Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvers vegna átti lýðræðið erfitt uppdráttar á 19. öld? Hvers vegna vildu menn takmarka kosningarétt og kjörgengi við eigna- og menntamenn?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Fyrst er rétt að gæta þess að takmarkanir á kosningarétti og kjörgengi á nítjándu öld voru ámóta miklar á Íslandi og í öðrum löndum Vestur- og Mið-Evrópu. Indriði Einarsson skrifaði fróðlega grein um kosningar til Alþingis í Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags árið 1884 og bar þar meðal annars saman hlutfall íbúa og kosningaréttarhafa í tíu Evrópulöndum. Íslendingar voru þar í sjötta sæti með kosningarétt sem náði til rúmlega 9% af íbúum landsins. Almennastur reyndist kosningarétturinn vera í Frakklandi, rúm 26%, en Svisslendingar og Þjóðverjar fylgdu fast á eftir. Danir höfðu 15% kosningarétt, Englendingar (segir í greininni en á sjálfsagt við Breta) 11,5%. Af þeim sem höfðu þrengri kosningarétt en Íslendingar taldi Indriði Austurríkismenn (tæp 6%), Portúgala (5,4%), Ítali (2,2%) og Belga (1,8%).

Hér er því um að ræða sameiginlegt einkenni í öllum ríkjum sem þróuðu fulltrúalýðræði á 19. öld og engin ástæða til að leita sérstakra skýringa á því meðal Íslendinga. Engu að síður má skoða hvernig takmarkanir á kosningarétti voru hjá okkur.

Þegar Indriði skrifaði grein sína voru í meginatriðum í gildi kosningaréttarreglur sem höfðu verið leiddar í lög 1857. Aðeins í tvennum fyrstu þingkosningunum, 1844 og 1852, hafði kosningaréttur verið miklu þrengri og varla náð til nema 3% íbúa. Til þjóðfundarins 1851 hafði aftur á móti verið kosið eftir svipuðum reglum og voru teknar upp í Alþingiskosningum 1857. Þær giltu svo í aðalatriðum fram yfir aldamótin 1900.

Samkvæmt þessum lögum var aldurstakmark við 25 ára aldur, og var rúmlega helmingur íbúa útilokaður frá þátttöku í kosningum vegna æsku. Engar konur höfðu kosningarétt til Alþingis, og útilokaði það rúmlega helming þeirra sem eftir voru. Þá eigum við eftir rúmlega 20% íbúanna sem voru karlmenn yfir 25 ára gamlir. Meðan kosningaréttur náði aðeins til 9% þjóðarinnar hefur rúmlega helmingur þessara uppkomnu karlmanna verið útilokaður frá kosningarétti. Það voru einkum tveir hópar manna. Annars vegar voru það vinnumenn, því enginn hafði kosningarétt sem var vistráðið hjú eða lausamaður. Hins vegar voru bændur og þurrabúðarmenn sem voru svo snauðir að þeir greiddu ekki venjulega skatta eða töldust standa í skuld fyrir sveitarstyrk sem þeir höfðu þegið eftir að þeir komust af barnsaldri. Þannig var kosningaréttur nokkurn veginn einskorðaður við bjargálna bændur og borgara í þéttbýli.

Eitthvað hliðstætt hefur átt við í öðrum löndum, þó með ýmsum tilbrigðum. Sums staðar, til dæmis á Ítalíu, urðu menn að sanna að þeir kynnu að lesa og skrifa. Í Belgíu þurftu menn sjálfir að sýna fram á að þeir hefðu náð ákveðnum lágmarksskatti og greitt hann, til þess að vera teknir á kjörskrá.

Til að skilja hvers vegna löggjafar Evrópuríkja voru svo sparir á kosningarétt fram eftir allri 19. öld þarf að gæta að því að verið var að prófa í grundvallaratriðum nýtt stjórnkerfi. Á einveldistímanum, sem hafði farið á undan, hafði mestallt, sums staðar allt, ríkisvald komið að ofan, frá konungum eða öðrum furstum til embættismanna þeirra. Konungar sóttu réttlætingu sína fyrir völdum annars vegar til hefðar, þeir voru arftakar og oft synir fyrri konungs, hins vegar til Guðs. Fulltrúalýðræði, þar sem handhafar ríkisvalds sóttu valdatilkall sitt til almennings, var nýjung. Mörgum þótti hún djörf, jafnvel glannaleg, og því var eðlilega reynt að einskorða kosningaréttinn við þá sem voru taldir ábyrgir og greindir. Indriði Einarsson skrifaði í grein sinni:
Hjá Íslendingum í fornöld vóru það jafnan vitrustu og beztu menn, sem áttu að skera úr öllum málum, og það er enn meiningin með þeim takmörkunum, sem stjórnarskráin og kosningarlögin setja, að einungis þeir eigi að velja þingmenn, sem bæði hafa vilja og vit til þess að velja vitrustu og beztu menn til þings.
Kosningaréttur var einfaldlega ekki talinn til almennra mannréttinda, eins og nú er hjá okkur; á hann var litið sem tæki til að velja góða löggjafa. Menn voru að prófa sig áfram með fulltrúalýðræði og fóru, eðlilega, varlega í sakirnar.

