
Hér má sjá svokallaða Kanizsa-skynvillu, þar sem fólk sér sýndarútlínur (illusory contours) fernings og þríhyrnings. Formgerðarstefnumenn ættu hér í vandræðum með að benda á úr hvaða skynhrifum þessi sýndarform eru samsett; samkvæmt þeim ættum við alls ekki að geta skynjað þau.

Prägnanz-lögmálið, eða einfeldnilögmálið, segir að einfaldasta skýringin á myndinni til vinstri sé að hún sýni fimm B undir blekklessu, en ekki marga ótengda bita eins og sjást á myndinni til hægri.
Í öðru lagi má nefna samfellulögmálið (law of good continuation), sem segir að tveir punktar myndi eina skynheild ef hægt er að tengja þá saman þannig að úr verði bein eða bogadregin lína, með öðrum orðum að línan sé samfelld. Ef tengingin leiðir aftur á móti til þess að úr verða kröpp horn er ólíklegt að punktarnir myndi skynheild. Á myndinni hér til hægri, sem sýnir stækkaðan hluta myndarinnar að ofan, hafa útlínur bókstafsins verið dregnar inn á blekklessuna. Flestar línurnar eru annað hvort beinar eða bogadregnar, og lítið er um skörp horn. Samkvæmt lögmáli góðrar samfellu er því nokkuð góð ágiskun að myndin sýni í raun fimm bókstafi en ekki ótalmarga smáa bita.
Fleiri skynheildarlögmál eru til. Nálægðarlögmálið (law of proximity) segir að hlutir sem eru nálægt hver öðrum séu líklegri til að mynda skynheild en þeir sem eru fjarlægir. Einsleitnilögmálið (law of similarity) segir að líkir hlutir séu flokkaðir saman. Lokunarlögmálið (law of closure) segir að líklegast sé að hlutir sem myndi lokað rými hópist saman, og samkvæmt samhverfulögmálinu (law of symmetry) er líklegast að maður skynji samhverfa hluti sem eina heild.

a) Fólk er mun líklegra til að skynja saman fyrstu og aðra línuna (frá vinstri) heldur en aðra og þriðju línuna, þar sem fyrstu tvær eru samhverfar. b) Kassarnir eru ein skynheild og hringirnir önnur. c) Nálægir hringir virðast eiga saman. d) Línur sem mynda lokaðan kassa skynjast sem ein heild. e) Mun líklegra er að fólki finnist línan sem byrjar í 1. punkti enda í 4. punkti frekar en 2. eða 3.
- Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
- Goldstein, E. B. (2002). Sensation and perception. Pacific Grove, CA: Wadsworth.
- Leahey, T. H. (2004). A history of psychology: Main currents in psychological thought (6. útgáfa). Upper Saddle River, NY: Pearson Prentice Hall.
- Ýmsar skynvillur og annað sem tengist skynjunarsálfræði.
- Kanizsa-skynvillan er af Physiology of Vision and Perception - Lecture 15.
- Myndir af B-um eru af Blotted letters – a Gestalt phenomenon. Michael’s “Optical Illusions & Visual Phenomena”.
- Mynd sem sýnir mörg skynheildarlögmál er af Perceptual Grouping.