Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Með góðum vilja er hægt að rekja sögu handboltans aftur í gráa forneskju. Þar er að finna ýmsa knattleiki sem kalla mætti fyrirrennara hans. Þessir fornu leikir líkjast þó allt eins fótbolta og körfubolta, eins og handbolta.
Heimildir um knattleiki er að finna hjá Fornegyptum, í Ódysseifskviðu Hómers og í skrifum rómverska læknisins Galenosar (130-200). Líklegt má telja að þannig eigi handboltinn sér svipaða ættarsögu og fótboltinn, en hægt er að lesa um hana í svari við spurningunni Hver fann upp fótboltann?. Til forfeðra handboltans má þess vegna telja hinn gríska episkyros og þann rómverska harpastum.
Leikir þar sem bolti er sleginn með lófum eða handleiknu áhaldi, finnast víða um heim og frá ýmsum tímum, til dæmis meðal frumbyggja Suður- og Norður-Ameríku. Frá slíkjum leikjum hefur þróast það sem á enskri tungu er kallað “handball” og var vinsæl íþrótt til dæmis á Írlandi og í Baskalandi, en líkist ekki handbolta heldur tennis, badminton, lacrosse og öðrum íþróttum með kylfu eða spaða.
En þótt leita megi uppruna handboltans eins og að nál í heystakki mannkynssögunnar (án teljandi árangurs), er nokkuð auðvelt að benda á hvernig nútímahandbolti varð til. Handboltinn var fundinn upp í þremur löndum á svipuðum tíma, í kringum aldamótin 1900, í Danmörku, Tékkóslóvakíu þáverandi og Þýskalandi. Í öllum tilvikum var byggt á reglum knattspyrnunnar, en boltinn færður frá fótum í hendur leikmanna. Leiknum var ætlað að koma í stað fótboltans, annað hvort vegna þess að árstíðabundið veðurfar kæmi í veg fyrir knattspyrnuiðkun, eða fótboltinn þótti ekki nógu fínn fyrir viðkomandi leikmenn.
Í Tékklandi þekkist leikurinn hazena allt frá árinu 1892 og er upphaf hans tengt Josef nokkrum Klenker. Reglur voru færðar til bókar árið 1906. Nokkrum árum áður eða 1898, hafði danski íþróttakennarinn Holger Nielsen lagt lokahönd á reglur fyrir håndbold. Danska útgáfan var ætluð til iðkunar innanhúss, á litlum velli og kvað á um sjö leikmenn í liði. Hún líkist því núverandi fyrirkomulagi handboltans mest af þessum þremur fyrirrennurum. Þýsk útgáfa kemur hinsvegar fram á árunum 1915-17 sem nefndist Torball, og er íþróttakennara frá Berlín, Max Heiser, eignaður heiðurinn að henni. Hún var eingöngu ætluð konum en nokkrum árum síðar sameinaði Þjóðverjinn Karl Schelenz håndbold og Torball í eina íþrótt sem gekk undir þýska nafninu handball. Leikur Schelenz fór fram á knattspyrnuvöllum með knattspyrnumörkum og ellefu manns í liði. Schelenz bætti meðal annars við reglu um að rekja mætti boltann líkt og gert er í körfubolta sem þá var að verða vinsæl íþrótt í Þýskalandi.
Á formi Schelenz, sem kalla mætti “vallarhandbolta” (e. field handball), varð handbolti að vinsælli keppnisgrein. Fyrsti landsleikurinn fór fram 3. september 1925 á milli Þjóðverja og Austurríkismanna (úrslit urðu 6:3), og alþjóðlegt samband var stofnað árið 1928. Vallarhandbolti varð að ólympíugrein á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og fyrsta heimsmeistaramótið var haldið 1938. Eftir heimsstyrjöldina síðari hélt iðkun hans áfram af fullum krafti en breytingar voru þó í aðsigi.
Innanhúsútgáfan danska, þar sem sjö leikmenn voru í liði, hafði haldið velli á Norðurlöndum og smám saman breiddist hún út og yfirtók stöðu vallarhandboltans. Skýringa má meðal annars leita í skorti á aðstöðu þar sem fótboltinn hafði forgang á útivöllunum, og að innihandboltinn var mun snarpari og hraðari íþrótt og höfðaði meira til áhorfenda. Í Norður-Evrópu skipti einnig máli að áhorfendur gátu horft á leikinn í hlýjum húsum í stað kuldalegra útileikvanga. Síðasta heimsmeistaramótið í vallarhandbolta fór fram árið 1966. Innihandboltinn, handbolti eins og við þekkjum hann, varð að ólympíugrein í karlaflokki á leikunum í München 1972 og í kvennaflokki í Montreal 1976.
Handbolti nefnist “team handball” á ensku og hefur notið mikilla vinsælda í Evrópu síðustu áratugi. Aðrar heimsálfur eru að bætast í hópinn, með misjöfnum árangri eins og sjá mátti á Heimsmeistaramótinu í Portúgal. Fremstu handknattleiksþjóðir heims undanfarin ár hafa verið Svíþjóð, Frakkland, Rússland og núverandi heimsmeistarar Króatía. Þýskaland, Spánn, Júgóslavía og Danmörk hafa einnig náð langt á ólympíuleikum og heimsmeistaramótum, að ógleymdum Íslendingum.
Heimildir og myndir: