Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Getum við munað eftir einhverju sem gerðist í lífi okkar fyrir þriggja ára aldur?

Heiða María Sigurðardóttir

Ólíklegt er að fullorðið fólk muni eftir atburðum sem gerðust fyrir þriggja eða fjögurra ára aldur. Þetta kallast bernskuóminni (e. infantile amnesia, childhood amnesia) og hefur lengi verið þekkt.

Á seinni árum hafa bæði hugrænir sálfræðingar (e. cognitive psychologists) og hugfræðingar (e. cognitive scientists) reynt að kanna fyrirbærið á kerfisbundinn hátt. Í nokkrum rannsóknum hefur til að mynda verið athugað hvort fólk muni eftir fæðingu yngra systkinis síns. Þeir sem voru yngri en þriggja ára við fæðingu systkinisins mundu yfirleitt sáralítið. Sumt bendir að vísu til að fólk geti munað eftir þessu þótt það gerðist fyrir tveggja ára aldurinn en slíkar minningar eru að minnsta kosti sjaldgæfar.

Vandamál við rannsóknir sem þessar er svokölluð upprunagleymska, það er að fólk gleymir oft hvaðan minningar eru komnar. Þegar fólk segist muna eftir fæðingu yngra systkinis getur vel verið að minningin sé raunar um seinni atburði, svo sem þegar mamma þess eða pabbi sagði því söguna af fæðingunni og sýndi myndir. Annað vandamál er að oft er erfitt að ganga úr skugga um að minningarnar séu „réttar“ en ekki tilkomnar seinna.

Sem betur fer hafa líka verið gerðar rannsóknir þar sem hægt er að ganga úr skugga um réttmæti minninganna. Í einni slíkri var athugað hvort þriggja og fjögurra ára krakkar (nánar tiltekið þriggja ára og átta mánaða, og fjögurra ára og 7 mánaða) myndu eftir eldvarnaræfingu í leikskólanum. Allir krakkarnir gátu sagt satt og rétt frá tveimur vikum eftir atburðinn en aðeins eldri krakkarnir mundu eftir atburðinum sjö árum síðar.


Margar skýringar hafa verið gefnar á bernskuóminni. Ein sú elsta er runnin undan rifjum sálgreinandans Sigmund Freuds. Freud taldi æskuminningar ekki gleymdar heldur geymdust þær í dulvitund fólks. Þaðan gætu þær haft áhrif á hugsanir fólks og gjörðir, jafnvel þótt það gerði sér enga grein fyrir þeim.

Seinni tíma fræðimenn leggja lítinn trúnað á þessa skýringu Freuds en eru samt alls ekki sammála um orsökina. Sumir telja hana vera að börn myndi annars konar minningar en fullorðnir vegna þess að tungumál þeirra, sjálfsmynd eða meðvitund eru tiltölulega lítið þróuð. Aðrir benda á að skýringuna sé að finna í þeim miklu breytingum sem verða á minnisstöðvum heilans eftir því sem fólk eldist. Enn aðrir benda á að eftir því sem minningar eru oftar rifjaðar upp því almennari verða þær. Minningarnar geti verið til á einhverju formi í huga fólks en að þær tengist ekki lengur þeim tíma þegar atburðirnir gerðust; þær eru orðnar hluti af almennri þekkingu en tilheyra ekki lengur eiginlegri sjálfsævisögu fólks. Að lokum eru sumir sem benda á það sem kalla mætti sjónaukahrif (e. telescoping), þá þekktu staðreynd að fólk heldur oft að atburðir hafi verið nær í tíma en þeir voru í raun. Þegar fólk er beðið um að segja frá því sem gerðist fyrir þriggja ára aldurinn getur því verið að það muni eftir einhverjum þeirra en finnist þeir hafa gerst síðar í lífi sínu.

Flestir eru á þeirri skoðun að engin ein kenning geti fyllilega gert grein fyrir öllum niðurstöðum rannsókna á bernskuóminni. Margir hallast frekar að því að kenningarnar séu ekki ósamrýmanlegar og hafi margar nokkuð til síns ágætis.

Heimildir og mynd

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

10.1.2006

Spyrjandi

Drífa B.

