Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig verkar bandaríska skólakerfið og hvaða einkunnakerfi er notað?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Bandaríska skólakerfið er á margan hátt byggt öðru vísu upp en hið íslenska. Erfitt er að gera nákvæma grein fyrir því þar sem töluverður munur er á útfærslu milli mismunandi ríkja innan Bandaríkjanna. Þó má lýsa kerfinu í grófum dráttum miðað við það sem algengast er.

Skólaganga í Bandaríkjunum hefst yfirleitt við 5 ára aldur með því sem kallað er Kindergarten. Skipun í árganga er yfirleitt ekki miðuð við áramót eins og hér á landi heldur við einhverja dagsetningu um haustið sem er mismunandi eftir ríkjum. Þannig byrja þau börn í Kindergarten sem eru til dæmis orðin 5 ára fyrir 1. október, en sums staðar er miðað við 1. nóvember eða 1. desember.

Misjafnt er eftir ríkjum og jafnvel sveitarfélögum hve alvarlega skólastarfið er tekið þetta fyrsta ár. Sums staðar er Kindergarten að mestu eins og leikskóli og er jafnvel aðeins hálfan daginn. Annars staðar eru Kindergarten-nemendur í skólanum jafnlengi að deginum og nemendur í eldri bekkjum og námsefnið ekki ósvipað því sem gerist í 1. bekk á Íslandi. Eftir þetta ár tekur svo við tölusett bekkjakerfi frá 1. bekk upp í 12. bekk.

Það sem Bandaríkjamenn kalla grunnskóla (elementary school eða grade school) nær ýmist upp í 6. eða 8. bekk (grade). Eftir það tekur við framhaldsskóli (secondary school) sem nær upp í það sem kallað er 12. bekkur, eða þegar nemendur eru 17-18 ára, en skólaskyldu lýkur víðast hvar við 16 ára aldur. Framhaldsskólinn er einnig nefndur high school.

Sums staðar fara nemendur í miðskóla (middle school) áður en þeir hefja nám í framhaldsskóla. Miðskólinn nær þá yfir 6. til 8. bekk. Annars staðar eru sérstakar framhaldsskóladeildir fyrir fyrstu árganga framhaldsskólanna, 7. og 8. bekk, sem nefnast þá junior high school. Samkvæmt þriðju útgáfunni nær grunnskólinn upp í 8. bekk og framhaldsskólinn tekur þá við í 9. bekk.

Eftir framhaldsskólann tekur háskólanám við hjá þeim sem það kjósa. Það sem kallað er college er í raun nám á BA- eða BS-stigi, grunnnám eða undergraduate study. Yfirleitt er ekki talað um university nema um framhaldsnám (graduate school eða post graduate study) í háskóla sé að ræða, það er að segja nám á meistara- eða doktorsstigi. Grunnnámið tekur 4 ár eftir framhaldsskólann og því má segja að samtals eins árs nám í college jafngildi síðasta árinu í íslenskum framhaldsskóla. Í grunnnáminu er sérstakt hólf sem gengur oft undir heitinu "General Requirements" og samsvarar að ýmsu leyti hluta framhaldsskólanáms hér á landi. Þetta nám er hins vegar tekið samhliða öðru og sérhæfðara námi sem miðast gagngert við þá námsbraut sem nemandinn hefur valið sér.

Misjafnt virðist þó vera hvort fólk sem heldur til náms í Bandaríkjunum að loknu íslensku stúdentsprófi fær að sleppa þessu námi. Ef til vill fer það eitthvað eftir því hversu góður undirbúningurinn er talinn, en inntaka í bandaríska háskóla, hvort sem er í grunnnám eða framhaldsnám, er mjög einstaklingsbundin. Er þá bæði farið eftir einkunnum úr fyrra námi, mati á skólunum sem nemandinn hefur verið í, umsögnum kennara, sérstökum prófum sem tekin eru við inngöngu og jafnvel eftir viðtölum við nemendur.

Hafa þarf í huga að bandarískir háskólar eru margir og samkeppni milli þeirra er mikil, til dæmis um bestu nemendurna. Þeir þurfa ekki að standa neinum öðrum skil á því hvernig þeir velja nemendur sína. Því er um að gera fyrir þá sem hugsa sér að stunda grunnnám eða framhaldsnám við góða bandaríska háskóla að undirbúa sig sem best, bæði í þeirri námsgrein sem menn hafa hug á og stoðgreinum hennar, og einnig í öllu því sem varðar almenna menntun og námshæfni því að á slíkt reynir meðal annars í inntökuprófunum.

