Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvaða líkur eru á að menn geti flust til annarra reikistjarna, og hvernig færum við þá að því?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason

Þetta er erfið spurning og umdeild eins og gengur því að vísindamenn eru ekki allir eins, frekar en annað fólk. Sumir eru eldhugar og bjartsýnismenn og halda að við getum flutt til Mars; það sé „ekkert mál“ eins og nú tíðkast að segja. Aðrir eru „jarð“bundnari og telja öll tormerki á að við getum komist til annarra reikistjarna, hvað þá að við getum lifað þar. Svo er náttúrlega ekki heldur sjálfgefið að við viljum senda menn í einhverjum mæli til annarra reikistjarna þó að við „gætum“ - það gæti til dæmis orðið of dýrt og áhættusamt!

Til að byrja með er gott að gera sér grein fyrir því að það er ekki nóg að geta komist á einhvern tiltekinn stað til þess að geta verið þar til frambúðar. Það er ekkert mjög erfitt að ganga á Esjuna en enginn hefur hins vegar sest þar að ennþá. Þetta á enn frekar við um Grænlandsjökul, Everestfjall - og tunglið!

Við skulum rifja það upp að menn voru ekki bara í jakkafötum eða gallabuxum þegar þeir stigu fæti á tunglið, heldur í heljarmiklum þar til gerðum búningum. Meðal þess sem þeir báru með sér voru súrefniskútar því að það er nefnilega alls ekkert loft á tunglinu. Ef Neil Armstrong hefði verið hent út úr tunglfarinu á gallabuxunum hefði hann sem sagt ekki lifað lengi.



Menn setjast að á tunglinu

Vissulega er lofthjúpur á ýmsum reikistjörnum sólkerfisins, svo sem Venusi, Mars og Júpíter, en í lofthjúpum þeirra er hins vegar ekki súrefnið sem við þurfum til að lifa þar. Svipaða sögu er að segja um tungl reikistjarnanna sem sum hver gætu að öðru leyti verið vænleg til mannabyggðar. Þar fyrir utan hafa gasrisarnir ekkert fast yfirborð sem við gætum gengið á. Auk þess verður rétt hitastig og réttur þrýstingur að vera til staðar.

Þær hugmyndir sem menn hafa gælt við um einhvers konar líf á einhverjum þessara hnatta stangast ekki á við þetta, því að þar væri um að ræða staðbundið líf ólíkt okkur, til dæmis undir íshellu Júpítertunglsins Evrópu, þar sem lífið hefði þróast með tilliti til aðstæðna þar.

Þegar þessi mál ber á góma vísa sumir til þess að ekkert súrefni var í lofthjúpi jarðar fyrir tæpum fjórum milljörðum ára, áður en líf fór að þróast hér. Hins vegar mynduðu lífverurnar súrefni eins og plöntur gera nú á dögum og súrefnið í lofthjúpnum byggðist upp smám saman um leið og lífið þróaðist.

Menn hafa síðan gert því skóna að við gætum farið eins að ef við vildum „nema land“ á Mars: Ræktað þar upp súrefni í lofthjúpnum, hækkað hitastigið með því að framkalla vísvitandi gróðurhúsaáhrif og gert reikistjörnuna þannig byggilega. Þetta hlyti þó að verða bæði dýrt, vandasamt og tímafrekt verk, ef það er á annað borð mögulegt!



Menn á Mars einhvern tímann í framtíðinni

Annað vandamál sem við stöndum frammi fyrir eru fjarlægðirnar í geimnum, bæði innan sólkerfsins og Vetrarbrautarinnar. Í dag tæki mannað ferðalag til Mars og aftur heim um þrjú ár. Líklegt er þó að með betri tækni gætum við stytt þennan ferðatíma umtalsvert í framtíðinni.

