrar heimspeki í fornöld. Hér verður ekki fjallað nánar um kínverska eða indverska heimspeki af því að hér er spurt hvernig grísk heimspeki tengist miðaldaheimspeki.

Eins og segir hér að ofan má rekja vestræna heimspeki aftur til Forngrikkja í gegnum miðaldir og Rómaveldi. Eins og svo margt annað fengu Rómverjar gríska heimspeki í arf og gerðu að sinni. Um þetta má meðal annars lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku? Rómverjar kynntust grískri heimspeki á 2. öld fyrir okkar tímatal (f.o.t.) og voru sumir í fyrstu lítt hrifnir. Þó var ekki aftur snúið og segja má að á 1. og 2. öld f.o.t. hafi þeir drukkið í sig og í einhverjum skilningi eignað sér gríska heimspeki, mælskulist og bókmenntir. Skáldið Titus Lucretius Carus (um 98–55 f.o.t.) samdi kvæðið De rerum natura eða Um eðli hlutanna um heimspeki Epikúrosar og Marcus Tullius Cicero (106–43 f.o.t.) bæði samdi mörg rit og þýddi um ýmsa þætti grískrar heimspeki. Það gerði samtímamaður hans, Marcus Terentius Varro (116–27 f.o.t.) einnig. Á fyrstu öld f.o.t. voru rit Aristótelesar (þau sem enn eru varðveitt) gefin út í Róm en auk þess voru rit Platons vel þekkt. Ef til vill var þó stóuspeki vinsælasta heimspekin, ekki síst meðal yfirstéttarinnar, að minnsta kosti fram að 3. öld en þá varð svonefndur nýplatonismi ríkjandi.

Á 1. og 2. öld f.o.t. eignuðu Rómverjar sér í einhverjum skilningi gríska heimspeki. Skáldið Lucretius samdi t.a.m. kvæðið De rerum natura eða Um eðli hlutanna um heimspeki Epikúrosar. Myndin er af útgáfu á riti Lucretiusar frá 1712.

Í síðfornöld gliðnaði Rómaveldi í tvennt og að lokum varð skiptingin varanleg. Þennan klofning austurs og vesturs má rekja til 4. aldar. Þótt lítið breyttist í fyrstu hafði hann þó að endingu umtalsverðar afleiðingar, bæði pólitískar, trúarlegar og menningarlegar. Með tilurð Austrómverska og Vestrómverska ríkisins dró um síðir úr samskiptum milli austurs og vesturs. Hefð er fyrir því að tala um að Vestrómverska ríkið hafi fallið árið 476 enda Rómaborg þá komin undir yfirráð Gota. Kunnátta í grísku týndist nær alveg í leifum Vestrómverska ríkisins og þar með rofnaði aðgangur manna í vestri að ritum á grísku sem varð til þess að þar gátu menn einungis lesið þá heimspeki sem hafði verið skrifuð á latínu. Margt af því efni var raunar lítið lesið og fá eintök til þannig að einnig rofnaði tengingin við eldri bókmenntir á latínu að nokkru leyti.

Á 8.–10. öld urðu til þrjár meginhefðir í heimspeki miðalda sem fjarlægðust hver aðra og höfðu frá 10. öld lítil sem engin áhrif hver á aðra: í latínumælandi leifum Vestrómverska ríkisins, býsanska hefðin í hinu grískumælandi Austrómverska ríki og miðausturlenska hefðin. Allar voru þær undir sterkum áhrifum ríkjandi trúarbragða, kristni í bæði Austrómverska ríkinu og leifunum af því vestrómverska en íslam í miðausturlensku hefðinni. Gyðingleg miðaldaheimspeki var einnig til.

Í Austrómverska ríkinu héldu áhrif nýplatonismans áfram en nú voru allir helstu hugsuðir orðnir kristnir, til dæmis Jóhannes Fílópónos á 6. öld og Mikael frá Efesos á 12. öld. Þeir sýndu Aristótelesi einnig mikinn áhuga, lásu hann ákaft og skrifuðu um kenningar hans.