Svo gat verið visst jafnaðarsjónarmið á bak við takmarkanir á kosningarétti. Sá hópur karla sem fékk kosningarétt næstseinast (á undan þeim sem skulduðu sveitarstyrk) voru vistráðnir vinnumenn. Í stjórnarskránni sem var lögleidd 1903 var það orðað svo að karlmenn, sem ekki eru öðrum háðir sem hjú hefðu kosningarétt. Hugsunin er greinilega sú að hjú séu of háð vilja húsbænda sinna til þess að þeim sé trúandi fyrir kosningarétti; það gæfi margfaldan kosningarétt auðugum stórbændum sem hefðu marga vinnumenn. Í fyrstu kosningalögum til Alþingis Íslendinga, 1843, var leiguliðum með lífstíðarábúð á að minnsta kosti 20 hundraða jörð í eigu konungs eða kirkju veittur kosningaréttur, ekki öðrum leiguliðum. Þar hafa menn væntanlega verið að koma í veg fyrir að stórjarðeigendur gætu riðið á kjörfund með leiguliða sína og ráðið atkvæðum þeirra.

Loks er það líklega í eðli manna að láta ógjarnan af þeim völdum sem þeir hafa. Víkkun kosningaréttar var óhjákvæmilega á valdi þeirra sem höfðu hann fyrir, og er þá ekki eðlilegt að menn væru tregir að deila rétti sínum með öðrum samfélagshópum? Kannski er í rauninni meira undrunarefni að kosningaréttur skyldi þróast til þess að verða almennur.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

8.2.2002

Spyrjandi

Eiríkur Guðmundsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna átti lýðræðið erfitt uppdráttar á 19. öld? Hvers vegna vildu menn takmarka kosningarétt og kjörgengi við eigna- og menntamenn?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2002. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2104.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2002, 8. febrúar). Hvers vegna átti lýðræðið erfitt uppdráttar á 19. öld? Hvers vegna vildu menn takmarka kosningarétt og kjörgengi við eigna- og menntamenn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2104

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna átti lýðræðið erfitt uppdráttar á 19. öld? Hvers vegna vildu menn takmarka kosningarétt og kjörgengi við eigna- og menntamenn?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2002. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2104>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna átti lýðræðið erfitt uppdráttar á 19. öld? Hvers vegna vildu menn takmarka kosningarétt og kjörgengi við eigna- og menntamenn?
Fyrst er rétt að gæta þess að takmarkanir á kosningarétti og kjörgengi á nítjándu öld voru ámóta miklar á Íslandi og í öðrum löndum Vestur- og Mið-Evrópu. Indriði Einarsson skrifaði fróðlega grein um kosningar til Alþingis í Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags árið 1884 og bar þar meðal annars saman hlutfall íbúa og kosningaréttarhafa í tíu Evrópulöndum. Íslendingar voru þar í sjötta sæti með kosningarétt sem náði til rúmlega 9% af íbúum landsins. Almennastur reyndist kosningarétturinn vera í Frakklandi, rúm 26%, en Svisslendingar og Þjóðverjar fylgdu fast á eftir. Danir höfðu 15% kosningarétt, Englendingar (segir í greininni en á sjálfsagt við Breta) 11,5%. Af þeim sem höfðu þrengri kosningarétt en Íslendingar taldi Indriði Austurríkismenn (tæp 6%), Portúgala (5,4%), Ítali (2,2%) og Belga (1,8%).

Hér er því um að ræða sameiginlegt einkenni í öllum ríkjum sem þróuðu fulltrúalýðræði á 19. öld og engin ástæða til að leita sérstakra skýringa á því meðal Íslendinga. Engu að síður má skoða hvernig takmarkanir á kosningarétti voru hjá okkur.

Þegar Indriði skrifaði grein sína voru í meginatriðum í gildi kosningaréttarreglur sem höfðu verið leiddar í lög 1857. Aðeins í tvennum fyrstu þingkosningunum, 1844 og 1852, hafði kosningaréttur verið miklu þrengri og varla náð til nema 3% íbúa. Til þjóðfundarins 1851 hafði aftur á móti verið kosið eftir svipuðum reglum og voru teknar upp í Alþingiskosningum 1857. Þær giltu svo í aðalatriðum fram yfir aldamótin 1900.

