Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Af hverju eru hérar hafðir með í langhlaupum í frjálsum íþróttum?

Heiða María Sigurðardóttir

Fyrir þá sem ekki vita er sá kallaður héri sem hleypur á undan keppendum í langhlaupi en tekur sjálfur ekki þátt í baráttunni um verðlaunasætin (þótt reyndar hafi það gerst að hérar klári hlaup og vinni). Nafnið fær hann auðvitað af samnefndu dýri sem þekkt er fyrir mikla spretthörku. Héranum er gert að halda uppi tilteknum hringhraða sem er samið um fyrir keppnina. Hann hleypur síðan ákveðinn fjölda hringja eða hættir þegar keppendur fara fram úr honum.

Tilgangur héranna er að auka hraða fremstu keppendanna og þar með einnig líkur á að sett verði ný hraðamet. Staða hérans sem fremsta manns dregur úr loftmótstöðu og léttir öðrum keppendum þannig hlaupið. Áhrif hérans eru líka sálfræðileg. Þegar fólk hefur einhvern til að keppa við hleypur það nefnilega að jafnaði hraðar en annars. Þetta fyrirbæri er alls ekki bundið við íþróttir eingöngu, og ekki einu sinni við okkar eigin tegund. Til dæmis hlaupa kakkalakkar hraðar þegar þeir eru með öðrum kakkalökkum! Návist annarra getur þannig aukið afköst eða auðveldað einstaklingi að vinna tiltekið verk. Þetta fyrirbæri kallast á ensku social facilitation. Ekki er til nein algild íslensk þýðing á þessu hugtaki en ef til vill mætti nefna það félagslétti þar sem félagsskapurinn léttir verkið.


Þegar fólk keppir við aðra hleypur það hraðar en ella.

Sálfræðingar héldu hér áður fyrr að félagsléttir kæmi ætíð fram í návist annarra. Hver kannast hins vegar ekki við að vera búinn að æfa sig í einhverju í einrúmi en mistakast síðan hrapallega þegar loks á að sýna það öðrum? Höfundur man til dæmis eftir því úr píanónámi sínu fyrir mörgum árum að jafnvel þótt hann gæti stautað sig fram úr nótnalestrinum heima hjá sér fór oft illa þegar flytja átti verkið fyrir kennarann, hvað þá fyrir framan sal fullan af fólki á tónleikum. Hér varð því höfundur ekki fyrir félagslétti, heldur þvert á móti félagshömlun (e. social inhibition) þar sem návist annarra truflaði hann eða hamlaði honum.

Félagsleg áhrif sem þessi eru vel staðfest. Menn eru samt ekki á eitt sáttir hvað veldur og allnokkrar kenningar hafa verið settar fram um orsakir þeirra. Þekktasta kenningin um félagslétti og félagshömlun, og sú sem flestar rannsóknir styðja, er þó líklega hvatakenning (e. drive theory) félagssálfræðingsins Zajoncs (sem gerði einmitt fyrrnefnda rannsókn á kakkalökkum). Hvatakenningin gerir ráð fyrir að návist annarra valdi örvun sem virkar sem hvöt til að gera það sem manni er helst tamt eða eðlislægt. Þess vegna kemur félagsléttir bara fram við frekar einföld eða vel æfð verkefni (eins og langhlaup). Þegar verkin eru manni ekki töm verður maður því miður fremur fyrir félagshömlun. Samkvæmt hvatakenningunni er ástæðan fyrir slæmum tónlistarflutningi höfundar fyrir framan áhorfendur því sú að hann var ekkert sérstaklega duglegur að æfa sig heima. Honum var því í raun tamara að gera villur en að spila réttar nótur. Þannig gengur byrjendum yfirleitt betur í einrúmi en fyrir framan aðra, en píanósnillingum almennt betur á tónleikum en heima hjá sér.

Heimildir og mynd

  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Hogg, M. A. og Vaughan, G. M. (2002). Social psychology (3. útgáfa). Essex: Pearson Prentice Hall.
  • Zajonc, R. B., Heingartner, A. og Herman, E. M. (1969). Social enhancement and impairment of performance in the cockroach. Journal of Personality and Social Psychology, 13(2), 83-92.
  • Myndin er fengin af Haiti-News.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

22.2.2006

Spyrjandi

Hörður Lárusson

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju eru hérar hafðir með í langhlaupum í frjálsum íþróttum?“ Vísindavefurinn, 22. febrúar 2006. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5662.

