Hér er hægt að hlusta á lög úr bíómyndum sem gerðar hafa verið eftir sögum Astridar Lindgren.
Astrid Lindgren fæddist þann 14. nóvember árið 1907 á bænum Näs nálægt Vimmerby í Smálöndum í Svíþjóð.En þá hét hún ekki Astrid Lindgren heldur Astrid Anna Emilia Ericsson. Það var ekki fyrr en árið 1931, þegar Astrid hafði búið í Stokkhólmi í fimm ár, að hún giftist og tók upp ættarnafnið Lindgren. Hún lést í Stokkhólmi þann 28. janúar 2002, 94 ára að aldri.
Astrid byrjaði ekki að skrifa barnabækur fyrr en hún var orðin rúmlega þrítug. Fyrstu sögurnar voru um Línu langsokk, og raunar urðu þær til öldungis án þess að til stæði að gefa þær út. Þannig vildi til að Karen, sem var seinna barn Astridar, veiktist og bað mömmu sína að segja sér sögur um Línu. Og þá spann Astrid upp hverja söguna af annarri af þessari skemmtilega kenjóttu stelpu. Þetta var árið 1941.
En Lína langsokkur mátti bíða enn nokkra stund eftir frægðinni. Það var ekki fyrr en þrem árum síðar að Astrid veiktist sjálf og mátti liggja í rúminu í heila viku að hún fór að skrifa sögurnar niður. Þær komu svo út ári síðar og hlutu strax afbragðs viðtökur. Og nú komu sögurnar frá Astrid Lingren ein af annarri, leynilögreglumaðurinn Karl Blómkvist varð til árið 1946 og ári síðar fann Astrid börnin í Ólátagarði. Og áður en varði var hún orðin mikilvirkur barnabókahöfundur.
Árið 1958 fékk Astrid Lindgren orðu H.C. Andersens, en það er helsta viðurkenning barnabókahöfunda í heiminum, og þó átti hún þá óskrifaðar margar af sínum vinsælustu sögum, eins og Emil í Kattholti, Bróður minn Ljónshjarta og Ronju ræningjadóttur.
Astrid Lindgren skrifaði samtals 40 barnabækur og fjöldann allan af myndabókum. Um 40 kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa verið gerðir eftir sögum Astrid Lindgren. Fjölmörg leikrit eða leikgerðir hafa verið samin eftir verkum hennar og sett á svið.
Af bókum hennar sem komið hafa út á íslensku má nefna:
Lína Langsokkur
Leynilögreglumaðurinn Karl Blómkvist
Börnin í Ólátagarði
Kata í Ameríku
Börnin í Skarkalagötu
Elsku Míó minn
Litli bróðir og Kalli á þakinu
Rasmus fer á flakk
Þýtur í laufi
Madditt
Emil í Kattholti
Á Saltkráku
Bróðir minn Ljónshjarta
Ronja ræningjadóttir
Heimasíða um ævi og störf Astridar Lindgren.
Mynd: Vefsetur aðdáanda um Astrid Lindgren