Samkvæmt þessum lögum var aldurstakmark við 25 ára aldur, og var rúmlega helmingur íbúa útilokaður frá þátttöku í kosningum vegna æsku. Engar konur höfðu kosningarétt til Alþingis, og útilokaði það rúmlega helming þeirra sem eftir voru. Þá eigum við eftir rúmlega 20% íbúanna sem voru karlmenn yfir 25 ára gamlir. Meðan kosningaréttur náði aðeins til 9% þjóðarinnar hefur rúmlega helmingur þessara uppkomnu karlmanna verið útilokaður frá kosningarétti. Það voru einkum tveir hópar manna. Annars vegar voru það vinnumenn, því enginn hafði kosningarétt sem var vistráðið hjú eða lausamaður. Hins vegar voru bændur og þurrabúðarmenn sem voru svo snauðir að þeir greiddu ekki venjulega skatta eða töldust standa í skuld fyrir sveitarstyrk sem þeir höfðu þegið eftir að þeir komust af barnsaldri. Þannig var kosningaréttur nokkurn veginn einskorðaður við bjargálna bændur og borgara í þéttbýli.

Eitthvað hliðstætt hefur átt við í öðrum löndum, þó með ýmsum tilbrigðum. Sums staðar, til dæmis á Ítalíu, urðu menn að sanna að þeir kynnu að lesa og skrifa. Í Belgíu þurftu menn sjálfir að sýna fram á að þeir hefðu náð ákveðnum lágmarksskatti og greitt hann, til þess að vera teknir á kjörskrá.

Til að skilja hvers vegna löggjafar Evrópuríkja voru svo sparir á kosningarétt fram eftir allri 19. öld þarf að gæta að því að verið var að prófa í grundvallaratriðum nýtt stjórnkerfi. Á einveldistímanum, sem hafði farið á undan, hafði mestallt, sums staðar allt, ríkisvald komið að ofan, frá konungum eða öðrum furstum til embættismanna þeirra. Konungar sóttu réttlætingu sína fyrir völdum annars vegar til hefðar, þeir voru arftakar og oft synir fyrri konungs, hins vegar til Guðs. Fulltrúalýðræði, þar sem handhafar ríkisvalds sóttu valdatilkall sitt til almennings, var nýjung. Mörgum þótti hún djörf, jafnvel glannaleg, og því var eðlilega reynt að einskorða kosningaréttinn við þá sem voru taldir ábyrgir og greindir. Indriði Einarsson skrifaði í grein sinni:
Hjá Íslendingum í fornöld vóru það jafnan vitrustu og beztu menn, sem áttu að skera úr öllum málum, og það er enn meiningin með þeim takmörkunum, sem stjórnarskráin og kosningarlögin setja, að einungis þeir eigi að velja þingmenn, sem bæði hafa vilja og vit til þess að velja vitrustu og beztu menn til þings.
Kosningaréttur var einfaldlega ekki talinn til almennra mannréttinda, eins og nú er hjá okkur; á hann var litið sem tæki til að velja góða löggjafa. Menn voru að prófa sig áfram með fulltrúalýðræði og fóru, eðlilega, varlega í sakirnar.

Svo gat verið visst jafnaðarsjónarmið á bak við takmarkanir á kosningarétti. Sá hópur karla sem fékk kosningarétt næstseinast (á undan þeim sem skulduðu sveitarstyrk) voru vistráðnir vinnumenn. Í stjórnarskránni sem var lögleidd 1903 var það orðað svo að karlmenn, sem ekki eru öðrum háðir sem hjú hefðu kosningarétt. Hugsunin er greinilega sú að hjú séu of háð vilja húsbænda sinna til þess að þeim sé trúandi fyrir kosningarétti; það gæfi margfaldan kosningarétt auðugum stórbændum sem hefðu marga vinnumenn. Í fyrstu kosningalögum til Alþingis Íslendinga, 1843, var leiguliðum með lífstíðarábúð á að minnsta kosti 20 hundraða jörð í eigu konungs eða kirkju veittur kosningaréttur, ekki öðrum leiguliðum. Þar hafa menn væntanlega verið að koma í veg fyrir að stórjarðeigendur gætu riðið á kjörfund með leiguliða sína og ráðið atkvæðum þeirra.

Loks er það líklega í eðli manna að láta ógjarnan af þeim völdum sem þeir hafa. Víkkun kosningaréttar var óhjákvæmilega á valdi þeirra sem höfðu hann fyrir, og er þá ekki eðlilegt að menn væru tregir að deila rétti sínum með öðrum samfélagshópum? Kannski er í rauninni meira undrunarefni að kosningaréttur skyldi þróast til þess að verða almennur.

Frekara lesefni á Vísindavefnum: