Hvaða töfrar eru að verki þegar vínglös færast sjálfkrafa til á eldhúsborði eftir að vera þvegin upp?Ef við höldum glasi undir heitu vatni í smá stund og hvolfum því svo á borð liggur vatn upp að barmi glassins að utan og innan á mörgum stöðum, jafnvel allt um kring. Til þess að glasið geti færst til þarf vatnið að umlykja glasbarminn allan hringinn. Einnig er þunnt lag af vatni undir barmi glassins, á milli þess og borðsins, en svo þunnt að við tökum ekki eftir því. Þar sem vatn er vökvi og rennur auðveldlega, þá virkar það sem smurefni. Vatnið undir glasbarminum minnkar því núninginn milli glassins og borðsins og veldur því að auðveldara er að færa glasið til á borðinu en þegar borðið og glasið eru þurr. Vatnið sem er undir glasbarminum og umlykur hann að utan og innan, veldur því líka að loftið sem er inni í glasinu á ekki greiða leið út úr því. Það er eitt af lykilatriðinum þegar kemur að þessum „töfrum“ sem spurt er um. Þar sem glasið er heitt hitar það loftið sem er innlyksa í glasinu. Við það þenst loftið út og nær að lyfta glasinu örlítið upp. Við tökum ekki eftir þessu en lyftingin getur verið nógu mikil til þess að vatnið í kringum glasbarminn skríði í meira magni undir barminn og myndi þykkara vatnslag, nokkurs konar vatnspúða sem glasið liggur á. Við það minnkar núningurinn milli glassins og borðsins enn meira. Sé smá halli á borðinu eða yfirborð þess ójafnt getur glasið runnið aðeins til á vatnspúðanum. Vegna aukins loftþrýstings inni í glasinu nær loftið stundum að þrýstast undan glasbarminum í loftbólum sem springa og koma glasinu þannig á hreyfingu. Rétt er að taka fram að það færast ekki öll glös með þessari aðferð, þessir „töfrar“ eru háðir þyngd glassins og þykkt glasbarmsins. Sé glasið kalt þegar því er hvolft á borðið mun það ekki hreyfast þar sem loftið inni í glasinu þenst ekki út. Heimildi og mynd:
- Why does a simple drinking glass, which is just washed and kept upside down, start to move? Quora. https://www.quora.com/Why-does-a-simple-drinking-glass-which-is-just-washed-and-kept-upside-down-start-to-move
- Yfirlitsmynd: Clear wine glass lot on gray surface. PickPik. https://www.pickpik.com/wine-glasses-stemware-crystal-reception-party-goblet-4419