Heiða María Sigurðardóttir. (2006, 22. febrúar). Af hverju eru hérar hafðir með í langhlaupum í frjálsum íþróttum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5662

Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju eru hérar hafðir með í langhlaupum í frjálsum íþróttum?“ Vísindavefurinn. 22. feb. 2006. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5662>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru hérar hafðir með í langhlaupum í frjálsum íþróttum?
Fyrir þá sem ekki vita er sá kallaður héri sem hleypur á undan keppendum í langhlaupi en tekur sjálfur ekki þátt í baráttunni um verðlaunasætin (þótt reyndar hafi það gerst að hérar klári hlaup og vinni). Nafnið fær hann auðvitað af samnefndu dýri sem þekkt er fyrir mikla spretthörku. Héranum er gert að halda uppi tilteknum hringhraða sem er samið um fyrir keppnina. Hann hleypur síðan ákveðinn fjölda hringja eða hættir þegar keppendur fara fram úr honum.

Tilgangur héranna er að auka hraða fremstu keppendanna og þar með einnig líkur á að sett verði ný hraðamet. Staða hérans sem fremsta manns dregur úr loftmótstöðu og léttir öðrum keppendum þannig hlaupið. Áhrif hérans eru líka sálfræðileg. Þegar fólk hefur einhvern til að keppa við hleypur það nefnilega að jafnaði hraðar en annars. Þetta fyrirbæri er alls ekki bundið við íþróttir eingöngu, og ekki einu sinni við okkar eigin tegund. Til dæmis hlaupa kakkalakkar hraðar þegar þeir eru með öðrum kakkalökkum! Návist annarra getur þannig aukið afköst eða auðveldað einstaklingi að vinna tiltekið verk. Þetta fyrirbæri kallast á ensku social facilitation. Ekki er til nein algild íslensk þýðing á þessu hugtaki en ef til vill mætti nefna það félagslétti þar sem félagsskapurinn léttir verkið.


Þegar fólk keppir við aðra hleypur það hraðar en ella.

Sálfræðingar héldu hér áður fyrr að félagsléttir kæmi ætíð fram í návist annarra. Hver kannast hins vegar ekki við að vera búinn að æfa sig í einhverju í einrúmi en mistakast síðan hrapallega þegar loks á að sýna það öðrum? Höfundur man til dæmis eftir því úr píanónámi sínu fyrir mörgum árum að jafnvel þótt hann gæti stautað sig fram úr nótnalestrinum heima hjá sér fór oft illa þegar flytja átti verkið fyrir kennarann, hvað þá fyrir framan sal fullan af fólki á tónleikum. Hér varð því höfundur ekki fyrir félagslétti, heldur þvert á móti félagshömlun (e. social inhibition) þar sem návist annarra truflaði hann eða hamlaði honum.

Félagsleg áhrif sem þessi eru vel staðfest. Menn eru samt ekki á eitt sáttir hvað veldur og allnokkrar kenningar hafa verið settar fram um orsakir þeirra. Þekktasta kenningin um félagslétti og félagshömlun, og sú sem flestar rannsóknir styðja, er þó líklega hvatakenning (e. drive theory) félagssálfræðingsins Zajoncs (sem gerði einmitt fyrrnefnda rannsókn á kakkalökkum). Hvatakenningin gerir ráð fyrir að návist annarra valdi örvun sem virkar sem hvöt til að gera það sem manni er helst tamt eða eðlislægt. Þess vegna kemur félagsléttir bara fram við frekar einföld eða vel æfð verkefni (eins og langhlaup). Þegar verkin eru manni ekki töm verður maður því miður fremur fyrir félagshömlun. Samkvæmt hvatakenningunni er ástæðan fyrir slæmum tónlistarflutningi höfundar fyrir framan áhorfendur því sú að hann var ekkert sérstaklega duglegur að æfa sig heima. Honum var því í raun tamara að gera villur en að spila réttar nótur. Þannig gengur byrjendum yfirleitt betur í einrúmi en fyrir framan aðra, en píanósnillingum almennt betur á tónleikum en heima hjá sér.

Heimildir og mynd

  • Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
  • Hogg, M. A. og Vaughan, G. M. (2002). Social psychology (3. útgáfa). Essex: Pearson Prentice Hall.
  • Zajonc, R. B., Heingartner, A. og Herman, E. M. (1969). Social enhancement and impairment of performance in the cockroach. Journal of Personality and Social Psychology, 13(2), 83-92.
  • Myndin er fengin af Haiti-News.
...