Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hve margir íbúar eru í þriðja heiminum?

Brynhildur Ólafsdóttir

Það er hreint ekki eins einfalt og ætla mætti að svara þessari spurningu. Aðalvandamálið felst auðvitað í þeirri spurningu hvað þetta fyrirbæri þriðji heimurinn er og hvaða lönd teljast til hans.

Hugtakið þriðji heimurinn var upphaflega notað árið 1952 af Alfred Sauvy, frönskum hagfræðingi og landfræðingi. Hugtakið varð síðar afsprengi kalda stríðsins þegar löndum heims var skipt í fyrsta heiminn, sem vestræn iðnríki töldust tilheyra, og annan heiminn, sem í voru Sovétríkin og önnur kommúnistaríki. Þeim löndum sem ekki pössuðu í annað hvorn flokkinn var síðan skellt saman í nokkurs konar afgangsflokk: þriðja heiminn.

Í þessum flokki eru jafn ólík lönd og Argentína, Zimbabwe, Sádí-Arabía og Norður Kórea. Þetta eru lönd með gríðarlega mismunandi stjórnarhætti, efnahagskerfi, menningu og trúarbrögð og í raun er afar ósanngjarnt að flokka þau saman. Við notum hins vegar ennþá þetta hugtak, þriðja heiminn, einfaldlega vegna þess að ekki er völ á öðru betra.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa lönd þriðja heimsins sameinast í þrýstihópi sem kallar sig Group of Seventy Seven eða G77. Samtökin voru stofnuð árið 1964 af 77 ríkjum en nú eru aðildarríkin 133 talsins. Oft er vísað til þessara samtaka þegar rætt er um hvaða lönd teljast til þriðja heimsins.

Til einföldunar og í tölfræðilegum tilgangi flokka hins vegar flestar stofnanir Sameinuðu þjóðanna lönd heimsins í tvennt; meira þróuð lönd og minna þróuð lönd. Í fyrri hópinn falla Ástralía, Nýja Sjáland, Evrópulönd, Bandaríkin, Kanada og Japan en öll önnur lönd eru flokkuð sem minna þróuð. Að auki er upp á síðkastið æ oftar fjallað um þann hóp landa sem eru minnst þróuð (least developed countries eða LDC) og þurfa á hvað mestri aðstoð að halda. Alls teljast 48 lönd til þessa hóps, flest í Afríku sunnan Sahara en einnig mörg í Asíu og nokkur í Karíba- og Kyrrahafi.

Og þá erum við loks farin að nálgast upphaflegu spurninguna. Samkvæmt fólksfjöldaskýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því í fyrra bjó um mitt síðasta ár 6,1 milljarður manna í heiminum öllum. Í þeim 48 löndum sem teljast minnst þróuð búa rúmlega 10% jarðarbúa eða um 658 milljónir íbúa. Íbúafjöldi í þeim löndum sem skilgreind eru sem minna þróuð og gjarnan eru einu nafni kölluð þriðja heims lönd er hins vegar um 4,865 milljarðar.

Með öðrum orðum búa tæplega fimm milljarðar manna eða um 80% jarðarbúa á rúmlega 70% landssvæðis heimsins, í þeim rúmlega 130 löndum sem teljast til þriðja heimsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

stjórnmálafræðingur og fréttamaður

Útgáfudagur

14.5.2001

Spyrjandi

Finnbogi Pétursson, f. 1988

Tilvísun

Brynhildur Ólafsdóttir. „Hve margir íbúar eru í þriðja heiminum?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2001. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1599.

Brynhildur Ólafsdóttir. (2001, 14. maí). Hve margir íbúar eru í þriðja heiminum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1599

Brynhildur Ólafsdóttir. „Hve margir íbúar eru í þriðja heiminum?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2001. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1599>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hve margir íbúar eru í þriðja heiminum?
Það er hreint ekki eins einfalt og ætla mætti að svara þessari spurningu. Aðalvandamálið felst auðvitað í þeirri spurningu hvað þetta fyrirbæri þriðji heimurinn er og hvaða lönd teljast til hans.

Hugtakið þriðji heimurinn var upphaflega notað árið 1952 af Alfred Sauvy, frönskum hagfræðingi og landfræðingi. Hugtakið varð síðar afsprengi kalda stríðsins þegar löndum heims var skipt í fyrsta heiminn, sem vestræn iðnríki töldust tilheyra, og annan heiminn, sem í voru Sovétríkin og önnur kommúnistaríki. Þeim löndum sem ekki pössuðu í annað hvorn flokkinn var síðan skellt saman í nokkurs konar afgangsflokk: þriðja heiminn.

Í þessum flokki eru jafn ólík lönd og Argentína, Zimbabwe, Sádí-Arabía og Norður Kórea. Þetta eru lönd með gríðarlega mismunandi stjórnarhætti, efnahagskerfi, menningu og trúarbrögð og í raun er afar ósanngjarnt að flokka þau saman. Við notum hins vegar ennþá þetta hugtak, þriðja heiminn, einfaldlega vegna þess að ekki er völ á öðru betra.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa lönd þriðja heimsins sameinast í þrýstihópi sem kallar sig Group of Seventy Seven eða G77. Samtökin voru stofnuð árið 1964 af 77 ríkjum en nú eru aðildarríkin 133 talsins. Oft er vísað til þessara samtaka þegar rætt er um hvaða lönd teljast til þriðja heimsins.

Til einföldunar og í tölfræðilegum tilgangi flokka hins vegar flestar stofnanir Sameinuðu þjóðanna lönd heimsins í tvennt; meira þróuð lönd og minna þróuð lönd. Í fyrri hópinn falla Ástralía, Nýja Sjáland, Evrópulönd, Bandaríkin, Kanada og Japan en öll önnur lönd eru flokkuð sem minna þróuð. Að auki er upp á síðkastið æ oftar fjallað um þann hóp landa sem eru minnst þróuð (least developed countries eða LDC) og þurfa á hvað mestri aðstoð að halda. Alls teljast 48 lönd til þessa hóps, flest í Afríku sunnan Sahara en einnig mörg í Asíu og nokkur í Karíba- og Kyrrahafi.

Og þá erum við loks farin að nálgast upphaflegu spurninguna. Samkvæmt fólksfjöldaskýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því í fyrra bjó um mitt síðasta ár 6,1 milljarður manna í heiminum öllum. Í þeim 48 löndum sem teljast minnst þróuð búa rúmlega 10% jarðarbúa eða um 658 milljónir íbúa. Íbúafjöldi í þeim löndum sem skilgreind eru sem minna þróuð og gjarnan eru einu nafni kölluð þriðja heims lönd er hins vegar um 4,865 milljarðar.

Með öðrum orðum búa tæplega fimm milljarðar manna eða um 80% jarðarbúa á rúmlega 70% landssvæðis heimsins, í þeim rúmlega 130 löndum sem teljast til þriðja heimsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

...