Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis?

Sigurður Guðmundsson og Freyr Björnsson

Margir halda að réttaráhrif óvígðrar sambúðar séu hin sömu og hjúskapar, að minnsta kosti þegar óvígð sambúð hefur staðið í einhvern tíma. Í grundvallaratriðum er því þó ekki þannig farið, þrátt fyrir að á undanförnum árið hafi löggjafinn reynt að jafna mun á milli þessara sambúðarforma. Um óskráða sambúð gildir engin heildarlöggjöf eins og hjúskaparlög nr. 31/1993 um hjúskap. Á víð og dreif í íslenskri löggjöf má hins vegar finna lagareglur um óvígða sambúð.

Við slit hjúskapar gildir helmingaskiptareglan svokallaða, sbr. 103. gr. hjúskaparlaga, það er að hvor maki fær helming nettó hjúskapareignar við fjárskipti milli hjóna, sbr. 6. og 99. gr. hjúskaparlaga. Þegar um óvígða sambúð er að ræða gildir helmingaskiptareglan hins vegar ekki. Þetta merkir að við slit óvígðrar sambúðar tekur hvor sambúðaraðili það sem hann átti við upphaf sambúðarinnar eða eignaðist meðan á henni stóð. Þegar svo ber undir skiptir formleg eignaskráning miklu, svo sem hver sé þinglýstur eigandi fasteignar, á hvorn sambúðaraðilann bifreið sé skráð og svo framvegis. Haldi annar sambúðaraðili því fram að eignarréttur sé með öðrum hætti en formleg eignaskráning gefur til kynna, ber hann sjálfur sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu.

Enginn lögerfðaréttur er milli sambúðaraðila í óvígðri sambúð, en það merkir að sambúðaraðilar eiga ekki rétt á arfi eftir hvor annan. Milli hjóna er hins vegar lögbundinn erfðaréttur og tekur því langlífari maki arf eftir skammlífari maka samkvæmt reglum erfðalaga nr. 8/1962. Sambúðaraðilar geta þó gert bréferfðagerninga, til dæmis erfðaskrá, sem kveður á um það að hinn sambúðaraðilinn skuli taka arf eftir þá. Þessi heimild sætir þó þeirri takmörkun sem kemur fram í 35. gr. erfðalaga en þar segir að arfleifanda er óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 eigna sinna eigi hann lögbundna erfingja, það er maka eða niðja. Þegar talað er um „maka“ í erfðalögum er átt við hjón en ekki aðila í óvígðri sambúð. Þegar sambúðaraðili á lögbundna erfingja getur hann því aðeins ráðstafað 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Hinir 2/3 hlutar eigna hans ganga til lögerfingja hans skv. 2.–4. gr. erfðalaganna.

Sjöunda gr. erfðalaga nr. 8/1962 veitir maka, að meginreglu, rétt til að sitja í óskiptu búi eftir andlát hins makans. Þetta úrræði stendur aðilum í óvígðri sambúð hins vegar ekki til boða, enda nær hugtakið "maki" í erfðalögum aðeins til hjóna, eins og áður hefur verið vikið að.

Ekki er fyrir hendi gagnkvæm framfærsluskylda sambúðaraðila í óvígðri sambúð eins og hjá hjónum, en um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna er kveðið á um í 2. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Með gagnkvæmri framfærsluskyldu er átt við skyldu beggja aðila hjónabands til að sjá hinu farborða.

Í 59.-66. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er fjallað um takmarkað forræði hjóna á eignum sem notaðar eru fyrir heimili fjölskyldunnar. Í 60. gr. laganna er meðal annars kveðið á um það að sá aðili hjónabands sem á fasteign sem ætluð er sem bústaður fjölskyldunnar, geti ekki selt þá eign eða veðsett nema með skriflegs samþykkis hins aðilans.

Reglur um takmarkað forræði eigna gilda ekki um sambúðarfólk og er þeim því fullfrjálst að ráðstafa eignum sínum, þar á meðal þeim sem sambúðaraðilarnir búa í ásamt börnum sínum, eftir sinni hentisemi.

