Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix?

Atli Harðarson

Þegar rætt er um möguleika er stundum verið að ræða um hvað stangast á við þá þekkingu sem við höfum og hvað ekki. Í þessum skilningi er hvaðeina mögulegt sem samrýmist öllu sem við vitum. Ýmislegt getur verið mögulegt í þessum skilningi þótt það geti ekki gerst í raun og veru, stangist til dæmis á við náttúrulögmál eða staðreyndir sem við þekkjum ekki.



Væri ég til dæmis spurður hvort það sé mögulegt að ný ísöld hefjist á næsta árþúsundi þá mundi ég svara því játandi vegna þess að engin vitneskja útilokar það. En þótt engin vitneskja sem við höfum útiloki þetta getur samt verið að eitthvað sem á sér stað í iðrum sólar, og við vitum ekki um, tryggi að loftslag á jörðinni fari hlýnandi næstu þúsund ár. Að eitthvað samrýmist allri þekkingu sem við höfum yfir að ráða útilokar ekki að það stangist á við staðreyndir eða náttúrulögmál, aðeins að það stangist á við staðreyndir eða lögmál sem við vitum af.

Í ljósi þessa getum við gert greinarmun á þekkingarfræðilegum möguleika annars vegar og raunhæfum möguleika hins vegar og sagt að hvaðeina sem ekki stangast á við náttúrulögmál eða raunverulegar staðreyndir sé raunhæfur möguleiki og hvaðeina sem ekki stangast á við neina vitneskju sé þekkingarfræðilegur möguleiki.



Til viðbótar við þetta er stundum talað um röklega möguleika og látið heita að hvaðeina sé röklega mögulegt ef hægt er að lýsa því án þess að í orðunum felist rökleg mótsögn. Í þessum skilningi er mögulegt að menn geti flogið eins og fuglar en hins vegar ómögulegt að til séu giftir piparsveinar.

Þegar spurt er hvort mögulegt sé að maður sé blekktur um alla hluti þannig að það sem honum virðist vera raunveruleiki sé sýndarveruleiki, draumur eða blekking af einhverju tagi þá er vissara að gæta vel að hvers kyns möguleika er um að ræða.



Frá því á sautjándu öld hafa heimspekingar reynt að sanna að svona alger blekking sé röklega ómöguleg. Um tilraunir þeirra má lesa í grein um heimspekilega efahyggju eftir undirritaðan sem birtist í bókinni Er vit í vísindum? (Háskólaútgáfan, Reykjavík 1996). Skemmst er frá því að segja að ekki hefur tekist að færa fullgild rök fyrir þeirri niðurstöðu að það sé röklega ómögulegt að maður sé blekktur þannig að það sem honum virðist raunveruleiki sé það ekki. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart.

Furðusaga eins og sú sem sögð er í kvikmyndinni The Matrix er að vísu ótrúleg og fjarstæðukennd en hún virðist ekki fela í sér neinar mótsagnir. Sé spurt hvort það sé raunhæfur möguleiki að búa til svo fullkominn sýndarveruleika að fólk villist á honum og raunveruleikanum þá er svarið að um þetta sé ekki vitað. Á þessari stundu ráða menn ekki yfir tækni til að blekkja fólk með svo afgerandi hætti og við vitum ekki hvort einhver náttúrulögmál útiloka að slík tækni geti orðið til. Við getum því í mesta lagi sagt að það sé þekkingarfræðilegur möguleiki að þetta sé raunhæfur möguleiki.



Erfiðasta, og um leið skemmtilegasta, spurningin um þetta efni er hvort það sé þekkingarfræðilegur möguleiki að við séum í raun og veru blekkt með svipuðum hætti og fólkið í The Matrix. Höfum við einhverja vitneskju sem útilokar að það sé svona komið fyrir okkur? Ef ég er ekki illa blekktur um þetta efni þá er rétt svar við þessari spurningu að ekki sé hægt að sjá í gegnum fullkomna blekkingu. Séum við fórnarlömb slíkrar blekkingar getum við því ekki vitað að svo sé. (Nánari umfjöllun um þetta efni er að finna í fyrrnefndri grein um efahyggju í bókinni Er vit í vísindum?)


Myndir: Úr kvikmyndinni The Matrix.

Höfundur

heimspekingur og kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands

Útgáfudagur

20.11.2000

Spyrjandi

Trausti Salvar

Tilvísun

Atli Harðarson. „Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2000. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1145.

