Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvernig var menntun í Róm til forna? Var það bara yfirstéttin og drengir sem fengu æskilega menntun?

Geir Þ. Þórarinsson

Menntun Rómverja gat verið nokkuð mismunandi eftir stétt og samfélagsstöðu og tók auk þess breytingum í aldanna rás. Í fyrstu voru börn menntuð heima hjá sér en snemma var farið að fela sérstökum kennurum að mennta börnin. Á 3. öld f.Kr. voru komnir sérstakir barnaskólar sem fólk gat sent börnin í en einnig var algengt að menntaðir þrælar sæju um menntun barnanna heima fyrir. Flestir höfðu efni á að senda börnin sín í skóla eða ráða kennara enda voru laun kennara fremur lág. En á hinn bóginn höfðu ekki allir efni á að mennta börnin sín jafn mikið. Einungis þeir allra fátækustu höfðu ekki efni á að veita börnunum sínum neina menntun.

Lestrarkunnátta var orðin almenn tiltölulega snemma og nær öll börn urðu að læra að lesa, skrifa og reikna. Stúlkur hlutu oft sömu menntun og piltar framan af. Meira að segja þrælar fengu stundum dálitla menntun. Skólagangan hófst um sjö ára aldur en þá námu börnin hjá barnakennara (ludi magister). Þessu fyrsta stigi menntunarinnar lauk oftast um 12 til 13 ára aldur. Þá héldu drengir áfram námi hjá málfræðikennara (grammaticus) ef fjölskyldan hafði efni á að mennta þá frekar en það var alls ekki víst. Skólaganga stúlkna var oftar en ekki á enda þegar þær höfðu lokið námi hjá barnakennaranum. Oftast lærðu þær hvers kyns heimilisstörf heima hjá sér en ef fjölskyldan var vel efnuð, þá fengu stúlkur stundum að halda náminu áfram. Hjá málfræðikennaranum lærðu börnin málfræði og að lesa og skýra bókmenntir, einkum kveðskap. Skáldin sem oftast voru lesin voru framan af Livius Andronicus og Ennius en undir lok 1. aldar f.Kr. urðu kvæði Virgils aðal kennsluefnið. Einnig voru leikrit Terentiusar og kvæði Horatiusar lesin en þó í minna mæli. Sá höfundur óbundins máls sem oftast var lesinn var ræðusnillingurinn Marcus Tullius Cicero. Oft lærðu börnin bæði latínu og grísku.


Lágmynd sem sýnir kennslustund hjá Rómverjum.

Ef menntun drengjanna hélt áfram að loknu námi hjá málfræðikennaranum lögðu þeir oftast stund á mælskulist hjá mælskulistarkennara, enda var það talinn nauðsynlegur undirbúningur fyrir þátttöku í stjórnmálum og opinberri stjórnsýslu. Mælskulistinni kynntust Rómverjar hjá Grikkjum en grísk mælskulist hafði þó nokkur áhrif á rómverska menningu og bókmenntir. Varðveitt eru rit um mælskulistina frá miðri 1. öld f.Kr. eftir Cicero en þau voru snar þáttur í mótun rómverskra hugmynda um gildi mælskulistarinnar. Kennsluaðferðirnar voru meðal annars fólgnar í sérstökum æfingum sem nefndust controversia og suasoria. Controversia var ímyndað dómsmál þar sem nemandinn tók að sér hlutverk annars aðilans og færði rök fyrir máli sínu. Suasoria var á hinn bóginn æfing þar sem nemandinn flutti ræðu þar sem hann ráðlagði þekktri persónu úr sögunni eða jafnvel úr goðafræðinni. Ýmsar slíkar mælskulistaræfingar eru varðveittar í ritum Luciusar Annaeusar Senecu eldra.

Þá má einnig geta mælskulistarkennarans Marcusar Fabiusar Quintilianusar sem var að störfum undir lok 1. aldar e.Kr. en eftir hann er varðveitt gríðarmikið rit í tólf bókum, Um menntun ræðumannsins (Institutio oratoria), þar sem hann lýsir því hvernig menntun ræðumannsins sé best hagað allt frá bernsku. Quintilianus ræðir meðal annars hvaða höfundar eru bestu fyrirmyndirnar og gagnlegastir nemandanum. Til dæmis er Evripídes betri fyrirmynd en Sófókles fyrir þá sem ætla að verða málafærslumenn fyrir dómstólum og Demosþenes skarar fram úr öðrum ræðumönnum grískum; Virgil telur hann næstum því jafnast á við Hómer en hann segir Ovidius skorta alvarleika.

