Sólin Sólin Rís 05:05 • sest 21:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:35 • Síðdegis: 22:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:36 • Síðdegis: 15:35 í Reykjavík

Hvaðan er íshokkí upprunnið?

Ægir Eyþórsson og Unnar Árnason

Löngum var talið að íshokkí (eða ísknattleikur) hefði þróast úr ensku hokkí og svonefndum lacrosse-knattleik indíana, og að breskir hermenn hefðu breitt það út um Kanada um miðja 19. öld. En nýlegar rannsóknir benda til þess að upprunann megi rekja til eldri knattleiks sem Micmac-indíanar stunduðu snemma á 19. öld í Nova Scotia. Sá leikur virðist hafa verið skyldur írska leiknum 'hurling' (sem talið er að knattleikar Íslendinga til forna hafi líkst), en þar er notuð kylfa (‘hurley’) til að slá viðarkubb. Líklega var það þessi leikur sem skoskir og írskir innflytjendur breiddu út um Kanada ásamt breskum hermönnum, og bættu þeir við hann þáttum úr hokkí.

Í fyrstu íshokkíleikjunum voru allt að 30 manns í hvoru liði og steinar, frystir í hvorn enda vallarins, hafðir fyrir mörk. Pökkurinn, harðgúmmíplatan sem leikið er með í dag, var fyrst notaður svo vitað sé í Kingston Harbour í Ontario, Kanada, árið 1860. Fyrsti skráði, opinberi íshokkíleikurinn innanhúss, átti sér stað í Victoria Skating Rink árið 1875, milli tveggja liða nemenda McGill-háskólans. Þá strax var grófur leikur og ofbeldi hluti af ísknattleik eins og frægt er í dag. Blaðið The Daily British Wig birti frétt um að áflogin hafi verið svo mikil að kvenkyns áhorfendur flúðu unnvörpum! Í fyrrnefndum háskóla, McGill, var svo fyrsta skipulagða íshokkíliðið sett á laggirnar árið 1877, reglur samræmdar og fjöldi leikmanna bundinn við níu í hvoru liði.

Undir lok 19. aldar átti íshokkí í harðri keppni við lacrosse um hvort væri vinsælasta íþrótt Kanada. Fyrsta landssambandið, Amateur Hockey Association (AHA), var stofnað í Montreal árið 1885, leikmönnum fækkað í sjö í liði og fyrsta deildin stofnsett sama ár í Kingston. Fjögur lið kepptu og varð háskólaliðið Queen’s University fyrsti deildarmeistarinn. Árið 1893 gaf ríkisstjóri Kanada, Stanley lávarður, bikar sem kanadísk lið skyldu keppa um. Þetta var hinn frægi Stanley-bikar, Stanley Cup sem ennþá er keppt um í dag af kanadískum og bandarískum liðum, en fyrsta liðið til að vinna hann var Montreal Amateur Athletic Association, veturinn 1893-94.

Við upphaf 20. aldar var farið að framleiða íshokkíkylfur, legghlífar voru fyrst notaðar og markmaðurinn fékk brjósthlíf, samskonar og notuð var í hornabolta. Um austanvert Kanada voru margar skautahallir reistar, en aðeins yfir náttúrulegan ís og án upphitunar fyrir áhorfendur. Árið 1899 var Kanadíska áhugamannadeildin (Canadian Amateur Hockey League) stofnuð en áhugamennska var hið viðurkennda form íþrótta um mest allan heim á þessum tíma – að þiggja laun fyrir íþróttaiðkun þótti ódrengilegt (þess má þó geta að í breskum fótbolta hafði atvinnumennska tíðkast um áratuga skeið). Atvinnumennska hélt innreið sína í íshokkí árið 1903 þegar fyrsta atvinnumannaliðið var sett á laggirnar í Houghton, Michican í Bandaríkjunum. Liðið, Portage Lakers, í eigu tannlæknisins J.L. Gibson, var raunar skipað kanadískum leikmönnum. Ári seinna stofnaði Gibson fyrstu atvinnumannadeildina, International Pro Hockey League, og árið 1908 var atvinnumennska tekin upp í Kanada með stofnun Ontario Professional Hockey League.

