Kívíávöxtur eða loðber (Actinidia deliciosa eða Actinicia chinensis) er ekki búinn til úr öðrum ávöxtum heldur er hann sjálfstæð tegund. Loðberið er ávöxtur klifurfléttu og upprunaleg heimkynni þess eru í Kína. Ávöxturinn tók að berast til annarra landa á 19. öld og ræktun hans hófst að einhverju leyti á fyrstu árum 20. aldar bæði á Nýja-Sjálandi og í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann gekk á þessum tíma undir nafninu kínverskt stikilsber (e. Chinese gooseberry).
Um 1960 hófu ávaxtabændur á Nýja-Sjálandi útflutning á “kínverskum stikilsberjum”. Ávextinum var þá gefið nafnið kiwi-ávöxtur í höfuðið á hinum nýsjálenska kiwi-fugli til að tengja markaðsetningu hans Nýja-Sjálandi. Ræktun ávaxtarins til sölu og útflutnings hófst svo nokkrum árum síðar í Bandaríkjunum og hið nýsjálenska heiti hans fékk að haldast. Núorðið eru loðber ræktuð víða í Evrópu, í Ástralíu og Chile, auk Bandaríkjanna og Nýja-Sjálands.
Loðberið er eins og egg í laginu og hefur brúnt og loðið hýði. Að innan er það grænt að lit með svörtum fræjum í miðjunni. Loðber eru mjög C-vítamínrík.
Heimildir: Britannica.com Kiwifruit.org California Rare Fruit Growers