Auk mælskulistar var hægt að leggja stund á heimspeki en þá reyndi nemandinn að tileinka sér kenningar eins af helstu heimspekiskólunum, oftast Akademíunnar, epikúrismans eða stóuspekinnar. Stundum lærðu nemendur við fleiri en einn skóla. Í heimspekináminu lásu nemendur rit merkustu heimspekinga skólans en einkum ritverk þess er stofnaði skólann. Kennarinn leitaðist svo við að útskýra hugmyndirnar fyrir nemendunum. Auðmenn gátu sent syni sína til Grikklands í nám þar sem þeir lærðu oftast mælskulist og heimspeki, enda margir fornfrægir skólar þar.

Auk mælskulistar og heimspeki má að lokum nefna ýmiss konar starfsmenntun sem í boði var. Til dæmis var hægt að læra að verða arkitekt eða læknir. Þá naut nemandinn handleiðslu einhvers sem starfaði sem læknir. Piltar fetuðu gjarnan í fótspor föður síns. Frá 1. öld e.Kr. var jafnvel hægt að stunda nám í lögfræði í sérstökum lagaskólum.

Ítarefni:
  • Bonner, Stanley F. Education in Ancient Rome: From the Elder Cato to the Younger Pliny (Berkeley: University of California Press, 1977).
  • Clarke, M.L. Higher Education in the Ancient World (London: Routledge & Kegan Paul, 1971).
  • Kaster, Robert A. Guardians of Language: The Grammarian and Society in Late Antiquity (Berkeley: University of California Press, 1988).
  • Marrou, H.I. A History of Education in Antiquity. George Lamb (þýð.) (London: Sheed and Ward, 1956).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

1.3.2010

Spyrjandi

Sigmar Arnarsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig var menntun í Róm til forna? Var það bara yfirstéttin og drengir sem fengu æskilega menntun?“ Vísindavefurinn, 1. mars 2010. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7585.

Geir Þ. Þórarinsson. (2010, 1. mars). Hvernig var menntun í Róm til forna? Var það bara yfirstéttin og drengir sem fengu æskilega menntun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7585

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig var menntun í Róm til forna? Var það bara yfirstéttin og drengir sem fengu æskilega menntun?“ Vísindavefurinn. 1. mar. 2010. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7585>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var menntun í Róm til forna? Var það bara yfirstéttin og drengir sem fengu æskilega menntun?
Menntun Rómverja gat verið nokkuð mismunandi eftir stétt og samfélagsstöðu og tók auk þess breytingum í aldanna rás. Í fyrstu voru börn menntuð heima hjá sér en snemma var farið að fela sérstökum kennurum að mennta börnin. Á 3. öld f.Kr. voru komnir sérstakir barnaskólar sem fólk gat sent börnin í en einnig var algengt að menntaðir þrælar sæju um menntun barnanna heima fyrir. Flestir höfðu efni á að senda börnin sín í skóla eða ráða kennara enda voru laun kennara fremur lág. En á hinn bóginn höfðu ekki allir efni á að mennta börnin sín jafn mikið. Einungis þeir allra fátækustu höfðu ekki efni á að veita börnunum sínum neina menntun.

Lestrarkunnátta var orðin almenn tiltölulega snemma og nær öll börn urðu að læra að lesa, skrifa og reikna. Stúlkur hlutu oft sömu menntun og piltar framan af. Meira að segja þrælar fengu stundum dálitla menntun. Skólagangan hófst um sjö ára aldur en þá námu börnin hjá barnakennara (ludi magister). Þessu fyrsta stigi menntunarinnar lauk oftast um 12 til 13 ára aldur. Þá héldu drengir áfram námi hjá málfræðikennara (grammaticus) ef fjölskyldan hafði efni á að mennta þá frekar en það var alls ekki víst. Skólaganga stúlkna var oftar en ekki á enda þegar þær höfðu lokið námi hjá barnakennaranum. Oftast lærðu þær hvers kyns heimilisstörf heima hjá sér en ef fjölskyldan var vel efnuð, þá fengu stúlkur stundum að halda náminu áfram. Hjá málfræðikennaranum lærðu börnin málfræði og að lesa og skýra bókmenntir, einkum kveðskap. Skáldin sem oftast voru lesin voru framan af Livius Andronicus og Ennius en undir lok 1. aldar f.Kr. urðu kvæði Virgils aðal kennsluefnið. Einnig voru leikrit Terentiusar og kvæði Horatiusar lesin en þó í minna mæli. Sá höfundur óbundins máls sem oftast var lesinn var ræðusnillingurinn Marcus Tullius Cicero. Oft lærðu börnin bæði latínu og grísku.


