Sólin Sólin Rís 04:55 • sest 21:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 05:20 • Sest 12:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:37 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:14 • Síðdegis: 19:34 í Reykjavík

Hvers konar rithöfundur var Svava Jakobsdóttir og hver eru helstu höfundareinkenni hennar?

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Í byrjun maí 1968 stóðu Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna fyrir kynningu á nýlegum skáldverkum eftir sex íslenska höfunda. Slíkir viðburðir voru ekki nýir af nálinni en að þessu sinni vakti athygli að allir rithöfundarnir voru konur. Ein þeirra kvenna sem stigu á stokk á kynningunni var Svava Jakobsdóttir (1930-2004). Hún var þekkt fyrir smásögur sínar sem birtust í tímaritum og smásagnasöfnunum 12 konur (1965) og Veizla undir grjótvegg (1967) en í þetta skiptið las hún upp úr skáldsögu sem hún vann að og kom út ári síðar: Leigjandanum. Í sögum sínum fjallar Svava gjarnan um hversdagslíf fólks í Reykjavík, nýrri borg í örum vexti þar sem sífellt fleiri hús voru byggð, bílar keyrðir og hlutir keyptir. Þar er áhersla lögð á konur, þroskasögur þeirra og heftandi áhrif kynhlutverka en einnig á neyslusamfélag, efnishyggju og firringu - fólk sem skortir raunveruleg tengsl við umhverfi sitt og fólkið í kringum sig. Hlutgerving kvenna er oft í brennidepli, þær hafa lítið vald og helsta hlutverk þeirra er að þjóna fjölskyldu sinni og kröfum neyslusamfélagsins. Þær eru líka almennt nafnlausar sem undirstrikar að litið er á þær sem konur fremur en einstaklinga.

Eitt helsta höfundareinkenni Svövu er tiltekið myndmál og frásagnarháttur; hvernig hún notar fantasíu, tákn og myndhverfingar til að tjá óhlutbundinn veruleika. Á myndinni sést Svava á fundi rauðsokkahreyfingarinnar í Norræna húsinu 1970.

Eitt helsta höfundareinkenni Svövu er enn fremur tiltekið myndmál og frásagnarháttur; hvernig hún notar fantasíu, tákn og myndhverfingar til að tjá óhlutbundinn veruleika, svo sem tilfinningar og hugmyndir. Í smásögunni „Sögu handa börnum“ fórnar kona sér til dæmis fyrir börn sín, eiginmann og heimili. Sú fórn felst ekki bara í að elda mat, skeina og þrífa heldur er hún bókstafleg; konan leyfir börnunum að opna á sér höfuðkúpuna með sög, fjarlægja heilann og setja hann í glerkrukku. Hún lætur líka lækni skera úr sér hjartað svo hún geti fært börnunum það. Í Leigjandanum flytur ókunnugur maður inn í hús ungra hjóna og verður þar táknmynd valds og valdbeitingar, til dæmis feðraveldis, nýlendustefnu eða hernaðar. Í lok bókar renna síðan líkamar hans og eiginmannsins Péturs saman í óhugnanlegri og óræðri senu þar sem konan er fullkomlega vanmáttug gagnvart aðstæðunum. Svava skapar þannig hversdagslegan hrylling með því að setja á svið algengar myndhverfingar og orðatiltæki, ekki í fjarlægum furðuheimi heldur í íslenskum veruleika.

Skáldverk Svövu blésu konum baráttuanda í brjóst og voru mikilvæg fyrir kvennahreyfinguna, þá og jafnvel enn. 2005 var leikritið Eldhús eftir máli eftir Völu Þórsdóttur (f. 1968) sett á svið en það byggir á fimm af smásögum Svövu. Þórhildur Ólafsdóttir skrifaði dóm um leikritið og sagðist óska þess að sögurnar væru ekki svona kunnuglegar - þær væru „nefnilega hvassar ádeilur á samfélagsmunstur sem okkur gengur illa að brjótast út úr og vinna á“ (112).

Mynd:

Höfundur

Ásta Kristín Benediktsdóttir

lektor í íslenskum samtímabókmenntum

Útgáfudagur

23.3.2023

Spyrjandi

Karólína J.

