Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað er vitað um áróðursmálaráðherra ríkisstjórnar nasista, Paul Joseph Goebbels?

Páll Björnsson

Joseph Goebbels (1897-1945) var einn nánasti samstarfsmaður Adolfs Hitlers á tímum þriðja ríkisins. Goebbels óx úr grasi ásamt fjórum systkinum við frekar kröpp kjör. Honum var þó gert kleift að ganga menntaveginn og að loknu stúdentsprófi árið 1917 lagði hann stund á heimspeki, sögu, þýsku og fornfræði við ýmsa þýska háskóla og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Bonn árið 1921. Í fyrri heimsstyrjöld (1914-1918) hafði hann raunar boðið sig fram til herþjónustu en var hafnað sökum meinsemdar á fæti.

Goebbels fékkst talsvert við ritstörf að loknu háskólanámi og reyndi meðal annars fyrir sér í blaðamennsku, en hafði ekki árangur sem erfiði. Formleg tengsl hans við nasismann má rekja til ársins 1924 þegar hann stofnaði þjóðernissósíalísk samtök í borginni Mönchengladbach. Athygli vekur að á tiltölulega skömmum tíma komst hann til metorða innan nasistaflokksins (Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei) á svæðinu. Sumir segja að það sé jafnvel tilviljun að hann hafi gengið nasismanum á hönd. Til marks um það er til dæmis að leiðbeinandi hans við doktorsritgerðina var gyðingur og þeir kennarar sem hann hélt mest upp á í menntaskóla voru af gyðingaættum. Einnig má geta þess að í nokkur ár var hann í tygjum við stúlku sem var að hálfu gyðingur en því sambandi lauk ekki fyrr en 1926. Rétt er þó að hafa hugfast að Goebbels var frá upphafi bæði ákafur þjóðernissinni og andsnúinn kapítalisma. Hann tilheyrði því vinstri armi nasistaflokksins og átti meðal annars í nánu samstarfi við bræðurna Georg og Otto Strasser. Strasser-bræður voru mikilvirkir leiðtogar vinstri armsins og gagnrýndu Hitler til að mynda fyrir að vilja auka miðstýringu innan flokksins.

Á flokksþingi snemma árs 1926 sneri Goebbels skyndilega baki við vinstri vængnum og gerðist handgenginn Hitler. Ef til vill er þetta til merkis um að Goebbels hafi verið tækifærissinni. Allavega var aukinna metorða hans innan flokksins ekki langt að bíða og gerði Hitler hann til að mynda að svæðisstjóra (Gauleiter) flokksins í Berlín og Brandenburg síðar þetta sama ár. Flokkurinn var þá fremur veikburða á þessu svæði sem sést best á því að félagsmenn í höfuðborginni Berlín voru aðeins um 500. Í nýju starfi stóð Goebbels fyrir hatrömmum áróðri gegn gyðingum og vinstrisinnuðum stjórnmálamönnum, meðal annars í blaðinu Árásinni (Der Angriff) sem hann stofnaði árið 1927. Einnig stjórnaði hann stormsveitum (eða SA-sveitum) nasista sem hann beitti gegn jafnaðarmönnum og kommúnistum. Goebbels var kjörinn á þýska þingið (Reichstag) 1928 og tveimur árum síðar var honum falið að stjórna áróðursmaskínu flokksins á landsvísu (Reichspropagandaleiter), en aðalverkefni hans fólst í að skipuleggja áróðurinn fyrir þingkosningarnar 1930 og 1932.

Frá sjónarhóli nasista stóð Goebbels sig einstaklega vel sem áróðursmeistari: Nasistaflokkurinn varð stærsti flokkurinn á þingi í kosningunum 1932 þegar þeir hlutu rétt rúman þriðjung þingsæta. Það dugði þeim til að komast í ríkisstjórn með íhaldsmönnum snemma árs 1933. Hitler varð kanslari Þýskalands og nasistar réðu nánast því sem þeir ráða vildu. Vegur Goebbels hélt áfram að vaxa og í mars 1933 gerði Hitler hann að upplýsinga- og áróðursmálaráðherra (Reichsminister fuer Volksaufklaerung und Propaganda) í ríkisstjórn sinni. Goebbels var einnig gerður að yfirmanni menningarmála (Reichskulturkammer) þar sem hann lagði einkum áherslu á útvarp og framleiðslu kvikmynda, meðal annars andgyðinglegra hatursmynda.


