Nokkrir þættir koma við sögu þegar timburmenn koma í heimsókn. Má þar fyrst nefna að flestir áfengir drykkir innihalda aukaafurðir gerjunar sem mætti kalla aukaefni. Þessi aukaefni eru ein orsök timburmanna. Almennt gildir að eftir því sem drykkur er dekkri því meira er af aukaefnum í honum.
En þótt drukkinn sé alveg hreinn spíri losnar maður ekki við timburmenn. Ástæðan er sú að lifrin byrjar að brjóta niður alkóhólið með því að breyta því í asetaldehýð sem er eiturefni og veldur timburmönnum.
Ofþornun sem stafar af þvagræsandi áhrifum alkóhóls er önnur orsök timburmanna. Að lokum má nefna bein ertandi áhrif alkóhóls á magaslímu og taugakerfi sem leiða til ógleði, pirrings og handskjálfta.
Besta ráðið til að koma í veg fyrir timburmenn er að drekka í hófi. Að drekka mikið vatn áður en lagst er til hvílu hjálpar til við að hindra ofþornun. Magnýltöflur koma ef til vill í veg fyrir höfuðverk morguninn eftir en gætu aukið á ertingu í maga.
Versta ráðið er að fá sér annan drykk. Það er fyrsta skrefið í átt að áfengissýki.
Mynd: HB