Síberíska tígrisdýrið (Panthera tigris altaica) er stærsta og öflugasta núlifandi kattardýrið. Fullvaxið karldýr getur náð allt að 350 kg þyngd og 4 metra lengd frá snoppu að rófuenda. Núverandi útbreiðslusvæði Síberíutígursins er aðallega bundið við austasta hluta hins víðlenda Rússlands, nánar tiltekið í Ussuri, en þar er talið að 80% tígrisdýra haldi til í dag. Síberísk tígrisdýr finnast enn þann dag í dag í Norðaustur-Kína og örfá dýr hafa komist af í Norður-Kóreu. Í dag er heildarstofnstærðin frá 350 til 450 dýr og um 300 þeirra lifa í Ussurilandi.
Tígrisdýr finnast einnig í öðru stjórnsýsluumdæmi í Síberiu, Khabarovsk, og er talið að í barrskógunum þar séu nú kringum 40 dýr. Óvíst er hversu mörg eru í Norður-Kóreu þar sem vísindamenn hafa lítið getað aðhafst þar vegna stjórnarhátta en menn giska á að þar séu ekki fleiri en 5 dýr. Að lokum er áætlaður fjöldi tígrisdýra í Mansjúríu í Norðaustur-Kína örfáir tugir en heppileg búsvæði tígrisdýra þar hafa verið eyðilögð á stórum svæðum.
Þó svo að stofninn í dag sé lítill hefur hann verið í talsverðri sókn undanfarin ár, eða frá 1993 þegar veiðiþjófnaður náði hámarki. Talið er að á tveimur árum hafi meira en 120 dýr verið skotin. Eftir það tóku rússnesk yfirvöld, með aðstoð bandarískra aðila, að herða eftirlit með veiðiþjófnaði á hinum stóru landsvæðum þar sem tígrisdýr er að finna.
Rannsóknir hafa sýnt að helsta fæða tígrisdýra í Ussurilandi eru villisvín en einnig éta þau ýmsar tegundir skógarhjarta og elgi. Sagnir eru til um glorsoltin tígrisdýr sem ráðast á skógarbirni en þess má geta að skógarbirnir í Ussuri eru langt í frá eins stórir og frændur þeirra á Kamtchatka-skaganum eða á sumum svæðum í Alaska.
Mynd fengin af vefsetri Cleveland-barnaskólans í New York-ríki í Bandaríkjunum