Ferðalög út úr sólkerfinu krefjast enn meiri hraða, enda mælast fjarlægðir milli stjarnanna í ljósárum, þeirri vegalengd sem ljósið ferðast á einu ári. Voyager 1, hraðfleygasta tæki sem maðurinn hefur smíðað, væri ríflega 73.000 ár að ferðast til nálægustu fastastjörnunnar þó að það taki ljósið aðeins 4 ár. Fýsilegast væri því að ná með einhverjum hætti verulegu broti af ljóshraðanum. En þá koma hins vegar upp ýmis önnur vandamál. Það krefst gífurlegrar orku að koma þungum hlut á slíkan hraða og í geimnum leynast ýmsar hættur. Ef geimskip væri til dæmis á hraðanum 3000 km/sek, sem er 1% af ljóshraða, og yrði í vegi fyrir steinvölu í geimnum, gæti geimskipið stórskaðast og öll áhöfnin væri í hættu.

Stjörnufræðingurinn Frank Drake, einn af frumherjum rannsókna á lífi í geimnum utan jarðar, fjallaði um þetta í viðtali við umsjónarmenn Stjörnufræðivefsins. Hér getur þú nálgast það sem hann hefur að segja um málið.

Hitt er svo enn annað mál, ef við horfum millónir eða tugmilljónir ára fram í tímann, að þá gæti verið skynsamlegt fyrir íbúa jarðarinnar að huga að öðrum bústað í geimnum. Jörðin er nefnilega viðkvæmur staður og jarðsagan sýnir að verulegar hamfarir eiga sér stað með reglulegu millibili. Þó að slíkar hamfarir hafi enn ekki þurrkað út allt líf eftir að það varð til, þá hafa þær eytt miklum hluta lífsins hér á jörð. Þannig er líka eins víst að þær gætu eytt mannkyninu eða þeim líftegundum sem þá teldust "æðstar" á jörðinni.

Um þessi síðastnefndu sjónarmið má lesa nánar í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er hægt að eyðileggja jörðina með mengun?

Myndir:

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

9.5.2005

Spyrjandi

Rúnar Örn Birgisson

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason. „Hvaða líkur eru á að menn geti flust til annarra reikistjarna, og hvernig færum við þá að því? “ Vísindavefurinn, 9. maí 2005. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4990.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason. (2005, 9. maí). Hvaða líkur eru á að menn geti flust til annarra reikistjarna, og hvernig færum við þá að því? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4990

Þorsteinn Vilhjálmsson og Sævar Helgi Bragason. „Hvaða líkur eru á að menn geti flust til annarra reikistjarna, og hvernig færum við þá að því? “ Vísindavefurinn. 9. maí. 2005. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4990>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða líkur eru á að menn geti flust til annarra reikistjarna, og hvernig færum við þá að því?
Þetta er erfið spurning og umdeild eins og gengur því að vísindamenn eru ekki allir eins, frekar en annað fólk. Sumir eru eldhugar og bjartsýnismenn og halda að við getum flutt til Mars; það sé „ekkert mál“ eins og nú tíðkast að segja. Aðrir eru „jarð“bundnari og telja öll tormerki á að við getum komist til annarra reikistjarna, hvað þá að við getum lifað þar. Svo er náttúrlega ekki heldur sjálfgefið að við viljum senda menn í einhverjum mæli til annarra reikistjarna þó að við „gætum“ - það gæti til dæmis orðið of dýrt og áhættusamt!

Til að byrja með er gott að gera sér grein fyrir því að það er ekki nóg að geta komist á einhvern tiltekinn stað til þess að geta verið þar til frambúðar. Það er ekkert mjög erfitt að ganga á Esjuna en enginn hefur hins vegar sest þar að ennþá. Þetta á enn frekar við um Grænlandsjökul, Everestfjall - og tunglið!

Við skulum rifja það upp að menn voru ekki bara í jakkafötum eða gallabuxum þegar þeir stigu fæti á tunglið, heldur í heljarmiklum þar til gerðum búningum. Meðal þess sem þeir báru með sér voru súrefniskútar því að það er nefnilega alls ekkert loft á tunglinu. Ef Neil Armstrong hefði verið hent út úr tunglfarinu á gallabuxunum hefði hann sem sagt ekki lifað lengi.