National Hockey Association deildin (NHA), forveri National Hockey League eða NHL eins og hún er þekkt í dag, varð til árið 1910 í Kanada. Ári seinna kom Pacific Coast Hockey Association deildin í Vestur-Kanada til sögunnar, en deilur milli þessara tveggja deilda áttu eftir að ýta undir þróun íshokkís þar til það komst í sitt núverandi form. Á vegum PCHA voru fyrstu skautahallirnar með tilbúnum ís reistar, mikilvægt skref í kjölfar aukinna vinsælda íþróttarinnar. NHA fækkaði leikmönnum úr sjö í sex, svo ekki þyrfti að greiða jafnmörgum leikmönnum laun! PCHA hélt sjö liðsmönnum en breytti ýmsu öðru sem tekið var upp þegar NHL varð ríkjandi deild eftir stofnun sína 1917. PCHA skipti vellinum upp í þrjú svæði, varnarsvæði, hlutlaust svæði og sóknarsvæði, og breytti reglum um rangstöðu en áður mátti leikmaður ekki taka við pökknum ef hann var fyrir framan þann sem sendi. PCHA tók líka upp á því að gera stoðsendinguna að álíka mikilvægum þætti íshokkís og að skora mark.

NHA deildinni var breytt í NHL deildina 1917. Að því stóðu fimm kanadísk lið en fyrsta bandaríska liðinu var boðin þátttaka árið 1924. Árið eftir bættust við tvö bandarísk lið í viðbót, og þrjú lið árið 1926. Þá var NHL orðin sterkasta deildin í Norður-Ameríku og fékk endanleg yfirráð yfir Stanley-bikarnum árið 1926. Síðan þá hefur fjöldi liða sveiflast en eftir endurskipulag eru nú 30 lið í sex deildum sem skiptast milli austur- og vesturriðla.

Árið 1920 var í fyrsta sinn keppt í íshokkí á Ólympíuleikum, og sama ár var fyrsta heimsmeistaramótið haldið. Íshokkí kom fyrst til Íslands árið 1941 en náði ekki miklum vinsældum. Í dag keppa þrjú lið í meistaraflokki karla um Íslandsmeistaratitil. Þau eru Skautafélag Akureyrar, Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélagið Björninn.

Heimildir og myndir:


Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.

Höfundar

grunnskólanemi í Ölduselsskóla

Unnar Árnason

bókmenntafræðingur

Útgáfudagur

9.12.2002

Spyrjandi

Gunnlaugur Ingason, f. 1995

Tilvísun

Ægir Eyþórsson og Unnar Árnason. „Hvaðan er íshokkí upprunnið?“ Vísindavefurinn, 9. desember 2002. Sótt 29. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2945.

Ægir Eyþórsson og Unnar Árnason. (2002, 9. desember). Hvaðan er íshokkí upprunnið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2945

Ægir Eyþórsson og Unnar Árnason. „Hvaðan er íshokkí upprunnið?“ Vísindavefurinn. 9. des. 2002. Vefsíða. 29. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2945>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan er íshokkí upprunnið?
Löngum var talið að íshokkí (eða ísknattleikur) hefði þróast úr ensku hokkí og svonefndum lacrosse-knattleik indíana, og að breskir hermenn hefðu breitt það út um Kanada um miðja 19. öld. En nýlegar rannsóknir benda til þess að upprunann megi rekja til eldri knattleiks sem Micmac-indíanar stunduðu snemma á 19. öld í Nova Scotia. Sá leikur virðist hafa verið skyldur írska leiknum 'hurling' (sem talið er að knattleikar Íslendinga til forna hafi líkst), en þar er notuð kylfa (‘hurley’) til að slá viðarkubb. Líklega var það þessi leikur sem skoskir og írskir innflytjendur breiddu út um Kanada ásamt breskum hermönnum, og bættu þeir við hann þáttum úr hokkí.

Í fyrstu íshokkíleikjunum voru allt að 30 manns í hvoru liði og steinar, frystir í hvorn enda vallarins, hafðir fyrir mörk. Pökkurinn, harðgúmmíplatan sem leikið er með í dag, var fyrst notaður svo vitað sé í Kingston Harbour í Ontario, Kanada, árið 1860. Fyrsti skráði, opinberi íshokkíleikurinn innanhúss, átti sér stað í Victoria Skating Rink árið 1875, milli tveggja liða nemenda McGill-háskólans. Þá strax var grófur leikur og ofbeldi hluti af ísknattleik eins og frægt er í dag. Blaðið The Daily British Wig birti frétt um að áflogin hafi verið svo mikil að kvenkyns áhorfendur flúðu unnvörpum! Í fyrrnefndum háskóla, McGill, var svo fyrsta skipulagða íshokkíliðið sett á laggirnar árið 1877, reglur samræmdar og fjöldi leikmanna bundinn við níu í hvoru liði.