Tilvísun

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Hvers konar rithöfundur var Svava Jakobsdóttir og hver eru helstu höfundareinkenni hennar?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2023. Sótt 2. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84341.

Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2023, 23. mars). Hvers konar rithöfundur var Svava Jakobsdóttir og hver eru helstu höfundareinkenni hennar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84341

Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Hvers konar rithöfundur var Svava Jakobsdóttir og hver eru helstu höfundareinkenni hennar?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2023. Vefsíða. 2. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84341>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar rithöfundur var Svava Jakobsdóttir og hver eru helstu höfundareinkenni hennar?
Í byrjun maí 1968 stóðu Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna fyrir kynningu á nýlegum skáldverkum eftir sex íslenska höfunda. Slíkir viðburðir voru ekki nýir af nálinni en að þessu sinni vakti athygli að allir rithöfundarnir voru konur. Ein þeirra kvenna sem stigu á stokk á kynningunni var Svava Jakobsdóttir (1930-2004). Hún var þekkt fyrir smásögur sínar sem birtust í tímaritum og smásagnasöfnunum 12 konur (1965) og Veizla undir grjótvegg (1967) en í þetta skiptið las hún upp úr skáldsögu sem hún vann að og kom út ári síðar: Leigjandanum. Í sögum sínum fjallar Svava gjarnan um hversdagslíf fólks í Reykjavík, nýrri borg í örum vexti þar sem sífellt fleiri hús voru byggð, bílar keyrðir og hlutir keyptir. Þar er áhersla lögð á konur, þroskasögur þeirra og heftandi áhrif kynhlutverka en einnig á neyslusamfélag, efnishyggju og firringu - fólk sem skortir raunveruleg tengsl við umhverfi sitt og fólkið í kringum sig. Hlutgerving kvenna er oft í brennidepli, þær hafa lítið vald og helsta hlutverk þeirra er að þjóna fjölskyldu sinni og kröfum neyslusamfélagsins. Þær eru líka almennt nafnlausar sem undirstrikar að litið er á þær sem konur fremur en einstaklinga.

Eitt helsta höfundareinkenni Svövu er tiltekið myndmál og frásagnarháttur; hvernig hún notar fantasíu, tákn og myndhverfingar til að tjá óhlutbundinn veruleika. Á myndinni sést Svava á fundi rauðsokkahreyfingarinnar í Norræna húsinu 1970.

Eitt helsta höfundareinkenni Svövu er enn fremur tiltekið myndmál og frásagnarháttur; hvernig hún notar fantasíu, tákn og myndhverfingar til að tjá óhlutbundinn veruleika, svo sem tilfinningar og hugmyndir. Í smásögunni „Sögu handa börnum“ fórnar kona sér til dæmis fyrir börn sín, eiginmann og heimili. Sú fórn felst ekki bara í að elda mat, skeina og þrífa heldur er hún bókstafleg; konan leyfir börnunum að opna á sér höfuðkúpuna með sög, fjarlægja heilann og setja hann í glerkrukku. Hún lætur líka lækni skera úr sér hjartað svo hún geti fært börnunum það. Í Leigjandanum flytur ókunnugur maður inn í hús ungra hjóna og verður þar táknmynd valds og valdbeitingar, til dæmis feðraveldis, nýlendustefnu eða hernaðar. Í lok bókar renna síðan líkamar hans og eiginmannsins Péturs saman í óhugnanlegri og óræðri senu þar sem konan er fullkomlega vanmáttug gagnvart aðstæðunum. Svava skapar þannig hversdagslegan hrylling með því að setja á svið algengar myndhverfingar og orðatiltæki, ekki í fjarlægum furðuheimi heldur í íslenskum veruleika.

Skáldverk Svövu blésu konum baráttuanda í brjóst og voru mikilvæg fyrir kvennahreyfinguna, þá og jafnvel enn. 2005 var leikritið Eldhús eftir máli eftir Völu Þórsdóttur (f. 1968) sett á svið en það byggir á fimm af smásögum Svövu. Þórhildur Ólafsdóttir skrifaði dóm um leikritið og sagðist óska þess að sögurnar væru ekki svona kunnuglegar - þær væru „nefnilega hvassar ádeilur á samfélagsmunstur sem okkur gengur illa að brjótast út úr og vinna á“ (112).

Mynd:...