Hér sést Joseph Goebbels hvetja Þjóðverja til að sniðganga fyrirtæki í eigu gyðinga.

Eitt af fyrstu verkum Goebbels sem ráðherra var að skipuleggja viðskiptabann á fyrirtæki í eigu gyðinga. Einnig sá hann um að láta fjarlægja „úrkynjaða“ (entartete) nútímalist úr þýskum söfnum árið 1937 og skipuleggja árásir á gyðinga 9. nóvember 1938 (Reichskristallnacht eða Kristalsnóttin), auk þess að standa fyrir bókabrennum á verkum þekktra þýskra höfunda. Í síðari heimsstyrjöld reyndi mikið á áróðurshæfileika Goebbels. Með úthugsuðum útvarpsávörpum og öðru áróðursefni lagði hann sitt af mörkum til að fylkja þjóðinni um hernaðarstefnu nasista, sérstaklega eftir ósigra þýska hersins í Stalíngrad og Norður-Afríku.

Árið 1931 kvæntist Goebbels konu sem átti eftir að standa við hlið hans þar til yfir lauk. Hún hét Magda Quandt og var þá tiltölulega nýskilin við einn ríkasta iðnjöfur Þýskalands, en ástarsamband hennar við kunnan þýskan síonista kann að hafa orsakað skilnaðinn. Móðir hennar var um nokkurra ára skeið gift gyðingi en þessi kynni af gyðingum breyttu þó engu um að árið 1930 gekk Magda í nasistaflokkinn og hóf störf sem ritari á svæðisskrifstofu flokksins í Berlín þar sem hún kynntist Joseph Goebbels. Geta má þess að annar svaramanna þeirra við giftinguna var Adolf Hitler. Heimili þeirra hjóna í Berlín þjónaði sem fundarstaður framámanna í nasistaflokknum þar til þeim hafði tekist að tryggja völd sín um mitt ár 1933.

Magda náði strax góðu sambandi við Hitler, og kanslarinn og áróðursráðherrann gerðu hana að nokkurs konar „yfirmóður“ hins nýja aríska kynstofns. Ekki spillti fyrir hlutverki Mögdu að þau Joseph eignuðust sex börn sem var gjarnan teflt fram í áróðursmyndum nasista sem dæmum um hinn heilbrigða kynstofn. Hjónabandið komst þó í nokkurt uppnám árið 1938 þegar Joseph Goebbels viðurkenndi að hafa átt í ástarsambandi við tékknesku leikkonuna Lídu Baarová (1914-2000). Magda krafðist skilnaðar en Hitler neitaði að fallast á slíkt því að mikilvægt væri að standa vörð um ímynd „fyrirmyndarfjölskyldu“ þriðja ríkisins.

Goebbels-hjónin sýndu Hitler mikla hollustu allt til loka þriðja ríkisins. Þau fluttu meira að segja í neðanjarðarbyrgi hans undir kanslarahöllinni ásamt börnum sínum þegar sovéskar hersveitir fóru að nálgast Berlín á vordögum 1945. Daginn eftir sjálfsvíg Hitlers fóru þau hjónin að dæmi hans. Áður myrtu þau öll börn sín sex köldu blóði. Magda gat ekki hugsað sér að láta þau vaxa úr grasi annars staðar en í þjóðernissósíalísku fyrirmyndarríki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir

Höfundur

Páll Björnsson

sagnfræðingur og prófessor í nútímafræðum við HA

Útgáfudagur

10.8.2006

Spyrjandi

Einar Jóhannesson,
Katrín Sif, f. 1991

Tilvísun

Páll Björnsson. „Hvað er vitað um áróðursmálaráðherra ríkisstjórnar nasista, Paul Joseph Goebbels?“ Vísindavefurinn, 10. ágúst 2006. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6116.