Munur á réttarstöðu hjóna og sambúðaraðila kemur einnig fram með öðrum hætti, til dæmis í lögum nr. 130/1999 um ættleiðingar, en eitt af skilyrðum þess að pör geti ættleitt barn er að þau séu í hjúskap, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þegar um óvígða sambúð er að ræða þarf sambúðin að hafi staðið í a.m.k. 5 ár til þess að parið megi ættleiða.

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 getur líftryggingartaki tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað og skal þá líftryggingarupphæðin greidd til þess manns. Í 2. mgr. 105. gr. sömu laga segir að sé "maki" líftryggingartaka tilnefndur sé það sá maki sem að vátryggingartaki lifði í hjúskap með þegar hann andaðist. Í 4. mgr. 105.gr. segir að séu "erfingjar" tilnefndir sem rétthafar samkvæmt vátryggingarsamningi þá taki þeir sinn hlut af vátryggingarupphæð í hlutfalli við erfðarétt sinn, sbr. umfjöllun að ofan. Í 5. mgr. 105. gr. kemur fram að séu "nánustu vandamenn" tilnefndir sem rétthafar, þá teljist maki vera nánasti vandamaður, en ef að maki er látinn teljist börn hins látna nánustu vandamenn. Maki í skilningi þessara lagagreina er ávallt aðili í hjónabandi. Líftryggingartaki í óvígðri sambúð, sem vill gera sambúðaraðila sinn að rétthafa, verður því að tiltaka hann sérstaklega í líftryggingarsamningi. Ekki er nægjanlegt að tiltaka maka, erfingja eða nánustu vandamenn.

Staða hjóna og fólks í óvígðri sambúð gagnvart félagslegri aðstoð er svipuð. Meðal annars má minnast á að í 44. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 segir að fólk í óvígðri sambúð hafi sama rétt til bóta og hjón, ef sambúðin hefur verið skráð í þjóðskrá lengur en í eitt ár. Einnig er rétturinn sá sami ef þau eiga barn saman eða eigi von á einu slíku, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Réttur til makalífeyris skv. 16. gr. lífeyrissjóðslaga nr. 129/1997 nær bæði til aðila í hjónabandi og óvígðri sambúð.

Reglur skaðabótaréttar horfa jafnt við aðilum í hjónabandi og í óvígðri sambúð. Þegar aðili á rétt á skaðabótum vegna fráfalls sambúðaraðila, skiptir ekki máli hvort um hjónaband eða óvígða sambúð sé að ræða.

Að lokum skal tekið fram að ekki er um tæmandi talningu að ræða. Staða fólks í hjónabandi, annars vegar, og fólks í óvígðri sambúð, hins vegar, getur verið mismunandi hvað varðar til dæmis skattalöggjöf, jarðalög, barnalög, réttarfar, stjórnsýslu og lög um tæknifrjóvganir. Mismunandi réttarstaða aðila eftir sambúðarformi á þessum sviðum er háð nánari athugun.

Heimildir:

  • Lagasafn Alþingis á www.althingi.is
  • Fyrirlestrar um fjármálaskipulag í hjúskap, staðfestri samvist og óvígðri sambúð. Bráðabirgðaútgáfa til kennslu. Sigrún Jóhannesdóttir. Úfljótur. Reykjavík 2001.
  • Hjúskapur, Stofnun og slit, Réttindi og skyldur, Bráðbirgðaútgáfa til kennslu, Lára V. Júlíusdóttir. 2001.
  • Skýrsla Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks, samkvæmt beiðni. Skýrslan var unnin af Hrefnu Friðriksdóttur lögfræðingi og var lögð fram á 126. löggjafarþingi 2000-2001 (þskj. 935 – 88. mál).
  • Skaðabótaréttur. Viðar Már Mattíasson. Bókaútgáfan Codex. Reykjavík 2005.

Höfundar

laganemi við HÍ

laganemi við HÍ

Útgáfudagur

18.10.2005

Spyrjandi

Birgir Bjarnason

Tilvísun

Sigurður Guðmundsson og Freyr Björnsson. „Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis?“ Vísindavefurinn, 18. október 2005. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5336.

