- Rayleigh-dreifing (frb. reilei) er kennd við enska eðlisfræðinginn Rayleigh lávarð (1842-1919). Hún tengist ögnum eða ójöfnum í þéttleika agna (þrýstingssveiflum) sem eru minni en öldulengd í þvermál. Öldulengd sýnilegs ljóss er á bilinu 400 til 700 nm (nm, nanómetri er 10-9 m eða milljarðasti partur úr metra). Rayleigh-dreifing er mjög háð öldulengd, 10 sinnum sterkari fyrir blátt ljós en rautt. Hún gefur himninum bláa litinn þó að sólarljósið sé hvítt (um það má lesa í svari við spurningunni Af hverju er himinninn blár?) og á sama hátt veldur hún bláu áferðinni á friðarsúlunni þar sem loftið er tært, þó að upphaflega ljósið í súlunni sé hvítt eins og myndin sýnir.
- Mie-dreifing (frb. míe) er kennd við þýska eðlisfræðinginn Gustav Mie (1869-1957). Hún tengist ögnum sem eru miklu stærri en öldulengd í þvermál. Styrkur hennar er óháður öldulengd og gefur hún því hvíta áferð. Örsmáir vatnsdropar, smáir ískristallar (ský og þoka) og rykagnir gefa Mie-dreifingu eins og sjá má í hvíta skýinu á myndinni og kringum það.
- Jón Reykdal tók myndina af friðarsúlunni að beiðni Vísindavefsins og færum við honum bestu þakkir. Hægt er að skoða fleiri myndir af ljóssúlunni hér © Jón Reykdal.