Páll Björnsson. (2006, 10. ágúst). Hvað er vitað um áróðursmálaráðherra ríkisstjórnar nasista, Paul Joseph Goebbels? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6116

Páll Björnsson. „Hvað er vitað um áróðursmálaráðherra ríkisstjórnar nasista, Paul Joseph Goebbels?“ Vísindavefurinn. 10. ágú. 2006. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6116>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um áróðursmálaráðherra ríkisstjórnar nasista, Paul Joseph Goebbels?
Joseph Goebbels (1897-1945) var einn nánasti samstarfsmaður Adolfs Hitlers á tímum þriðja ríkisins. Goebbels óx úr grasi ásamt fjórum systkinum við frekar kröpp kjör. Honum var þó gert kleift að ganga menntaveginn og að loknu stúdentsprófi árið 1917 lagði hann stund á heimspeki, sögu, þýsku og fornfræði við ýmsa þýska háskóla og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Bonn árið 1921. Í fyrri heimsstyrjöld (1914-1918) hafði hann raunar boðið sig fram til herþjónustu en var hafnað sökum meinsemdar á fæti.

Goebbels fékkst talsvert við ritstörf að loknu háskólanámi og reyndi meðal annars fyrir sér í blaðamennsku, en hafði ekki árangur sem erfiði. Formleg tengsl hans við nasismann má rekja til ársins 1924 þegar hann stofnaði þjóðernissósíalísk samtök í borginni Mönchengladbach. Athygli vekur að á tiltölulega skömmum tíma komst hann til metorða innan nasistaflokksins (Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei) á svæðinu. Sumir segja að það sé jafnvel tilviljun að hann hafi gengið nasismanum á hönd. Til marks um það er til dæmis að leiðbeinandi hans við doktorsritgerðina var gyðingur og þeir kennarar sem hann hélt mest upp á í menntaskóla voru af gyðingaættum. Einnig má geta þess að í nokkur ár var hann í tygjum við stúlku sem var að hálfu gyðingur en því sambandi lauk ekki fyrr en 1926. Rétt er þó að hafa hugfast að Goebbels var frá upphafi bæði ákafur þjóðernissinni og andsnúinn kapítalisma. Hann tilheyrði því vinstri armi nasistaflokksins og átti meðal annars í nánu samstarfi við bræðurna Georg og Otto Strasser. Strasser-bræður voru mikilvirkir leiðtogar vinstri armsins og gagnrýndu Hitler til að mynda fyrir að vilja auka miðstýringu innan flokksins.

Á flokksþingi snemma árs 1926 sneri Goebbels skyndilega baki við vinstri vængnum og gerðist handgenginn Hitler. Ef til vill er þetta til merkis um að Goebbels hafi verið tækifærissinni. Allavega var aukinna metorða hans innan flokksins ekki langt að bíða og gerði Hitler hann til að mynda að svæðisstjóra (Gauleiter) flokksins í Berlín og Brandenburg síðar þetta sama ár. Flokkurinn var þá fremur veikburða á þessu svæði sem sést best á því að félagsmenn í höfuðborginni Berlín voru aðeins um 500. Í nýju starfi stóð Goebbels fyrir hatrömmum áróðri gegn gyðingum og vinstrisinnuðum stjórnmálamönnum, meðal annars í blaðinu Árásinni (Der Angriff) sem hann stofnaði árið 1927. Einnig stjórnaði hann stormsveitum (eða SA-sveitum) nasista sem hann beitti gegn jafnaðarmönnum og kommúnistum. Goebbels var kjörinn á þýska þingið (Reichstag) 1928 og tveimur árum síðar var honum falið að stjórna áróðursmaskínu flokksins á landsvísu (Reichspropagandaleiter), en aðalverkefni hans fólst í að skipuleggja áróðurinn fyrir þingkosningarnar 1930 og 1932.