Sigurður Guðmundsson og Freyr Björnsson. (2005, 18. október). Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5336

Sigurður Guðmundsson og Freyr Björnsson. „Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2005. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5336>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis?
Margir halda að réttaráhrif óvígðrar sambúðar séu hin sömu og hjúskapar, að minnsta kosti þegar óvígð sambúð hefur staðið í einhvern tíma. Í grundvallaratriðum er því þó ekki þannig farið, þrátt fyrir að á undanförnum árið hafi löggjafinn reynt að jafna mun á milli þessara sambúðarforma. Um óskráða sambúð gildir engin heildarlöggjöf eins og hjúskaparlög nr. 31/1993 um hjúskap. Á víð og dreif í íslenskri löggjöf má hins vegar finna lagareglur um óvígða sambúð.

Við slit hjúskapar gildir helmingaskiptareglan svokallaða, sbr. 103. gr. hjúskaparlaga, það er að hvor maki fær helming nettó hjúskapareignar við fjárskipti milli hjóna, sbr. 6. og 99. gr. hjúskaparlaga. Þegar um óvígða sambúð er að ræða gildir helmingaskiptareglan hins vegar ekki. Þetta merkir að við slit óvígðrar sambúðar tekur hvor sambúðaraðili það sem hann átti við upphaf sambúðarinnar eða eignaðist meðan á henni stóð. Þegar svo ber undir skiptir formleg eignaskráning miklu, svo sem hver sé þinglýstur eigandi fasteignar, á hvorn sambúðaraðilann bifreið sé skráð og svo framvegis. Haldi annar sambúðaraðili því fram að eignarréttur sé með öðrum hætti en formleg eignaskráning gefur til kynna, ber hann sjálfur sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu.

Enginn lögerfðaréttur er milli sambúðaraðila í óvígðri sambúð, en það merkir að sambúðaraðilar eiga ekki rétt á arfi eftir hvor annan. Milli hjóna er hins vegar lögbundinn erfðaréttur og tekur því langlífari maki arf eftir skammlífari maka samkvæmt reglum erfðalaga nr. 8/1962. Sambúðaraðilar geta þó gert bréferfðagerninga, til dæmis erfðaskrá, sem kveður á um það að hinn sambúðaraðilinn skuli taka arf eftir þá. Þessi heimild sætir þó þeirri takmörkun sem kemur fram í 35. gr. erfðalaga en þar segir að arfleifanda er óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 eigna sinna eigi hann lögbundna erfingja, það er maka eða niðja. Þegar talað er um „maka“ í erfðalögum er átt við hjón en ekki aðila í óvígðri sambúð. Þegar sambúðaraðili á lögbundna erfingja getur hann því aðeins ráðstafað 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Hinir 2/3 hlutar eigna hans ganga til lögerfingja hans skv. 2.–4. gr. erfðalaganna.

Sjöunda gr. erfðalaga nr. 8/1962 veitir maka, að meginreglu, rétt til að sitja í óskiptu búi eftir andlát hins makans. Þetta úrræði stendur aðilum í óvígðri sambúð hins vegar ekki til boða, enda nær hugtakið "maki" í erfðalögum aðeins til hjóna, eins og áður hefur verið vikið að.

Ekki er fyrir hendi gagnkvæm framfærsluskylda sambúðaraðila í óvígðri sambúð eins og hjá hjónum, en um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna er kveðið á um í 2. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Með gagnkvæmri framfærsluskyldu er átt við skyldu beggja aðila hjónabands til að sjá hinu farborða.

Í 59.-66. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er fjallað um takmarkað forræði hjóna á eignum sem notaðar eru fyrir heimili fjölskyldunnar. Í 60. gr. laganna er meðal annars kveðið á um það að sá aðili hjónabands sem á fasteign sem ætluð er sem bústaður fjölskyldunnar, geti ekki selt þá eign eða veðsett nema með skriflegs samþykkis hins aðilans.