Lágmynd sem sýnir kennslustund hjá Rómverjum.

Ef menntun drengjanna hélt áfram að loknu námi hjá málfræðikennaranum lögðu þeir oftast stund á mælskulist hjá mælskulistarkennara, enda var það talinn nauðsynlegur undirbúningur fyrir þátttöku í stjórnmálum og opinberri stjórnsýslu. Mælskulistinni kynntust Rómverjar hjá Grikkjum en grísk mælskulist hafði þó nokkur áhrif á rómverska menningu og bókmenntir. Varðveitt eru rit um mælskulistina frá miðri 1. öld f.Kr. eftir Cicero en þau voru snar þáttur í mótun rómverskra hugmynda um gildi mælskulistarinnar. Kennsluaðferðirnar voru meðal annars fólgnar í sérstökum æfingum sem nefndust controversia og suasoria. Controversia var ímyndað dómsmál þar sem nemandinn tók að sér hlutverk annars aðilans og færði rök fyrir máli sínu. Suasoria var á hinn bóginn æfing þar sem nemandinn flutti ræðu þar sem hann ráðlagði þekktri persónu úr sögunni eða jafnvel úr goðafræðinni. Ýmsar slíkar mælskulistaræfingar eru varðveittar í ritum Luciusar Annaeusar Senecu eldra.

Þá má einnig geta mælskulistarkennarans Marcusar Fabiusar Quintilianusar sem var að störfum undir lok 1. aldar e.Kr. en eftir hann er varðveitt gríðarmikið rit í tólf bókum, Um menntun ræðumannsins (Institutio oratoria), þar sem hann lýsir því hvernig menntun ræðumannsins sé best hagað allt frá bernsku. Quintilianus ræðir meðal annars hvaða höfundar eru bestu fyrirmyndirnar og gagnlegastir nemandanum. Til dæmis er Evripídes betri fyrirmynd en Sófókles fyrir þá sem ætla að verða málafærslumenn fyrir dómstólum og Demosþenes skarar fram úr öðrum ræðumönnum grískum; Virgil telur hann næstum því jafnast á við Hómer en hann segir Ovidius skorta alvarleika.

Auk mælskulistar var hægt að leggja stund á heimspeki en þá reyndi nemandinn að tileinka sér kenningar eins af helstu heimspekiskólunum, oftast Akademíunnar, epikúrismans eða stóuspekinnar. Stundum lærðu nemendur við fleiri en einn skóla. Í heimspekináminu lásu nemendur rit merkustu heimspekinga skólans en einkum ritverk þess er stofnaði skólann. Kennarinn leitaðist svo við að útskýra hugmyndirnar fyrir nemendunum. Auðmenn gátu sent syni sína til Grikklands í nám þar sem þeir lærðu oftast mælskulist og heimspeki, enda margir fornfrægir skólar þar.

Auk mælskulistar og heimspeki má að lokum nefna ýmiss konar starfsmenntun sem í boði var. Til dæmis var hægt að læra að verða arkitekt eða læknir. Þá naut nemandinn handleiðslu einhvers sem starfaði sem læknir. Piltar fetuðu gjarnan í fótspor föður síns. Frá 1. öld e.Kr. var jafnvel hægt að stunda nám í lögfræði í sérstökum lagaskólum.

Ítarefni:
  • Bonner, Stanley F. Education in Ancient Rome: From the Elder Cato to the Younger Pliny (Berkeley: University of California Press, 1977).
  • Clarke, M.L. Higher Education in the Ancient World (London: Routledge & Kegan Paul, 1971).
  • Kaster, Robert A. Guardians of Language: The Grammarian and Society in Late Antiquity (Berkeley: University of California Press, 1988).
  • Marrou, H.I. A History of Education in Antiquity. George Lamb (þýð.) (London: Sheed and Ward, 1956).

Mynd:...