Atli Harðarson. (2000, 20. nóvember). Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1145

Atli Harðarson. „Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2000. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1145>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er möguleiki að okkar raunveruleiki sé draumsýn eða jafnvel skapaður veruleiki, samanber kvikmyndina The Matrix?
Þegar rætt er um möguleika er stundum verið að ræða um hvað stangast á við þá þekkingu sem við höfum og hvað ekki. Í þessum skilningi er hvaðeina mögulegt sem samrýmist öllu sem við vitum. Ýmislegt getur verið mögulegt í þessum skilningi þótt það geti ekki gerst í raun og veru, stangist til dæmis á við náttúrulögmál eða staðreyndir sem við þekkjum ekki.



Væri ég til dæmis spurður hvort það sé mögulegt að ný ísöld hefjist á næsta árþúsundi þá mundi ég svara því játandi vegna þess að engin vitneskja útilokar það. En þótt engin vitneskja sem við höfum útiloki þetta getur samt verið að eitthvað sem á sér stað í iðrum sólar, og við vitum ekki um, tryggi að loftslag á jörðinni fari hlýnandi næstu þúsund ár. Að eitthvað samrýmist allri þekkingu sem við höfum yfir að ráða útilokar ekki að það stangist á við staðreyndir eða náttúrulögmál, aðeins að það stangist á við staðreyndir eða lögmál sem við vitum af.

Í ljósi þessa getum við gert greinarmun á þekkingarfræðilegum möguleika annars vegar og raunhæfum möguleika hins vegar og sagt að hvaðeina sem ekki stangast á við náttúrulögmál eða raunverulegar staðreyndir sé raunhæfur möguleiki og hvaðeina sem ekki stangast á við neina vitneskju sé þekkingarfræðilegur möguleiki.



Til viðbótar við þetta er stundum talað um röklega möguleika og látið heita að hvaðeina sé röklega mögulegt ef hægt er að lýsa því án þess að í orðunum felist rökleg mótsögn. Í þessum skilningi er mögulegt að menn geti flogið eins og fuglar en hins vegar ómögulegt að til séu giftir piparsveinar.

Þegar spurt er hvort mögulegt sé að maður sé blekktur um alla hluti þannig að það sem honum virðist vera raunveruleiki sé sýndarveruleiki, draumur eða blekking af einhverju tagi þá er vissara að gæta vel að hvers kyns möguleika er um að ræða.



Frá því á sautjándu öld hafa heimspekingar reynt að sanna að svona alger blekking sé röklega ómöguleg. Um tilraunir þeirra má lesa í grein um heimspekilega efahyggju eftir undirritaðan sem birtist í bókinni Er vit í vísindum? (Háskólaútgáfan, Reykjavík 1996). Skemmst er frá því að segja að ekki hefur tekist að færa fullgild rök fyrir þeirri niðurstöðu að það sé röklega ómögulegt að maður sé blekktur þannig að það sem honum virðist raunveruleiki sé það ekki. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart.

Furðusaga eins og sú sem sögð er í kvikmyndinni The Matrix er að vísu ótrúleg og fjarstæðukennd en hún virðist ekki fela í sér neinar mótsagnir. Sé spurt hvort það sé raunhæfur möguleiki að búa til svo fullkominn sýndarveruleika að fólk villist á honum og raunveruleikanum þá er svarið að um þetta sé ekki vitað. Á þessari stundu ráða menn ekki yfir tækni til að blekkja fólk með svo afgerandi hætti og við vitum ekki hvort einhver náttúrulögmál útiloka að slík tækni geti orðið til. Við getum því í mesta lagi sagt að það sé þekkingarfræðilegur möguleiki að þetta sé raunhæfur möguleiki.



Erfiðasta, og um leið skemmtilegasta, spurningin um þetta efni er hvort það sé þekkingarfræðilegur möguleiki að við séum í raun og veru blekkt með svipuðum hætti og fólkið í The Matrix. Höfum við einhverja vitneskju sem útilokar að það sé svona komið fyrir okkur? Ef ég er ekki illa blekktur um þetta efni þá er rétt svar við þessari spurningu að ekki sé hægt að sjá í gegnum fullkomna blekkingu. Séum við fórnarlömb slíkrar blekkingar getum við því ekki vitað að svo sé. (Nánari umfjöllun um þetta efni er að finna í fyrrnefndri grein um efahyggju í bókinni Er vit í vísindum?)


Myndir: Úr kvikmyndinni The Matrix....