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Getum við munað eftir einhverju sem gerðist í lífi okkar fyrir þriggja ára aldur?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2006. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5551.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 10. janúar). Getum við munað eftir einhverju sem gerðist í lífi okkar fyrir þriggja ára aldur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5551

Heiða María Sigurðardóttir. „Getum við munað eftir einhverju sem gerðist í lífi okkar fyrir þriggja ára aldur?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2006. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5551>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getum við munað eftir einhverju sem gerðist í lífi okkar fyrir þriggja ára aldur?
Ólíklegt er að fullorðið fólk muni eftir atburðum sem gerðust fyrir þriggja eða fjögurra ára aldur. Þetta kallast bernskuóminni (e. infantile amnesia, childhood amnesia) og hefur lengi verið þekkt.

Á seinni árum hafa bæði hugrænir sálfræðingar (e. cognitive psychologists) og hugfræðingar (e. cognitive scientists) reynt að kanna fyrirbærið á kerfisbundinn hátt. Í nokkrum rannsóknum hefur til að mynda verið athugað hvort fólk muni eftir fæðingu yngra systkinis síns. Þeir sem voru yngri en þriggja ára við fæðingu systkinisins mundu yfirleitt sáralítið. Sumt bendir að vísu til að fólk geti munað eftir þessu þótt það gerðist fyrir tveggja ára aldurinn en slíkar minningar eru að minnsta kosti sjaldgæfar.

Vandamál við rannsóknir sem þessar er svokölluð upprunagleymska, það er að fólk gleymir oft hvaðan minningar eru komnar. Þegar fólk segist muna eftir fæðingu yngra systkinis getur vel verið að minningin sé raunar um seinni atburði, svo sem þegar mamma þess eða pabbi sagði því söguna af fæðingunni og sýndi myndir. Annað vandamál er að oft er erfitt að ganga úr skugga um að minningarnar séu „réttar“ en ekki tilkomnar seinna.

Sem betur fer hafa líka verið gerðar rannsóknir þar sem hægt er að ganga úr skugga um réttmæti minninganna. Í einni slíkri var athugað hvort þriggja og fjögurra ára krakkar (nánar tiltekið þriggja ára og átta mánaða, og fjögurra ára og 7 mánaða) myndu eftir eldvarnaræfingu í leikskólanum. Allir krakkarnir gátu sagt satt og rétt frá tveimur vikum eftir atburðinn en aðeins eldri krakkarnir mundu eftir atburðinum sjö árum síðar.


Margar skýringar hafa verið gefnar á bernskuóminni. Ein sú elsta er runnin undan rifjum sálgreinandans Sigmund Freuds. Freud taldi æskuminningar ekki gleymdar heldur geymdust þær í dulvitund fólks. Þaðan gætu þær haft áhrif á hugsanir fólks og gjörðir, jafnvel þótt það gerði sér enga grein fyrir þeim.

Seinni tíma fræðimenn leggja lítinn trúnað á þessa skýringu Freuds en eru samt alls ekki sammála um orsökina. Sumir telja hana vera að börn myndi annars konar minningar en fullorðnir vegna þess að tungumál þeirra, sjálfsmynd eða meðvitund eru tiltölulega lítið þróuð. Aðrir benda á að skýringuna sé að finna í þeim miklu breytingum sem verða á minnisstöðvum heilans eftir því sem fólk eldist. Enn aðrir benda á að eftir því sem minningar eru oftar rifjaðar upp því almennari verða þær. Minningarnar geti verið til á einhverju formi í huga fólks en að þær tengist ekki lengur þeim tíma þegar atburðirnir gerðust; þær eru orðnar hluti af almennri þekkingu en tilheyra ekki lengur eiginlegri sjálfsævisögu fólks. Að lokum eru sumir sem benda á það sem kalla mætti sjónaukahrif (e. telescoping), þá þekktu staðreynd að fólk heldur oft að atburðir hafi verið nær í tíma en þeir voru í raun. Þegar fólk er beðið um að segja frá því sem gerðist fyrir þriggja ára aldurinn getur því verið að það muni eftir einhverjum þeirra en finnist þeir hafa gerst síðar í lífi sínu.

Flestir eru á þeirri skoðun að engin ein kenning geti fyllilega gert grein fyrir öllum niðurstöðum rannsókna á bernskuóminni. Margir hallast frekar að því að kenningarnar séu ekki ósamrýmanlegar og hafi margar nokkuð til síns ágætis.

Heimildir og mynd

...