Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hversu mörgum eggjum verpir fýllinn?

Jón Már Halldórsson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hversu gamlir geta múkkar (fýlar) orðið, hversu mörgum eggjum verpa þeir á vori og hvenær verða þeir kynþroska?

Í svari við spurningunni Verður fýll allra fugla elstur? er fjallað um aldur fýla og kynþroska og er vísað hér í það svar.

Flestir hafa líklega séð fýla (Fulmarus glacialis) hér á landi enda eru þeir afar áberandi í náttúru Íslands. Fýllinn er einnig algengur úti á sjó þar sem hann eltir fiskibáta oft langar leiðir á haf út í von um að fá æti sem til fellur við fiskveiðarnar.

Þótt ótrúlegt megi virðast var fýllinn ekki algengur á Íslandi fyrr en eftir miðja 19. öld. Sárafáir varpstaðir voru þekktir um aldamótin 1800 og þá aðallega syðst á landinu, meðal annars undir Eyjafjöllum. Stofnstærð fýlsins hefur vaxið mjög mikið síðastliðnar tvær aldir og útbreiðslusvæði hans stækkað að sama skapi. Nú er svo komið að fýlinn má finna í nánast hverjum kletti eða hamri umhverfis landið og oft verpir hann langt inn í landi, meðal annars í Ásbyrgi og Þórsmörk. Giskað hefur verið á að rúmlega milljón pör verpi hér á landi árlega en heildarstofnstærðin á norðanverðu Atlantshafi (Bretlandseyjar, Færeyjar, Ísland og Noregur) er talin vera rúmlega tvær milljónir fugla.



Fýllinn heldur sig á úthöfunum yfir vetrartímann en strax upp úr áramótum fer hann að sjást úti fyrir ströndinni. Snemma í mars/apríl fer fuglinn svo að týnast í björg og hamra. Fýllinn hefur varp á tímabilinu maí-júlí (fer eftir árferði) og tekur útungunin rúmlega 50 daga. Hann verpir aðeins einu eggi.

Áður fyrr höfðu menn talsverðar nytjar af fýlnum og þá helst ungfuglinum enda er hann matarmikill og þótti góð búbót. Slíkar nytjar hafa dregist verulega saman þó sumir hirði unga og egg víða um land sér til gamans. Margar skýringar eru á því hvers vegna menn eru hættir þessum nytjum, meðal annars aukin velferð meðal þjóðarinnar. Í þessu sambandi má líka nefna að árið 1940 voru sett lög um varnir gegn fýlasótt en menn höfðu fundið sönnun fyrir því að fýllinn gat borið með sér svokallaða páfagaukasýki sem bakterían Chlamydophila psittaci veldur. Smit gat borist í menn og valdið alvarlegum veikindum. Ekki er höfundi ljóst hver tíðni smita var eða hvort einhverjar rannsóknir hafi verið unnar á því nýlega.

Mynd: Fuglar á Vestfjörðum

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

23.8.2004

Spyrjandi

Þorsteinn Másson

Efnisorð

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hversu mörgum eggjum verpir fýllinn?“ Vísindavefurinn, 23. ágúst 2004. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4475.

Jón Már Halldórsson. (2004, 23. ágúst). Hversu mörgum eggjum verpir fýllinn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4475

Jón Már Halldórsson. „Hversu mörgum eggjum verpir fýllinn?“ Vísindavefurinn. 23. ágú. 2004. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4475>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu mörgum eggjum verpir fýllinn?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hversu gamlir geta múkkar (fýlar) orðið, hversu mörgum eggjum verpa þeir á vori og hvenær verða þeir kynþroska?

Í svari við spurningunni Verður fýll allra fugla elstur? er fjallað um aldur fýla og kynþroska og er vísað hér í það svar.

Flestir hafa líklega séð fýla (Fulmarus glacialis) hér á landi enda eru þeir afar áberandi í náttúru Íslands. Fýllinn er einnig algengur úti á sjó þar sem hann eltir fiskibáta oft langar leiðir á haf út í von um að fá æti sem til fellur við fiskveiðarnar.

Þótt ótrúlegt megi virðast var fýllinn ekki algengur á Íslandi fyrr en eftir miðja 19. öld. Sárafáir varpstaðir voru þekktir um aldamótin 1800 og þá aðallega syðst á landinu, meðal annars undir Eyjafjöllum. Stofnstærð fýlsins hefur vaxið mjög mikið síðastliðnar tvær aldir og útbreiðslusvæði hans stækkað að sama skapi. Nú er svo komið að fýlinn má finna í nánast hverjum kletti eða hamri umhverfis landið og oft verpir hann langt inn í landi, meðal annars í Ásbyrgi og Þórsmörk. Giskað hefur verið á að rúmlega milljón pör verpi hér á landi árlega en heildarstofnstærðin á norðanverðu Atlantshafi (Bretlandseyjar, Færeyjar, Ísland og Noregur) er talin vera rúmlega tvær milljónir fugla.



Fýllinn heldur sig á úthöfunum yfir vetrartímann en strax upp úr áramótum fer hann að sjást úti fyrir ströndinni. Snemma í mars/apríl fer fuglinn svo að týnast í björg og hamra. Fýllinn hefur varp á tímabilinu maí-júlí (fer eftir árferði) og tekur útungunin rúmlega 50 daga. Hann verpir aðeins einu eggi.

Áður fyrr höfðu menn talsverðar nytjar af fýlnum og þá helst ungfuglinum enda er hann matarmikill og þótti góð búbót. Slíkar nytjar hafa dregist verulega saman þó sumir hirði unga og egg víða um land sér til gamans. Margar skýringar eru á því hvers vegna menn eru hættir þessum nytjum, meðal annars aukin velferð meðal þjóðarinnar. Í þessu sambandi má líka nefna að árið 1940 voru sett lög um varnir gegn fýlasótt en menn höfðu fundið sönnun fyrir því að fýllinn gat borið með sér svokallaða páfagaukasýki sem bakterían Chlamydophila psittaci veldur. Smit gat borist í menn og valdið alvarlegum veikindum. Ekki er höfundi ljóst hver tíðni smita var eða hvort einhverjar rannsóknir hafi verið unnar á því nýlega.

Mynd: Fuglar á Vestfjörðum

...