Mikilvægustu höfundarnir í Vestur-Evrópu á ármiðöldum voru Cicero og Seneca. Af heimspekiritum Ciceros, sem lesin voru á miðöldum, má nefna Samræður í Tusculum (Tusculanae disputationes), Um vináttuna (Laelius de amicitia), Um ellina (Cato maior de senectute), Um endimörk góðs og ills (De finibus bonorum et malorum), Um skyldur (De officiis) og útdrátt úr riti hans Um ríkið (De re publica) sem gengur undir nafninu Draumur Scipios (Somnium Scipionis). Rit Senecu voru jafnvel vinsælli, en allt frá síðfornöld til ármiðalda og á hámiðöldum var hann í miklum metum sem siðfræðingur. Að lokum skal nefna Boethius (um 480–525) en rit hans Hugfró heimspekinnar (De consolatione philosophiae) byggði á ritum eldri höfunda og naut mikilla vinsælda á miðöldum. Boethius hafði haft áform um að varðveita með einhverjum hætti uppsafnaða visku heimspekinnar og bæði þýddi rit úr grísku á latínu og samdi við þau margvísleg skýringarrit en ekkert þeirra naut viðlíka vinsælda eins og Hugfró heimspekinnar. Honum entist líka ekki aldur til að klára allt það mikla þýðingastarf sem hann ætlaði sér en þýðing hans á rökfræðiritum Aristótelesar er enn til og var líklega eini textinn eftir Aristóteles sem til var á latínu. Einnig var til nokkuð vinsæl þýðing Chalcidiusar nokkurs á einni af samræðum Platons, Tímajosi, sem Cicero hafði einnig þýtt, en lítið annað.

Boethius (um 480–525) þýddi bæði rit úr grísku á latínu og samdi við þau margvísleg skýringarrit. Vinsælasta verk hans var Hugfró heimspekinnar en hér sést myndlýsing úr handriti af því frá 14. öld.

Heimspeki miðalda í Vestur-Evrópu einkennist því meðal annars af takmarkaðri þekkingu á grískri heimspeki en að henni höfðu menn einungis óbeinan aðgang í gegnum örfáar þýðingar og endursagnir. Annað sem einkennir heimspeki miðalda er áhrif trúarbragða, það er kristni. Þessi áhrif má rekja aftur til síðfornaldar. Kristni hafði eflst talsvert á 4. öld; árið 380 var hún orðin að ríkistrú Rómaveldis og skömmu síðar voru heiðin trúarbrögð bönnuð. Mikill meirihluti varðveittra texta frá þessum tíma er eftir kristna höfunda, sem höfðu margir hverjir talsverð áhrif á miðöldum. Sumir þeirra sýndu heimspekinni áhuga. Að öðrum ólöstuðum hlýtur Ágústínus frá Hippó að vera áhrifamestur þeirra höfunda síðfornaldar sem skrifuðu um heimspeki á latínu, þótt áhrif hans stafi reyndar einkum af guðfræðilegum ritum hans, svo sem Um borg guðs (De civitate dei) og Um þrenninguna (De trinitate) að ógleymdu vinsælasta riti hans Játningunum (Confessiones). Ágústínus deilir á heimspekinga klassískrar fornaldar frá sjónarhóli kristins kennimanns en er um leið rækilega undir áhrifum frá Platoni og platonsku hefðinni.

Á hámiðöldum var það aftur á móti Aristóteles sem mest áhrif hafði á bæði kristna hugsuði og alla heimspekilega orðræðu. Nú bárust nýjar þýðingar á ýmsum ritum Aristótelesar og höfðu ómæld og óafmáanleg áhrif á bæði heimsmynd og siðfræði kristinna manna og heimspekilega orðræðu og aðferðafræði. Slíkur var áhuginn að ýmsir innan kirkjunnar voru uggandi og á 12. öld voru rit hans bönnuð nokkrum sinnum. Aldrei tókst þó að drepa í glóðunum. Í raun urðu áhrif Aristótelesar að allsherjar báli bæði í skólaspekinni svokölluðu sem og í ritum Tómasar frá Aquino.

Rætur skólaspekinnar eru ýmsar og er meðal annars að finna í ritskýringarhefðum kristinna guðfræðinga og gyðinga en þó er driffjöðurin án efa rökfræði og aðferðafræði Aristótelesar. Eins og áður sagði voru nokkur rökfræðirita Aristótelesar aðgengileg í þýðingu Boethiusar strax á 6. öld en áhrifin jukust er nýjar þýðingar bárust og á fleiri ritum. Meðal helstu forkólfa skólaspekinnar á 11. og 12. öld voru Anselm frá Kantaraborg og Pétur Abelard en á 13. öld voru áhrifamestir Tómas frá Aquino, Roger Bacon og Duns Scotus og svo William af Ockham á 14. öld.

Segja má að hugmyndir Aristótelesar séu snar þáttur í nær allri heimspekilegri hugsun Tómasar þótt hann éti þær ekki upp hráar. Hann gerði til dæmis dygðakenningu Aristótelesar að sinni siðfræði en eykur við hana nýrri kristilegri vídd. Tómas hafði mikil áhrif á alla kristna heimspeki og guðfræði á sínum tíma og hefur enn. Á 19. öld varð hann opinber heimspekingur kaþólsku kirkjunnar og þá stöðu hefur hann enn í dag.

