Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvaða gildi hafa dagdraumar?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Dagdraumar eru hluti af hugsanaflæði okkar í vöku. Fræðimenn hafa komist að því að dagdraumar eru mestir á unglingsárunum en eftir því sem fólk eldist dregur úr dagdraumum þess. Á gamals aldri eru kynferðislegir dagdraumar og hetjudraumar afar fátíðir. Þegar fólk er upptekið af krefjandi verkefnum gefast fá tækifæri til dagdrauma en svo virðist sem okkur hætti aldrei alveg að dreyma þá.

Talið er að flestir dagdraumar tengist markmiðum sem okkur langar að ná, hvort sem þau eru háleit eða hversdagsleg, langtíma eða skammtíma. Sumir telja að dagdraumar snúist alltaf um það sem við eigum ólokið.

Tilraunir hafa sýnt að dagdraumar kvikna þegar einstaklingurinn kemst í snertingu við eitthvað sem tengist markmiðum hans, hvort sem það er eitthvað í ytra umhverfi, til að mynda það sem hann les eða heyrir, eða eitthvað innra, svo sem hans eigið hugsanaflæði.

Áður fyrr voru dagdraumar taldir afar varasamt fyrirbæri. Í kennsluleiðbeiningum bandarískra kennara um og eftir miðja 20. öld var sérstaklega varað við því að leyfa nemendum að sökkva sér ofan í slíka drauma í kennslustofunni. Ef ekki var gripið skjótt í taumana áttu kennarar á hættu við skólaslit að sitja eftir með heilan bekk af geðklofasjúklingum. Engin rannsókn hefur þó sýnt fram á tengsl dagdrauma og geðklofa. Samkvæmt nýjum rannsóknum virðast dagdraumar hins vegar gegna mikilvægu hlutverki í lífi hvers einstaklings, til að mynda virðast þeir eiga þátt í því að við finnum skapandi lausnir á erfiðum vandamálum.

Að einhverju leyti má líkja dagdraumum við vitranir sem gátu opinberast mönnum í vöku jafnt sem í svefni. Það sem greinir á milli er hins vegar að vitranir urðu fyrir guðlega eða aðra yfirskilvitlega tilstuðlan, eins og gildir um opinberun Jóhannesar eða andlega leiðsögn Múhameðs spámanns, en dagdraumar hafa alltaf verið taldir hugarfóstur þess sem dreymir. Dagdraumar eru eins konar veraldleg útfærsla á guðlegri opinberun. Enda eru dagdraumar nýtt orð samanborið við hugtakið vitrun. Elstu dæmi um dagdrauma í enskri tungu eru frá 17. öld og elsta dæmið í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er fengið úr þýðingu Steingríms Thorsteinssonar á bókinni Pílagrímur ástarinnar eða Sagan af Ahmed al Kamel, frá árinu 1860.

Í þekktri grein frá árinu 1908 færir sálgreinandinn Sigmund Freud rök fyrir því að skáldskapur og dagdraumar séu sama eðlis. Munurinn felst eingöngu í því að skáldinu tekst að færa eigin dagdrauma í búning sem veitir hlustanda eða lesanda ánægju. Ef þeir sem búa ekki yfir skáldagáfu tækju upp á því að rekja í smáatriðum dagdrauma sína fyrir hverjum þeim sem þeir hitta á förnum vegi telur Freud hins vegar að þeir hlytu að launum ótta og andúð en afar litla ánægju.



Skoðið einnig svör við spurningunum

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

2.7.2002

Spyrjandi

Björg Finnsdóttir

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaða gildi hafa dagdraumar?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2002. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2554.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 2. júlí). Hvaða gildi hafa dagdraumar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2554

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvaða gildi hafa dagdraumar?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2002. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2554>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða gildi hafa dagdraumar?
Dagdraumar eru hluti af hugsanaflæði okkar í vöku. Fræðimenn hafa komist að því að dagdraumar eru mestir á unglingsárunum en eftir því sem fólk eldist dregur úr dagdraumum þess. Á gamals aldri eru kynferðislegir dagdraumar og hetjudraumar afar fátíðir. Þegar fólk er upptekið af krefjandi verkefnum gefast fá tækifæri til dagdrauma en svo virðist sem okkur hætti aldrei alveg að dreyma þá.

Talið er að flestir dagdraumar tengist markmiðum sem okkur langar að ná, hvort sem þau eru háleit eða hversdagsleg, langtíma eða skammtíma. Sumir telja að dagdraumar snúist alltaf um það sem við eigum ólokið.

Tilraunir hafa sýnt að dagdraumar kvikna þegar einstaklingurinn kemst í snertingu við eitthvað sem tengist markmiðum hans, hvort sem það er eitthvað í ytra umhverfi, til að mynda það sem hann les eða heyrir, eða eitthvað innra, svo sem hans eigið hugsanaflæði.

Áður fyrr voru dagdraumar taldir afar varasamt fyrirbæri. Í kennsluleiðbeiningum bandarískra kennara um og eftir miðja 20. öld var sérstaklega varað við því að leyfa nemendum að sökkva sér ofan í slíka drauma í kennslustofunni. Ef ekki var gripið skjótt í taumana áttu kennarar á hættu við skólaslit að sitja eftir með heilan bekk af geðklofasjúklingum. Engin rannsókn hefur þó sýnt fram á tengsl dagdrauma og geðklofa. Samkvæmt nýjum rannsóknum virðast dagdraumar hins vegar gegna mikilvægu hlutverki í lífi hvers einstaklings, til að mynda virðast þeir eiga þátt í því að við finnum skapandi lausnir á erfiðum vandamálum.

Að einhverju leyti má líkja dagdraumum við vitranir sem gátu opinberast mönnum í vöku jafnt sem í svefni. Það sem greinir á milli er hins vegar að vitranir urðu fyrir guðlega eða aðra yfirskilvitlega tilstuðlan, eins og gildir um opinberun Jóhannesar eða andlega leiðsögn Múhameðs spámanns, en dagdraumar hafa alltaf verið taldir hugarfóstur þess sem dreymir. Dagdraumar eru eins konar veraldleg útfærsla á guðlegri opinberun. Enda eru dagdraumar nýtt orð samanborið við hugtakið vitrun. Elstu dæmi um dagdrauma í enskri tungu eru frá 17. öld og elsta dæmið í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er fengið úr þýðingu Steingríms Thorsteinssonar á bókinni Pílagrímur ástarinnar eða Sagan af Ahmed al Kamel, frá árinu 1860.

Í þekktri grein frá árinu 1908 færir sálgreinandinn Sigmund Freud rök fyrir því að skáldskapur og dagdraumar séu sama eðlis. Munurinn felst eingöngu í því að skáldinu tekst að færa eigin dagdrauma í búning sem veitir hlustanda eða lesanda ánægju. Ef þeir sem búa ekki yfir skáldagáfu tækju upp á því að rekja í smáatriðum dagdrauma sína fyrir hverjum þeim sem þeir hitta á förnum vegi telur Freud hins vegar að þeir hlytu að launum ótta og andúð en afar litla ánægju.



Skoðið einnig svör við spurningunum...