Menn setjast að á tunglinu

Vissulega er lofthjúpur á ýmsum reikistjörnum sólkerfisins, svo sem Venusi, Mars og Júpíter, en í lofthjúpum þeirra er hins vegar ekki súrefnið sem við þurfum til að lifa þar. Svipaða sögu er að segja um tungl reikistjarnanna sem sum hver gætu að öðru leyti verið vænleg til mannabyggðar. Þar fyrir utan hafa gasrisarnir ekkert fast yfirborð sem við gætum gengið á. Auk þess verður rétt hitastig og réttur þrýstingur að vera til staðar.

Þær hugmyndir sem menn hafa gælt við um einhvers konar líf á einhverjum þessara hnatta stangast ekki á við þetta, því að þar væri um að ræða staðbundið líf ólíkt okkur, til dæmis undir íshellu Júpítertunglsins Evrópu, þar sem lífið hefði þróast með tilliti til aðstæðna þar.

Þegar þessi mál ber á góma vísa sumir til þess að ekkert súrefni var í lofthjúpi jarðar fyrir tæpum fjórum milljörðum ára, áður en líf fór að þróast hér. Hins vegar mynduðu lífverurnar súrefni eins og plöntur gera nú á dögum og súrefnið í lofthjúpnum byggðist upp smám saman um leið og lífið þróaðist.

Menn hafa síðan gert því skóna að við gætum farið eins að ef við vildum „nema land“ á Mars: Ræktað þar upp súrefni í lofthjúpnum, hækkað hitastigið með því að framkalla vísvitandi gróðurhúsaáhrif og gert reikistjörnuna þannig byggilega. Þetta hlyti þó að verða bæði dýrt, vandasamt og tímafrekt verk, ef það er á annað borð mögulegt!



Menn á Mars einhvern tímann í framtíðinni

Annað vandamál sem við stöndum frammi fyrir eru fjarlægðirnar í geimnum, bæði innan sólkerfsins og Vetrarbrautarinnar. Í dag tæki mannað ferðalag til Mars og aftur heim um þrjú ár. Líklegt er þó að með betri tækni gætum við stytt þennan ferðatíma umtalsvert í framtíðinni.

Ferðalög út úr sólkerfinu krefjast enn meiri hraða, enda mælast fjarlægðir milli stjarnanna í ljósárum, þeirri vegalengd sem ljósið ferðast á einu ári. Voyager 1, hraðfleygasta tæki sem maðurinn hefur smíðað, væri ríflega 73.000 ár að ferðast til nálægustu fastastjörnunnar þó að það taki ljósið aðeins 4 ár. Fýsilegast væri því að ná með einhverjum hætti verulegu broti af ljóshraðanum. En þá koma hins vegar upp ýmis önnur vandamál. Það krefst gífurlegrar orku að koma þungum hlut á slíkan hraða og í geimnum leynast ýmsar hættur. Ef geimskip væri til dæmis á hraðanum 3000 km/sek, sem er 1% af ljóshraða, og yrði í vegi fyrir steinvölu í geimnum, gæti geimskipið stórskaðast og öll áhöfnin væri í hættu.

Stjörnufræðingurinn Frank Drake, einn af frumherjum rannsókna á lífi í geimnum utan jarðar, fjallaði um þetta í viðtali við umsjónarmenn Stjörnufræðivefsins. Hér getur þú nálgast það sem hann hefur að segja um málið.

Hitt er svo enn annað mál, ef við horfum millónir eða tugmilljónir ára fram í tímann, að þá gæti verið skynsamlegt fyrir íbúa jarðarinnar að huga að öðrum bústað í geimnum. Jörðin er nefnilega viðkvæmur staður og jarðsagan sýnir að verulegar hamfarir eiga sér stað með reglulegu millibili. Þó að slíkar hamfarir hafi enn ekki þurrkað út allt líf eftir að það varð til, þá hafa þær eytt miklum hluta lífsins hér á jörð. Þannig er líka eins víst að þær gætu eytt mannkyninu eða þeim líftegundum sem þá teldust "æðstar" á jörðinni.

Um þessi síðastnefndu sjónarmið má lesa nánar í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er hægt að eyðileggja jörðina með mengun?

Myndir:

...