Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Sá Jónas Hallgrímsson einhvern tímann eldgos (sbr. ljóðið Fjallið Skjaldbreiður)?

EDS og JGÞ

Við lestur ljóðsins „Fjallið Skjaldbreiður“ eftir Jónas Hallgrímsson (1807-1845) mætti ætla að skáldið hafi orðið vitni að eldgosi. Í ljóðinu segir meðal annars:

Titraði jökull, æstust eldar,

öskraði djúpt í rótum lands,

eins og væru ofan felldar

allar stjörnur himnaranns;

eins og ryki mý eða mugga

margur gneisti um loftið fló;

dagur huldist dimmum skugga,

dunaði gjá og loga spjó.

Belja rauðar blossa móður,

blágrár reykur yfir sveif,

undir hverfur runni, rjóður,

reynistóð í hárri kleif.

Blómin ei þá blöskrun þoldu,

blikna hvert í sínum reit,

höfði drepa hrygg við moldu –

himnadrottinn einn það leit.

Þrátt fyrir þessa glæsilegu lýsingu á eldgosi sá Jónas aldrei eldgos með berum augum.

Skjaldbreiður er dyngja sem rís um 1060 metra yfir sjávarmál. Skjaldbreiður varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum.

Á fyrri hluta 19. aldar urðu sjö eldgos á Íslandi. Grímsvötn gusu 1816, 1826 og 1838 en þau eru fjarri mannabyggðum og lengi vel þekktu menn lítið til eldvirkni þar, hvað þá að þeir yrðu beinlínis vitni að eldsumbrotunum. Árið 1821 gaus Eyjafjallajökull og Katla í kjölfarið 1823. Á þessum tíma var Jónas unglingur norður í landi, fluttist reyndar suður haustið 1823 og settist á skólabekk í Bessastaðaskóla en þá var Kötlugosið yfirstaðið. Árið 1830 gaus á Reykjaneshrygg en það var gos í sjó og því ekki mörg vitni að því. Síðasta gosið á fyrri hluta 19. aldar var Heklugos sem hófst haustið 1845 en þá var Jónas allur, hann lést í Kaupmannahöfn í maí það sama ár.

Náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson er alls ekki eini Íslendingurinn sem hefur lýst eldgosi án þess að hafa nokkru sinni séð það. Til dæmis fjallar eitt mesta verk náttúrufræðingsins Þorvaldar Thoroddsen (1855-1921) um íslensk eldfjöll. Verkið kallast Geschichte der Isländischen Vulkane og kom út að honum látnum. Þorvaldur varð hins vegar aldrei vitni að eldgosi.

Heklugosið 1947-48 er eitt fyrsta gosið sem íslenskir jarðfræðingar gátu fylgst með. Það olli þess vegna miklum straumhvörfum í rannsóknum á eldgosum.

Heimildir og mynd:

Höfundar

Útgáfudagur

27.4.2012

Spyrjandi

Jón Torfason

Tilvísun

EDS og JGÞ. „Sá Jónas Hallgrímsson einhvern tímann eldgos (sbr. ljóðið Fjallið Skjaldbreiður)?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2012. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62467.

EDS og JGÞ. (2012, 27. apríl). Sá Jónas Hallgrímsson einhvern tímann eldgos (sbr. ljóðið Fjallið Skjaldbreiður)? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62467

EDS og JGÞ. „Sá Jónas Hallgrímsson einhvern tímann eldgos (sbr. ljóðið Fjallið Skjaldbreiður)?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2012. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62467>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Sá Jónas Hallgrímsson einhvern tímann eldgos (sbr. ljóðið Fjallið Skjaldbreiður)?
Við lestur ljóðsins „Fjallið Skjaldbreiður“ eftir Jónas Hallgrímsson (1807-1845) mætti ætla að skáldið hafi orðið vitni að eldgosi. Í ljóðinu segir meðal annars:

Titraði jökull, æstust eldar,

öskraði djúpt í rótum lands,

eins og væru ofan felldar

allar stjörnur himnaranns;

eins og ryki mý eða mugga

margur gneisti um loftið fló;

dagur huldist dimmum skugga,

dunaði gjá og loga spjó.

Belja rauðar blossa móður,

blágrár reykur yfir sveif,

undir hverfur runni, rjóður,

reynistóð í hárri kleif.

Blómin ei þá blöskrun þoldu,

blikna hvert í sínum reit,

höfði drepa hrygg við moldu –

himnadrottinn einn það leit.

Þrátt fyrir þessa glæsilegu lýsingu á eldgosi sá Jónas aldrei eldgos með berum augum.

Skjaldbreiður er dyngja sem rís um 1060 metra yfir sjávarmál. Skjaldbreiður varð til í rólegu flæðigosi fyrir rúmlega 9000 árum.

Á fyrri hluta 19. aldar urðu sjö eldgos á Íslandi. Grímsvötn gusu 1816, 1826 og 1838 en þau eru fjarri mannabyggðum og lengi vel þekktu menn lítið til eldvirkni þar, hvað þá að þeir yrðu beinlínis vitni að eldsumbrotunum. Árið 1821 gaus Eyjafjallajökull og Katla í kjölfarið 1823. Á þessum tíma var Jónas unglingur norður í landi, fluttist reyndar suður haustið 1823 og settist á skólabekk í Bessastaðaskóla en þá var Kötlugosið yfirstaðið. Árið 1830 gaus á Reykjaneshrygg en það var gos í sjó og því ekki mörg vitni að því. Síðasta gosið á fyrri hluta 19. aldar var Heklugos sem hófst haustið 1845 en þá var Jónas allur, hann lést í Kaupmannahöfn í maí það sama ár.

Náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson er alls ekki eini Íslendingurinn sem hefur lýst eldgosi án þess að hafa nokkru sinni séð það. Til dæmis fjallar eitt mesta verk náttúrufræðingsins Þorvaldar Thoroddsen (1855-1921) um íslensk eldfjöll. Verkið kallast Geschichte der Isländischen Vulkane og kom út að honum látnum. Þorvaldur varð hins vegar aldrei vitni að eldgosi.

Heklugosið 1947-48 er eitt fyrsta gosið sem íslenskir jarðfræðingar gátu fylgst með. Það olli þess vegna miklum straumhvörfum í rannsóknum á eldgosum.

Heimildir og mynd:

...