Reglur um takmarkað forræði eigna gilda ekki um sambúðarfólk og er þeim því fullfrjálst að ráðstafa eignum sínum, þar á meðal þeim sem sambúðaraðilarnir búa í ásamt börnum sínum, eftir sinni hentisemi.

Munur á réttarstöðu hjóna og sambúðaraðila kemur einnig fram með öðrum hætti, til dæmis í lögum nr. 130/1999 um ættleiðingar, en eitt af skilyrðum þess að pör geti ættleitt barn er að þau séu í hjúskap, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þegar um óvígða sambúð er að ræða þarf sambúðin að hafi staðið í a.m.k. 5 ár til þess að parið megi ættleiða.

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 getur líftryggingartaki tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað og skal þá líftryggingarupphæðin greidd til þess manns. Í 2. mgr. 105. gr. sömu laga segir að sé "maki" líftryggingartaka tilnefndur sé það sá maki sem að vátryggingartaki lifði í hjúskap með þegar hann andaðist. Í 4. mgr. 105.gr. segir að séu "erfingjar" tilnefndir sem rétthafar samkvæmt vátryggingarsamningi þá taki þeir sinn hlut af vátryggingarupphæð í hlutfalli við erfðarétt sinn, sbr. umfjöllun að ofan. Í 5. mgr. 105. gr. kemur fram að séu "nánustu vandamenn" tilnefndir sem rétthafar, þá teljist maki vera nánasti vandamaður, en ef að maki er látinn teljist börn hins látna nánustu vandamenn. Maki í skilningi þessara lagagreina er ávallt aðili í hjónabandi. Líftryggingartaki í óvígðri sambúð, sem vill gera sambúðaraðila sinn að rétthafa, verður því að tiltaka hann sérstaklega í líftryggingarsamningi. Ekki er nægjanlegt að tiltaka maka, erfingja eða nánustu vandamenn.

Staða hjóna og fólks í óvígðri sambúð gagnvart félagslegri aðstoð er svipuð. Meðal annars má minnast á að í 44. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 segir að fólk í óvígðri sambúð hafi sama rétt til bóta og hjón, ef sambúðin hefur verið skráð í þjóðskrá lengur en í eitt ár. Einnig er rétturinn sá sami ef þau eiga barn saman eða eigi von á einu slíku, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Réttur til makalífeyris skv. 16. gr. lífeyrissjóðslaga nr. 129/1997 nær bæði til aðila í hjónabandi og óvígðri sambúð.

Reglur skaðabótaréttar horfa jafnt við aðilum í hjónabandi og í óvígðri sambúð. Þegar aðili á rétt á skaðabótum vegna fráfalls sambúðaraðila, skiptir ekki máli hvort um hjónaband eða óvígða sambúð sé að ræða.

Að lokum skal tekið fram að ekki er um tæmandi talningu að ræða. Staða fólks í hjónabandi, annars vegar, og fólks í óvígðri sambúð, hins vegar, getur verið mismunandi hvað varðar til dæmis skattalöggjöf, jarðalög, barnalög, réttarfar, stjórnsýslu og lög um tæknifrjóvganir. Mismunandi réttarstaða aðila eftir sambúðarformi á þessum sviðum er háð nánari athugun.

Heimildir:

  • Lagasafn Alþingis á www.althingi.is
  • Fyrirlestrar um fjármálaskipulag í hjúskap, staðfestri samvist og óvígðri sambúð. Bráðabirgðaútgáfa til kennslu. Sigrún Jóhannesdóttir. Úfljótur. Reykjavík 2001.
  • Hjúskapur, Stofnun og slit, Réttindi og skyldur, Bráðbirgðaútgáfa til kennslu, Lára V. Júlíusdóttir. 2001.
  • Skýrsla Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks, samkvæmt beiðni. Skýrslan var unnin af Hrefnu Friðriksdóttur lögfræðingi og var lögð fram á 126. löggjafarþingi 2000-2001 (þskj. 935 – 88. mál).
  • Skaðabótaréttur. Viðar Már Mattíasson. Bókaútgáfan Codex. Reykjavík 2005.
  • ...