Hið opinbera rekur grunn- og framhaldsskóla sem allir nemendur á skólaaldri hafa aðgang að, sér að kostnaðarlausu. Þó er töluvert um einkaskóla sem krefja nemendur um skólagjöld. Einnig er foreldrum heimilt að kenna börnum sínum heima í stað þess að senda þau í skóla en misjafnt er eftir ríkjum hvaða reglur gilda um slíkt heimanám (home schooling), til dæmis hvort þessum nemendum sé skylt að taka sérstök próf á hverju ári eða hvort þeir foreldrar sem kenni börnum sínum heima þurfi að uppfylla einhver sérstök skilyrði.

Háskólanám er yfirleitt ekki hægt að stunda ókeypis í Bandaríkjunum nema í skólum sem kallast community college eða junior college. Þeir eru reknir af sveitarfélögum og bjóða upp á starfsnám og fyrri hluta grunnnáms á háskólastigi. Nokkuð er þó um að námsstyrkir séu veittir nemendum, einkum í framhaldsnámi. Margir vel undirbúnir íslenskir stúdentar sem halda til framhaldsnáms í Bandaríkjunum fá þannig námsstyrki fyrir skólagjöldum og jafnvel framfærslu að hluta eða að fullu. Slíkir nemendur þurfa ekki að láta skólagjöldin vaxa sér í augum.

Einkunnir í bandarískum skólum eru gefnar með bókstöfunum A, B, C, D og F. Þetta kerfi er svo gert fínriðnara með því að setja plús eða mínus aftan við bókstafinn. A er ágætiseinkunn, B er gott, C viðunandi, D slakt og F er falleinkunn. Í sumum skólum eða námsbrautum telst D reyndar falleinkunn líka og sums staðar telst jafnvel einkunnin C- ófullnægjandi. Í sumum skólum þekkist það reyndar að engar einkunnir séu gefnar aðrar en "staðið" eða "fallið" í ákveðnum námskeiðum eða að nemendur geti valið að fá aðeins slíkar einkunnir. Þegar meðaleinkunn (Grade Point Average eða "GPA") er reiknuð út er bókstöfunum breytt í tölur þannig að A=4,0, B=3,0, C=2,0, D=1,0 og F=0.

Heimild:

Vefsetur menntamálaráðuneytis Bandaríkjanna

Auk þess er stuðst við eigin reynslu höfunda og fjölskyldna þeirra.

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

13.11.2000

Spyrjandi

Tryggvi Aðalbjörnsson, f. 1986

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvernig verkar bandaríska skólakerfið og hvaða einkunnakerfi er notað?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2000. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1128.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 13. nóvember). Hvernig verkar bandaríska skólakerfið og hvaða einkunnakerfi er notað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1128

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvernig verkar bandaríska skólakerfið og hvaða einkunnakerfi er notað?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2000. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1128>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig verkar bandaríska skólakerfið og hvaða einkunnakerfi er notað?
Bandaríska skólakerfið er á margan hátt byggt öðru vísu upp en hið íslenska. Erfitt er að gera nákvæma grein fyrir því þar sem töluverður munur er á útfærslu milli mismunandi ríkja innan Bandaríkjanna. Þó má lýsa kerfinu í grófum dráttum miðað við það sem algengast er.

Skólaganga í Bandaríkjunum hefst yfirleitt við 5 ára aldur með því sem kallað er Kindergarten. Skipun í árganga er yfirleitt ekki miðuð við áramót eins og hér á landi heldur við einhverja dagsetningu um haustið sem er mismunandi eftir ríkjum. Þannig byrja þau börn í Kindergarten sem eru til dæmis orðin 5 ára fyrir 1. október, en sums staðar er miðað við 1. nóvember eða 1. desember.

Misjafnt er eftir ríkjum og jafnvel sveitarfélögum hve alvarlega skólastarfið er tekið þetta fyrsta ár. Sums staðar er Kindergarten að mestu eins og leikskóli og er jafnvel aðeins hálfan daginn. Annars staðar eru Kindergarten-nemendur í skólanum jafnlengi að deginum og nemendur í eldri bekkjum og námsefnið ekki ósvipað því sem gerist í 1. bekk á Íslandi. Eftir þetta ár tekur svo við tölusett bekkjakerfi frá 1. bekk upp í 12. bekk.

Það sem Bandaríkjamenn kalla grunnskóla (elementary school eða grade school) nær ýmist upp í 6. eða 8. bekk (grade). Eftir það tekur við framhaldsskóli (secondary school) sem nær upp í það sem kallað er 12. bekkur, eða þegar nemendur eru 17-18 ára, en skólaskyldu lýkur víðast hvar við 16 ára aldur. Framhaldsskólinn er einnig nefndur high school.

Sums staðar fara nemendur í miðskóla (middle school) áður en þeir hefja nám í framhaldsskóla. Miðskólinn nær þá yfir 6. til 8. bekk. Annars staðar eru sérstakar framhaldsskóladeildir fyrir fyrstu árganga framhaldsskólanna, 7. og 8. bekk, sem nefnast þá junior high school. Samkvæmt þriðju útgáfunni nær grunnskólinn upp í 8. bekk og framhaldsskólinn tekur þá við í 9. bekk.