Frá sjónarhóli nasista stóð Goebbels sig einstaklega vel sem áróðursmeistari: Nasistaflokkurinn varð stærsti flokkurinn á þingi í kosningunum 1932 þegar þeir hlutu rétt rúman þriðjung þingsæta. Það dugði þeim til að komast í ríkisstjórn með íhaldsmönnum snemma árs 1933. Hitler varð kanslari Þýskalands og nasistar réðu nánast því sem þeir ráða vildu. Vegur Goebbels hélt áfram að vaxa og í mars 1933 gerði Hitler hann að upplýsinga- og áróðursmálaráðherra (Reichsminister fuer Volksaufklaerung und Propaganda) í ríkisstjórn sinni. Goebbels var einnig gerður að yfirmanni menningarmála (Reichskulturkammer) þar sem hann lagði einkum áherslu á útvarp og framleiðslu kvikmynda, meðal annars andgyðinglegra hatursmynda.


Hér sést Joseph Goebbels hvetja Þjóðverja til að sniðganga fyrirtæki í eigu gyðinga.

Eitt af fyrstu verkum Goebbels sem ráðherra var að skipuleggja viðskiptabann á fyrirtæki í eigu gyðinga. Einnig sá hann um að láta fjarlægja „úrkynjaða“ (entartete) nútímalist úr þýskum söfnum árið 1937 og skipuleggja árásir á gyðinga 9. nóvember 1938 (Reichskristallnacht eða Kristalsnóttin), auk þess að standa fyrir bókabrennum á verkum þekktra þýskra höfunda. Í síðari heimsstyrjöld reyndi mikið á áróðurshæfileika Goebbels. Með úthugsuðum útvarpsávörpum og öðru áróðursefni lagði hann sitt af mörkum til að fylkja þjóðinni um hernaðarstefnu nasista, sérstaklega eftir ósigra þýska hersins í Stalíngrad og Norður-Afríku.

Árið 1931 kvæntist Goebbels konu sem átti eftir að standa við hlið hans þar til yfir lauk. Hún hét Magda Quandt og var þá tiltölulega nýskilin við einn ríkasta iðnjöfur Þýskalands, en ástarsamband hennar við kunnan þýskan síonista kann að hafa orsakað skilnaðinn. Móðir hennar var um nokkurra ára skeið gift gyðingi en þessi kynni af gyðingum breyttu þó engu um að árið 1930 gekk Magda í nasistaflokkinn og hóf störf sem ritari á svæðisskrifstofu flokksins í Berlín þar sem hún kynntist Joseph Goebbels. Geta má þess að annar svaramanna þeirra við giftinguna var Adolf Hitler. Heimili þeirra hjóna í Berlín þjónaði sem fundarstaður framámanna í nasistaflokknum þar til þeim hafði tekist að tryggja völd sín um mitt ár 1933.

Magda náði strax góðu sambandi við Hitler, og kanslarinn og áróðursráðherrann gerðu hana að nokkurs konar „yfirmóður“ hins nýja aríska kynstofns. Ekki spillti fyrir hlutverki Mögdu að þau Joseph eignuðust sex börn sem var gjarnan teflt fram í áróðursmyndum nasista sem dæmum um hinn heilbrigða kynstofn. Hjónabandið komst þó í nokkurt uppnám árið 1938 þegar Joseph Goebbels viðurkenndi að hafa átt í ástarsambandi við tékknesku leikkonuna Lídu Baarová (1914-2000). Magda krafðist skilnaðar en Hitler neitaði að fallast á slíkt því að mikilvægt væri að standa vörð um ímynd „fyrirmyndarfjölskyldu“ þriðja ríkisins.

Goebbels-hjónin sýndu Hitler mikla hollustu allt til loka þriðja ríkisins. Þau fluttu meira að segja í neðanjarðarbyrgi hans undir kanslarahöllinni ásamt börnum sínum þegar sovéskar hersveitir fóru að nálgast Berlín á vordögum 1945. Daginn eftir sjálfsvíg Hitlers fóru þau hjónin að dæmi hans. Áður myrtu þau öll börn sín sex köldu blóði. Magda gat ekki hugsað sér að láta þau vaxa úr grasi annars staðar en í þjóðernissósíalísku fyrirmyndarríki.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir

...