Orðið engill er af grískum uppruna og merkir sendiboði. Að kristnum skilningi eru englar sérstakir sendiboðar Guðs, settir okkur til verndar. Þeir eru ósýnilegir og ósnertanlegir. Margt fólk trúir því að englar séu stundum sendir með skilaboð og eru til reynslusögur frá fólki af því að engill hafi vitrast því, stundum í draumi.
Lengi hafa kristnir menn útskýrt það svo að englar hafi verið það fyrsta sem Guð skapaði. Sá sem var leiðtogi þeirra og hét Lúsífer, hann gerði uppreisn gegn Guði og reyndi að ná undir sig völdum hans. Það tókst honum ekki og honum var varpað í myrkrið. Þaðan leitast hann við að eyðileggja verk Guðs og hefur sveit myrkra engla hjá sér. Við treystum því að Guð sé sterkari en óvinur hans og vilji Guðs hljóti að verða að lokum. Aðrir englar eru ljósenglar, sendiboðar Guðs, sem fara að vilja hans.
Ég veit ekki hvort við verðum englar til dæmis þegar við deyjum, en ég treysti því að englar muni leiða mig til Guðs og þar muni ég fá að lifa ásamt englum Guðs og öðru fólki.
Sjá sögulega úttekt á uppruna englahugmynda, hér: Britannica.com
Mynd: Vefsetur Lena Liu