Eftir framhaldsskólann tekur háskólanám við hjá þeim sem það kjósa. Það sem kallað er college er í raun nám á BA- eða BS-stigi, grunnnám eða undergraduate study. Yfirleitt er ekki talað um university nema um framhaldsnám (graduate school eða post graduate study) í háskóla sé að ræða, það er að segja nám á meistara- eða doktorsstigi. Grunnnámið tekur 4 ár eftir framhaldsskólann og því má segja að samtals eins árs nám í college jafngildi síðasta árinu í íslenskum framhaldsskóla. Í grunnnáminu er sérstakt hólf sem gengur oft undir heitinu "General Requirements" og samsvarar að ýmsu leyti hluta framhaldsskólanáms hér á landi. Þetta nám er hins vegar tekið samhliða öðru og sérhæfðara námi sem miðast gagngert við þá námsbraut sem nemandinn hefur valið sér.

Misjafnt virðist þó vera hvort fólk sem heldur til náms í Bandaríkjunum að loknu íslensku stúdentsprófi fær að sleppa þessu námi. Ef til vill fer það eitthvað eftir því hversu góður undirbúningurinn er talinn, en inntaka í bandaríska háskóla, hvort sem er í grunnnám eða framhaldsnám, er mjög einstaklingsbundin. Er þá bæði farið eftir einkunnum úr fyrra námi, mati á skólunum sem nemandinn hefur verið í, umsögnum kennara, sérstökum prófum sem tekin eru við inngöngu og jafnvel eftir viðtölum við nemendur.

Hafa þarf í huga að bandarískir háskólar eru margir og samkeppni milli þeirra er mikil, til dæmis um bestu nemendurna. Þeir þurfa ekki að standa neinum öðrum skil á því hvernig þeir velja nemendur sína. Því er um að gera fyrir þá sem hugsa sér að stunda grunnnám eða framhaldsnám við góða bandaríska háskóla að undirbúa sig sem best, bæði í þeirri námsgrein sem menn hafa hug á og stoðgreinum hennar, og einnig í öllu því sem varðar almenna menntun og námshæfni því að á slíkt reynir meðal annars í inntökuprófunum.

Hið opinbera rekur grunn- og framhaldsskóla sem allir nemendur á skólaaldri hafa aðgang að, sér að kostnaðarlausu. Þó er töluvert um einkaskóla sem krefja nemendur um skólagjöld. Einnig er foreldrum heimilt að kenna börnum sínum heima í stað þess að senda þau í skóla en misjafnt er eftir ríkjum hvaða reglur gilda um slíkt heimanám (home schooling), til dæmis hvort þessum nemendum sé skylt að taka sérstök próf á hverju ári eða hvort þeir foreldrar sem kenni börnum sínum heima þurfi að uppfylla einhver sérstök skilyrði.

Háskólanám er yfirleitt ekki hægt að stunda ókeypis í Bandaríkjunum nema í skólum sem kallast community college eða junior college. Þeir eru reknir af sveitarfélögum og bjóða upp á starfsnám og fyrri hluta grunnnáms á háskólastigi. Nokkuð er þó um að námsstyrkir séu veittir nemendum, einkum í framhaldsnámi. Margir vel undirbúnir íslenskir stúdentar sem halda til framhaldsnáms í Bandaríkjunum fá þannig námsstyrki fyrir skólagjöldum og jafnvel framfærslu að hluta eða að fullu. Slíkir nemendur þurfa ekki að láta skólagjöldin vaxa sér í augum.

Einkunnir í bandarískum skólum eru gefnar með bókstöfunum A, B, C, D og F. Þetta kerfi er svo gert fínriðnara með því að setja plús eða mínus aftan við bókstafinn. A er ágætiseinkunn, B er gott, C viðunandi, D slakt og F er falleinkunn. Í sumum skólum eða námsbrautum telst D reyndar falleinkunn líka og sums staðar telst jafnvel einkunnin C- ófullnægjandi. Í sumum skólum þekkist það reyndar að engar einkunnir séu gefnar aðrar en "staðið" eða "fallið" í ákveðnum námskeiðum eða að nemendur geti valið að fá aðeins slíkar einkunnir. Þegar meðaleinkunn (Grade Point Average eða "GPA") er reiknuð út er bókstöfunum breytt í tölur þannig að A=4,0, B=3,0, C=2,0, D=1,0 og F=0.

Heimild:

Vefsetur menntamálaráðuneytis Bandaríkjanna

Auk þess er stuðst við eigin reynslu höfunda og fjölskyldna þeirra.

...