Undir lok 19. aldar átti íshokkí í harðri keppni við lacrosse um hvort væri vinsælasta íþrótt Kanada. Fyrsta landssambandið, Amateur Hockey Association (AHA), var stofnað í Montreal árið 1885, leikmönnum fækkað í sjö í liði og fyrsta deildin stofnsett sama ár í Kingston. Fjögur lið kepptu og varð háskólaliðið Queen’s University fyrsti deildarmeistarinn. Árið 1893 gaf ríkisstjóri Kanada, Stanley lávarður, bikar sem kanadísk lið skyldu keppa um. Þetta var hinn frægi Stanley-bikar, Stanley Cup sem ennþá er keppt um í dag af kanadískum og bandarískum liðum, en fyrsta liðið til að vinna hann var Montreal Amateur Athletic Association, veturinn 1893-94.

Við upphaf 20. aldar var farið að framleiða íshokkíkylfur, legghlífar voru fyrst notaðar og markmaðurinn fékk brjósthlíf, samskonar og notuð var í hornabolta. Um austanvert Kanada voru margar skautahallir reistar, en aðeins yfir náttúrulegan ís og án upphitunar fyrir áhorfendur. Árið 1899 var Kanadíska áhugamannadeildin (Canadian Amateur Hockey League) stofnuð en áhugamennska var hið viðurkennda form íþrótta um mest allan heim á þessum tíma – að þiggja laun fyrir íþróttaiðkun þótti ódrengilegt (þess má þó geta að í breskum fótbolta hafði atvinnumennska tíðkast um áratuga skeið). Atvinnumennska hélt innreið sína í íshokkí árið 1903 þegar fyrsta atvinnumannaliðið var sett á laggirnar í Houghton, Michican í Bandaríkjunum. Liðið, Portage Lakers, í eigu tannlæknisins J.L. Gibson, var raunar skipað kanadískum leikmönnum. Ári seinna stofnaði Gibson fyrstu atvinnumannadeildina, International Pro Hockey League, og árið 1908 var atvinnumennska tekin upp í Kanada með stofnun Ontario Professional Hockey League.

National Hockey Association deildin (NHA), forveri National Hockey League eða NHL eins og hún er þekkt í dag, varð til árið 1910 í Kanada. Ári seinna kom Pacific Coast Hockey Association deildin í Vestur-Kanada til sögunnar, en deilur milli þessara tveggja deilda áttu eftir að ýta undir þróun íshokkís þar til það komst í sitt núverandi form. Á vegum PCHA voru fyrstu skautahallirnar með tilbúnum ís reistar, mikilvægt skref í kjölfar aukinna vinsælda íþróttarinnar. NHA fækkaði leikmönnum úr sjö í sex, svo ekki þyrfti að greiða jafnmörgum leikmönnum laun! PCHA hélt sjö liðsmönnum en breytti ýmsu öðru sem tekið var upp þegar NHL varð ríkjandi deild eftir stofnun sína 1917. PCHA skipti vellinum upp í þrjú svæði, varnarsvæði, hlutlaust svæði og sóknarsvæði, og breytti reglum um rangstöðu en áður mátti leikmaður ekki taka við pökknum ef hann var fyrir framan þann sem sendi. PCHA tók líka upp á því að gera stoðsendinguna að álíka mikilvægum þætti íshokkís og að skora mark.

NHA deildinni var breytt í NHL deildina 1917. Að því stóðu fimm kanadísk lið en fyrsta bandaríska liðinu var boðin þátttaka árið 1924. Árið eftir bættust við tvö bandarísk lið í viðbót, og þrjú lið árið 1926. Þá var NHL orðin sterkasta deildin í Norður-Ameríku og fékk endanleg yfirráð yfir Stanley-bikarnum árið 1926. Síðan þá hefur fjöldi liða sveiflast en eftir endurskipulag eru nú 30 lið í sex deildum sem skiptast milli austur- og vesturriðla.

Árið 1920 var í fyrsta sinn keppt í íshokkí á Ólympíuleikum, og sama ár var fyrsta heimsmeistaramótið haldið. Íshokkí kom fyrst til Íslands árið 1941 en náði ekki miklum vinsældum. Í dag keppa þrjú lið í meistaraflokki karla um Íslandsmeistaratitil. Þau eru Skautafélag Akureyrar, Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélagið Björninn.

Heimildir og myndir:


Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.

...