Þessi miklu áhrif Aristótelesar á hámiðöldum urðu meðal annars vegna þess að þýðingar á ritum hans urðu aðgengilegar. Hvaðan bárust þær? Í einhverjum tilvikum var þýtt beint úr grísku á latínu. Wilhelm frá Moerbeke er dæmi um slíkan þýðanda. Undir lok 14. aldar og á þeirri 15. bárust handrit meira og minna allra höfunda frá Kontantínópel til Ítalíu og voru bæði þýdd og prentuð en á miðöldum voru enn ekki forsendur til þess, enda grískukunnátta enn þá mjög sjaldgæf í Vestur-Evrópu og samgangur lítill. Í sumum tilvikum bárust áhrifin í gegnum arabíska höfunda.

Heimspeki fornaldar átti sér ekki aðeins eftirlíf í höndunum á kristnum kennimönnum heldur einnig í höndum arabískra og persneskra fræðimanna. Myndin er úr arabísku handriti frá fyrri hluta 13. aldar og sýnir m.a. Aristóteles (hægra megin).

Heimspeki fornaldar átti sér nefnilega ekki aðeins eftirlíf í höndunum á kristnum kennimönnum heldur einnig í höndum arabískra og persneskra fræðimanna. Rétt eins og heimspeki miðalda í Vestur-Evrópu varð til með því að grísk heimspeki — í gegnum rómverskar bókmenntir og latneskar þýðingar — fléttaðist saman við kristna guðfræði varð miðausturlensk miðaldaheimspeki til þegar íslömsk guðfræði fléttaðist saman við gríska heimspeki og vísindi. Um það leyti sem Vestur-Evrópumenn týndu grískukunnáttu sinni voru miðausturlenskir fræðimenn nokkuð stórvirkir þýðendur grískra heimspekirita og raunar annarra vísinda- og fræðirita líka, svo sem stærðfræði-, líffræði- og læknisfræðirita. Í Mið-Austurlöndum var lítið sem ekkert þýtt af latneskum bókmenntum en í staðinn höfðu menn þar mun betri kynni af ritum grískra höfunda. Fyrir vikið varð Platon til dæmis áhrifameiri í Mið-Austurlöndum en í Vestur-Evrópu en Aristótles ekki síður. Sum grísk rit höfðu verið þýdd á sýrísku á 6.–8. öld og persneskar þýðingar þekktust einnig en langmest var þýtt á arabísku á 9. og 10. öld.

Einn mikilvægasti heimspekingur og fræðimaður Mið-Austurlanda var Al-Kindi á 9. öld. Honum var falið að hafa umsjón með þýðingarverkefnum sem unnið var að og má segja að hafi verið forsenda þess sem á eftir kom. Al-Kindi varð fyrir djúpstæðum áhrifum platonsku hefðarinnar. Á 10. öld má greina sterkari áhrif Aristótelesar hjá Al-Farabi, sem var þó einnig undir áhrifum Platons. Sömu sögu er að segja snemma á 11. öld í verkum persneska heimspekingsins Ibn Sina (eða Avicenna) en áhrif hans á íslamska heimspeki voru afar mikil og víðtæk.

Á 11. öld kom einnig fram römm gagnrýni á heimspekingana í verkum persneska fræðimannsins Al-Ghazali. Að sumu leyti svipar honum til Ágústínusar því að gagnrýni hans á heimspekina er einkum ætlað að standa vörð um trúna. Áhrifa Aristótelesar gætti þó enn og ekki síður á 12. öld í ritum Ibn Rushd (eða Averroes) sem meðal annars brást við gagnrýni Al-Ghazalis. Hann var frá Spáni, sem arabar höfðu ráðið frá því um árið 700, og var mikilvirkur höfundur skýringarrita við rit Aristótelesar. Skýringarrit hans voru mörg hver þýdd á latínu og þannig hafði hann töluverð áhrif á evrópska miðaldaheimspeki, þar á meðal Tómas frá Aquino.

Þannig tengjast á endanum aftur þeir þræðir sem höfðu tvístrast á ármiðöldum þegar nýjar þýðingar og skýringarrit byrja að berast til Vestur-Evrópu bæði beint frá Grikklandi og í gegnum rit og þýðingar arabískra höfunda.

Heimild og ítarefni:
  • Marenbon, John. Medieval Philosophy: An Historical and Philosophical Introduction. London: Routlegde, 2007.

Myndir:...